Valdís Ármannsdóttir fæddist á Hofi, Höfðaströnd hinn 6. mars 1930. Hún lést á Landspítalanum, Hringbraut 25. maí 2014. Foreldrar hennar voru Ármann Jóhannsson, f. 1909, d. 1979, og Björg Guðný Jónsdóttir, f. 1897, d. 1975. Systkini Valdísar sammæðra voru Klara Ísfold Jónatansdóttir, f. 1918, d. 1998, Jón Margeir Jónatansson, f. 1920, d. 1942, og Hrefna Skagfjörð, f. 1921, d. 2011. Systkini Valdísar samfeðra eru Hólmfríður Sigrún Ármannsdóttir, f. 1941, d. 2002, og Gylfi Örn Ármannsson, f. 1948. Fósturmóðir Valdísar var Kristín Sigurðardóttir, f. 1886, d. 1969. Fóstursystkini Valdísar eru Hólmfríður Sölvadóttir, f. 21. september 1917, og Guðmundur Skagfjörð Jónsson, f. 21. september 1924, d. 21. september 1942. Sambýlismaður Valdísar var Jón Ólafur Sigurðsson, forstjóri og útgerðarmaður á Siglufirði, síðar skrifstofumaður, f. 14. ágúst 1918, d. 4. nóvember 1997. Synir þeirra eru: 1) Guðmundur Kristinn, f. 6. nóvember 1959. Maki Halldóra Pétursdóttir, f. 19. október 1961. Börn þeirra eru a) Valdís Björt, f. 27. september 1982. Sonur hennar er Angantýr Guðnason, f. 1. október 2011. b) Pétur Mikael, f. 29. febrúar 1988. 2) Sigurður, f. 20. september 1972. Maki Elísabet Þorvaldsdóttir, f. 9. júlí 1977. Börn þeirra eru: a) Sigurður Pálmi, f. 18. mars 1993. b) Þorvaldur Snær, f. 1. ágúst 1999. c) Brynjar Eyberg, f. 14. nóvember 2006. Börn Jóns af fyrra hjónabandi eru a) Björgvin Sigurður, f. 9. febrúar 1942. Maki Halldóra Ragna Pétursdóttir, f. 1942. b) Steinunn Kristjana, f. 22. janúar 1943. Maki Freyr Baldvin Sigurðsson, f. 1943, d. 2011. c) Brynja, f. 18. ágúst 1944. Maki Hallgrímur Jónsson, f. 1941. d) Salbjörg Engilráð, f. 28. júní 1947. Maki Sigurður Jón Vilmundsson, f. 1945. Valdís ólst upp á Siglufirði og gekk í skóla þar. Hún, líkt og aðrir á þessum tíma, tók virkan þátt í hinu svokallaða síldarævintýri en leiðin lá suður til Reykjavíkur árið 1959. Þangað flutti hún ásamt fósturmóður sinni. Lengst af vann hún við saumaskap, fyrst í Belgjagerðinni, síðar á saumastofu Hagkaupa og einnig í Skinngalleríi. Síðasti starfsvettvangur Valdísar var Hrafnista í Reykjavík. Útför Valdísar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 3. maí 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Valdís Ármannsdóttir, fædd 6. mars árið 1930 á Hofi á Höfðaströnd , hét stúlkan sem móðir mín, Kristín Sigurðardóttir og fósturfaðir minn, Jón Jónsson í Hornbrekku á Höfðaströnd, tóku í fóstur stuttu eftir að hún fæddist. Foreldrar Valdísar voru Björg Jónsdóttir og Ármann Jóhannsson, vinnuhjú á Hofi. Björg móðir Valdísar reyndist henni vel á meðan hennar naut við. Valdís átti aðeins að vera í fóstri í skamman tíma en hún var hjá móður minni á meðan móðir mín lifði og náði móðir mín háum aldri.

Ég man það vel þegar að Valdís, eða Valla eins og hún var alltaf kölluð, kom til okkar. Áður en móðir mín lagði af stað að sækja Völlu lagði hún þrjár flöskur á rúmið sitt með heitu vatni í til að hita holuna. Ég stóð á miðju gólfinu í herberginu og horfði á þessar aðfarir hjá móður minni alveg gapandi hissa því að vanalega var ekki snert á rúminu að degi til. Móðir mín fór og sótti hana og kom með krílið heim í Hornbrekku og lagði hana í hlýja rúmið. Það örlaði fyrir afbrýðisemi af minni hálfu þar sem ég hafði alltaf sofið í holunni hjá mömmu en þegar Valla kom þá tók hún holuna frá mér, var henni allt fyrirgefið. Litla stúlkan með brúnu augun óx og dafnaði og hún var öllum mjög kær og flutti hlýju og birtu inn á heimilið. Allt frá þeim tíma er hún kom til okkar og fram til dagsins í dag hef ég litið á Völlu sem systur mína og talað um hana sem systur.

Móðir mín, Jón fósturfaðir minn og Valla bjuggu í Hornbrekku þar til Valla varð 6 ára gömul en þá fluttu þau til Siglufjarðar. Þar bjó fjölskyldan uns Valla og móðir mín fluttu til Reykjavíkur og inn á heimili mitt og Hauks, mannsins míns. Þá var Valla orðin fullorðin og farin að vinna og var mjög dugleg stúlka. Stuttu eftir að þau komu í bæinn þá fæddist einkadóttir okkar Hauks, Edda Björk. Edda var mjög hænd að bæði móður minni og Völlu. Mikið sem það var gaman að hafa þær, oft var hlegið og mikil gleði ríkti á heimilinu. Tala nú ekki um þegar að margar hendur hjálpast að hvað það auðveldaði oft á tíðum hlutina enda um miklar dugnaðarkonur að ræða. Valla og móðir mín voru alveg óaðskiljanlegar og var oft mjög gaman að þeim. Að þremur árum liðnum keypti Valla sér íbúð og móðir mín fluttist með henni þangað, allt til enda sinna ævidaga.

Valla hóf sambúð með Jóni Sigurðssyni frá Siglufirði og eftir andlát móður minnar fluttu þau í Æsufell 6 og bjuggu þar alla sína tíð. Áttu þau saman tvo syni, Guðmund og Sigurð. Alla tíð var gott fjölskyldusamband á milli fjölskyldu Völlu og fjölskyldu minnar.

Þegar Valla var að vinna, starfaði hún við saumaskap og var lengi á hverjum stað en hún vann lengst framan af í Belgjagerðinni. Hún var alls staðar vel liðin fyrir dugnað og heiðarlegheit í öllum samskiptum. Það var hún Valla, hrein og bein og hreinskilin. Hún var ákveðin kona með ákaflega hlýtt hjarta. Það var oft glatt á hjalla þar sem Valla var, alltaf fylgdi henni kátína og gleði. Þegar fólk kynntist Völlu þá gleymdi það henni ekki. Það er óhætt að segja það að hún Valla mín var ákaflega vinmörg kona. Alveg fram til dagsins í dag hefur fólk sem lítið eitt kynntist henni á árum áður spurt um hana og hvað væri að frétta af henni.

Valla var afskaplega gjafmild. Sem lítið dæmi má nefna það þegar hún bjó enn hjá okkur og var að koma heim úr vinnunni, þá biðu yngri krakkarnir eins og negld niður í gólfið eftir að hún opnaði töskuna og sækti eitthvað til að stinga upp í þau.

Ég stend í ævinlegri þakkarskuld við hana Völlu mína, ég á henni mikið að þakka. Hún var alltaf boðin og búin að rétta mér hjálparhönd ef að erfiðleikar steðjuðu að. Lífið er óútreiknanlegt og ég hefði aldrei trúað því að Valla færi á undan mér. Valla var alltaf full af lífsorku, hress og kveinkaði sér aldrei. Þetta kom því frekar flatt upp á mig en svona er víst gangur lífsins. Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Móðir mín lét okkur alltaf lesa bænirnar á kvöldin áður en gengið var til svefns og því ætla ég að enda þetta á einni lítilli bæn.

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)


Hólmfríður Sölvadóttir (Fríða fóstursystir)