Haraldur Eldon Logason fæddist 1. júní 1938 í Reykjavík. Hann lést 18. janúar 2014 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Foreldrar hans voru Jónína Helga Jónsdóttir, f. 29.12. 1910 á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, d. 31.1. 1992, og Logi Eldon Sveinsson múrarameistari, f. 28.9. 1907 í Reykjavík, d. 10.5. 1986. Systkini Haraldar eru: Sigurbjörn Eldon Logason múrarameistari, f. 8. apríl 1934, Jón Eldon Logason múrarameistari, f. 17.12. 1941, og Ingibjörg Eldon Logadóttir, f. 17.2. 1950, tækniteiknari. Haraldur kvæntist 29.12. 1960 Kristjönu Ragnarsdóttur, f. 16.7.1937, hjúkrunarfræðingi. Hennar foreldrar voru Erlendur Ragnar Teitsson, f. 17.3. 1909, d. 27.6.1944, og Kristjana Magnúsdóttir, f. 25.11. 1909, d. 20.7. 1937, stjúpmóðir Kristjönu var Elín Ingvarsdóttir, f. 17.9. 1920, d. 17.7.2011. Sonur Haraldar er Björn Helgi, f. 26.11. 1957, móðir hans var Peta Ásta Þorbjörnsdóttir, f. 7.1. 1938, dáin. Börn Haraldar og Kristjönu eru: Ragnar Kristján, f. 8.5. 1960, d. 3.3. 1961. Elín Jóna, f. 8.11. 1961, starfar við verslun. Ragnar Eldon, f. 5.6. 1963, vélvirki og rafvirki, sambýliskona Hólmfríður Jónsdóttir, f. 17.6. 1968. Jóhann rafeindavirki, f. 11.10. 1965, d. 29.10. 2006. Börn Ragnars eru: 1) Hörður Þór, f. 28.1. 1983, móðir hans er Elsa Arnfríðsdóttir, f. 27.11. 1966. 2)Óðinn Eldon, f. 6.1. 1999, móðir hans er Móeiður Helgadóttir, f. 3.3. 1976. Haraldur ólst upp í Reykjavík. Hann var í sveit nokkur sumur sem barn á Teygingalæk í Fljótshverfi hjá Óla og Böggu. Var vinnumaður á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp. Starfaði við skógrækt ríkisins í Fossvogi. Haraldur hafði mikinn áhuga á flugi og lærði að fljúga. Síðan starfaði hann við múrverk hjá föður sínum og tók sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1971, við múrverkið vann hann aðallega við flísalagnir og arinhleðslur þangað til hann komst á eftirlaun. Þegar hann komst á eftirlaun snéri hann sér að sínu aðaláhugamáli sem var jarðfræðin og kenningunni sem hann hélt fram og vildi fá álit á frá jarðfræðingum. Haraldur verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 28. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 15.
Fallinn er frá elskulegur frændi minn Haraldur Eldon Logason, eða Halli eins og hann var jafnan kallaður. Ég frétti ekki lát hans fyrr en eftir að hann hafði verið jarðsettur nú í mánuðnum. Mig langar að skrifa um hann örlitla minningargrein þó hún sé síðbúin, langt síðan leiðir skildu og ég lítt ritfær á móðurmálð enda brottfluttur frá landinu sem táningur fyrir mörgum áratugum.
Ég sá Harald seinast í fjölskylduboði fyrir meir en hálfu öðru ári á heimili bróður míns í Reykjavík. Ástæða þess fagnaðar var heimsókn frænda okkar, Eriks Merlung, og hans fjölskyldu til Íslands. Erik var á sínum tíma æðsti ríkislögmaður og dómari Dana og vann sér það meðal annars til frama, að koma Mogens Glistrup (alræmdur stjórnmálamaður og skattsvikari) undir lás og slá á sjötta áratugnum. En Erik er af íslensku bergi brotinn, móðir hans, Lovísa Sveinsdóttir, var alsystir Loga föður Halla. Þar hittust þau systkinasynirnir í fyrsta og að því ég best veit eina sinn. Þá þegar í ágúst 2012 var Halli markaður af því meini sem að lokum dró hann til dauða, en hann harkaði af sér, mætti með allri fjölskyldu sinni og var hrókur alls fagnaðar þó flugið væri tekið að lækka. Mér hefur síðar oft verið hugsað til þess hvernig farið hefði, ef Logi hefði flust til Danmerkur á sínum tíma eins og systir hans. En sem betur fer varð það ekki.
Fjölskyldur foreldra okkar Halla voru mjög nánar, kanski nánari en hefði getað orðið. Það kom meðal annars til, að Björn afi minn tók á banasænginni loforð af móður minni, að hún skyldi hvað sem á gengi aldrei bregðast Loga, eða Lalla eins og hann var kallaður, hálfbróður sínum og stjúpsyni Björns, en Lalli átti við túrabundið drykkjuvandamál að stríða. En reyndar var hann bara fyrst og fremst næmur listamaður og eftirsóttur skemmtikraftur til að troða upp með söng, töfrabrögðum, látbragði og eftirhermum á þeirra tíma samkomum og böllum í Vestmannaeyjum og síðar í Reykjavík. Það æxlaðist því þannig, að á stríðsárunum áður en foreldrar mínir eignuðust börn var Halli langtímum í fóstri hjá þeim. Færði hann þeim mikla ánægju og gleði. Kunnu foreldrar mínir að segja margar hnyttnar sögur af því greinda og glaðværa barni. Ein var, að Halli var mikið að snúast í kringum Bretana og þeirra tól og var fljótur að tileinka sér enskuna, svo hún kæmi honum að notum. Eitt sinn sér faðir minn að Halli var kominn með tyggigúm og spurði hvar hann hefði fengið þetta. Það er nú gall go hann Kristján... og síðan kom heilmikil útlistun á því hvernig það kom til. Eftir nokkra stund spyr faðir minn aftur hvað sá hét sem gaf tyggigúmið. Ég var búinn að segja þér það, go hann heitir Sigurður. og horfði stórum og hreinskilnum augum á föður minn. Nú jæja hvernig kemur það heim og saman, áðan sagðirðu Kristján en nú segirðu að hann heiti Sigurður? Nú litust þeir skamma stund í augu þar til lausnin kom: Hann heitir go Sigurður en er gallaður Kristján! Önnur: Móðir mín situr undir Halla í strætisvagni þegar karl einn með kafloðið skegg kemur inn og tekur sér stöðu gegnt þeim. Móðir mín verður vör við að karlinn vekur óspillta eftirtekt Halla sem fer allur á ið. Hún reynir allt til að dreifa athyglinni, nokkurn veginn vitandi hverju hún á von á. Klípur og kreistir í hvert sinn sem hann ætlar að opna munninn. En allt kemur fyrir ekki: Séru það, Dúa mín, þetta er nú grýtinn gall, hárið vex allt inn í hausinn áonum, það fer go inn um eyrun báðum megin og gemur svo allt út um nefið og munninn aftur!
Ég átti því happi að fagna að mega sem barn kynnast æskuheimili Halla og við það eru margar af mínum kærustu bernskuminningum bundnar. Ég hefi líklega verið á fjórða ári þegar ég var fyrst settur í fóstur hjá Lalla og Jónu á meðan foreldrar mínir vor í siglingum erlendis. Þau bjuggu langt uppi í sveit, á Langholtsvegi, í tvílyftu hálfkláruðu steinhúsi, einu því fyrsta sem þar var byggt. Þar var margt að skoða og sjá. Jóna, móðir Halla, hafði pútur í skúr í bakgarðinum sem maður fékk að gefa og ekki var amalegt að fá glóðvolgt egg beint úr hænunni í dögurð. Það sem afgangs var fór í pönnukökur og ástarpunga handa Lalla, sonunum þrem, Sigurbirni, Halla og Jóni, dótturinni Ingibjörgu og gestinum. Úti við tröppur stóðu tvö mótorhjól og átti Halli það minna. Það var vel til ára sinna komið en var minnsta kosti Norton eða Moto Guzzi, ef það var þá ekki bara Halli (Harley Davidson) eins og eigandinn. Þó væntanlega af vanefnum fengið, myndi það teljast dýr milli-stríða-forngripur nú. Halli var öllum frístundum að grúska í því, aðalega í vélinni. Fín var olíulyktin og gaman var að heyra í því hljóðið þegar hann setti það í gang. Ævintýralegt var að sitja á aftara, mokkabrúnu leðursætinu og ríghalda sér í bakið á stórafrænda og finna fiðringinn í maganum þegar hann geystist af stað. Mest gaman var þó að sitja að framan á tankinum klemmdur í styrkum örmum Halla og líða rólega fram og aftur í augnahæð gegnum hnusandi beljuhjörðina, sem rekin var kvölds og morgna í fjós og á engi eftir endilöngum Langholtsveginum...
Æskuheimili Halla voru á mörgum stöðum, fyrir og eftir Langholtsveginn, uppi í sveit á Fossvosbletti (rétt norðaustan Borgarspítala), í Hafnarfirði, aftur annars staðar á Langholtsvegi, eilíft flakk út um allan bæ og nærliggjandi sveitir. Við sáumst helst á stórhátíðum en einnig á Hersamkomum eða í Fíladelfíu þar sem allt var reynt til að frelsa Lalla. En það varð þó víst aldrei þannig. Þó kom Lalli drengjunum öllum til manns og urðu múrarameistarar eins og hann. Segir mér þó svo hugur, að ekki lítið hafi þurft til af þeirra eigin hálfu þar sem oft á móti blés. Gátu þeir bræður sér góðs orðs og þróuðu áfram list Lalla í að hlaða kamínur, arina, skorsteina og skrautveggi úr íslensku bergi, sem alkunnug er. Enginn vafi er á því, að honum tókst með dyggri aðstoð Jónu elskulegrar konu sinnar, að bæta drengjunum upp misbrestina á milli túranna og það indæla andrúmsloft sem alls staðar var hið sama, hvar sem heimilið nú var, tjúnaði restina af. Erlend eiginkona mín hafði margoft orð á því þegar við komum saman í jóla- eða sumarleyfi heim, að hvergi liði sér betur á Íslandi en einmitt í kjallaranum á Freyjugötunni hjá foreldrum Halla.
Þrátt fyrir að Haraldur starfaði við sína iðn átti hann sér önnur áhugamál, sem tóku hug hans allan. Löngu áður en ég fór að veita honum aftur athygli hafði hann hellt sér út í flugmennsku og meira að segja tekið einkaflugmannspróf. Hann flaug sér eingöngu til skemmtunar, m.a. á svifflugu, Katalínu flugbát og listflugvélum bæði af dirfsku og snilld. Þó voru það fleiri stundirnar sem hann átti með flugvirkjunum á Reykjavíkurflugvell. Sagði mér einn þeirra, sem ég kann ekki að nefna, að hann hafi gert þar margar endurbætur bæði á vængjum, stéli, hreyflum og á vélunum sjálfum allt eftir eigin uppfyndingum ólærður maðurinn.
Og svo kom sparneytna bifvélin. Ég hef verið á barna- eða gagnfræðaskólaaldri, þannig að það mun hafa verið í byrjun sjöunda áratugsins þegar Halli kemur fram með fullþróaða hugmynd að snúnings-sýlender-mótor. Gagnstætt hefðbundnum stimpil-sýlendrum í bílvélum byggðist hann á sprengihólfum, sem snérust exsentrískt um einn ás og opnuðust sjálvirkt vegna massa sem fór úr jafnvægi við snúninginn en lokuðust jafnhraðan aftur og komust í jafnvægi að verkum gagnmassa á sama ási. Snúningur þessi gat jafnframt, ef svo má segja, milliliðalaust, knúið öxul bifreiðarinnar áfram. Þetta var aðalumræðuefnið á öllum mannamótum á Freyjugötunni í nokkur ár. Haraldur var svo sannfærður að ekkert gat stöðvað hann. Hann lét dæluna ganga nær endalaust til að sannfæra mannskapinn, sem lítt skildi þá æðri eðlisfræði sem uppfindingin snérist um, svo nær lá örvinglun. Haraldur taldi vélina getað sparað umtalsvert eldsneyti, sem vafalaust var rétt. Breytti þá engu hvort gömlu úreltu sýlendrunum var stillt upp í röð eða vaff. Einu gildir, hvort Halli hafði eða ekki, haft spurnir af, að Þjóðverji nokkur, Felix Wankel, að nafni hafði örfáum árum áður fundið upp sparsömu bensínvélina, sem kennd er við hann (Wankelmotor) og byggist á svipaðri hugmynd, því vél Halla tók henni fram, að því er sérfræðingar segja. Fór hugmyndin það langt, að Halli fékk á henni löggilt einkaleyfi eftir heilmikið skriffinskuþóf og með aðstoð góðra manna. Er mér sagt, að honum hafi tekist að selja það til General Motors í Bandaríkjunum. Þar var patentinu samstundis stungið beint ofan í skúffu, enda enginn áhugi á þeim bæ að spara bensín.
Upp úr þessum pælingum Halla um snúningsbifvélina og samhliða þróun hennar fer hann að útfæra sömu eðlisfræðina á snúning jarðarinnar og áhrif hans á lögun og misdreifðan massa hennar. Út úr því fékk hann, að af sjálfu sér vegna stöðugt minnkandi snúningshraða jarðarinnar og nálgun hennar að kúlulögun frá örófi alda, hafi sú massamisdreifing getað magnast svo upp, að snúningsásinn hafi farið á ramb, og suðurhvelið úr fasa við norðurhvelið sem nægði til - og allsendis án áhrifa annara himintungla utan úr geimnum að skjóta hluta massa jarðar á braut umhverfis hana og væri það nú tunglið. Gat Halli skilmerkilega tilgreint af hvaða svæði suðurhvels jarðarinnar það væri upprunnið og hvenær það gerðist. Samkvæmt því var tunglið svo ungt en berg þess þó svo ævafornt að fjarstæða þótti.
Haraldur var eins og títt er um Íslendinga mikill áhugamaður um jarðfræði. Ekki minnkaði hann við að einmitt á þessum hans bestu árum er að þróast og fullkomnast Landrekskenning Alfred Wegeners, sem gjörbylti sýn á jarðfræðina á hliðstæðan hátt og Þróunarkenning Darwins hafði bylt þróunar- og líffræðinni um það bil einni öld áður. Við það fáskipti og jafnvel lítilsvirðingu sem Halli fann gagnvart Tunglkenningu sinni, færðist hann allur í aukana og reyndi nú að fella hana að Landrekskenningunni. Hann komst þó fljótt að raun um, að þær kenningar þverstönguðust á, en jafnframt að hans kenning gat ekki einungis skýrt allt út sem Landrekskenningin gerði heldur auk þess ótalmargt fleira. Má þar nefna jarðsöguna í heild sinni - en Landrekskenningin nær aðeins yfir nokkur svið og yngsta hluta hennar - allt frá loftlagsbreytingum til breytilegrar misvísunar og umpólunnar segulsviðsins. Steypti hann þessum hugmyndum saman í eina heild og kallaði Jarðsögukenninguna. Ekki fékk hún víst almennt góðar undirtektir hjá kennimönnum, sem undir var borin, enda ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur, heldur hart deilt á aðra kenningu sem var á einstefnu hraðferð að verða Dogma. Var það víst síst til fallið að framfleyta Tunglkenningunni. En nú gerist það nokkrum árum síðar, að Bandaríkjamenn senda mannað Apollogeimfar til tunglsins og taka þar bergsýni til greiningar. Er skemmst frá því að segja að niðurstöðurnar kollvörpuðu viðteknum vísindakenningum um uppruna og aldur tunglsins en styrkti Halla í vissunni um réttmæti sinnar túlkunar.
Það þarf víst engan að undra sem til þekkir, að þegar ég var kominn í menntaskóla og síðar í jarðfræðinám erlendis, þá var kominn rétti maðurinn til að ræða efnið við í þaula. Þannig kynntist ég Halla aftur, fullorðinn, í bréfaskriftum og fáum en stundum næsta endalausum fagsamræðum. Halli var grannvaxinn meðalmaður á hæð, kvikur í hreyfingum og rauðbirkinn á hár, enda átti hann ættir að rekja til Kjarvals konungs af Írlandi á 9. öld. Augnabrýrnar voru ljósari, loðnar og skerptu á einstaklega fallegum, skærum og kímnum augnasvip, sem geislaði sérstaklega sterkt af í eftirvæntingu þegar aðaláhugamálið bar á góma. Oftast enduðu rökræðurnar á einn veg: Eftir að honum hafði verið marg skákað með gagnrökum og staðreyndum, sem voru á skjön við Kenninguna, en hann ávalt sloppið, háll sem áll, þá hallaði hann sér makindalega aftur og klykkti út: Það er ekki mitt hlutverk að sanna þessa kenningu. Ég hefi að vísu sett hana fram, en það er ykkar vísindamannana að afsanna hana og hrekja með rökum eða óyggjandi útreikningum, en fallast á hana ella. Og síðan leit hann á mann með þessum ómótstæðilegum augum, og þá var mát!
Eitt sinn kom ég til landsins með kínverskum samstúdent mínum til að sýna honum landið. Það mun hafa verið sumarið 1975. Förinni var heitið austur á firði en þangað hafði ég aldrei komið. Ég fékk Benzann lánaðan hjá pabba en þó með skilyrði móður minnar, að ég yrði að hafa viðdvöl á Selfossi til að tala nú svolítið við hann Halla. Ég hringdi og sagði að við yrðum snemma á ferðinni að sunnudagsmorgni og ætluðum að komast að Klaustri eða í Skaftafell að kveldi. Hann vildi strax bjóða í mat, og margt væri áhugavert að skoða í Hveragerði. Afráðið var að við kæmum í kaffi klukkan 10 um morguninn, sem stóðst. Hófst nú mikil diskúsjón á ýmsum tungumálum samfara kaffidrykkjunni. Fyrst var hans indæla kona, Jana, og börnin þrjú með okkur en fljótlega eftir að Halli kom sér að efninu urðum við þrír jarðfræðingarnir eftir. Þegar farið var að nálgast hádegið ískyggilega kom Jana inn í stofu og spurði hvort við vildum ekki bara vera í mat, nóg væri til svo allir yrðu saddir. Halli sagði í hálfgerðum afsökunartón, að þau væru svosem ekkert með neitt læri. Þau borðuðu á sunnudögum bara lambahrygg, þeim þætti hann reyndar betri þó það væru mikil bein. Þegar ég var að snara þessu á þýsku fyrir Kínverjann hvarflaði að mér hvað eiginlega Halli meinti. Hvort Sambandið og Slátursfélagið væru virkilega farin að láta sér nægja að saga hausinn og lærin af lömbunum en henda svo skrokknum? En hvílík steik! Sú veislumáltíð sem Jana tilreiddi okkur þarna verður mér gjörsamlega ógleymanleg. Fann ég þar sömu sjálfsögðu gestrisnina og á Langholtsveginum réttum 20 árum áður, þegar maður var umsvifalaust tekinn uppí, ef barninu varð það á að vakna of snemma á sunnudagsmorgni og fékk að kúra hjá foreldrum Halla þar til tíminn var kominn. Við komumst víst ekki langt austur þann daginn og gott ef við fengum ekki að gista hjá Jönu og Halla um nóttina. Aldrei skal ég hitta þennan kínverska kollega minn að hann fari ekki að tala um skorpuna á steikinni og þetta stórkostlega frændfólk mitt á Íslandi.
Halli var og skytta góð. Hann skaut helst í mark en stundum fugla, sem hann stoppaði síðan sjálfur upp. Í þeirri iðn náði hann frábærum árangri. Um það bera vitni m.a. eitt ólíkt par, snæugla og smyrill, sem ætíð hafa fylgt fjölskyldu minni sem stofustáss. Enginn vafi er á, að Halli hefur því nokkuð vel þekkt til anatómíu fuglanna og séð í henni meir en einungis muninn á flughæfni hænsnanna á Langholtsveginum og íslenskra rán- og sjófugla. Ekki kæmi mér á óvart að hann hafi nýtt sér þá þekkingu forðum við endurbæturnar á flugvélunum úti í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Var hann kanski fyrir 50 árum að bretta upp á endann á vængjunum svipað og haförnin gerir þegar mikið ríður á og við sjáum á nýjustu farþegaþotunum?
Þegar maður lítur til baka virðist með ólíkindum hversu langt Halli náði á sínum áhugasviðum án þess að hafa notið langskólagöngu og oft með tvær hendur tómar. Frjótt ímyndunarafl, brennandi áhugi, óþrjótandi eljusemi, hagleikur og afburða greind eru góð kombínasjón eða blanda sem Halli sannarlega réði yfir. Hann er gott dæmi um hverju mannsandinn magnar þó ekki sé nema lítið að honum hlúið. Haraldur Eldon Logason var tvímælalaust frjór hugvitsmaður þótt hann yrði lítt þekktur. Ef ég ætti að skipa honum á bekk í Íslandssögunni þá setti ég hann á milli Arngríms málara og Stjörnu-Odda. Um Arngrím skrifaði Kristján Eldjárn fyrrverandi Forseti ágæta bók. Stjörnu-Oddi hefur verið rannsóknarefni fræðimanna og vekur furðu og aðdáun, að ólærður vinnumaður í sveit uppi á Íslandi á 12. öld gerir eigin rannsóknir og uppgötvanir í stjörnufræði og stærðfræðiútreikninga, sem standast samanburð við það sem best telst frá þeim tíma á meginlandi Evrópu. Fróðlegt væri að fá víðtæka útekt og vísindalegt mat á uppfinningum og kenningum Haralds og væri það vafalaust verðugt háskólaverkefni.
Mig langar að ljúka þessari minnungu með þriðju sögunni úr barnæsku Halla á stríðsárunum. Foreldrar mínir voru búnir að hafa hann hjá sér yfir jól og áramót. Það voru þeirra fyrstu jól á eigin heimili með sitt jólatré og barn, að vísu bara að láni. Þeim hafði tekist að fá rafmagnsljósaseríu í öllum regbogans litum. Kertin voru fyllt með vökva sem í voru loftbólur á stöðugri, hægri leið, upp, upp, uppávið og eitthvað var um annað skraut á trénu til að gleðja sig og snáðann. Svo kom gamlárskvöld. Pabbi var með fýriverk, líklega meir en nokkur annar í öllum bænum, flugelda, sólir, kínverja og púðurkerlingar... Síðan rennur upp þrettándinn og ástandið var orðið það gott að rétt var fara að skila Halla heim aftur. Og þegar þau koma þar inn og sjá í gegnum eldhúsgættina foreldrana, Jónu og Lalla sitja yfir kaffibolla og pönnukökum og væntanlega var líka svolítill ilmur af vindli, þá tekst Halli á loft snýr sér við, lítandi sínum björtustu augum á pabba og segir: Sérru, Oddi minn, nú eru jólin go gomin!
Já nú eru jólin sko komin, Halli minn, og þú til þeirra hinna sem þér þóttir svo vænt um. Er ekki bara ágætt að trúa því? Það er svo margt annað sem maður trúir og reynist svo kannski ekki satt ellegar öðru vísi en til stóð. Ekki útiloka ég það að minnst kosti, en það má í raun vera huggun líka, að þessu uppfyllta lífi hafi lokið nú, þegar augljóst var orðið að hverju stefndi. Jana, ég vil þakka þér fyrir hvernig þú annaðist Halla ekki einungis í seinustu veikindunum heldur alla tíð í löngu og farsælu hjónabandi, hlúðir að og hélst honum stikkfrí til að stunda sín áhugamál svo sem mögulegt var. Ég samhryggist ykkur, fyrst og fremst ykkur, Jana, Ella Jóna og Raggi. Ykkur, svo og frændsystkinunum mínum öllum ásamt fjölskyldum sem og vinum Halla, votta ég innilega samúð mína. Saman skulum við geyma minninguna um góðan dreng.
Dr. Björn Oddsson