Steinunn Þórleifsdóttir, húsmóðir, fæddist í Garði, Þistilfirði, 23. maí 1932. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2. mars 2014. Foreldrar hennar voru Sigríður Helgadóttir, húsfreyja, frá Róðhóli í Sléttuhlíð í Skagafirði, f. 5.11. 1892, d. 28.5. 1985 og Þórleifur Benediktsson, fæddur á Akurseli í Öxarfirði, bóndi í Garði í Þistilfirði, síðar bóndi í Efri-Hólum í Núpasveit , f. 10.10. 1894, d. 22.9. 1984. Bróðir Steinunnar var Lárus Benedikt Þórleifsson, f. 21.6. 1920, d. 21.5. 1968. Steinunn giftist Þórhalli Guðjónssyni frá Grindavík hinn 20. júlí 1957. Þórhallur fæddist 16.7. 1931, d. 25.12. 1998. Foreldrar hans voru Sigrún Kristjánsdóttir og Guðjón Klemensson. Dóttir Steinunnar er 1) Hulda Bjarnadóttir, f. 15.12. 1952. Maki Jóhann Geirdal, f. 15.11. 1952. Dóttir Huldu er a) Magnea Ólafsdóttir, f. 28.11. 1969, dóttir hennar er Sara Antonía Magneudóttir, f. 1.7. 2004. Börn Huldu og Jóhanns eru: b) Sigríður Lára Geirdal, f. 16.12. 1979, dóttir hennar er Selma Rán Melsted Hlinadóttir, f. 26.2. 2001. c) Steinþór Geirdal Jóhannsson, f. 15.8. 1981. Maki Alena Yudziankova. Synir Steinunnar og Þórhalls eru: 2) Guðjón Þórhallsson, f. 8.4. 1957. Maki Guðveig Sigurðardóttir, f. 25.6. 1962. Dóttir Guðveigar: a) Elísa María Oddsdóttir, f. 13.11. 1980, sambýlismaður Jóhann Þormar. Sonur Jóhanns er Ingólfur Ari Þormar, f. 15.5. 1998. Börn Guðjóns og Guðveigar eru: b) Þórhallur Guðjónsson, f. 20.9. 1987. c) Lovísa Guðjónsdóttir, f. 6.11. 1996, unnusti Bjarki Þór Valdimarsson. 3) Lárus B. Þórhallsson, f. 9.11. 1961, sambýliskona Hrönn Auður Gestsdóttir, f. 7.11. 1966. Dætur Lárusar eru: a) Ólöf Steinunn Lárusdóttir, f. 20.4. 1985, sonur hennar er Sölvi Steinn Jónsson, f. 6.4. 2012. b) Ýr Lárusdóttir, f. 28.4. 1989, sambýlismaður Finnur Ólafsson, sonur þeirra Erik Finnsson, f. 8.6. 2012. Sonur Hrannar er c) Alexander Már Sigurgeirsson, f. 16.11. 1989, unnusta Una Árnadóttir. Steinunn verður jarðsungin frá Keflavíkurkirkju í dag, 11. mars 2014, kl. 13.
Í dag, 23. maí er afmælisdagur móður minnar Steinunnar Þórleifsdóttur og hefði hún orðið 82. ára í dag en einnig er brúðkaupsdagur minn þennan sama dag. Steinunn fæddist í Garði í Þistilfirði. Hún var dóttir hjónanna Sigríðar Helgadóttur, húsfreyju, fædd á Róðhól í Sléttuhlíðarhreppi í Skagafirði þann 5. nóvember 1892 d. 28. maí 1985 og Þórleifs Benediktssonar, fæddur í Akurseli í Öxarfirði þann 10. október 1894 d. 21. september 1984 en Þórleifur var bóndi í Garði í Þistilfirði, síðar á Efri-Hólum í Núpasveit. Bróðir Steinunnar var Lárus Benedikt Þórleifsson, fæddur þann 21. júní 1920 d. 21. maí 1968. Steinunn giftist eiginmanni sínum Þórhalli Guðjónssyni þann 20. júlí 1957 á Efri-Hólum, og var ég þá skírður. Æskuheimili mitt var Lyngholt 17 í Keflavík og hófu foreldrar mínir búskap þar.
Steinunn var mikil hagleikskona og saumaði föt á okkur systkinin og marga fleiri. Einnig bakaði hún og skreytti þær flottustu tertur sem ég hef séð, því þar sem og í saumaskapnum var 100% fagmennska. Frágangur á því sem hún saumaði var það sem ég lærði og nota er ég kaupi mér flíkur, þá skoða ég alltaf saumana og hvernig flíkin fellur að skrokknum. Gaman er að geta þess, að þegar móðir mín þræddi nálar í saumavél, þá gerði hún það án þess að horfa á nálaraugað, heldur gerði það blindandi næmni í fingrunum var slík. Gott var að koma til Steinunnar, móður minnar þar sem hún tók vel á móti gestum og eftir að hún var orðin ekkja, fækkaði heimsóknum til hennar ekki, þótt síður væri hún var alltaf sama Steinunn eftir sem áður og þótti gaman að fá gesti til sín og var alltaf til með kaffinu. Gestrisni var henni í blóð borin og það sýndi sig vel. Á sumrin og þar til foreldrar hennar fluttu suður til Keflavíkur árið 1968, var hún ávallt fyrir norðan með okkur systkinin þar sem við fengum að vera frjáls og kannski þá sérstaklega ég (Guðjón) þar sem ég var atorkusamur með eindæmum og kannski ofvirkur skv. nútíma skilgreiningu. Er mér minnisstætt þegar Lalli frændi, móðurbróður minn, fékk mig til að ná í kindur og sagði: ,,Guðjón, náðu í þessa! Rauk ég af stað eins og smalahundur, æddi út í hraunið og kom með ána til baka sigri hrósandi. Eitt sinn er móðir mín var að fara heim eftir dvölina á Efri-Hólum, þakkaði faðir hennar fyrir dvölina en fannst hún þó hafa verið heldur stutt, þótt hún hefði staðið yfir í heilar 7 vikur. Það sem maður átti góð æskuár fyrir norðan og leitar maður enn þangað en seinustu 20 árin hef ég og mín fjölskylda farið norður í Núpasveit og dvalið þar og alltaf sendi mamma mig með blóm á leiði foreldra sinna og bróður. Þó móðir mín hafi ekki farið mikið norður í Núpasveit eftir að bróðir hennar féll frá og foreldrar fluttu suður, hugaði hún hlýtt til sveitarinnar og sýndi það sig í frásögnum dagblaða sem hún klippti út og setti í möppu sem og minningargreinar sem hún varðveitti um sveitunga sína. Mamma kenndi sig alla tíð við Efri-Hóla í Núpasveit en þangað flutti hún með foreldrum sínum og bróður snemma vors 1945 en Þórleifur afi minn tók við jörðinni Efri-Hólum af Guðrúnu Halldórsdóttur, frænku sinni en hún var ekkja Friðriks Sæmundssonar og hafði hún búið á jörðinni með aðstoð Sæmundar sonar síns.
Er móðir mín var áttræð var haldið upp á afmælið heima hjá mér í Lyngholti þar sem öll fjölskyldan kom saman til að samfagna. Við skoðuðum m.a. gamlar ,,slides-myndir er foreldrar mínir áttu og sem barnabörnin mörg hver höfðu aldrei séð en höfðu öll mjög gaman af. Varð einu barnabarnanna á að segja: ,,Amma, fórst þú í útilegu? og var mjög hissa, því móðir mín talaði aldrei um sjálfan sig, heldur helgaði sig því hlutverki að hlúa að öðrum. Fjölskyldumeðlimir eiga allir handverk eftir Steinunni og voru handverk hennar dæmi um nákvæmni og listhneigð sem byrjaði snemma. Steinunn saumaði t.a.m. sinn fyrsta kjól aðeins 11 ára gömul en hafði enga fyrirmynd aðra en þá sem bjó í huga hennar og snemma var hún fengin til að vera til aðstoðar á saumanámskeiðum sem haldin voru í sveitinni og þá var hún aðeins unglingur og sjálfmenntuð í listgrein sinni.
Móðir mín hélt fallegt heimili og sá um sig alla tíð; þvoði þvott, eldaði, saumaði og bakaði, alveg fram að því er hún fór á spítala er lærleggur fór í sundur við það eitt að ganga um inni hjá sér. Varð það ljóst, að frá og með þessum tímapunkti hafði sjúkdómurinn tekið völdin. Guðveig, tengdadóttir hennar var heima við þegar þetta gerðist og fór með tengdamóður sinni í sjúkrabílnum til Reykjavíkur og bað mamma hana um að vera hjá sér sem og hún gerði og hugsaði Guðveig mjög vel um tengdamóður sína, tengdamóður sem reyndist í raun meira sem móðir alveg frá því að Guðveig kom inn í fjölskylduna mína ung að árum með 1 árs gamla dóttur sína, Elísu Maríu uppeldisdóttur mína. Mamma gerði aldrei upp á milli barnanna, hvernig sem þau komu inn í fjölskylduna. Lífshlaup Steinunnar móður minnar var alla tíð að hugsa um aðra og hlúa að öðrum og eiga margir góðar minningar um elskulega móður, tengdamóður, ömmu og langömmu hana Steinunni Þórleifsdóttur, frá Efri-Hólum í Núpasveit.
Þinn sonur,
Guðjón Þórhallsson