Steinunn Þórleifsdóttir, húsmóðir, fæddist í Garði, Þistilfirði, 23. maí 1932. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2. mars 2014. Foreldrar hennar voru Sigríður Helgadóttir, húsfreyja, frá Róðhóli í Sléttuhlíð í Skagafirði, f. 5.11. 1892, d. 28.5. 1985 og Þórleifur Benediktsson, fæddur á Akurseli í Öxarfirði, bóndi í Garði í Þistilfirði, síðar bóndi í Efri-Hólum í Núpasveit , f. 10.10. 1894, d. 22.9. 1984. Bróðir Steinunnar var Lárus Benedikt Þórleifsson, f. 21.6. 1920, d. 21.5. 1968. Steinunn giftist Þórhalli Guðjónssyni frá Grindavík hinn 20. júlí 1957. Þórhallur fæddist 16.7. 1931, d. 25.12. 1998. Foreldrar hans voru Sigrún Kristjánsdóttir og Guðjón Klemensson. Dóttir Steinunnar er 1) Hulda Bjarnadóttir, f. 15.12. 1952. Maki Jóhann Geirdal, f. 15.11. 1952. Dóttir Huldu er a) Magnea Ólafsdóttir, f. 28.11. 1969, dóttir hennar er Sara Antonía Magneudóttir, f. 1.7. 2004. Börn Huldu og Jóhanns eru: b) Sigríður Lára Geirdal, f. 16.12. 1979, dóttir hennar er Selma Rán Melsted Hlinadóttir, f. 26.2. 2001. c) Steinþór Geirdal Jóhannsson, f. 15.8. 1981. Maki Alena Yudziankova. Synir Steinunnar og Þórhalls eru: 2) Guðjón Þórhallsson, f. 8.4. 1957. Maki Guðveig Sigurðardóttir, f. 25.6. 1962. Dóttir Guðveigar: a) Elísa María Oddsdóttir, f. 13.11. 1980, sambýlismaður Jóhann Þormar. Sonur Jóhanns er Ingólfur Ari Þormar, f. 15.5. 1998. Börn Guðjóns og Guðveigar eru: b) Þórhallur Guðjónsson, f. 20.9. 1987. c) Lovísa Guðjónsdóttir, f. 6.11. 1996, unnusti Bjarki Þór Valdimarsson. 3) Lárus B. Þórhallsson, f. 9.11. 1961, sambýliskona Hrönn Auður Gestsdóttir, f. 7.11. 1966. Dætur Lárusar eru: a) Ólöf Steinunn Lárusdóttir, f. 20.4. 1985, sonur hennar er Sölvi Steinn Jónsson, f. 6.4. 2012. b) Ýr Lárusdóttir, f. 28.4. 1989, sambýlismaður Finnur Ólafsson, sonur þeirra Erik Finnsson, f. 8.6. 2012. Sonur Hrannar er c) Alexander Már Sigurgeirsson, f. 16.11. 1989, unnusta Una Árnadóttir. Steinunn verður jarðsungin frá Keflavíkurkirkju í dag, 11. mars 2014, kl. 13.

Elsku hjartans amma mín

Ég stend mig að því að ætla að hringja í þig, eins og ég var vön en nú svarar ekki lengur á hinum enda línunnar...

Ég er í raun enn að meðtaka að  þú sért farin en samt finnst mér þú svo nálæg, bara rétt eins og þú hafir skroppið í kaffi til einhverra vinkvenna þinna, enda varstu vön að hafa fólk í kringum þig.  Gestagangur einkenndi heimilið þitt alla tíð og þú kunnir vel að taka á móti fólki. Börnin hændust að þér og máttir þú aldrei aumt sjá.  Barnabörnin þín voru þér dýrmæt og skipti engu máli, hvort þau tengdust þér beint eða á ská, þau voru alltaf börnin þín , öll með tölu öll sem eitt.  Stundirnar sem við áttum saman voru ófáar og  þú hlustaðir af stakri þolinmæði á alla draumana mína og ævintýri, bæði stór og smá.  Já, þolinmæðin var þér í blóð borin og það sem meira var: þú gast gert svo margt í einu, bæði saumað og hlustað. Þú varst góður hlustandi og sást ætíð spaugilegar hliðar lífsins og þannig vil ég minnast þín.  Þú hafðir skemmtilegan húmor og gast hreinlega velst um af hlátri og þá sagðir þú svo oft: ,,Mikið skelfing er nú gott að geta hlegið. Ég sagði líka við þig á sínum tíma, að ég skyldi minnast þín með gleði í hjarta og þú varst afar ánægð með það.  Í framhaldi langar mig að rifja upp ljúfar minningar frá því að ég var stelpuskjáta í ömmu- og afahúsi.

Elsku amma mín, þú kenndir mér að fara varlega og gæta mín í hvívetna.  En þessari lífsreglu þinni fylgdi þó stundum ákveðin tegund af fljótfærni.  Er mér minnisstætt þegar ég fór með þér og afa í miðbæ Reykjavíkur.  Við gengum niður Laugaveginn og var margt um manninn. Við stoppuðum við gatnamót Frakkastígs og Laugavegar og þú sagðir mér að fara varlega yfir götuna.  Skipti engum togum en að ég sé þig rjúka yfir götuna með barn í eftirdragi.  En barnið var ekki ég, heldur einhver drengur á mínu reki og þó heldur yngri og ekki nóg með það - þú dróst pabba drengsins með líka.  Við afi gengum í humátt á eftir og fylgdumst með hvernig strákgreyið togaðist á milli þín og föður síns. Síðan þegar þú ert komin yfir götuna og þá verður þér litið við.  Brá þér heldur betur í brún þegar við þér blasti bláókunnugt barn og bláókunnugur faðir, barnið dauðskelkað en faðir sposkur á svip. Þar fyrir aftan skein í skellihlæjandi andlit okkar afa.

Þú varst sönn listakona og saumaðir, prjónaðir, heklaðir og bakaðir af stakri snilld og voru ófáar fermingarterturnar sem þú skapaðir og skreyttir. Næmnin og hið listræna yfirbragð var með eindæmum fágað og handbragð þitt einstakt, bæði fyrir smekkvísi og frágang.  Fyrir vikið var gott að leita til þín og ávallt gastu lagað og gert við föt á þann hátt, að flíkin varð yfirleitt aldrei betri fyrr en hún var búin að fara í gegnum hendurnar á þér sannar listamannshendur.  Hins vegar mun ég seint gleyma þeirri sjón sem við mér blasti er ég kom heim af balli í desembermánuði þegar ég bjó enn í ömmu- og afahúsum.  Heyrði ég lágvært suð koma frá eldhúsinu og vissi ég að þú varst eitthvað að sýsla enda fannst þér gott að vinna á nóttunni þá hafðir þú frið til að sinna áhugamálum og gast gleymt þér við að skoða snið og nýjustu tískustrauma, að ógleymdum kökuuppskriftum. Þegar ég opnaði dyrnar tók á móti mér dýrindis kökuilmur aðventunnar og þú, elsku amma mín varst með málband um hálsinn og varst að mæla lagterturnar jafnstórar skyldu þær fara ofan í frystinn og svo hlóst þú yfir þessari nákvæmni þinni.  Já, ég lærði af þér nákvæmni og samviskusemi enda varstu kröfuhörð, sérstaklega gagnvart sjálfri þér -  aðeins það allrabesta var nógu gott og þannig voru öll verk unnin sem þú lést frá þér fara.

En nákvæmnin þín gat komið sér vel og er mér einnig minnisstætt þegar rör gaf sig í geymslunni hjá þér, þannig að vatn flæddi um allt.  Þá kom sér vel að hafa gengið vel frá hlutunum og hafa sett þá í nokkur lög af plastpokum með límbandi og þannig björguðust dýrmætar teikningar eftir afa.  Já, amma mín verksvit þitt og útsjónarsemi kom sér ætíð vel.

Þú varst líka fatahönnuður af lífi og sál og þú gast sagt til um hlutföll og mál á fólki, svo varla skeikaði millimetra.   Þú mundir líka í þaula fatnaðinn sem fólk klæddist, jafnvel áratugi aftur í tímann.  En hins vegar voru bílar ekkert sérstaklega eftirminninlegir hjá þér og voru þeir oftast skilgreindir sem ,,svona venjulegir bílar með fjórum hurðum.  Og þannig var það einn eftirmiðdag fyrir ekki svo mörgum árum síðan, þegar þú fórst til Reykjavíkur og heimleiðin lá með viðkomu í Skalla í Hafnarfirði að kaupa ís.  Þegar búið var að afgreiða ísinn varstu þar með rokin, enda lá þér oft á.  En það sem meira var, þú settist ekki einu sinni inn í bíl sonar þíns heldur sastu í bílnum við hliðina og gæddir þér á kræsingum.  Það sem sonur þinn hló og tók hann reglulega hláturrokur Reykjanesbrautina á enda og alla leiðina heim, því umræddur bíll sem þú hafðir sest upp í var allt öðruvísi og meira að segja annarrar tegundar.   Já, amma mín við gátum sko oft hlegið og þannig vil ég varðveita minningu þína.

En þegar sjúkdómurinn ágerðist og kraftur þvarr, þá hélstu enn í vonina, því hugurinn var óheftur og frjáls.  Þú sagðir stundum sjálf, að þú færir oft fram úr sjálfri þér og þar var þér rétt lýst: Þú varst alltaf skrefi á undan, ýmist við að hanna eitthvað eða skapa.  Undir það síðasta, þegar þú lást sjálfa banaleguna fannst mér þyngra en tárum tæki að heyra þig segja við mig:  ,,Þú átt að fá saumavélina mína, því ég sauma ekki meir, elskan.  Ég mun gera mitt besta í saumaskapnum, þó svo að ég muni seint standa þér jafnfætis í þeim efnum - mér hefur alltaf gengið mun betur að hekla saman orð.

Með djúpu þakklæti í hjarta kveð ég þig nú elsku amma mín.  Þú varst mér svo endalaust dýrmæt.  Ég einatt trúi því, að þú munir vaka yfir velferð niðja þinna og á ég fallega mynd í huga mér þar sem þú horfðir yfir niðjahópinn þinn ein jólin, eftir að þú varst ekkja, svo full þakklætis stolt móðurhjarta.

Núna á þessum tímamótum sé ég þig fallega amma mín, alheilbrigða í Sumarlandinu, svo dæmalaust létta á fæti, dansandi í kóngabláum siffonkjól í 16 dúkum, innan um blómstrandi, ilmandi Hawaii rósir.

Minning þín mun lifa - hana mun ég varðveita líf mitt á enda og ávallt þig elska...

Þín dótturdóttir og ömmustelpa,

Magnea.