Kolbrún Ármannsdóttir fæddist í Neskaupstað 1. mars 1932. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 26. júní 2014. Foreldrar Kolbrúnar voru Hallbera Hallsdóttir, húsmóðir, f. 15.6.1905 á Viðborðsseli á Mýrum í A.- Skaftafellssýslu, d. 7.4.1988, og Ármann Magnússon, útgerðarmaður, f. 23.9.1899 á Kirkjubóli í Vöðlavík í S. Múlasýslu, d. 28.3.1967. Systkini hennar eru: Agnar, f. 27.10.1927., d. 30.6.1995, Erla, f. 12.1.1929, Hrönn, f. 29.7.1930, d. 12.10.1979, Ægir, f. 25.4.1938, d. 18.8.1982, og Randver, f. 16.1.1945. Kolbrún giftist 1.1.1955 Hilmari Gísla Tómassyni, stýrimanni, f. 16.6.1932 í Vestmannaeyjum, d. 28.6.1962. Foreldrar hans voru Birna Björnsdóttir, húsmóðir, f. 30.1.1913 í Neskaupstað, d. 1.3.2007, og Tómas Jóhannesson, skipstjóri og útgerðarmaður, f. 24.11.1911 í Neskaupstað, d. 10.2.1998. Börn Kolbrúnar og Hilmars Gísla eru: 1) Hallveig, leikskólakennari, f. 30.5.1952 í Neskaupstað, gift Ingimundi Sigurpálssyni, f. 24.9.1951. Börn þeirra eru Jóhann Steinar, f. 15.9.1974, kvæntur Völu Guðnýju Guðnadóttur, og eiga þau þrjú börn, Hilmar, f. 7.3.1978, í sambúð með Elísabetu Birgisdóttur, og eiga þau tvö börn, og Sigurbjörn, f. 24.2.1986, í sambúð með Söndru Dögg Þorsteinsdóttur, og eiga þau eitt barn; 2) Birna, náms- og starfsráðgjafi, f. 18.2.1955 í Neskaupstað, gift Gústaf Samir Hasan, f. 25.9.1951. Börn þeirra eru Ægir Amin, f. 7.7.1983, kvæntur Rut Baldursdóttur, og eiga þau tvö börn, Kolbrún Amanda, f. 17.9.1984, í sambúð með Ægi Hafssteinssyni, og eiga þau tvö börn, og Inga Amal, f. 26.3.1990, í sambúð með Kjartani Ottóssyni; 3) Tómas, rafvirki og iðnrekstrarfræðingur, f. 10.2.1957 í Neskaupstað, kvæntur Valgerði Halldórsdóttur. Börn þeirra eru Jóhann Ingi, f. 29.12.1979, í sambúð með Önnu Björgu Kristinsdóttur, Sigrún, f. 6.1.1984, gift Örvari Inga Björnssyni, og eiga þau eitt barn, og Kolbrún, f. 20.3.1989, í sambúð með Agli Einarssyni. Þann 31.12.1982 giftist Kolbrún seinni eiginmanni sínum, Reyni Sigurþórssyni, umdæmisstjóra Pósts og síma á Egilsstöðum, f. 28.2.1930, d. 27.4.2000. Börn hans eru Jens, f. 9.3.1957, og á hann þrjú börn, og Þór, f. 3.9.1960, kvæntur Svölu Pálsdóttur, og eiga þau tvö börn. Kolbrún ólst upp í Neskaupstað, þar sem hún stundaði hefðbundna skólagöngu, en hélt síðan að Laugum í Eyjafirði þaðan sem hún lauk hússtjórnarprófi vorið 1953. Við andlát Hilmars Gísla flutti Hrönn systir hennar á heimili þeirra og tók virkan þátt í heimilishaldi og uppeldi barna þeirra. Kolbrún vann allan sinn starfsaldur hjá Pósti og síma, fyrst sem talsímavörður í Neskaupstað til ársins 1977 og í framhaldi af því sem fulltrúi á umdæmisskrifstofu Pósts og síma á Egilsstöðum til ársins 1997. Árið 1999 flutti hún og Reynir til Kópavogs og bjó hún að Funalind 7 til dánardags. Útför Kolbrúnar fer fram frá Fossvogskirkju föstudaginn 4. júlí 2014 og hefst athöfnin kl. 13.
Þá er komið að kveðjustund. Að því hlaut að koma. Einhvern veginn er það þó svo, að það hefur aldrei verið tekið með í reikninginn. Kolbrún tengdamóðir mín hefur verið klettur og samnefnari í tilveru okkar svo margra og svo lengi, að það hefur ekki verið inni í myndinni að hún yrði slegin til jarðar. Það hefur einfaldlega ekki verið rými fyrir slíka hugsun í hugum okkar, sem notið höfum daglegra samskipta við hana. Svo kná og keik hefur hún lifað lífinu og tekist á við stormana að við höfum ekki leitt hugann að því að hún kynni að gefa eftir. En að því hlaut að koma og á því tók hún eins og öðru í hennar lífi, af yfirvegun og æðruleysi og sem sjálfsögðum hlut. Eins og það raunar er.
Kolbrún Ármannsdóttir fæddist árið 1932, þegar öldin og þjóðin voru að vakna til stórra verka. Faðir hennar var útgerðarmaður og fiskverkandi í Neskaupstað og var heimilið á Tindum öllum opið, þar sem Hallbera, móðir hennar, vakti yfir hverju spori af miklum skörungsskap. Gestagangur var mikill, og víst er, að hugur tengdamóður minnar hafi mótast mjög af uppvaxtarárunum á Norðfirði. Hún átti marga strengi í hörpu sinni. Það heyrðist best, þegar hún lýsti æskubyggð sinni, þá fann ég vel hvernig þessi dóttir sjávarbyggðarinnar á Norðfirði var samgróin þessu öllu: landinu, lífinu, sögunni, fólkinu, frændum og feðramold.
Ég man það sem það hefði gerst í gær, þegar fundum okkar Kollu bar saman fyrst. Hafði reyndar verið að gera hosur mínar grænar fyrir dóttur hennar og við hana mælti ég mér mót á Norðfirði áður en haldið yrði á útiskemmtun í Atlavík. Áður en lagt var í för á Hérað var ég drifinn inn á snotra og vinalega heimilið í Miðstrætinu og kynntur fyrir húsmóðurinni, sem þá stóð í eldhúsinu við að matbúa kjúklinga fyrir börnin sín, svo þau yrðu ekki hungurmorða um verslunarmannahelgina. Ég áttaði mig síðar á því, að þetta var sá staður á heimilinu, þar sem Kolla var alls ráðandi, og þaðan stjórnaði hún smáu sem stóru. Það var eins gott, því gestaherbergið var í kjallaranum, og þangað og þaðan var ekki komist nema um yfirráðasvæði hennar. Og það er mér ljúft að votta, að Kolla passaði afar vel upp á börnin sín.
Eftir nokkrar heimsóknir til Norðfjarðar og margar gistinætur í gestaherberginu rugluðum við Hallveig dóttir hennar saman reitum og byggðum okkur heimili í höfuðborginni. Þá kynntist ég næsta kafla í samskiptasögu okkar Kollu. Hún bakaði kökur, tíndi ber og tók slátur og sendi okkur landshorna á milli .... með Póstinum. Á jólum saumaði hún jólafötin á barnabörnin og flatti, skar út og steikti laufabrauð í ótæpilegu magni og sendi okkur þannig um búið, að ávallt skilaði sér allt heilt í höfn. Það var aldrei slegið af, aldrei valin auðveldasta leiðin, þess heldur var þannig gengið frá málum sem best varð fyrir þann, sem gladdur var.
Heimilishaldsins í Miðstrætinu verður ekki minnst án þess að geta Hrannar, systur Kollu, sem lést af slysförum langt um aldur fram. Hún fluttist inn á heimili Kollu, þegar Hilmar hennar féll frá, og var hún henni sterkur bakhjarl við heimilishald og uppeldi barnanna. Hún var sérstökum gáfum gædd, glæsileg til orðs og æðis, og var hún systur sinni afar traustur förunautur.
Tengdamóðir mín var einstök kona, á raunar enga sér líka. Hún var mjög vel verki farin, gat allt, gerði allt, kláraði allt, sem hún tók sér fyrir hendur, og skilaði því öllu af slíkum myndarskap að af bar. Maður undraðist það oft, hvenær hún hefði tíma til þess að ljúka öllu því, sem hún afrekaði, samhliða því að vinna fullan vinnudag, oft með mikilli aukavinnu.
Kolla var fjölmenntuð kona í þess orðs fyllstu merkingu. Hún var alls staðar heima og gat spjallað við hvern sem var um hvaðeina. Umræða um tónlist og bókmenntir og holl ráð um lífið og tilveruna voru henni jafn töm á tungu. Oft áttum við tal saman um ýmis efni. Stundum bar stjórnmálin á góma, enda stóðu þau okkur báðum nærri, og oft geymdust mér í minni ummæli hennar um ýmislegt, sem orðið hefur mér til leiðsagnar í lífinu. Höfuðeinkenni Kollu voru í mínum huga skarpur skilningur á mönnum og málefnum, vinfesti og einstakt áræði. Hún var heil og sönn, hollráð vinum sínum, frjáls í fasi og vel gerð. Það sætti því engri furðu, þótt hún nyti trausts og vinsælda.
Og svo hafði hún svo firnagaman af að segja frá. Það var aldrei lognmolla yfir samverustundum. Börn og fullorðnir sátu hugfangin undir frásögnum hennar, slík var frásagnargleðin. Hefur þess oft verið minnst, að bæri svo við á ferðalögum að taka þyrfti tæknistopp og gera varð hlé á frásögninni, þá var að athöfn lokinni haldið áfram þaðan sem frá var horfið, oft í miðri setningu.
Tengdamóðir mín þurfti að takast á við meira andstreymi í lífinu en almennt má vænta. Þyngst var höggið, þegar hún sviplega missti föður barna sinna ung að árum. Þá sýndi stórfjölskyldan hvað í henni bjó og víst átti hún góðan styrk í samfélaginu öllu á Norðfirði. Ávallt brást hún við af þvílíku æðruleysi og þeirri reisn, sem jafnan einkenndi líf hennar allt. Hún var gædd miklum andlegum styrk og hugarró, sem hún geislaði frá sér. Hún kvartaði aldrei um eigin hag, hafði hins vegar góða þollund til þess að hlusta á armæðu annarra og því meiri umhyggju fyrir velgengni þeirra. Ástúð hennar og alúð bætti hlýjum litum í heimsmyndina, dró úr rótleysi og kvíða og færði frið. Þannig var kennt án orða. Að fæðast og alast upp í návist slíkra mannkosta er ekki hægt að þakka sem ber.
Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að vera heimagangur á heimili hennar í rúma fjóra áratugi. Á þeim vettvangi hlóð hún sínar bestu vörður, og var heimilið sá griðarstaður, þar sem oft var sótt liðveisla til þess að byggja upp heimsmyndina og ná áttum. Umhyggja og umburðarlyndi voru eiginleikar, sem hún átti í ríkum mæli, og naut ég þeirra ómældra alla tíð. Gestrisni hennar og velvilji brást aldrei. Alla sína tíð helgaði Kolla heimili sínu, börnum og ættingjum krafta sína. Í fari hennar var það ríkast að hlúa að öðrum og þá fyrst og fremst þeim, sem stóðu henni næst, búa þeim gott og traust athvarf, þar sem öllum liði vel og allir hefðu nóg að bíta og brenna. Hún kastaði aldrei höndum til neinna verka og vann hvert verk af alúð og skyldurækni, sem í mínum huga hefur raunar ávallt einkennt fjölskylduna alla frá Tindum.
Í seinni tíð, þegar starfsdegi lauk, naut tengdamóðir mín innilega og verðskuldað þeirra ávaxta, sem hún hafði sáð til. Börn hennar, tengdabörn og barnabörn kepptust um að njóta návista hennar. Og nú sem fyrr var hún ávallt tilbúin til þess að breiða út faðminn og vera með í öllu því, sem uppátektarsömum niðjum hennar kom í hug, hvar og hvenær sem var.
Síðasta gjöf Kollu til ástvina sinna var erfið viðtöku, en verður dýrmæt, þegar fram líða stundir. Hún átti lengi í því stríði, sem allir tapa, en eins og ævinlega gekk hún til nauðsynlegra verka af yfirvegun, festu og slíku æðruleysi, að enginn mun gleyma. Þeir sem á horfðu munu síður tapa áttum í vafstri yfir smámunum; þeirra mat á smáu og stóru verður annað en áður. Frá henni stafaði fegurð og friður mitt í myrkri og stríði. Og það eitt er víst, að hún kenndi með orðum og athöfnum til hinstu stundar.
Ævistarfið er stórbrotið, en sögurnar stórkostlegu, hlýjan, dugnaðurinn og æðruleysið stendur þó upp úr í mínum huga sem ómetanlegt veganesti til niðja hennar um ókomin ár. Megi góður guð vernda fólkið hennar og vaka yfir því. Það var henni óendanlega kært og henni var það mikið í mun, að því vegnaði öllu vel og það héldi vel hvert um annað.
Að leiðarlokum er mér ljúft og skylt að þakka elskulegri tengdamóður minni samfylgdina alla og órofa tryggð gegnum öll árin. Hafi hún þökk fyrir allt það, sem hún gaf okkur með lífi sínu. Það verður aldrei fullþakkað. Við, sem nutum þeirra forréttinda að hafa fengið að eiga hana að og fylgja henni æviveginn, eigum nú einstakar minningar til þess að lifa með. Þær verða lengi í minnum hafðar og munu örugglega verða niðjum hennar traust veganesti. En þó að dauðinn skilji að um sinn, mun Kolla ávallt standa mér jafn lifandi fyrir hugskotssjónum og hún gerði í lifenda lífi; ein eftirminnilegasta og besta manneskja, sem ég hef kynnst.
Björt minning þín lifir mín kæra,
Ingimundur Sigurpálsson
Ingimundur Sigurpálsson