Einar Helgason fæddist á Leifsstöðum í Selárdal í Vopnafirði hinn 9. ágúst 1925. Hann lést 14. janúar á Landspítalanum í Fossvogi. Foreldrar hans voru Helgi Einarsson, bóndi á Leifsstöðum og Breiðumýri í Vopnafirði, síðar símaeftirlitsmaður, f. 7. september 1894, d. 31. júlí 1970, og Vigdís Grímsdóttir, f. 26. mars 1903, d. 24. ágúst 1995. Einar var elstur þriggja systkina en næstur kom Grímur (1927-1990) og yngst Unnur (1930-1992). Einar var sjö ára þegar fjölskyldan fluttist til Seyðisfjarðar þar sem hann gekk í barnaskóla og stundaði síðan nám við Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hann útskrifaðist 17. júní 1946. Hann nam lögfræði við Háskóla Íslands 1946-1949 en lauk ekki embættisprófi. Einar kvæntist 7. júlí 1951, eftirlifandi eiginkonu sinni Huldu Marinósdóttur, snyrtifr. og húsmóður, f. 19. desember 1924. Foreldrar hennar voru Marinó Sigtryggsson, trésm. á Steðja á Þelamörk, Eyjafirði, og síðar á Akureyri, f. 13. júní 1896, d. 23. ágúst 1933, og Aðalbjörg Snorradóttir, f. 1. desember 1896, d. 2. september 1995. Börn Einars og Huldu eru 1) Marinó, f. 25. nóvember 1950, viðskiptafr., giftur Margréti S. Hansdóttur snyrtifr., f. 20. september 1954, og eiga þau tvo syni, Einar Helga, f. 1980, afgreiðslustj. hjá Kynnisferðum og Birki, f. 1988, tölvunarfr.nema við HR, en unnusta hans er Alenka Zak, f. 1988, hjúkrunarfr. Fóstursonur Marinós og sonur Margrétar er Hans Steinar Bjarnason, f. 1973, íþróttafréttam., maki Sigríður Þórðardóttir, f. 1965. 2) Vigdís, f. 24. september 1953, d. 7. október 2006, líffr., eiginmaður Árni Vilhjálmsson lögm., f. 4. nóvember 1952. Dætur þeirra, a) Hulda, f. 1974, lögm., gift Atla Birni Þorbjörnssyni, lögm., f. 1976, og eiga þau þrjú börn, Þórdísi Huld, Vigdísi Helgu og Árna, og b) Sólveig, f. 1981, guðfr., gift Tryggva Hákonarsyni, tölvunarfr., f. 1977, og er sonur þeirra Einar Árni. Árni er nú kvæntur Helgu Guðmundsdóttur viðskiptafr., f. 3. febrúar 1957. Öll sumur frá þrettán ári aldri og þar til hann hætti námi vann Einar við símaeftirlit á Austurlandi. Þá var hann eina vertíð til sjós á fiskiskipum. 1951 hóf hann störf hjá Flugfélagi Íslands hf., fyrst sem afgreiðslumaður og síðan afgreiðslustjóri á Reykjavíkurflugvelli. Árið 1957 fluttist fjölskyldan til Glasgow þar sem Einar veitti skrifstofu Flugfélags Íslands forstöðu. Þau fluttu aftur til Íslands 1964 þar sem Einar var deildarstjóri flutningadeildar 1964-1973. Við stofnun Flugleiða hf. 1973 varð Einar framkvæmdastjóri innanlandsflugs til 1979, forstöðumaður flutningadeildar 1979-88 og forstöðumaður hlutdeildarfélaga Flugleiða hf. 1988-1992 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Jafnframt gegndi Einar margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Flugfélag Íslands hf. og síðar Flugleiðir hf. Hann var m.a. stjórnarformaður Flugfélags Norðurlands hf. frá 1975, Ferðaskrifstofu Akureyrar hf. frá stofnun 1979 og Kynnisferða ferðaskrifstofanna frá 1981. Eftir að Einar lét af störfum hjá Flugleiðum hf. keyptu þau hjónin Bókabúð Lárusar Blöndal og ráku hana til 1999. Útför Einars fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 24. janúar 2014, kl. 15.

Ég elska þig líka Solla mín var það seinasta sem afi sagði við mig þegar ég gekk út af sjúkrastofunni í seinasta skiptið sem ég hitti hann með meðvitund. Þetta þykir mér afar dýrmætur endir á yndislegu sambandi. Ég gæti eflaust skrifað heila bók um allar góðu minningarnar tengdar afa Einari en læt það nægja hér að minnast þeirra kærustu. Ég var afar heimakært barn og vildi alls ekki gista neins staðar, nema á Grenimelnum hjá ömmu og afa. Það var sem mitt annað heimili og spilar yndisleg nærvera afa míns þar stóran þátt. Ég minnist með miklum hlýhug kvöldstundum uppi í sjónka með afa fyrir svefninn, þar sat hann ævinlega í stólnum sínum í horninu og oft var hann með rautt ískalt epli og hníf í hönd og skar eplið í lófanum í litla báta eða örþunnar sneiðar og gaf mér með sér. Þetta fannst mér himneskt. Svo fór ég upp í. Ég svaf ævinlega á bedda við rúmgafl þeirra hjóna og ef afi hraut, sem var nú oftar en ekki, snéri ég mér á hliðina og togaði í tærnar á honum til að fá hann til að hætta. Þó að ég vekti hann með þessum hætti þá varð hann aldrei reiður, hann var ekki þannig. Afi gránaði mjög seint og eigum við Einar Helgi frændi minn eflaust okkar þátt í nokkrum þeirra hára. Eins og von er þá áttum við það til að kíta eins og vill verða með frændsystkini af sitthvoru kyni á sama aldri og þurfti afi oft að ganga í milli. Þetta var þó alltaf góðlátlegt og hann þurfti oftast ekki nema að hasta örlítið á okkur til þess að við hættum, svo mikla virðingu báru við fyrir þessum góða manni sem við vorum svo heppin að fá að kalla afa. Hann var alltaf duglegur að leika við okkur hvort heldur það var úti í garði á Grenó, úti á róló eða uppi í bústað fyrir austan, sem að ég held að hafi verið hans uppáhalds staður á jörðinni. Hann sagði við mig núna í haust eftir síðustu ferð hans austur í bústað í sumar að nú héldi hann að hann færi aldrei þangað aftur. En ef ég vil finna hann einhverstaðar þá er ég viss um að hann er þar. Afa fannst svo gott að sitja í sólinni á pallinum og sat hann oft þar svo lengi og varð svo brúnn að það hefði mátt líkja honum við hottintotta. En þarna þótti honum best að vera með konunni sinni til núna sextíu og sex ára og þeim börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum sem komust þar fyrir.

Í seinni tíð þá þróaðist samband okkar afa. Fyrir nokkrum árum þá misstum við bæði mjög mikilvæga manneskju úr okkar lífi. Hann sína einkadóttur og ég móður mína. Við þetta tóku samskipti okkar breytingum. Við urðum ákaflega góðir vinir á miklu jafnara grundvelli en kannski tíðkast með fólk sem hátt í sextíu ár skilja að í aldri. Það var alltaf hægt að tala við hann og hann var alltaf tilbúinn til þess að hlusta og hjálpa manni. Þegar að ég hóf svo nám í guðfræði við Háskóla Íslands þá vildi hann oft ræða við mig um það sem ég var að nema og ég var afar stolt þegar að ég sagði við hann, þá ekki löngu byrjuð í náminu að nú gæti hann komið og séð mig útskrifast úr Háskóla. En hann var þá orðinn þetta fullorðinn sagði við mig: Solla mín, ætli ég verði nú ekki þar bara í anda. Ég veit ekki hvort hann hélt að honum myndi ekki endast aldur til eða hvort hann hafði ekki trú á að ég myndi klára þetta. Hann var nú svo stríðinn. En allt hafðist þetta og hann sat í Laugardalshöllinni og horfði afar stoltur á mig útskrifast. En það var mér alltaf mikið kappsmál að gera afa minn stoltan af mér. Svo var það þetta með stríðnina, sem einkenndi okkar samband mikið. Hann stríddi mér miskunnarlaust og ég honum til baka svo hann fór að hristast úr hlátri þar sem hann sat. Hann kallaði mig alltaf kiðlinginn sinn og ég hann gömlu geitina mína, af svona stundum einkenndist vinskapur okkar. Sú stund er mér þó líklegast minnisstæðust úr seinni tíð þegar hann kom upp á fæðingadeild að hitta frumburðinn minn og ég sagði honum að hann ætti að heita Einar Árni, í höfuðið á honum. Þá komu tár fram í augun á gamla manninum og hann sprakk nærri því úr stolti og ég er varla ánægðari með neitt í dag en að hafa getað gefið honum þetta. Þeir nafnar urðu strax miklir vinir líka. Ég var búin að segja ömmu og Huldu systur hvað ófæddi drengurinn minn ætti að heita en það var samt ekki endanlega ákveðið fyrr en hann fæddist og sprændi beint framan í lækninn, þá vissi ég strax að þetta væri Einar, litli stríðnispúkinn minn. En afi hafði verið svolítið sár út í mig fyrir að vera búin að segja ömmu nafnið sem ég ætlaði að gefa barninu en ekki honum. En þetta átti að koma á óvart og ég held að það hafi gert það og hann varð svo hissa og glaður að ég var glöð að hafa haldið því leyndu. Annað sem ég mun ævinlega tengja við afa var garðurinn hans, eins og honum fannst alltaf gott að sitja á pallinum fyrir austan þá þreyttist hann heldur seint á því að vera úti í garði á Grenimelnum og var sá garður án alls efa sá allra fallegasti á landinu á sumrin, blómum skreyttur, litríkur og ákaflega vel við haldin.

Þegar að ég predikaði einu sinni í Árbæjarkirkju út frá texta í fjórða kafla Mattheusarguðspjalls um sáðmanninn þá notaði ég þar afa minn og garðinn hans sem fyrirmynd en afi var svo afar natinn við garðinn sinn að þar unnu hann og Guð dásamlegt verk saman og úr varð fallegasti garður borgarinnar og þó víðar væri leitað. Mér finnst ég einstaklega heppin að hafa fengið að kynnast þessum dásamlega manni og hafa fengið að sjá og fylgjast með því farsælasta hjónabandi sem ég nokkurn tíman vitað um. En þau amma og afi voru þau samrýmdustu hjón sem ég hef á ævi minni vitað af. Þeim hreinlega sinnaðist aldrei, nema ef pólitík skyldi bera á góma en það getur nú ekki talist stórvægilegt. Þrátt fyrir allt þetta þá held ég að það sem allar mínar minningar af afa eiga sameiginlegt, hvort heldur ég hef minnst á þær hér eður ei, þá er það hvað hann afi Einar var yndislega góður maður. Ég held ég muni helst minnast hans fyrir það. Því kveð ég þig núna elsku afi minn með sömu orðunum og ég kvaddi þig með þegar að við töluðum síðast saman: Ég elska þig afi.

Þín afastelpa.

Sólveig.