Guðbjörg Þorsteinsdóttir, hárgreiðslumeistari, vökukona og húsmóðir, fæddist á Borgarfirði eystra 10. október 1918. Hún andaðist 23. maí 2014. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Metúsalem Jónsson, bóndi, útgerðarmaður, kaupfélagsstjóri, alþingismaður, skólastjóri og bókaútgefandi, f. 20.8. 1885, d. 17.3. 1976, og kona hans Sigurjóna Jakobsdóttir, húsmóðir og leikkona, f. 16.9. 1891, d. 18.6. 1992. Auk Guðbjargar voru systkinin ellefu: 1) Þórir Jónas, f. 4.12. 1909, vélsmiður, látinn, sammæðra. 2) Jónborg, f. 27.11. 1910, húsvörður Gagnfræðaskóla Akureyrar, látin. 3) Jakob Vilhjálmur, f. 1.7. 1912, sjómaður og verkstjóri, látinn. 4) Stúlka sem dó í fæðingu. 5) Óli, f. 1915, dó fimm ára. 6) Þórhalla, f. 18.5. 1920, íþróttakennari og leikkona. 7) Halldór, f. 18.5. 1921, eigandi Málaskóla Halldórs. 8) Drengur sem dó fjögurra mánaða. 9) Jón Óli, f. 31.7. 1925, rennismiður. 10) Þórhallur, f. 5.10. 1929, bókbindari, látinn. 11) Anna Lára, f. 10.6. 1931, húsmóðir og símavörður. Guðbjörg giftist 24.3. 1944 Gunnari Halldóri Steingrímssyni, kaupsýslumanni með meiru, f. á Flateyri 23. desember 1922. Hann lést í Reykjavík 28. júní 2002. Þau skildu. Börn Guðbjargar og Gunnars eru: 1) Halldóra Kristín, f. 26.7. 1944, búsett í Anchorage í Alaska, gift Bjartmari Sveinbjörnssyni prófessor og eiga þau tvö börn, Önnu og Björn. 2) Þorsteinn Metúsalem, prentari, f. 2.9. 1945, d. 16.5. 1982, var kvæntur Ingibjörgu Valdimarsdóttur handavinnukennara og eru börn þeirra þrjú, Valdimar, Ingibjörg og Gunnar Bragi. 3) Steingrímur leiðsögumaður, f. 27.4. 1947, var kvæntur Vigdísi Hjaltadóttur, kennara í HR, dóttir þeirra er Hulda. 4) Gunnar Halldór, atvinnuráðgjafi, f. 13.10. 1958, kvæntur Svövu Pétursdóttur, nýdoktor við HÍ, var kvæntur Eddu Ólafsdóttur og eiga þau þrjár dætur, Kristínu Hrönn, Lilju Björgu og Bergþóru Sól. Barnabarnabörn Guðbjargar eru tólf talsins. Guðbjörg ólst upp á Borgarfirði eystri. Fjölskyldan fluttist til Akureyrar 1921 en Guðbjörg var síðan nokkur sumur og einn vetur eftir það á Borgarfirði eystri. Hún ólst einnig upp í Hafnarstræti 37 og Hafnarstræti 96, „París“, á Akureyri. Með manni sínum bjó hún og byggði upp eftir bruna Hafnarstræti 100, Akureyri. Guðbjörg flutti 1950 frá Akureyri og bjó síðan í Reykjavík, Njarðvíkum og Kópavogi. Eftir venjubundna skólagöngu hóf Guðbjörg að nema háriðn 1933 á Akureyri, þá 14 ára gömul, og varð hárgreiðslumeistari. Guðbjörg átti og rak nokkrar hárgreiðslustofur, hennar fyrsta stofa sem hún átti var Femina á Akureyri og síðan nokkrar stofur í Reykjavík, Njarðvík og Kópavogi. Guðbjörg gerðist vökukona hjá systrunum á Landakoti 1964 og 1966 á Kópavogshæli á næturvöktum til ársins 1988 þegar hún varð sjötug. Eins starfaði hún um tíma meðfram vökukonustarfinu í býtibúri Elliheimilisins Grundar. Guðbjörg var einn af stofnendum Kantötukórs Akureyrar og söng alt. Útför Guðbjargar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 2. júní 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Af moldu ert þú kominn, að moldu skalt þú aftur verða." Þessi setning klingir í höfði mínu nú þegar ég kveð ástkærra móður mína í ferðarlok. Þó að ég hafi fengið að njóta samvistar með henni móður minn í tæp 56 ár þá er þetta í raun stuttur tími. Tíminn sem okkur er gefinn hér á jörð er gífurlega fljótur að líða og stuttur miðað við samhengi hlutanna.

Það er óhætt að segja að við höfum verið náin alla tíð og skilið hvort annað. Ég var alinn upp nánast sem einbirni því systkini mín eru það mikið eldri en ég og eftir 12 ára aldur þá bjuggu við mamma saman tvö.

Móðir mín var bráðung þegar henni var gefið nafnið Blíða þegar hún dvaldi á Borgarfirði eystri. Borgarfjörður eystri var henni mjög kær og ævintýrastaður í mínum huga þegar hún sagði mér sögur þaðan. Það var ekki fyrr en ég var orðinn fullorðinn að ég áttaði mig á því að hún hafði í raun ekki dvalið svo lengi þar en sá tími þegar hún var svona ung með og fjarri fjölskyldu sinni mótaði hana fyrir lífstíð. Systir mín heitir t.d. í höfuð á þeirri manneskju sem henni þótti hvað vænst um á þeim tíma og reyndist henni sem besta móðir.

Eins og flestir þá var móðir mín flókinn og margbrotin persónuleiki. Það sem einkenndi hana var dugnaður, fórnfýsi og góðmennska gagnvart sínum nánustu. Henni var einnig gefin létt lund og það voru ófá skiptin sem við vorum að gera grín og hlóum að vitleysunni og þá sagði hún oft: mikið er nú gott að geta hlegið.

Móðir mín var í eðli sínu mikil prívat manneskja og þrátt fyrir að búa síðustu árin í þjónustuíbúð aldraðra og hafa möguleika á því að sækja ýmsa starfsemi sem er í boði fyrir aldrara þá kærði móðir mín sig ekkert um það og fór aldrei þrátt fyrir að ég væri að benda henni á möguleikana í því sambandi. Henni þótti þó mjög gaman í mannfagnaði, hvort sem þeir voru haldnar henni til heiðurs eða veislur sem hún hélt á árum áður. Jólaboðin hennar voru fræg innan fjölskyldunnar og margir hafa sagt mér frá því að þeim fannst ekki vera komin jól fyrr en viðkomandi væri kominn í jólaboð til Blíðu. Þar var vel veitt í anda móður minnar, allt á sínum stað og mikið af leikjum sem fullorðnir og börn léku. Margar sögur eru til af þessum leikjum t.d. þegar leiknir voru bókatitlar eins og Á bökkum bolafljóts, þar sem gestir fóru á fjórar fætur og léku baulandi bola sitt hvorum megin við ána og einn óð yfir með tilþrifum. Síðan voru leiknir bókatitlar eins og Grænmeti og ber allt árið  eftir Helgu Sigurðar. Og sólin kemur upp eftir Hemmingway. Þá var kátt í höllinni.

Mamma elskaði bækur enda átti hún ekki langt að sækja það þar sem afi minn átti á sínum tíma stærsta einkabókasafn á landinu. Hún pantaði ávallt nýjustu bækur í gegnum Bókin heim og átti útgefin bókatíðindi frá upphafi sem hún fletti oft í þegar hún hringdi í bókasafnið. Bókasafn Reykjavíkur var hennar tómstundarmiðstöð. Annað sem hún hún gerði mikið var að ráða krossgátur og leggja kapal. Hún var mikil húsmóðir og hafði mikið yndi af fallegum hlutum og sama hvar við bjuggum þá gat hún ávallt komið öllu hagalega fyrir og búið okkur notalegt og fallegt heimili.Tónlist skipti hana miklu máli. Þegar hún var yngri þá söng hún í Kantötukór Akureyrar og var einn af stofnmeðlimum 1932 og söng alt. Hún hafði mikið yndi af því að hlusta á góðan óperu- og kórsöng.

Móðir mín sagðist ung vilja starfa við tvennt en það var að verða hárgreiðlslukona og hjúkrunarkona. Það má segja að henni hafi tekist það, því 14 ára gömul hóf hún að læra hárgreiðslu og kom fyrst til Reykjavíkur til að taka lokapróf. Hún átti hárgreiðslustofu Feminu á Akureyri og rak hana með myndarbrag ásamt uppeldi systkina minna. Síðar starfaði hún á sínum stofum og hjá öðrum við hárgreiðslu. Hún skipti síðan algjörlega um starfsgrein 1964 og fór í það sem hugur hennar hafði einnig stefnt að þegar hún fór að annast veikt fólk. Fyrst sem vökukona á Landakoti og síðan á næturvöktum á Kópavogshælinu. Dæmi um dugnað hennar þá vann hún samhliða nætuvöktunum á Kópavogshælinu í býtibúri á Elliheimilinu Grund fra fjögur til átta. Eitt skipti þegar ég var að sækja um lán frá Stéttarfélaginu Sókn fyrir hana þá sagði konan sem afgreiddi mig Ég hefði nú viljað sjá þessa ofurkonu með eigin augum. Eins og þetta væri ekki nóg þá eyddi hún sumarfríinu 1975 til að sitja yfir föður sínum þegar hann lá sjúkur á spítala. Hún ræddi oft um starfið sitt á Kópavogshæli og hafði sterkar skoðanir hvað betur mætti fara í ummönnun þroskaheftra. Sem betur fer er allt annað viðhorf í dag en voru þá þegar mamma hóf starf þar. Mamma sagði oft að fyrsta nóttin sín á Kópavogshælinu hafi verið svo erfið að hún hafi ályktað sem svo að fyrst hún gat þetta þá gæti hún allt. Eftir því sem árin liðu þá hugsaði hún um vistmenn nánast eins og þetta væri hennar eigin börn.

Í ferðalok þá er gott að geta litið yfir farinn veg og láta minningarnar ylja manni og rifja upp bæði gleði- og sorgarstundir með móðir minni sem ávallt var sem klettur í brimrótinu og lét fátt hagga sér þar sem hún veitti skjól fyrir þá sem þess þurftu.

Far þú í friði og þökk fyrir allt og allt

Þinn sonur

Gunnar Halldór Gunnarsson