Ingiríður Daníelsdóttir fæddist á Kollsá í Hrútafirði 13. ágúst 1922. Hún lést á Vífilsstöðum 25. febrúar 2014. Foreldrar hennar voru Herdís Einarsdóttir, f. 11. mars 1897 á Hróðnýjarstöðum. Dalasýslu, og Daníel Tómasson, f. 7. mars 1888 á Kollsá. Systkini Ingiríðar: Þorvaldur, f. 8. júní 1920, d. 7. nóvember 1973, Valdís Sigurlaug, f. 8. ágúst 1924, Ester, f. 19. febrúar 1926, d. 28. febrúar 1926, Einar Tómas, f. 29. maí 1932, d. 25. apríl 1937, Áshildur Esther, f. 3. ágúst 1940. Hinn 10. september 1939 giftist Ingiríður Kristjáni Karli Hannessyni, f. 6. júní 1912, d. 21. nóvember 1997, frá Þurranesi, Saurbæ, Dalasýslu. Foreldrar hans voru Margrét Kristjánsdóttir, f. 18. ágúst 1876 á Saurhóli, Saurbæ, d. 23. febrúar 1955, og Hannes Guðnason, f. 13. mars 1868 í Máskeldu, Saurbæ, d. 21. febrúar 1924. Börn Ingiríðar og Kristjáns Karls eru: 1) Erla, f. 24. júní 1939, maki Sigurður Þórólfsson, búsett í Innri-Fagradal, Saurbæ. 2) Ásdís Jóna, f. 11. júní 1944, maki Eiríkur Bjarnason, búsett í Kópavogi. 3) Steinar Tómas, f. 24. apríl 1948, maki Björk Magnúsdóttir, búsett í Reykjavík. 4) Margrét Hanna, f. 9. nóvember 1949, maki Sigurður Þórðarson, búsett í Reykjavík. 5) Einar Daníel, f. 20. maí 1954, maki Helga Hreiðarsdóttir, búsett á Hvammstanga. 6) Indriði, f. 9. janúar 1956, maki Herdís Einarsdóttir, búsett í Grafarkoti, V-Hún. 7) Sveinn, f. 21. nóvember 1957, maki Guðný Sigríður Þorsteinsdóttir, búsett á Borðeyri. 8) Sigurhans, f. 20. maí 1960, maki Þórey Jónsdóttir, búsett í Reykjavík. 9) Karl Ingi, f. 26. október 1968, maki Steinunn Matthíasdóttir, búsett í Búðardal. Afkomendur Ingiríðar og Kristjáns Karls eru í dag um áttatíu talsins. Ingiríður ólst upp á Kollsá og tók þar við búskap af foreldrum sínum ásamt Kristjáni Karli árið 1941. Þau bjuggu þar fram til ársins 1979 er þau brugðu búi og fluttu inn að Borðeyri með yngsta son sinn. Eldri börnin höfðu þá þegar flutt að heiman. Eftir andlát Kristjáns Karls 1997 bjó Ingiríður á Borðeyri fram til ársins 2003 þegar hún flutti til Reykjavíkur í Bólstaðarhlíð 41. Þar undi hún sér vel við hannyrðir og aðra listsköpun nánast fram að andláti og skilur hún eftir sig fjöldann allan af hannyrðum og listmunum á heimilum afkomenda sinna. Ingiríður verður jarðsungin frá Prestbakkakirkju í dag, 8. mars 2014, kl. 11.

Það eru komin yfir fimmtíu ár síðan ég sá Ingu fyrst. Ég var á ferð með systur minni og ætluðum við að heilsa upp á Erlu skólasystur hennar á Kollsá og fórum því þangað heim til að kanna málið. Þá var inngangurinn í húsið á austurhliðinni sem snéri niður að sjónum. Við fórum upp tröppurnar með fallega handriðinu og kvöddum dyra. Innan stundar kom til dyra brosmild og hlýleg kona sem sagði okkur að Erla væri því miður ekki heima, en hún bauð okkur að koma inn og þiggja góðgerðir, að sjálfsögðu því þessu átti ég eftir að kynnast náið á langri samferð okkar eftir að ég varð tengdasonur hennar árið 1962, en þá giftum við Erla okkur heima í stofunni á Kollsá. Þessi eiginleiki hennar, að bera umhyggju fyrir velferð annarra og gera öðrum gott fylgdi henni til hinstu stundar. Ég sagði eitt sinn fyrir löngu að ekki væri hægt að hugsa sér betri tengdamóður og sú skoðun hefur styrkst eftir því sem ég kynntist henni betur.

Samskiptin voru reyndar stopul fyrstu árin því samgöngur voru erfiðar, nánast engar yfir vetrarmánuðina, þótt ekki væri um langan veg að fara og því voru samskiptin meiri yfir sumarmánuðina þegar engar hindranir voru á samgöngum og áttum við margar góðar stundir saman, bæði hér heima í Fagradal og á Kollsá. Jólaboðin hennar Ingu, þegar hún safnaði sem flestum afkomendum saman heima á Borðeyri, eru með eftirminnilegustu minninga um hana, þar sem hún sveif um og sá til þess að engan skorti neitt. Þá var hún fyrst í essinu sínu. Inga hafði mjög gaman af að ferðast, en eðli málsins samkvæmt gafst ekki mikill tími til ferðalaga frá búskap og barnauppeldi. Það tekur sinn tíma að ala upp níu börn og koma þeim til þroska, sem þeim tókst svo sannarlega hjónunum á Kollsá. Ekki verður hlaupið frá stórum barnahóp út í lönd, á sólarströnd eða í önnur ferðalög. En eftir að þau hættu búskap á Kollsá og voru flutt inn á Borðeyri kom þó að því að þau héldu út í heim. Það stóð til bændaferð til Kanada árið 1982 og eftir töluverðar fortölur tókst Erlu loks að fá þau með í þessa ferð. Kalli var lengi tregur til en lét þó til leiðast, og eftir á að hyggja held ég að þessi ferð hafi orðið þeim mikil upplyfting og mjög eftirminnileg.

Í þessari ferð hélt Inga upp á sextugs afmælið sitt vestur á Kyrrahafsströnd í Vancouver og var það virkilega skemmtileg stund. Eftir þetta átti Inga eftir að fara oftsinnis til útlanda, bæði með okkur hjónum eða dætrum sínum og miðað við frásagnir af þeim ferðum hafa það verið sannkallaðar skemmtiferðir því það var sama hvar Inga fór, hún vakti allsstaðar gleði með sinni ljúfu lund og hlýja viðmóti. Hún var söngelsk og hafði gaman af söng. Hún spilaði jafnvel á litla orgelið sitt, en vildi þó helst gera það fyrir sjálfa sig án þess að hafa áheyrendur. Á mannamótum var hún jafnan hrókur alls fagnaðar í söng og dansi og sérstakt yndi hafði hún af að taka þátt í brekkusöng.

Í mörg ár eftir að hún var komin til Reykjavíkur kom hún til okkar á vorin í sauðburðinn og þar sýndi hún alveg ótrúlegan dugnað og natni, passaði upp á lömbin sem þurftu á aðhlynningu að halda og fylgdist með öllu. Hún hafði nú reyndar sínar skoðanir á búskapnum, en fór fínt í að koma þeim á framfæri, eins og þegar henni fannst bóndinn gera fullvel við hrútana með því að ala þá of lengi inni, þá sagði hún einfaldlega: Þeir eru nú búnir að setja hrútana út fyrir norðan! og það fór ekki fram hjá neinum hvað hún meinti. Henni fannst það vera á við heilsurækt að koma í sveitina á vorin og taka þátt í sveitastörfunum.

Inga var mjög listræn og eftir að hún flutti suður og komst í góða aðstöðu í Bólstaðarhlíðinni tók hún til við að mála, bæði á postulín og myndir sem hún náði ótrúlegri leikni við að mála. Þá voru ófá listaverkin sem hún saumaði og prjónaði og gaf börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum.

Þegar minnst er Ingu frá Kollsá hlýtur að koma upp í hugann hversu miklu betra þjóðfélagið okkar væri ef meira væri til af fólki með hugarfar og skaplyndi hennar, því ég minnist þess ekki að hún hafi hallmælt nokkrum manni í mín eyru. Það mesta sem hún sagði ef talað var um galla eða miður góða eiginleika einhverra ; Æ, þeir eru svona sitt með hverju móti. Og var þá nóg sagt!

Nú fer Inga aftur heim í fjörðinn sinn, þar sem hún fæddist, ólst upp, kynntist manninum sínum, ól upp börnin sín og bjó lengst af, fjörðinn sem hún ann og leyfði engum að hallmæla. Ef einhverjum varð á að tala um að fjörðurinn væri kuldalegur og úfinn þá sagði hún gjarnan: Ja, þú hefðir átt að vera hér í gær!

Og nú blika við sólarlag ótal minningar um góða konu, sem hefur kvatt eftir langa lífsgöngu og sem skilur eftir söknuð hjá ættingjum og vinum. Ég vona að fjörðurinn í gær taki vel á móti barninu sínu.

Inga mín. Þakka þér fyrir samfylgdina og allt sem þú gafst okkur.

Sigurður Þórólfsson