Geirrún Tómasdóttir fæddist í Vestmannaeyjum þann 2. apríl árið 1946. Hún andaðist á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi þann 29. apríl 2014. Foreldrar hennar voru Dagný Ingimundardóttir, f. 27.8. 1914, d. 16.4. 2011 og Tómas Geirsson, f. 20.6. 1912, d. 24.2. 1991. Hún var yngst af þremur systkinum en þau eru: Helga, f. 6.7. 1936 og Sigurður, f. 11.5. 1942. Geirrún giftist 26.11. 1966 Jóhannesi Kristinssyni, f. 11.5. 1943, d. 14.7. 1990. Börn þeirra eru: Tómas, f. 23.5. 1967, maki Margrét Sigurgeirsdóttir, f. 6.9. 1968 og börn þeirra eru Geirrún, f. 1990, Sandra Berglind, f. 1994, Ásgeir Jóhannes, f. 1995 og Davíð, f. 2005. Lúðvík, f. 26.1. 1969, maki Ingibjörg Þorsteinsdóttir, f. 20.11. 1972 og börn þeirra eru Þórey, f. 1998, Arnar Þór, f. 2001, Anna María, f. 2005 og Ingi Þór, f. 2008. Steingrímur, f. 14.6. 1973, d. 1.3. 2012, maki Jóna Dís Kristjánsdóttir, f. 17.5. 1976 og börn þeirra eru Kristjana María, f. 1997 og Jóhanna Rún, f. 2007. Hlynur, f. 5.9. 1974, maki Aldís Björgvinsdóttir, f. 3.2. 1974, og börn þeirra eru Dagný Rós, f. 2005 og Jóhannes Kristinn, f. 2007. Hjalti, f. 6.9. 1974, maki Þórdís Sigurðardóttir, f. 29.10. 1976, og börn þeirra eru Sigurður, f. 2004 og Vigdís Anna, f. 2008. Helga, f. 20.2. 1980, maki Guðmundur Helgi Sigurðsson, f. 15.8. 1979, og börn þeirra eru Jóhannes Helgi, f. 2010 og Emilía Eyrún, f. 2011. Sæþór, f. 1.9. 1983, maki Svanhildur Hanna Freysteinsdóttir, f. 15.4. 1988, og börn þeirra eru Kristinn Freyr, f. 2008, Atli Már, f. 2011 og Freysteinn Bergmann, f. 2013. Á sínum yngri árum starfaði Geirrún í verslun foreldra sinna, Framtíðinni, til 1967, gerist síðan móðir af fullum krafti. Eftir lát manns síns starfaði hún fyrst hjá Gámavinum en hóf síðan störf hjá Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 1994 og var þar starfandi þar til veikindi hennar tóku að ágerast í júní 2013. Geirrún og Jóhannes giftu sig og hófu búskap á Kirkjuvegi 72, hjá foreldrum hennar. Síðan byggðu þau Bröttugötu 9 árið 1968 og bjuggu þar að undanskildu gosárinu 1973 er hún þurfti að búa í Reykjavík með börnunum meðan Jóhannes varð eftir við störf í eyjum. Geirrún flutti síðan aftur til Eyja með börnin í nóvember 1973 og bjó þar til æviloka. Útför Geirrúnar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 10. maí 2014, og hefst athöfnin kl. 14

Elsku mamma mín.

Þar kom að því að til kveðjustundar kæmi. Þá hellist yfir mig söknuðurinn og minningarnar. En nú er komið að leiðarlokum þínum. Það er nú einu sinni hluti af okkar æviskeiði.

Brattagata var heimili þitt og pabba. Þar réðir þú ríkjum með krafti og festu. Þú varst úrræðagóð og það þurfti líka til að hafa aga á hjörðinni. Gestrisni var þitt sérfag, veisluhöld voru þitt uppáhald og þóttir þú höfðingi heim að sækja.

Eftir fyrsta ár okkar saman hjá ömmu og afa á Kirkjuveginum, þar sem þú fæddist, fluttum við á Bröttugötuna og horfðum upp á systkinahóp minn stækka það mikið að ég missti út úr mér, þegar þú tilkynntir okkur systkinunum að von væri á því sjöunda, hvort þetta ætlaði aldrei að enda og ekki stóð á svörum en þar sem ég væri að fara í skóla upp á land þá væri herbergið mitt laust. Þótt að ég hafi ekki skilið hvað ykkur gekk til í den, þá varst þú að framleiða gersemar í konungsríki þitt. það var alltaf líf og fjör á Bröttugötunni, allir leikfélagar okkar systkina fylltu húsið og var það aldrei neitt vandamál. Þá vorum við systkinin líka búin að taka í notkun íþróttasvæði í húsinu og var gangurinn aðalleikvangurinn. Þar fengu að fjúka ljósakrónur og spegill. Allir smáhlutir voru faldir eða varðir. Feluleikir, skotbardagar, kubbaleikir og fleira voru dreifðir um allt hús. Alltaf hélstu ró þinni á lærdómsárum mínum þar sem utanbókar ljóðalærdómur og annað var að fara með mig og úrræðasemi þín beindi mér á rétta braut. Einnig þurfti að hafa sterkar taugar þegar lúðrablástur minn tók að berast um húsið. Þú varst mikið fyrir fjölskylduna og tókst snemma upp á því að drífa hana í sumarferðir í Kjósina með hjólhýsið í eftirdragi. Ekki var ærslagangurinn minni þar.

Þú varst mikill íþróttaunnandi,varst í handbolta á þínum yngri árum með Þór. Þóttir hæfileikarík og stundaðir hann af krafti áður en þú snerir þér að móðurhlutverkinu. Öll við systkinin voru mikið í íþróttum og studdir þú okkur heilshugar. Bókalestur þinn á uppvaxtar árum þínum var þér mikið kappsmál.

Síðar snerist líf þitt um ömmuhlutverkið en þar var af nógu að taka með barnabörnin 19. Þú varst sannur vinur vina þinna og áttir góðan hóp af þeim.

Fótbolta og handboltaáhugi þinn var ódrepandi og þurftir þú helst að sjá alla þá viðburði sem þú hafðir tök á. ÍBV, ÞÓR og Liverpool voru þitt uppáhald.

Aldrei kvartaðir þú um heilsu þína og sagðir að hún væri fín, eyddir öllu slíku tali en hafðir allar þínar áhyggjur af okkur og öðrum. Alltaf varst þú til staðar elsku mamma mín, vildir allt fyrir aðra gera og áttir til að gleyma sjálfri þér.

Þú starfaðir í verslun foreldra þinna, Framtíðinni, gerðist móðir, starfaðir í Gámavinum og yfir 20 ár á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja allt þar til veikindi þín tóku sinn toll eftir sumarfrí þitt í fyrra. Það er oft með ólíkindum hvað lagt er á eina manneskju, búin að sjá á eftir Jóa sínum og syni á besta aldri, foreldrum og tengdaforeldrum. Alltaf stóðst þú sem Heimaklettur.

Þetta er brot af samverustundum okkar sem tengja okkur saman og vináttu okkar.

Ég hugga mig í sorginni að þú sért komin á betri stað. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa haft þig svona lengi í lífi mínu.

Blessuð sé minning þín og guð geymi þig.

Tómas.