Þorleifur Kristinn Ágúst Vagnsson fæddist á Bíldudal, Barðastrandarsýslu 5. október 1926. Hann lést í Reykjavík 24. apríl 2014. Foreldrar hans voru Vagn Þorleifsson, f. 1898, d. 1979, og Solveig Guðbjartsdóttir, f. 1909, d. 1969. Systkini: Gunnar, hálfbróðir, samfeðra, f. 1918, d. 1977, Valgerður, f. 1925, d. 1983, Halldóra, f. 1927, d. 2001, Margeir, f. 1929, d. 2000, Kristjana, f. 1931, Guðlaug, f. 1932, Elínborg , f. 1933, d. 1992, Vagna, f. 1935, Aðalheiður, f. 1937, Snævar, f. 1939, Ómar, f. 1940, Málfríður, f. 1944. Börn: Elfa, f. 1947, Róbert, f. 1950, Sólveig, f. 1951, Erla, f. 1952, Margrét Bryndís, f. 1955, Oliver Hinrik, f. 1958, Hafþór, f. 1961, Iris Rán, f. 1966, Sigurður, f. 1973. Þorleifur ólst upp á Ósi og Álftamýri í Arnarfirði. Hann var síðast búsettur í Skipasundi 39 í Reykjavík. Þorleifur, eða Leifur, eins og hann kallaði sig, stundaði margvísleg störf á ævinni. Hann var lengst af sjómaður á fiskiskipum og flutningaskipum á Íslandi og í Svíþjóð en starfaði síðast sem kjallarameistari á hótel Esju í Reykjavík. Hann átti sér margvísleg áhugamál t.d. smíðar, uppfinningar, berjatínslu, saftgerð og fjallagrasasöfnun. Einnig var hann annálaður dansmaður. Útför hans fer fram frá Áskirkju í dag, 9. maí 2014, og hefst athöfnin kl. 15.
Hér er lítil saga, sem er útdráttur úr ritgerðinni Fiðlan mín. Hún var skrifuð síðastliðið haust í tengslum við tónlistarnám mitt. Ég birti þessa litlu sögu hér til að minnast Þorleifs og þakka mínum kæra vini fyrir að beina mér inn á tómstundabraut, sem er mér nú til ómældrar ánægju.
"Hann Leifur er fastagestur í Kolaportinu. Kominn yfir átrætt, en fullur af orku og sköpunargleði. Hann gengur til berja á haustin, býr til söft og safa. Einnig tínir hann fjallagrös yfir sumartímann. Með þessu móti skapar hann sér smá auka tekjur umfram ellilaunin. Á veturna og fram á vorið dundar hann sér auk þess við að smíða bátalíkön og strengjahljóðfæri, enda sérlega laghentur. Á sínum yngri árum vann hann um tíma við píanó- viðgerðir, en þar segist hann hafa lært grunninn að uppbyggingu hljóðfæra.
Ég vissi af berja- og fjallagrasatínslunni og líka um smábátasmíðina, enda hefur hann oftast einn bát til sýnis og sölu hjá einhverjum í Kolaportinu. Einn laugardagseftirmiðdag heilsar hann upp á mig og heldur á fiðlu og boga. Ég vissi ekki um hljóðfærasmíðar hans þá og hvái um kaupin, en hann segist vera að taka þetta úr sölu, þetta seljist ekki. Fiðlan var gullfalleg, svona í augum leikmanns og ég spyr áfram af hverju hann sé að selja hljóðfærið. Ég bjó hana til og var að vonast til að hún seldist hérna, en það er víst borin von. Mín fyrsta hugsun var að gripurinn gæti verið fallegt veggskraut. Án frekari umhugsunar bauðst ég til að kaupa hljóðfærið (listaverkið í mínum huga). Neei... þessi er ráðstöfuð. Ég smíðaði tvær og ég skal selja þér hina.
Næsta laugardag var Leifur mættur með fiðluna. Hún var í nýrri fiðlutösku og fiðlubogi með. Í ljós kom við frekara spjall að langspil, sem hann smíðar seljast vel, en hann hefur einnig búið til ukulele og gítara. Við afhendinguna var forlagateningum mínum kastað.
Ég sagði það gjarnan að hvort sem ég hefði fiðluna til tónlistar eða sjónlistar, þá yrði hún mér kær vegna vinskapar okkar Leifs. Fyrst var að komast að því hvort þessi fornfálegi gripur væri aðeins skrautgripur. Eiginkona góðs vinar míns, sem vinnur með mér í Kolaportinu, spilar á fiðlu. Það lá beinast við að fá alvöru fiðluleikara til að handleika gripinn. Viku seinna kom niðurstaða. Strengirnir voru of langt frá hálsinum (gripbrettinu).
Við Jónas R. Jónsson fiðluviðgerðarmaður, erum góðir vinir. Það lá því beint við að sýna Jónasi fiðluna og fá hans álit. Ég bað hann jafnframt um að laga þennan galla með fjarlægð strengjanna frá gripbrettinu.
Nokkrum vikum síðar, þ.e. í lok ágúst kom ég við á verkstæðinu hjá Jónasi. Hann bað mig forláts, nú væru tónlistarskólarnir að byrja og hann hefði ekki undan og væri ekkert farinn að skoða fiðluna svo heitið gæti. Mér lá ekkert á, þurfti hvort eð er smá tíma til að huga að góðu veggplássi fyrir hana, en ummæli hans um skólana vöktu mig til umhugsunar. Jónas gaf mér góða von um að hægt væri að gera fiðluna spilunarhæfa. Strax í vikunni eftir hringdi ég í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, til að vita um möguleika á námi. Bjóst við að vera allt of seinn fyrir haustönn. Ég gat komist strax að í tónfræði, en það var biðlisti í fiðlukennslu. Gott og vel, tónfræðin er grunnurinn svo ég sló til og nú voru miðvikudagskvöld frátekin í tónfræði út árið og nafn mitt komið á biðlista í fiðlunámi.
Viku seinna kom ég við hjá Jónasi til að segja honum framvinduna og hann sagði mér að þetta væri ekkert mál. Hér er góð byrjenda fiðla, sem ég ætla að lána þér. Hafðu hana hjá þér og þá verðurðu tilbúin ef kallið kemur.
Við fyrstu skoðun Jónasar á fiðlu Leifs byrjaði hann á því að skoða hvar sálin væri staðsett. Lítill sívalur kubbur, sem staðsettur er í hljómhólfi fiðlunnar og býr til hinn einstaka hljóm hverrar fiðlu. Hæð og staðsetning stólsins, sem strengirnir strekkjast á, getur verið breytileg og hefur einnig áhrif á hljóminn og líka á spilunareiginleika fiðlunnar (t.d. hæð strengja frá gripbrettinu eða hálsinum). Þessi atriði voru auðvitað í góðu lagi á lánsfiðlunni, en þurfti að gaumgæfa vel á fiðlu Leifs.
Rúmum mánuði eftir að ég byrjaði námið á lánsfiðluna kom niðurstaða Jónasar á fiðlu Leifs, bæði góð og slæm. Það góða er að hún hefur fallegan hljóm (sál). Slæmskan var að halli gripbrettisins var of lítill og til að gera fiðluna spilvæna þyrfti að breyta hallanum. Næst þegar að ég hitti Leif sagði ég honum niðurstöðuna. Hann tók því létt, bað mig um að færa sér fiðluna aftur. Jónas hafði gefið mér upp þumalputtaregluna um samhengið milli halla gripbrettisins annars vegar og strengjastólsins hins vegar, en fjarlægð strengjanna frá gripbrettinu ræðst m.a. af þessu tvennu. Viku síðar skilaði Leifur mér fiðlunni og nú var hún komin í lag.
Þegar hér var komið sögu var ég orðinn vanur lánsfiðlunni. Fiðla Leifs er með aðeins flatari stól og því þarf að hafa gott vald á fiðluboganum. Sem sagt ekki sérlega byrjendavæn. Eftir nokkrar vangaveltur og gott spjall við Jónas varð úr að ég keypti lánsfiðluna, enda hentugri fyrir byrjanda. Þegar kunnáttan og leiknin er orðin meiri verður Leifs-fiðlan mér auðveldari viðfangs.
Nú er rúmt ár liðið frá því þetta ævintýri hófst. Í raun um tvö ár frá því að Leifur birtist með heimasmíðuðu fiðluna sína. Kynni mín af þessu 16. aldar, en þó síunga, hljóðfæri hefur fært mér skemmtilegt og krefjandi verkefni. Ekki aðeins að geta leikið á fiðlu, heldur að ná þeirri leikni að geta spilað skammlaust á fiðluna sem ég keypti í raun til að eiga sem veggskraut. Í ellinni verður hún í staðinn mín sáluhjálp, þökk sé Leifi."
Sigurður T. Garðarsson.