Sigríður Magnúsdóttir fæddist 22. október 1949 að Hofi í Öræfum. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suð-Austurlands 18. mars 2014. Hún var dóttir hjónanna Magnúsar Lárussonar, f. 24.6. 1925 og Svöfu Jóhannsdóttir, f. 15.9. 1924. d. 6.11. 1994, frá Svínafelli í Öræfum Magnús og Svafa eignuðust sjö börn en misstu tvö: Þau eru 1) Guðbjörg, f. 5.7. 1948, Maki Sigurjón Gunnarsson, f. 11.6. 1943 og búa á Hofi, eiga 5 börn. 2) Auður Lóa, f.7.3. 1953. Maki 1, Jónas Sigurbergsson f. 31.8. 1943, d. 16.4. 1991. Þau eignuðust eina dóttur. Maki 2, Birgir Árnason, f. 23.7. 1956. Þau eiga eina dóttur og búa á Höfn, 3) Inga Ragnheiður, f. 27.10. 1954. Maki 1, Þorlákur Magnússon, f. 9.3. 1946. Skilin, eignuðust eina dóttur. Maki 2, Benedikt Steinþórsson, f. 5.8. 1949 og búa í Svínafelli, Öræfum. 4) Hrefna, f. 1.5. 1956. Maki 1, Sölvi Steinn Alfreðsson, f. 31.3. 1955, skilin og eiga einn son. Maki 2, Benedikt Steinþórsson, f. 5.8. 1949, skilin og eiga einn son, býr á Höfn. 5, Erna, f. 1.5. 1956, d. 1958. 6, Óskar Kristinn, f. 14.3. 1962, d. 9.3. 1971. Sambýlismaður Sigríðar var Gísli Sigurbergsson bóndi á Svínafelli, Nesjum f. 19.5. 1934. Foreldrar hans voru Sigurbergur Árnason, f. 9.12. 1899. d. 10.6. 1983. Þóra Guðmundsdóttir, f. 24.9. 1908, d. 21.11. 2002. Þau bjuggu í Svínafelli, Nesjum. Sigga átti 4 börn. 1) Ásgeir Björnsson, f. 3.3. 1966. Maki Kristbjörg Eiríksdóttir, f. 2.8. 1969. Skilin, eiga tvo syni Sævar Inga, f. 11.6. 1996. og Tómas Leó, f. 25.11. 1998. 2) Leifur Gíslason, f. 10.2. 1971, Maki Sigurbjörg Sigurðardóttir, f. 2.5. 1969. Þau eiga eina dóttur, Ernu Ósk, f. 15.7. 2010 3) Óskar Haukur Gíslason, f. 18.4. 1972. Maki Sigrún Elsa Bjarnadóttir, f. 29.10. 1977. Þau eiga 3 börn; Helga Berglind, f. 2.4. 2000, Marinó Haukur, f. 15.8. 2006, Alexander Atli, f. 26.1. 2008, 4) Erna Ragnhildur Gísladóttir, f. 19.11. 1974; Maki Einar Björn Einarsson, f. 22.11. 1965. Skilin, börn þeirra Viktor Örn, f. 6.8. 1998 og Díana Sóldís, f. 24.2. 2000. Hún gekk í Grunnskóla að Hofi í Öræfum, eftir skólavistina þar var hún einn vetur í gagnfræðaskóla á Höfn. Einn vetur dvaldi hún í Reykjavík og gekk í skóla í Kópavogi. 16 ára fer hún í sumarvinnu við að aðstoða í eldhúsi hjá brúarflokki sem var að vinna við Svínafellsá. Veturinn eftir dvelur hún í Reykjavík og vinnur í Matvörubúð í Austurveri. Þar vinnur hún alveg fram að þeim degi sem frumburður hennar fæðist, Ásgeir. Fyrstu vikurnar eftir fæðingu hans dvelur hún í Reykjavík hjá frændfólki sínu en heldur síðan með hann heim í sveitina þar sem hann varð sólargeisli í tilverunni. Ásgeir elst upp hjá móðurforeldrum sínum í sveitinni. Útför Sigríðar fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 29. mars 2014, og hefst athöfnin kl.14. Jarðsett verður í Hoffellskirkjugarði.
Mamma ólst upp í Svínafelli í Öræfum ásamt systrum sinum, við hin ýmsu sveitastörf. Mannmargt var í Svínafelli á þessum tíma og fjölgaði oft yfir sumarmánuðina þar sem mörg börn dvöldu í sveit í Svínafelli. Var þá oft mikið líf og fjör við leik og störf. Hún var mikið fyrir fjárbúskap og var einstaklega fjárglögg og tók virkan þátt í að annast skepnurnar. Hún var ekki gömul þegar hún var farin að keyra dráttarvélar eða bíla og fórst það henni allt vel úr hendi. Hún tók snemma þátt í öllum heimilisstörfum og var einstaklega myndarleg í hverju sem hún tók sér fyrir hendur, hvort sem það var bakstur, saumaskapur eða önnur hússtörf.
Mamma vann ýmis störf, meðal annars vann hún sem matráðskona hjá vegagerðinni svo vann hún í sláturhúsinu á Fagurhólsmýri eins og allir Öræfingar sem vettlingi gátu valdið á þeim tíma.
Upp úr 1970 er mamma flutt að Svínafelli í Nesjum þá var hún búin að kynnast lífsförunaut sínum, Gísla Sigurbergssyni. Foreldrar Gísla bjuggu þá að Svínafelli ásamt Arnbirni bróður Gísla og konu hans Arnbjörgu. Þau hefja búskap sinn þar og fæddist fyrsti sonur þeirra Leifur 1971.
Þau eignast annan son 1972, Óskar Hauk, og Ernu Ragnhildi 1974. Mamma var mikill dugnaðarforkur hvort sem varðaði búið, heimilið eða annað. Hún var mikil hannyrðakona, prjónaði mikið og saumaði á börnin enda þau alltaf svo fín og vel til höfð. Síðari ár prjónaði hún mikið af sokkum handa börnum, barnabörnum og vinum og kunningjum. Hún saumaði líka út í sængurver handa börnum sínum og barnabörnum og eiga þau öll eitthvað eftir hana. Hún elskaði náttúruna og þekkti hvern stein og strá. Í berjamó fór hún öll haust svo lengi sem heilsa hennar leyfði enda var hún afskaplega fljót að tína og undruðust margir þegar hún kom oft með full ílátin heim, oft ekki eftir langa stund og var þá spurt hvort hún notaði berjatínu. Nei það gerði hún aldrei, það væri mikið meira gaman að tína með höndunum.
Alltaf var allt spikk og span í Svínafelli þegar gesti bar að garði og höfðinglegar móttökur og gestrisni var eitt hennar aðalsmerkja.
Mamma var mikil húsmóðir og einstök heim að sækja, þó hún væri nú ekki endilega tilbúin til að viðurkenna það sjálf. Hún var nefnilega hógvær að eðlisfari, ekki mikið fyrir að hrósa sjálfri sér en átti alltaf falleg orð handa öðrum oft með hnyttni og hressandi brosi á vör. Vinir okkar muna vel eftir þegar mamma kom og hrósaði þeim fyrir einhver uppátæki og var svo peppandi og hressileg, oft með sinni glettni. Því hún hafði gaman af að sjá dugnað, kraft og atorku hjá öðrum í einhverjum uppátækjum og hafði líka mikinn húmor og skilning fyrir því ef eitthvað fór ekki sem skyldi fara. Það skyldi því engan undra að hún ætti sjálf mikla dugnaðarforka, í sonum sínum þremur og dóttur, hraust fólk. Það kom fyrir þegar við strákarnir keyrðu vinum yfir fljótin og ákváðum að taka örlítinn útsýnistúr eftir söndunum, og þá upp á hóla og hæðir eða ákváðum að fara örlítið nýja leið yfir fljótin, og sögðum jafnvel, Ætli þetta verði ekki í lagi með glotti á vör. Meðan vinirnir tóku andköf í aftursætinu eins og þeim hefði verið boðið í rússíbana sat mamma pollróleg í framsætinu, nikkaði til vina okkar brosandi og sagði: Þetta er allt í fína lagi. Enda treysti hún sínu fólki fyllilega.
Hún var mjög félagslynd og hafði unun af að spjalla við skemmtilegt fólk og vera í góðum hópi þar sem var gaman, dans og söngur og gleðin við völd. Hún var húmoristi og var mjög glettin og hafði gaman af að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu sem kom oft í ljós í spjalli við hana.
Þegar barnabörnin fóru að koma, áttu þau hug hennar allan og var hún alltaf tilbúin að rétta út hjálparhönd og sóttust þau eftir að komast til ömmu og afa í Svínafelli.
Síðustu ár átti mamma við langvinn veikindi að stríða, en aldrei kvartaði hún heldur tók hún þeim öllum af æðruleysi. Síðustu mánuðina dvaldi hún á Heilbrigðisstofnun Suð-Austurlands við góða og hlýja umönnun og færum við þeim innilegar þakkir fyrir góða umönnun allt til hinstu stundar.
Þó ég sé látin, harmið mig ekki með tárum.
Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta, ég er svo nærri að hvert eitt ykkar tár snertir mig og kvelur, þótt látin mig haldið.
En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, sál mín lyftist upp í mót til ljóssins
Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur, og ég, þótt látin sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.
Hvíl í friði og þakkir fyrir allt sem þú gafst okkur og kenndir.
Gísli Sigurbergsson, Magnús Lárusson, Ásgeir Björnsson, Leifur Gíslason, Sigurbjörg Sigurðardóttir, Óskar Haukur Gíslason, Sigrún Elsa Bjarnadóttir, Erna Ragnhildur Gísladóttir og barnabörn.