Bertel Berthelsen Jónsson fæddist á Skjaldvararfossi á Barðaströnd 6. mars 1924. Hann andaðist 24. mars 2014 á dvalarheimilinu Grund í Reykjavík. Bertel ólst upp á Skriðnafelli á Barðaströnd. Hann átti lengi heima á Framnesvegi 40, Reykjavík, og síðustu ár hefur hann verið á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Móðir Bertels voru Solveig Annike Emelíe Berthelsen, f. 5. júlí 1884, d. 26. mars 1956. Foreldrar hennar voru Jórunn Jónsdóttir, f. 1849, d. 1923, og Nikolaj Sophus Berthelsen, f. 1855, d. 1915, fyrsti málarinn í Reykjavík. Faðir Bertels var Jón Júlíus Guðjónsson, f. 14. nóvember 1895, d. 1. okt. 1931. Jón Júlíus var til heimilis ásamt foreldrum sínum, Guðjóni Jónssyni, f. 1856, d. 1926, og Sigríði Guðbjartsdóttur, f. 1859, d. 1945, á býli sem þá var nefnt Laufhóll og var í landi Skjaldvararfoss. Fósturforeldrar Bertels voru Jón Elíasson, f. 1883, d. 1944, og Jóhanna Ebenesersdóttir, f. 1874, d. 1949, sem bjuggu á Skriðnafelli ásamt dætrunum Valgerði Elínborgu Jónsdóttur, f. 1906, d. 1983, síðar á Patreksfirði, og Guðrúnu Elísabetu Jónsdóttur, f. 1904, d. 1986, sem bjó í Reykjavík. Systkini Bertels sammæðra voru Nicolína Berthelsen Bajer, f. 21. júní 1909, og Bragi Berthelsen Geirsson, f. 1. sept. 1912., d. 20. júlí 1913. Bertel stundaði ýmis störf, vann meðal annars í fiski á Patreksfirði, og á sumrin fór hann lengi vel og hjálpaði til við heyskap í sveitinni sinni. Í allmörg ár starfaði hann við vegagerð á Vestfjörðum. Einnig var hann við gerð Keflavíkurflugvallar og um tíma á sjó frá Reykjavík. Hann vann í frystihúsinu í Flatey og síðar hjá Granda í Reykjavík í mörg ár eftir að hann flutti til Reykjavíkur. Bertel var ókvæntur og barnlaus. Útför Bertels fór fram frá Fossvogskapellu 1. apríl 2014.
Kynni okkar Bertels eru ekki löng en það var fyrir tilviljun að ég fann grein á internetinu haustið 2007 þar sem minnst var á hann. Ég hef verið að grúska um ættir Berthelsens málara og Jórunnar konu hans og börn og barnabörn þeirra undanfarin 15 ár. Lítið var vitað um fjölskyldu afa míns í móðurætt og hefur það alla tíð vakið forvitni mína um afdrif þessa fólks. Berthelsen málari eignaðist átta börn en aðeins sex af þeim komust til manns. Tvær dætur, Helga og Ragnheiður, fluttu til Danmerkur. Helga (18931934) giftist dönskum manni, Axel Valdimar Möller (f.1896). Þau gengu í hjónaband í París og munu hafa búið þar um skeið en Helga lést í Kaupmannahöfn. Nýverið komst ég að því að þau hefðu eignast dótturina Ingu Möller (f. 1923). Þar endar slóð Helgu. Ragnheiður Þóra Berthelsen 1888. Hún málaði hjá föður sínum í Reykjavík en fór síðan í nám í húsgagnasmíði í Danmörku og var fyrsta íslenska konan til að verða húsgagnasmiður. Hún bjó alla sína ævi þar og í Frakklandi, ógift og barnlaus. Sophie , Jón Vigfus, Jóhanna langamma mín og Solveig móðir Bertels bjuggu hér á landi. Sophie Lovise Paline Berthelsen (18811956) var ljósmóðir í Ögurhreppi og síðar lengi í Súðavík. Hún átti heima síðustu árin í Hafnarfirði og var ógift og barnlaus. Jón Otti Vigfus Berthelsen (1887??) lærði bakaraiðn og var bakari á Norðfirði líklega frá 1906 til 1911. Hann var skráður bakaralærlingur í Bakaríinu í Stykkishólmi 19121913. Hann var ókvæntur og barnlaus. Ekkert er vitað um hann frá 1920 og engar heimildir hafa fundist um hann, en munnmælasögur ættarinnar segja að hann hafi látist af slysförum. Johanne Kristine Bertelsen (18861948) var verkakona í Garði og Hafnarfirði. Hún var ógift en eignaðist soninn Nicolaj Sófus Berthelsen, afa minn. Frá honum eru nú yfir 100 afkomendur. Solveig var daufdumb, sem kallað var, en ekki er vitað hvort hún bjó við aðra fötlun. Hún eignaðist tvö börn meðan hún bjó hjá foreldrum sínum í Reykjavík, Nicolínu Berthelsen Bajer og Braga Berthelsen Geirsson. Faðir Nicolínu var Asfred Bajer, danskur maður sem var bankaritari í Reykjavík. Faðir hans var Fredrik Bajer, danskur liðsforingi, rithöfundur, kennari og stjórnmálamaður sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1908. Nicolína var sett 7 ára í fóstur hjá fólki í Garðsaukahjáleigu í Rangárvallasýslu og var síðar vetrarstúlka í Vatnsholti í Grímsnesi. Árið 1930 var hún verkakona í Reykjavík. Hún trúlofaðist Johan Friberg Larsen, kyndara á Botníu, 1931 og flutti með honum til Danmerkur. Þau giftu sig í Kaupmannahöfn 1932 en skildu 1936. Ekkert er vitað um hennar afdrif eftir þann tíma. Eftir að Berthelsen málari lést var heimilið leyst upp og Solveigu komið fyrir í Sauðeyjum á Breiðafirði og tveimur árum seinna fór hún að Skjaldvararfossi á Barðaströnd þar sem Bertel fæddist. Á Fossi dvaldi hún til ársins 1942. Solveig var síðustu æviárin og til dánardags í Arnarholti á Kjalarnesi.
Afi minn, Sófus, hafði heyrt að Solveig móðursystir hans hefði eignast
tvö börn en vissi ekkert um afdrif hennar né barna hennar fyrr en hún var
komin að Arnarholti, en hún gat ekki tjáð sig um málefni sín. Það var mér
því mikið undrunarefni að sjá í grein á internetinu að hún hefði eignast
þriðja barnið, Bertel, og að hann ætti heima í Reykjavík. Í janúar 2008
hringdi ég til Bertels og spurði hvort ég og móðir mín mættum koma í
heimsókn, sem var auðfengið. Síðan þá hef ég haldið sambandi við frænda
minn þar til hann lést 24. mars síðastliðinn.
Bertel var einstæðingur og vissi fátt um móðurfólkið sitt. Hann mundi vel
eftir móður sinni þó hann hafi alist upp hjá annarri fjölskyldu í sömu
sveit, þar sem móðir hans gat ekki séð um hann. Föður sinn þekkti hann
lítið enda dó hann þegar Bertel var barn og faðir hans átti ekki önnur börn
en hann. Bertel fékk litlar upplýsingar um móður sína en hélt að hún hefði
verið dönsk. Hann taldi þó að hann ætti einhvers staðar systkini en vissi
ekkert hvað varð um þau. Fósturforeldrar hans voru fullorðin hjón sem áttu
tvær uppkomnar dætur. Heyra mátti á Bertel að honum þótti afskaplega vænt
um það fólk og það hafði reynst honum mjög vel.
Bertel var afskaplega ljúfur gamall maður en gat verið stífur á meiningunni
ef því var að skipta og hann hafði skemmtilegan húmor. Hann gat alltaf
gantast við og við, meira að segja þegar hann var orðin mjög veikur undir
það síðasta. Hann varð mjög undrandi yfir því þegar einhver frænka birtist
skyndilega heima hjá honum en honum þótti mjög gaman að heyra af móðurfólki
sínu. Þó hann hafi búið einn og var barnlaus og verið mikið einn með
sjálfum sér naut hann þess líka að hitta fólk. Lánið er mitt að hafa fengið
að kynnast Bertel og fengið að hafa samband við hann síðustu árin hans. Við
áttum ljúf samtöl og samveru þegar ég kom í bæinn og kom við á Grund. Ég
veit að það voru honum eins og mér mjög dýrmætar stundir. Sorg mín er meðal
annars fólgin í því að hafa ekki vitað um frænda minn miklu fyrr. Þá hefði
hann fengið að hitta afa minn frænda sinn og hans fólk. Afi minn Sófus
hefði haft gaman af því. Bertel hefði eflaust ekki verið eins mikill
einstæðingur síðustu árin ef svo hefði orðið.
Ég kveð þig, kæri vinur, með söknuði og ég trúi því að nú séu
fagnaðarfundir með þér og fósturforeldrum þínum þar sem þú ert nú. Ég er
mjög þakklát fyrir þau sex ár sem ég hef þó fengið að þekkja þig.
Bertel hafði tekist, þrátt fyrir að hafa alla tíð verið láglaunamaður, að
leggja fyrir dágóða peningaupphæð auk þess að eiga eigin íbúð. Hann eyddi
litlu fyrir sjálfan sig og var mjög nægjusamur varðandi eigin þarfir. Að
honum látnum renni þær eigur til félagsins Einstök börn að hans ósk.
Sesselja Vilborg Arnarsdóttir