Benedikt Stefánsson fæddist á Hlíð í Lóni 10. desember 1917. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands 4. apríl 2014. Hann var sonur hjónanna Kristínar Jónsdóttur og Stefáns Jónssonar. Börn Kristínar af fyrra hjónabandi voru: Guðlaug, Páll, Egill, Guðrún og Skafti. Börn Kristínar og Stefáns auk Benedikts voru: Ragna, Jón og Kristín. Fósturbróðir og alltaf talinn með í systkinahópnum var Einar Bjarnason. Af þessum systkinum eru á lífi Ragna og Jón. Benedikt ólst upp á Hlíð við hefðbundin sveitastörf þeirra tíma. Hinn 8. desember 1950 giftist hann Valgerði Sigurðardóttur frá Höfn. Hún er dóttir hjónanna Agnesar Bentínu Móritzdóttur og Sigurðar Eymundssonar. Börn Valgerðar og Benedikts eru: Stefán, Agnes Sigrún, Sigurður Eyþór, Benedikt Óttar og Kristín. Afkomendur þeirra eru alls 25. Valgerður og Benedikt bjuggu á Hvalnesi frá 1951 til 1987 er þau fluttu á Höfn í júní það ár. Benedikt var mikill bókamaður, las þær og safnaði, einkum þó ljóðabókum á seinni árum. Hann hlaut í vöggugjöf einstaka tónlistarhæfileika, átti orgel sem hann lék á af snilld og hafði mikla og fallega söngrödd. Benedikt átti frumkvæði að stofnun Karlakórsins Jökuls og Gleðigjafa, kórs eldri borgara á Höfn. Með þessum kórum söng hann um árabil. Auk kórstarfa vann hann að ýmsum öðrum félagsmálum. Þá hafði hann alla tíð brennandi áhuga á þjóðmálum, gekk kornungur í Sjálfstæðisflokkinn og studdi hann staðfastlega allt til æviloka. Benedikt lést á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands þar sem hann hafði dvalið í tæp þrjú ár. Útför hans fer fram frá Hafnarkirkju á Höfn í dag, 11. apríl 2014, kl. 14.

Eitt það erfiðasta við að verða svona hundgamall eins og ég er orðinn, er sú staðreynd að flestir vina minna eru dánir og ég sit einn eftir. Orðinn gagnslaus og sjónlaus og með sjóninni fór það sem veitti mér mesta afþreyinguna í ellinni.

Ég minnist þessara orða Benedikts vinar míns frá Hvalnesi sem hann hafði við mig fyrir skömmu, nú þegar hann hefur kvatt og haldið í slóð fornvina sinna til bjartari heima. Bensi var einhver sterkasti persónuleiki sem ég hef kynnst. Bar að mörgu leyti svipmót þess bæjar sem hann var jafnan kenndur við, Hvalnes í Lóni. Þar bjuggu þau Valgerður kona hans sín manndómsár, ráku bú og ólu upp börnin sín fimm. Lífsbaráttan var oft erfið. Hvalnesjörðinni fylgdi lítið ræktunarland og samgöngur þangað lengst af erfiðar, ekki sízt á veturna þegar vegarslóðinn lagðist undir snjó eða lónið flæddi yfir hann.

Ég hitti Bensa fyrst þjóðhátíðarárið 1974, þá nýfluttur til Hornafjarðar, þegar við Agnes fórum ásamt foreldrum hennar í heimsókn að Hvalnesi. Stofan var lítil í gamla Hvalneshúsinu en móttökurnar voru því betri og hjartanlegri. En eitt kom mér sérstaklega og ánægjulega á óvart. Þau kynni sem ég þegar hafði haft af Austur-Skaftfellingum bentu til þess að þeir, öfugt við Vestfirðingana mína, forðuðust að ræða pólitík mikið. Héldu sig allavega frá þrætum um slíka hluti. En Bensi byrjaði strax að yfirheyra mig um afstöðu mína til landsmálanna og þreifa á pólitískum skoðunum kauða. Þarna um tvítugsaldurinn var ég róttækur í skoðunum og fylgdi vinstrisinnum að málum. En Bensi var félagi í Íhaldsflokknum og síðan Sjálfstæðisflokknum til hinstu stundar. Og ekki að orðlengja það, við tókum þarna harða pólitíska rimmu, báðir rómsterkir en Bensi þó öllu fremur. Þrætan tók skjótan endi þegar Valgerður kom og sussaði á okkur, nú ættum við að fá okkur kaffi og hætta þessum hávaða. Þetta var ekki eina spjallið sem við Bensi áttum um pólitík og fleira og mismunandi skoðanir komu ekki í veg fyrir vaxandi uppáhald okkar hvor á öðrum.

Fjörutíu ár hafa liðið frá þessum fyrstu kynnum og margt breytt síðan. Benedikt og Valgerður brugðu búi af ástæðum sem hér verða ekki raktar og fluttu í Brautarholt á Höfn. Ég gerðist framsóknarmaður og Bensi hafði ýmislegt við stefnu sinna manna að athuga. Skoðanir okkar fóru stöðugt að falla meira saman og báðir höfðum við ánægju af að ræða málefni landsins, héraðsins og jafnvel heimsins. Alltaf var jafn gaman að koma í Brautarholt, spjalla við Bensa og fá kaffisopa hjá Valgerði. Jafnvel eftir að hann varð að flytja á hjúkrunarheimilið tókum við umræður um þjóðmálin. Ósammála um til dæmis síðustu forsetakosningar en sammála um annað, svosem vinstristjórnina heitna og Evrópusambandsmálin ekki sízt. Á hans löngu ævi höfðu íslendingar fengið fullveldi, síðan fullt sjálfstæði og loks náð valdi yfir fiskimiðum sínum. Hann gat ekki hugsað sér að glata þessu aftur og fékk að kveðja þessa jörð í frjálsu landi.

Bensi var hávaxinn maður, fremur grannholda og teinréttur í baki fram á elliár. Augun skörp og hárið dökkt lengst af. Hann var vinmargur og jafnan miðpunktur hvers mannfagnaðar. Hafði takmarkaða þolinmæði gagnvart skoðunum sem hann taldi kjánalegar, en betri málafylgjumaður vandfundinn í málum sem hann bar fyrir brjósti. Við mat á mönnum og málefnum fylgdi hann engum flokkslínum. Enginn gat fengið hann til að styðja það sem hann taldi rangt. Þó skrápurinn gæti virzt hrjúfur var hann eins og fleiri slíkir meyr undir niðri og tók málstað þeirra sem minna máttu sín.

Hann var valinn til margvíslegra trúnaðarstarfa. Í sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu áttum við samleið í nokkur ár. Þar var hann góður liðsmaður og einn forgöngumanna við uppbyggingu héraðsskjalasafns og útgáfu ritsins Skaftfellings. Bóklestur og tónlist skipuðu háan sess í lífi hans. Lék á orgel sér og öðrum til skemmtunar, var afburða söngmaður og einn stofnenda Karlakórsins Jökuls og meðal traustustu liðsmanna um áratugaskeið. Hann var félagslyndur og hafði unun af heimsóknum góðra vina og var þá gjarnan sungið og leikið undir á orgelið. Fjölfróður og minnugur var hann og sagði þannig frá mönnum og atburðum að unun var á að heyra. Eiginlega bjó Bensi yfir svo mörgum hliðum og eiginleikum að erfitt er að rekja. Lífsnautnamaður að eðlisfari má jafnvel segja eða bóhem. Enginn veit hvað úr honum hefði orðið við aðrar aðstæður, en Bensi var sáttur við líf sitt og þakkaði farsæld sína mest henni Valgerði sinni.

Það er svo ótalmargt sem flýgur um hugann þessa dagana sem ekki er rúm fyrir í stuttri minningagrein. En eftir situr söknuður og þakklæti.

Við Agnes færum Valgerði, börnum þeirra og öðrum afkomendum samúðarkveðjur okkar. Góða ferð til sumarlandsins bjarta kæri vinur.

Guðbjartur Össurarson

Guðbjartur Össurarson.