Matthías Bjarnason fæddist á Ísafirði 15. ágúst 1921. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 28. febrúar 2014. Foreldrar hans voru Bjarni Bjarnason sjómaður, síðar vegaverkstjór f. 17. maí 1881, d. 6. janúar 1960 og k. h. Auður Jóhannesdóttir húsmóðir f. 26. apríl 1882, d. 28. desember 1968. Systkini Matthíasar voru Björgvin, f. 14. ágúst 1903, Charles, f. 10. mars 1906, Þórir, f. 10. janúar 1909, Kristín, f. 23. júní 1910, Bjarni, f. 2. mars 1912 og Karl, f. 13. desember 1913. Þau er öll látin. Hinn 30. apríl 1944 kvæntist Matthías Kristínu Ingimundardóttur húsmóður, f. 4. maí 1924, d. 11. júní 2003. Foreldrar hennar voru Ingimundur Þórður Ingimundarson, f. 11. september 1894, d. 30. maí 1976, og kona hans María Sigurbjörg Helgadóttir, f. 15. apríl 1890 d. 14. janúar 1966. Börn Matthíasar og Kristínar eru: 1) Auður, félagsráðgjafi , fædd 10. febrúar 1945, maki Kristinn Vilhelmsson verkfræðingur, f. 9. janúar 1946, sonur þeirra er Matthías Kristinsson f. 11. mars 1978, maki Liv Anna Gunnell, f. 9. nóvember 1981. Börn þeirra eru Trostan, Saga og Íssól. 2) Hinrik, ráðgjafi hjá Sjóvá-Almennum, f. 20. nóvember 1946, kona hans var Sveinfríður Jóhannesdóttir íþróttakennari, f. 7. júní 1947, d. 5. mars 2008 Börn þeirra a) Matthías f. 21. júlí 1968, maki Kristín Dögg Guðmundsdóttir f. 28. júlí 1978 Börn þeirra Ísabella Auður Nótt, Alexandra Sveinfríður Margrét og Sunneva Kara Mist. b) Sigrún Hanna f. 25. október 1974, sambýlismaður hennar er Kenneth Kure Hansen. Börn Sigrúnar Hönnu og fyrrverandi sambýlismanns eru Tinna María, Ylfa Björk og Hinrik Ýmir. c) Kristín Petrína, f. 17. mars 1977. Sambýliskona Hinriks í dag er Steinunn Ósk Óskarsdóttir f. 25. júlí 1950. Matthías ólst upp á Ísafirði á mannmörgu heimili. Hann fékk fljótt mikinn áhuga á Íslendingasögum og fékk bækurnar að gjöf frá mömmu sinni. Þar kviknaði áhugi hans á bókum sem varaði alla tíð. Bókasafn hans er góður vitnisburður um það. Landsmál voru að sjálfsögðu ofarlega á baugi eins og starfsferillinn ber vitni um. Matthías var í störfum sínum sem alþingismaður og ráðherra áhugasamur um að efla atvinnuvegi þjóðar sinnar og gefa mönnum tækifæri til að spreyta sig í hinum ýmsu greinum. Hann lagði sjálfur sitt af mörkum á mörgum sviðum. Mörg ár rak Matthías bókabúð á Ísafirði, seinni árin þar var þó kona hans meira við stjórnvölinni. Hann var forstjóri Djúpbátsins og Fagranesið var hluti af lífinu í Hafnarstræti 14 þegar mest var að gera t.d. við bílaflutninga um Djúpið. Hann var umboðsmaður fyrir Morgunblaðið árum saman og margir minnast þess þegar ófært hafði verið í marga daga og loksins kom mogginn. Þá var gaman. Þá kom að útgerð og Straumnesið sigldi á miðin. Trostansfjörð eignaðist Matthías fyrir tæplega fjörtíu árum og þar urðu þáttaskil. Dalirnir og fjörðurinn urðu hans yndi og eftirlæti. Sumrin fyrir vestan voru öll böðuð í sól og blíðu. Matthías sýndi börnum sínum og barnbörnum hlýju og athygli. Þegar barnabarnabörnin komu til sögu var hann áhugasamur um velferð þeirra og sýndi í verki. Félagslyndur og með góða frásagnargáfu, hafði ánægju af að tala við fólk og heyra skoðanir þess, átti auðvelt með að setja sig inn í erfið mál og bar oft gæfu til að leysa þau á besta veg. Matthías var samviskusamur í störfum sínum . Hann átti vini í öllum flokkum og var hlýtt til þeirra mörgu sem hann vann með í nefndum og verkefnum á Alþingi sem og í sveitarstjórnarmálum. Matthías var fyrst kjörinn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestfjarðakjördæmi árið 1963 og sat samfellt sem þingmaður flokksins til 1995. Hann var sjávarútvegsráðherra og heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 1974 til 1978 og heilbrigðis- og samgönguráðherra í fyrstu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og samgöngu- og viðskiptaráðherra í sömu stjórn til 1987. Hin síðari ár átti hann góða samfylgd með Jónínu Margréti Péursdóttur, skólasystur sinn úr Verslunarskólanum, f. 15. mars 1922, d. 15. júlí 2012 . Þau ferðuðust mikið og nutu lífsins saman. Útför Matthíasar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag, 11. mars 2014 og hefst athöfnin kl. 15.

Eftirfarandi frásögn er af samtali mínu við Matthías Bjarnason fyrir tæpu ári síðan. Ég hafði farið að heimsækja hann til að heyra m.a. hans eigin frásögn af þriðja þorskastríðinu, en á þeim tíma var ég að skoða þorskastríðin í sagnfræðinámi við Háskóla Íslands. Það er við hæfi að þessu viðtali verði haldið til haga, þar sem það er líklega síðasta viðtal Matthíasar um stjórnmálatíð sína. Ég reyndi að koma orðavali hans til skila eins og það kom frá honum, en á því má sjá að hann var enn eldhress og hafði engu gleymt af sinni vestfirsku skarpskyggni.


Upphafið af samtali okkar Matthíasar var að ég hafði beðið hann áður að eiga við mig viðtal en þá hafði hann færst undan og frestað. Því varð loksins hægt að koma því við þriðjudaginn 6. maí, þegar Matthías tók á móti mér á heimili sínu að Lómasölum 16. Við áttum þarna tveggja stunda skemmtilegt samtal, þar sem hann fór út um víðan völl og var hinn hressasti, en undir lokin var hann orðinn þreyttur og við slitum samtalinu löngu áður en hann var búinn að úttala sig um allt sem honum lá á hjarta.

Hið fyrsta sem ég spurði um var um atburðarásinar 26. janúar 1976, þegar Geir Hallgrímsson sat á fundi með Wilson forsætisráðherra Breta og inn komu skilaboð um að klippt hefði verið aftan úr togara.

Geir hafði farið einn til fundar til London við Wilson og Callahan utanríkisráðherra. Hann vildi vera eini ráðherrann á fundinum og aðrir voru aðeins embættismenn. Matthías var ekki með en sendi Einar Ingvarsson aðstoðamann sinn á fundinn. Matthías hefur það eftir Einari að atburðarásin hafi verið þannig að þeir Geir, Wilson og Callahan hafi verið sestir til fundar þegar inn kom einhver aðstoðarmaður Callahans, færir honum orðsendingu sem verður til þess að Callahan víkur tímabundið af fundinum og fer fram. Kemur aftur að vörmu spori og leggur miða fyrir Wilson. Honum bregður við, reiðist greinilega, stendur upp og lýsir því yfir að það þjóni ekki tilgangi að hafa þennan fund lengri. Íslendingar hafi skorið aftan úr togara (Guðmundur Kærnested á Tý klippti á hjá Boston Blenheim) þótt Bretar hafi látið flota sinn sigla út fyrir 200 mílurnar fyrir viðræðurnar. Hann átelur Geir fyrir að þetta hafi verið smekklaust og ódrengilegt og sleit þar með fundinum. Geir kom þetta í opna skjöldu því hann vissi ekkert um klippinguna fyrr en fréttin barst þarna inn á fundinn.

Matthías telur að þetta hafi verið bragð af hálfu Ólafs Jóhannessonar, því hann var í fyrsta lagi allan tímann ergilegur yfir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft frumkvæði að 200 mílna tillögunni. Sú útfærsla skyggði á 50 mílna árangurinn sem Ólafur þakkaði sér. Það hafi allan tímann verið hundur í Ólafi yfir 200 mílna málinu. Hann hafi þarna verið í hliðarhlutverki í ríkisstjórn annars manns, manns sem honum var ekki nógu vel við. Því hafi hann sem dómsmálaráðherra oftar en ekki reynt að spilla fyrir með aðgerðum sínum til þess að ýfa málið upp og bregða fæti fyrir Geir forsætisráðherra. Þetta hefði gerst áður, þegar Roy Hattersley hefði verið á samningafundi í Reykjavík í nóvember, en áður en fundurinn hófst hefði hann mótmælt því að alveg í þessu hefði verið klippt aftan úr tveimur togurum. Matthías lét að því liggja að einnig í það skiptið hefði tímasetning klippingarinnar verið handaverk Ólafs Jóhannessonar og þá eingöngu til að torvelda samningana. Sömuleiðis hafi hann verið kominn upp á kant við Einar Ágústsson, en Matthíasi og Einari samdi ágætlega gegnum þessa deilu. Það kom svo að lokum í þeirra hlut að semja um endalokin í Osló, þar sem undirritað var þann 1. júní 1976.

Upphafið að Oslóarsamningunum var að fundi Einars Ágústssonar og Knuts Frydenlunds bar saman í Helsinki þar sem Knut stakk upp á að samningarviðræður um lok fiskveiðideilunnar færu fram í Osló. Einar tók vel í það og reyndi strax að hringja í Ólaf Jóhannesson, en Ólafur var þá í Genf og ekki hægt að ná í hann í síma. Þá lét Einar Geir Hallgrímsson vita en talað ekki við Ólaf fyrr en daginn eftir. Ólafur móðgaðist að Geir hefði verið látinn vita á undan sér. Einar sagði að ekki hefði náðst í hann. Ólafur hafi þá átalið Einar fyrir að draga ekki í einn dag með fréttina til að sér yrði sögð hún fyrst.

Annað atvik, sem getið er í bók Guðmundar J. um þriðja þorskastríðið er, að þegar Matthías og Einar Ágústsson mæta til samningafundar í Osló á Parkveien 45, stendur hópur námsmanna fyrir utan og hrópar að þeim ókvæðisorðum, að þeir eigi ekki að standa í neinum svikasamningum, að Ísland eigi að ganga úr Nato o.s.frv. Matthías og Einar ganga til þeirra og heilsa þeim og spjalla við þá í friði og síðan verður ekki verður meira úr því. Þeir ganga inn í húsið.

Eftir á hafi þeim leikið hugur á að vita hver hafi att námsmennina til þessara mótmæla. Það hafi verið ákveðnir menn í Framsókn hann nefndi ekki nöfn sem stóðu að þessari uppákomu til þess eins að reyna að spilla fyrir samningunum.

Þá gat hann þess að Heimir Hannesson hafi skrifað grein í Morgunblaðið þar sem hann fullyrti að hann, Heimir, hafi í raun samið við mann úr bresku utanríkisþjónustunni um lyktir þriðja þorskastríðsins þegar þeir fengu sér göngutúr kringum Tjörnina í Reykjavík. Matthías segir að þetta hafi verið tóm vitleysa. Heimir hefði verið að eigna sér það sem hann átti ekki. Hann hefði hvergi komið þarna nálægt. Sjálfur hefði Matthías síðar skrifað grein í Morgunblaðið til að bera sögu Heimis til baka.

Önnur svona saga, sem Matthías sagði að væri alröng, var frásögn Tómasar Árnasonar að hann, Tómas, hefði fyrstur komið með þá tillögu að byggja lyktir þorskastríðsins á fjölda togara sem mættu veiða innan 200 mílna lögsögunnar. Þessi nálgun hefði skv. Tómasi orðið til að leiða deiluna til lykta. Matthías sagði að Tómas hefði hvergi komið nálægt lokum stríðsins, en hann eins og fleiri reyndu að slá sig til riddara með því að eigna sér sigur sem þeir ættu ekkert í.

Ég spurði Matthías hvernig frumkvæðið um tillögu að 200 mílunum hefði orðið til innan Sjálfstæðisflokksins. Hann skýrði fyrst frá því að fram hefði komið tillaga um að línan yrði dregin við 400 metra dýptarlínu kringum landið. Þetta hefði orðið ofan á innan þingflokksins en hann hefði verið í minnihluta. Þetta taldi hann að hefði verið ein af orsökunum fyrir fylgistapi flokksins í kosningunum 1971. Strax eftir kosningar hefði Gunnar Thoroddssen verið farinn að brugga launráð gegn Geir Hallgrímssyni og ámálgað það við Ólaf Jóhannesson að hann, Gunnar, vildi fara í ríkisstjórn með Framsókn og einhverja menn með sér úr Sjálfstæðisflokknum, svo fremi sem Gunnar yrði forsætisráðherra en það rættist ekki fyrr en síðar. Einn hluti af þessu bruggi var að Gunnar vildi færa landhelgina (þ.e. efnahagslögsöguna) út í 200 mílur. Geir var ekki hrifinn af þessu strax, en Matthías var þessu fylgjandi og það varð að lokum ofan í þingflokknum, og þá fylgdi Geir þessu fram af fyllstu einurð. En Matthías sagði aldrei með vissu hver hefði átt hugmyndina, en mér sýndist að hann hefði látið að því liggja að Gunnar hefði átt þarna hlut að máli. Þeir hefðu verið saman í stjórnarskrárnefnd þar sem Gunnar var formaður og þar hefði þetta borið á góma.

Einhvern veginn veigraði Matthías sér við að segja mikið um Lúðvík Jósefsson. Hann minntist þess að þeir hefðu báðir verið í stjórn útgerða, hann á Neskaupstað og Matthías á Ísafirði. Þeir hefðu báðir átt það sameiginlegt að skilja sjávarútveg betur en flestir aðrir því þeir hefðu báðir verið á sjó og skilið útgerðarekstur. Gallinn við Lúðvík hefði verið sá að hann hefði verið svo laginn við að halla sannleikanum sér í hag, en Matthías tók engin dæmi um það. Hann talaði aldrei um að hann hefði verið Lúðvík ósammála í landhelgismálum, og einhvern veginn skildi hann eftir þá hugsun að hann hefði viljað vera jafnmikill harðlínumaður í landhelgismálum og Lúðvík, en þeir hefðu bara ekki verið í sama flokki.

Þriðja þorskastríðið voru miklir streitudagar fyrir Matthías. Menn hringdu iðulega í hann og skömmuðu hann fyrir afstöðu hans í málinu, sérstaklega eftir að veður hafði borist af því að stjórnin væri að þreifa fyrir sér um samninga. Einu sinni hafi maður hringt í sig og sagst ætla að koma heim til hans og skjóta hann fyrir linkind gagnvart Bretum. Matthías segist hafa svarað af bragði að hann væri með hlaðna skammbyssu á skrifborðinu hjá sér og væri þar með alveg tilbúinn að taka á móti svona köllum eins og honum. En auðvitað var hann ekki með neitt skotvopn.

Matthías sagði það hafa verið ógæfu fyrir Sjálfstæðisflokkinn að svokallaður Eimreiðarhópur hefði komist til áhrifa og fengið að móta stefnu hans. Hann taldi Friðrik Sophusson hafa verið formann hópsins, og skoðanamynstur hópsins hefði ráðið ferðinni á svokallaða frjálshyggjutímabilinu, flokknum og þjóðinni til ógæfu. Hann hefði þá sjálfur verið hættur í pólitík og lítið getað spornað við þessari þróun.

Þá, síðast en ekki síst, sagði Matthías frá því að hann hefði þegið boð um að fara í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna, þar sem honum var tekið af mikilli gestrisni. Hann hefði ekki aðeins komið til Moskvu heldur hefði verið flogið með hann og allt hans fylgdarlið til Úsbekistan þar sem honum hefði verið tekið með kostum og kynjum. Í lokahófinu þar hefði sjávarútvegsráðherra Sovétmanna staðið upp og haldið ræðu þar sem hann ámálgaði að úthafsfloti Sovétmanna hefði hug á að fá veiðiréttindi innan íslensku efnalögsögunnar, aðstöðu í landi o.fl. Matthías sagðist þá hafa reiðst, staðið upp frá borðum, sagt að ekkert slíkt kæmi til greina, tekið í hendina á gestgjafanum sínum og öðrum Sovétmönnum við borðið yfir 20 að tölu og náð í frakkann sinn og farið út í bíl og upp á hótel. Kona hans sem var með í förinni var alveg hissa á honum, og íslensku diplómatarnir í förinni (Hannes Jónsson o.fl.) hefðu sagt honum eftir á að þetta hefði ekki verið gott hjá honum. Matthías hefði svarað á móti að þeir í utanríkisþjónustunni þyrftu endilega á svona karli að halda eins og honum sem segði bara hlutina beint út og væri ekki með neina diplómataetíkettu, aðeins vestfirska hreinskilni.

Matthías sagði mér einnig frá því að hann hefði verið heilbrigðisráðherra á sama tíma og hann var með sjávarútvegsmálin. Helstu málin hefðu annars vegar verið uppbygginga heilsugæslustöðva um land allt, en það hefði verið meiriháttar átak og mikil bót, sérstaklega á landsbyggðinni. En hann hefði reynt mikið til að fá fjármagn í krabbameinsbyggingu við Landspítalann en því verki hafi ekki verið lokið þegar hann fór úr embætti. Hann minntist þess sérstaklega að til sín hefðu komið þrír menn, allir með krabbamein á síðasta stigi, og sagt að það ætti að vera forgangsverkefni að byggja yfir krabbameinsdeildina. Það myndi ekki gagnast þeim neitt, það væri um seinan fyrir þá, en það yrði að gagnast komandi kynslóðum.

Þá sagðist hann einnig hafa nokkrum sinnum tekið fram í fyrir hendurnar á svokallaðri Siglinganefnd þegar hún neitaði að borga undir ættingja sem voru að fylgja sjúklingum utan. Hann hefði oftar en einu sinni skrifað nefndinni bréf og sagt henni að borga þótt hún hefði samþykkt að gera það ekki.

Björn Matthíasson