Helga Þráinsdóttir fæddist í Hlöðum (Marahúsi) á Húsavík 7. mars 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík 15. júní 2014. Foreldrar hennar voru hjónin Þráinn Maríusson f. 1902, d. 1965 og María Steingrímsdóttir, f. 1904, d. 1987. Helga var elst 6 systkina í Hruna. Hin eru Steingrímur, f. 1927, d. 1928, Kristín, f. 1928, Þórunn, f. 1931, Bjarni, f. 1938 og Höskuldur, f. 1946. Helga giftist, 27. desember 1950, Jóni Jónssyni, frá Einarsstöðum, f. 7. janúar 1922, d. 9. júlí 1982. Barn þeirra Þóra, f. 25. apríl 1948, d. 14. október 2011, gift Ingólfi Árnasyni, f. 22. mars 1943. Börn þeirra eru Þráinn Maríus, Þórólfur Jón og Berglind Ósk. Fósturdóttir Helgu og Jóns er Dagmar Kristín, f. 29. maí 1964, gift Kristni Guðmundssyni, f. 20. maí 1963. Börn þeirra eru Anna Guðbjörg og Jón Ingi. Barnabarnabörn eru átta. Útför Helgu fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 20. júní 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Nú hefur Helga Þráins lagt upp í sína hinstu göngu, gönguna yfir á eilífðarengið. Ég trúi að þar hlaupi hún nú eftir sínu fé, létt á fæti, gróin sára sinna og alsjáandi.
Helga var frábitin því að segja af sjálfri sér eða á nokkurn hátt að láta í veðri vaka að hún hefði áorkað einhverju og nokkuð víst að hún kærði sig ekki um eftirmæli. M.a. þess vegna þykir mér full ástæða til að vekja athygli á lífshlaupi hennar sem var á vissan máta óvenjulegt.

Jón föðurbróðir minn og Helga tóku saman fyrir miðja síðustu öld og ætluðu í fyrstu að setjast að í Reykjavík, þar sem þau bjuggu um tíma. Fyrir hvatningu afa keyptu þau hluta úr Einarsstaðajörðinni og stofnuðu með því nýbýlið Valagil og hófu þar búskap. Húsið sem þau bjuggu í var áður ostagerðarhús frá Kaupfélagi Þingeyinga, sem stóð fyrir ofan Jaðar. Gerðu þau það íbúðarhæft en á þessum árum var erfitt að fá lán til nýbygginga og ekki auðvelt að komast yfir efnivið til húsbygginga. Ræktuðu þau sín tún í nyrsta hluta Einarsstaðajarðarinnar og reistu sér fjárhús á holtinu ofan við Jaðar. Gamlan Bretabragga keyptu þau vestur í Húnaþingi, náðu í hann þangað og fór Helga að sjálfsögðu með í þá ferð. Þegar þetta var höfðu gömlu Einarsstaðafjárhúsin nýlega verið rifin og úr varð að bragginn, Valagilsfjárhúsin gegndu því einnig hlutverki fjárhúsa fyrir Einarsstaði og var svo um áratugaskeið. Jón fór gjarnan á sjóinn yfir veturinn og raunar nær mitt minni ekki til þess að hann hafi verið heima að vetri til. Sinnti Helga búskapnum í samvinnu við Einar mág sinn og til skiptis við hann. En síðar héldu Helga og Jón einnig annað heimili á Húsavík með Maríu, móður Helgu eftir að hún varð ekkja.
Helga og Jón eignuðust eina dóttur, Þóru, sem nú er látin. Þóra, elsta systir mín, og Þóra í Valagili fæddust á sama ári og voru leikfélagar en líklega meira eins og systur. Þá tóku þau í fóstur stúlku og ólu upp, Dagmar Kristínu, og er hún jafnaldra Sigríðar, yngstu systur minnar. Segja má að þær hafi í senn verið leikfélagar og sem systur. Við systkinin áttum alla tíð aðgang að heimili Helgu og Jóns og það er ástæða til að þakka af alhug fyrir það. Alla tíð var samband afskaplega gott og þægilegt milli Valagils- og Jaðarsfólks. Helga var konan sem aðstoðaði foreldra okkar Jaðarssystkina þegar á þurfti að halda, var t.d. heima þegar móðir okkar lá á sjúkrahúsi. Þegar Sigga systir okkar fæddist heima á Jaðri var Helga kölluð til að taka á móti henni, enda vön að hjálpa nýju lífi í heiminn. Margt fleira gæti ég talið upp en það væri ekki í anda Helgu að fjasa um slíkt. Þótt hún væri fálát hversdags þá bjó hún yfir svo mikilli hlýju í garð síns samferðafólks að enginn þurfti að óttast að leita til hennar ef hjálpar var þörf. Helga og Jón voru hinir góðu nágrannar sem allir vilja hafa en ekki allir eru svo lánsamir að búa við.
Aðstæður breyttust nokkuð á sjöunda áratugnum sem urðu til þess að Helga hélt meira til á Húsavík yfir veturinn þar sem Dagmar gekk í skóla. En þegar voraði og sauðburður nálgaðist þá hélt hún fram í Reykjadalinn til að sinna fénu sem var hennar líf og yndi. Helga var náttúrubarn og hafði unun af útiveru. Líklega naut hún sín best í hlutverki bóndans.
Undanfarna daga hefur hugur minn reikað áratugi aftur í tímann, til æskuáranna og fyrir hugskotssjónum sé ég Helgu:
Það er vor í lofti og sauðburður stendur yfir og Helga er í fjárhúsunum og hefur gott lag á öllu, hún virðist vera þar allan sólarhringinn.
Á sólríku sumri og fuglasöngur í lofti, sunnanblær og brakandi þurrkur. Við erum í heyskap og Helga er þar fremst í flokki, rakar, mokar heyi á vagn eða pallinn á Bedford. Eða mokar í heyblásarann heima við hlöðu. Seinna, með tilkomu baggabindivélanna að tína saman baggana og koma þeim á vagn.
Líður að hausti, göngur og réttir framundan. Göngur á Framdölum sem taka nokkra daga og auðvitað fer Helga líka í göngur og er eina konan sem gerir það ár eftir ár og ávallt fótgangandi, löngu áður en komst í tísku að ganga um fjöll og firnindi. Auk þessa tekur hún líka þátt í heimasmölun vestan í Fljótsheiðinni og yfir að Einarsstöðum og er raunar í fjárragi með Einari föðurbróður alla daga og í útiverkum. Bæði vinna að sínum búum í samvinnu þar sem gagnkvæmt traust og virðing ríkir. Yfir veturinn sinnir hún gegningum með Einari eða til skiptis við hann og leysir hann af þegar hann fer frá, sem er árvisst hvern vetur, nokkrar vikur í senn.
Síðar fór hún að vinna á Sláturhúsi KÞ og vann þar í áraraðir. Eftir sláturtíð kom hún fram í Einarsstaði og tók fullan þátt í haustverkum, sláturgerð og frágangi á kjöti eins og tíðkaðist og var beinlínis reiknað með henni í þau verk. Samt sem áður var hún ekki endilega að vinna sínu heimili gagn með því, heldur síns tengdafólks.
Auðvelt er að kalla fram minningu um Helgu;
Eftir gott dagsverk gengur hún suður í Valagil þar sem hún og Jón bóndi hennar búa. Þar er allt hreint, strokið og þrifalegt og í eldhúsinu er fallega gljáfægða eldavélin sem nýtur alveg sérstakrar umhirðu, hún brennir koksi. Lyktin í Valagili er sérstök og það er alveg einstaklega þægilegt í kringum þau Nonna og Helgu. Norður í sem er bílskúrinn, stendur Ford fairlane ´56 fíni bíll og um hann hugsað eins og aðrar þeirra eigur; af einstakri natni, Þau eru einstök í sinni röð; fátöluð um eigin hagi en vinnusöm með afbrigðum, hjálpsöm og góðar samferðamanneskjur sem reynast öllu sínu fólki afbragðsvel.

Allir í fjölskyldunni á Jaðri hafa margs að minnast og mikið að þakka; þakka Helgu af heilum hug fyrir áratuga samfylgd, ógleymanlega góðvild og hlýju, og traust og gott nágrenni.Ég tel mig lánsmanneskju að hafa verið svo lengi samferða Helgu Þráinsdóttur og átt hana að. Megi hún hvíla í friði.

Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir.