Bára Elíasdóttir fæddist á Dalvík 1. mars 1921. Hún lést hinn 14. janúar 2014 á Dvalarheimilinu Dalbæ, Dalvík. Foreldrar hennar voru Elías Halldórsson og Friðrika Jónsdóttir. Systkini Báru eru: Bjarki, f. 15.5. 1923, d. 21.1. 2013, Björn, f. 6.10. 1925, d. 14.6. 2010, Þórunn, f. 11.1. 1931, d. 14.10. 2007, Stefán, f. 12.8. 1934, lést af slysförum 11.6. 1951. Bára giftist Árna Arngrímssyni, f. 29.2. 1920, d. 17.6. 1996. Börn Báru og Árna eru: 1) Jórunn Árnadóttir Karlsson, f. 28.1. 1944, d. 13.1. 1990, maki Sture Karlsson. Synir þeirra: a) Jan Arne, b) Björn Gunnar. Sonur hans er Jónatan. 2) Vignir Árnason, f. 8.1. 1947, maki Petra Helling Árnason. Börn þeirra: a) Jónína, b) Gunnar, sambýliskona Nele von Pein. 3) Þorsteinn Máni Árnason, f. 17.9. 1949, sambýliskona María Sigurjónsdóttir. Dætur hans: a) Dagmar, sambýlismaður Magnús Magnússon. Dóttir þeirra: María Rakel. b) Arna, c) Linda Rún, sambýlismaður Bubacar Cae Balde. 4) Elías Björn Árnason, f. 29.4. 1955, maki Svandís Hannesdóttir. Börn þeirra: a) Ágústa Ingibjörg, b) Torfi. 5) Friðrika Þórunn Árnadóttir, f. 5.10. 1959, maki Sigurður Bjarnason. Börn þeirra: a) Árni Bjarni, maki Tina Sofia Tariq. Synir þeirra: Felix Jaki og Nóam Frosti. b) Bára, sambýlismaður Vanya Bonynge, c) Máni, sambýliskona Maria Have. d) Logi, sambýliskona Malin Johansson. Bára bjó á Davlík allt sitt líf, þar stundaði hún ýmis störf, m.a. fiskvinnslu, síldarsöltun og verslunarstörf. Bára vann um árabil við verslunarstörf hjá KEA á Dalvík. Einnig stundaði hún nám við Húsmæðraskóla. Bára og Árni bjuggu lengst af í húsi sínu á Goðabraut 3 eða þar til hún flutti á Dalbæ, heimili aldraða. Þau stofnuðu verslunina Höfn sem var á fyrstu hæðinni í Goðabrautinni. Einnig ráku þau malarnám. Þegar búðin var seld fór Bára að vinna í fiskvinnslu og svo aftur í Kaupfélaginu. Seinustu árin voru þau hjónin í trilluútgerð. Bára verður jarðsungin frá Dalvíkurkirkju í dag, 25. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.30.
Segja má með sanni að líf okkar allra sé ein óvissuferð. Ferðalagið frá Jaðri í gegnum Víkurhólana tvo, Bjarkabraut 3, Goðabraut 3 og til hinsta dags á Dalbæ, verður vart skráð í afmarkaðri minningargrein.
Í hugskotssjónum okkar ber fyrir konan sem meitluð var atorku, elju og útsjónasemi með leiftrandi augnaglampa sem ekkert gat stöðvað.
Heimskreppan, Dalvíkurskjálftinn og styrjaldir voru smámunir miðað við mótlæti sjúkdóma sem við var að etja innan ættarinnar, á tveim ólíkum tímabilum og tóku sinn toll. Lærdómurinn til okkar var sá, að vart þyrfti að kenna í brjóst um nokkurn aukatekinn meðalgreindan mann, er héldi heilsunni, því einungis væri spurning um tíma, hvernig hægt væri að vinna úr lífsins gæðum. Óskiptir draumar æskuáranna um að kynnast framandi tungumálum, löndum og álfum gátu ekki ræst sem skyldi, því notfærði hún sér heimaverkefni okkar krakkanna sér til framdráttar sem varð henni gott nesti í samskiptum við framandi gesti. Ef orða var fátt var gott að eiga meðfædda glettni, látbragð, kátínu eða bendingar.Til þrautavara gat afi þá að minnsta kosti gert honor eins og hann einn kunni. Bára og Árni voru ávallt nefnd í sömu andránni, slík var samstaðan og samheldnin á meðan beggja naut við. Það var djörf ákvörðun að hefjast handa við byggingu fjölnota íbúðar og verslunar húss á Goðabrautinni. Hálsrauður A 774 var keyptur til framkvæmdanna sem varð upphafið að útgerð malarnáms, vinnuvéla og vörubíla. Þar sem rými á jarðhæð var óráðstafað var sú gagnmerka ákvörðun tekin að hefja verslunarrekstur. Búðin var aldrei kölluð annað en Bárubúð. Skelfilegur hrollur fór um Kaupfélagsmenn í héraði og reyndist óttinn þvílíkur að bann var sett á afgreiðslu mjólkur frá Mjólkursamlagi KEA. Margar nýjar vörutegundir litu dagsins ljós á Víkinni og virtist vöruúrvalið vera ívið meira en á mölinni hjá Jóa Ferd. forðum. Sölumennskan var ömmu í blóð borin og sér til aðstoðar hafði hún margar vaskar konur sem allar unnu með næmni að settu marki. Eitt sinn á Þorláksmessu er snjór hamlaði samgöngum og vöruþurrð orðin alger, hugkvæmdist einni dömunni að ruslafatan væri nú ekki afleit og gæti örugglega glatt eitthvert göfugt hjarta á Friðþægingarhátíðinni. Var hún þrifin í hvelli, pakkað í jólapappír og afhent gegn vægu endurgjaldi. Sumir bændur í héraði áttu erfitt með að láta sjá sig í Bárubúð sökum reikningsviðskipta við KEA, og því varð að beita ýmsum brögðum til að þeir gætu nálgast eitthvað sætt handa sinni heittelskuðu s.s. fallega blússu, dokku af Dale-garni eða Kanters undirföt sem Dóda systir valdi af svo mikilli smekkvísi fyrir sunnan. Mestu unaðsstundir ömmu og afa voru er þau eignuðust báta sem voru nokkrir, og af margvíslegum stærðum og gerðum. Í umræðunni við Hauk í Sæbóli voru margir dágóðir stubbarnir veiddir á Brekkunni, Hólunum, Brýkinni og Jojahól. Búsældarlegt og gnótt matar var jafnan á heimilinu og var forðinn slíkur af brauðmeti, fiski og feitu keti af enst hefði í mörg misseri. Skiftistuðull á matföngum var tíðkaður, þar sem fiskur var góð og gild býtti fyrir landbúnaðarafurðir úr sveitinni. Ömmu óx ásmegin er hin undurmerkilega bökunarvél með tímastilli kom á heimilið. Þetta var ígildi lengingar á sólarhringnum, sem oft veitti ekki af. Meðan dottað var í stólnum gat brauðvélin framleitt afurð sem ef til vill gat orðið ígildi leiguverðs á tveimur spólum af barnaefni hjá Sigga á Sigurhæðum. Stórt hjarta manngæsku og umburðarlyndis einkenndi ömmu. Jafna þegar hún kvaddi okkur að aflokinni ánægjulegri dvöl á Dalvík var hún aldrei að tönglast á að við skyldum passa okkur á þessu og hinu, heldur kvaddi hún með orðunum, Skemmtið ykkur vel , þannig var ábyrgðin alfarið komin á undirrituð.
Elsku langamma, amma, mamma og tengdó; nú er þú ríst upp úr myrkri andlátsins, skaltu varða veginn að bjartasta englinum sem hefur beðið þín lengi, haltu fast í hönd hans á vit nýrra ævintýra.
Við leggjum kveðjuorð þín, ykkur afa til munns.
Dagmar, Magnús og María; Linda Rún og Arna; Þorsteinn Máni og María.