Hrönn Brandsdóttir fæddist í Vík í Mýrdal 1. október 1935. Hún var dóttir hjónanna Guðrúnar Jóhannesdóttur frá Skjögrastöðum á Völlum, f. 13. 5. 1914, d. 19.1. 1988, og Brands Jóns Stefánssonar frá Litla-Hvammi, f. 20.5. 1906, d. 15.10. 1994. Var hún önnur í röð fimm systkina, en þau eru: a) Jóhannes Stefán, f. 20.3. 1933, c) Birgir, f. 17.5. 1941, d. 26.9. 2007, d) drengur, f. 3.5. 1944, d. sama dag, e) Hörður, f. 25.2. 1948. Hrönn giftist 1. október 1955 Guðjóni Þorsteini Þorsteinssyni, vegaverkstjóra, frá Ketilsstöðum, f. 14.5. 1928, d. 21.6. 2001. Foreldrar Guðjóns voru hjónin Margrét Grímsdóttir frá Skeiðflöt, f. 26.2. 1895, d. 20.5. 1971 og Þorsteinn Gunnarsson frá Steig, f. 29.12. 1893, d. 10.9. 1934. Hrönn og Guðjón eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Guðrún Brynja, býr í Vík, f. 14.6. 1955. Börn hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar, Guðmundar Elíassonar, eru a) Sigurður Elías, f. 29.11. 1975, maki Vilborg Smáradóttir, eiga þau tvö börn. b) Guðj ón Þorsteinn, f. 14.4. 1981, sambýliskona Sæunn Elsa Sigurðardóttir, þau eiga tvö börn. c) Jóhannes Hrannar, f. 2.7. 1982, sambýliskona, Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, þeirra börn eru þrjú. Sambýlismaður Brynju er Sævar B. Arnarson. 2) Hafsteinn, býr í Reykjavík, f. 9.4. 1957, maki Kristín Gísladóttir. Börn: a) Sigríður Ákadóttir, f. 24.12. 1976, maki Örn Ingi Arnarson, þau eiga þrjú börn. b) Ægir, f. 14.10. 1984, sambýliskona, Kolbrún Amanda Hasan, eiga þau tvo syni. c) Máni, f. 13.6. 1993, unnusta hans er Elínrós Þorkelsdóttir. 3) Brandur Jón, býr á Selfossi, f. 15.7. 1960, maki Inga Björt H. Oddsteinsdóttir. Börn: a) Hrönn, f. 21.7. 1984, sambýlismaður: Þórður Guðni Ingvason, þau eiga tvö börn. b) Þorsteinn, f. 21.5. 1987. 4) Margrét Steinunn, býr á Ljónsstöðum í Flóa, f. 25.5. 1968, maki: Tyrfingur K. Leósson. Börn: a) Guðbjörg Hrönn, f. 17.9. 1996, b) Arndís Hildur, f. 20.12. 1998, c) Guðjón Leó, f. 20.5. 2001. Hrönn flutti á fyrsta ári með foreldrum sínum til Reykjavíkur, en flutti aftur til Víkur 1942 er foreldrar hennar hófu rekstur á hóteli þar. Þau Guðjón reistu sér húsið „Skaftafell“ í Vík og var þar síðan hennar heimili, fyrir utan síðustu tvo mánuði er hún var á Dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík. Hrönn var heimavinnandi húsmóðir meðan börnin uxu úr grasi, síðar var hún ráðskona hjá Vegagerðinni, í vegavinnuflokki eiginmanns síns. Fóru þau þá víða um land og kynntust um leið mörgu fólki, sem þau héldu sambandi við síðan. Síðustu árin á vinnumarkaði vann hún í afgreiðslu Pósts og síma í Vík. Hrönn var söngvin og félagslynd og sem barn var hún sísyngjandi og kát. Þau hjón voru í áratugi í kirkjukórnum í Vík, þá æfði hún og stjórnaði karlakórnum 8 í lagi, sem Guðjón söng í. Einnig var hún í Kvenfélagi Hvammshrepps í mörg ár og um tíma formaður þess. Sömuleiðis voru þau hjón virk í félagsstarfi eldri borgara í Mýrdal. Hrönn hafði yndi af allri handavinnu og eru margir muna hennar til á heimilum fjölskyldunnar. Hrönn var hvatamaður að stofnun Tónlistarskólans í Vík. Hrönn verður jarðsungin frá Víkurkirkju í dag, 17. maí 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Frá því ég fæddist hef ég átt tvö heimili.  Eitt heima hjá foreldrum mínum og annað við Ránarbraut 5 í Vík, húsi ömmu minnar og afa.  Dyr þessa húss hafa alltaf staðið opnar fyrir mér og ég mun aldrei gleyma öllum þeim skiptum sem við renndum í hlað og amma og afi stóðu á svölunum til að taka á móti okkur.  Í róti lífsins var svo dýrmætt að eiga athvarf þar sem lítið breyttist og flest stóð í stað.  Hjá ömmu fann ég alltaf öryggi og hlýju og henni var alltaf svo annt um að okkur liði vel og gengi vel.  Hún bar svo endalaust tillit til annars fólks og setti alltaf aðra í fyrsta sæti.  Hún var svo óeigingjörn og kærleiksrík.  Ég er svo þakklát fyrir allar litlu minningarnar um hana, eins og þegar hún hjálpaði okkur að skrifa bréf heim, hrósaði okkur fyrir myndirnar okkar, hjálpaði mér að prjóna vettlingana, horfði með mér á ljósmóðurina á RÚV, þegar hún spilaði með mér á píanóið, keyrði mig í vinnuna, söng með okkur, knúsaði okkur, hlustaði á okkur, gaf okkur ráð, eldaði fyrir okkur og var alltaf til staðar.  Hún hafði svo endalaust mikla umhyggju og löngun til að hjálpa hverjum manni, hvað sem leið tungumálaörðugleikum eða öðrum erfiðleikum.  Hún hýsti fólk sem talaði allt annað tungumál og gaf umkomulausum útlendingi gleðileg jól.  Hún styrkti fjárhagslega dreng úti í Líberíu og ég sá umhyggjuna sem hún bar fyrir honum og hvað henni var annt um að honum liði vel þrátt fyrir að hún hefði aldrei og myndi aldrei hitta hann.

Hún elskaði tónlist og elskaði að syngja.  Henni fannst svo gaman að heyra okkur syngja og spila á hljóðfærin okkar.  Mér þótti svo vænt um hvað þetta hélt sér eftir að hún fékk blóðtappann.  Hún hélt áfram að syngja þó hún talaði ekki.  Ég man líka hvað hún hafði miklar áhyggjur af því að verða hjáróma.  Hún vildi alltaf koma vel fyrir og hljóma vel.  Hún var alltaf snyrtilega til fara og fór ekki út úr húsi án varalitarins.  Ímyndin skipti miklu máli fyrir hana og hún vildi vera góð fyrirmynd.  Hún var mjög sjálfstæð og vildi ekki vera upp á aðra komin.  Hún er sterkasta kona sem ég þekki því þrátt fyrir að vera aldrei hraust sýndi hún það aldrei og kvartaði ekki.  Hún ákvað að lifa lífinu þrátt fyrir misgóða heilsu og halda alltaf áfram.  Hún vildi ekki vera neinum til ama eða leiðinda og setti sig alltaf í annað sæti á eftir öðrum.  Ég get sótt svo margar fyrirmyndir til ömmu og ég mun búa að sambandinu við hana alla ævi.  Ég vildi bara óska þess að ég hefði getað gert meira fyrir hana til baka.  Amma hvatti okkur krakkana alltaf til að fara út og gera eitthvað saman frekar en að hanga inni með henni.  Samt þykir mér svo vænt um stundirnar með henni, þó við gerðum stundum lítið annað en að prjóna, lesa blöðin eða rúnta um Mýrdalinn.  Hún var alltaf að vinna eitthvað fallegt í höndunum, eitthvað handa afkomendunum, afmælis-, jóla- eða tækifæriskort, eða bara eitthvað.  Hún varð bara alltaf að vera að gera eitthvað, gefa eitthvað af sér.

Það er svo ótrúlega margt um hana ömmu sem er ekki hægt að færa í orð.  Þetta er bara tilfinning, einhver vissa um að vera hennar hér hafði tilgang.  Stóran tilgang.  Hún hafði áhrif á alla sem hún hitti og hreif alla með sér.  Hún hvetur mig til dáða.

Elsku amma mín, ég veit að nú ert þú ert á betri stað, þar sem þú verður hraust og frísk að eilífu og söngur mun hljóma um allar aldir.  Ég er viss um að afi hefur tekið á móti þér með söng.  Ég er glöð að þér líður vel núna, en ég mun alltaf sakna þín, því þú hafðir mikil áhrif á líf mitt og varst alltaf stór hluti af því.  En þú ert aldrei alveg farin.  Minning þín lifir.

Við biðjum þig að fara í friði vina

En skilja eftir kærleikssporin þín.

Þó dynji í brautu lífsins skjálftahrina

Vor stafur enn og stytta´er minning þín.

/

Eitt bros er eins og sólargeisli í sinni

Sem svælir burt hið óvelkomna og sára.

Sól þín skín í sálarkytru minni

Sælt á milli marglitaðra tára.

/

Gleymdu ekki okkur sem þin sakna

Á jörðu eru tárin ennþá sár.

Hvar sem þú munt næstu stundu vakna

Og enn að nýju opna þínar brár.

/

Allt gott vil ég biðja þig að geyma

Því allt gott áttu skilið amma mín.

Ég vona að við sjáumst aftur heima

Því alla ævi mun ég sakna þín

/

Viltu taka okkur vel í móti

Þegar loksins finnumst við á ný?

Í lífinu þótt hrasi ég og hnjóti

Ég gleði finn er sest á snjóhvítt ský.

Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir