Kristján Jónsson fæddist á Víðivöllum í Fnjóskadal 1. janúar 1937. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 4. júlí 2014.
Foreldrar hans voru Jón Kr. Kristjánsson, bóndi á Víðivöllum og skólastjóri í Skógum, og Hulda B. Kristjánsdóttir húsfreyja. Systkini Kristjáns: Karl, f. 1935, Álfhildur, f. 1938, Völundur, f. 1943, Aðalsteinn, f. 1949, og drengur andvana, f. 1951. Hinn 26.12. 1964 kvæntist Kristján Guðríði H. Arnþórsdóttur, f. 24.9. 1942, frá Mörk í Fnjóskadal. Foreldrar hennar voru Arnþór Guðnason bóndi þar og Áslaug Stefánsdóttir húsfreyja. Börn Kristjáns og Guðríðar eru: 1) Kristín Anna, f. 1965, maki Sæmundur Jónsson, f. 1963. Börn: Jón Kristján og Sólveig Sigurbjörg. 2) Hermann Helgi, f. 1966, maki Gestheiður Þorvaldsdóttir, f. 1968. Börn Gestheiðar eru Jón Þór Kristjánsson og Auður Katrín Ægisdóttir. 3) Hulda Björg, f. 1970, maki Brynjólfur Halldór Magnússon, f. 1960. Börn: Guðrún, Helgi og Kristján. Sonur Brynjólfs af fyrra hjónabandi er Magnús. 4) Áslaug, f. 1971, maki Sigurður Skarphéðinsson, f. 1966. Dóttir: Móníka. Kristján ólst upp í systkinahópnum á Víðivöllum og gekk í barnaskóla að Skógum í Fnjóskadal. Vorið 1958 varð hann búfræðingur eftir tveggja ára nám í Bændaskólanum á Hólum. Vegna góðrar frammistöðu þar var honum boðin ókeypis dvöl við lýðháskóla sænsku bændasamtakanna, Sånga Säby, þar sem hann stundaði nám vetrarlangt 1958-1959. Að skóla loknum starfaði hann í Noregi framan af sumri. Heim kominn sneri Kristján sér aftur að búskapnum á Víðivöllum en vann í vaxandi mæli utan heimilis næstu árin, einkum við akstur t.d. vegagerð. Fyrstu árin eftir að Kristján og Guðríður gengu í hjónaband héldu þau heimili á nokkrum stöðum í Fnjóskadal en 1969 keyptu þau jörðina Veturliðastaði í sömu sveit. Þar hófu þau sauðfjárbúskap og bættu jörðina brátt að húsakosti og landnytjum. Kristján ók þó vörubíl áfram uns hann hóf vinnu hjá Skógrækt ríkisins í Vaglaskógi á árunum fyrir 1980. Þar vann hann við akstur, smíðar og fjölmargt annað fram um sjötugt. Auk fyrrgreindra starfa var Kristján lögreglumaður og sinnti löggæslu mikinn hluta starfsævinnar. Á yngri árum var hann tvö sumur í lögreglunni á Akureyri og héraðslögreglumaður var hann í 45 ár. Hlaut hann viðurkenningu fyrir þau störf að ferli loknum. Kristján kom nokkuð að félagsmálum í sveit sinni, sat m.a. í hreppsnefnd og var formaður Búnaðarfélags Suður-Fnjóskdæla um skeið. Nokkur seinustu árin átti Kristján við alvarlega vanheilsu að stríða og var bundinn erfiðri sjúkrameðferð, sem hann tók af mikilli yfirvegun og þolinmæði. Síðasta árið dvaldi hann nær alveg á sjúkrahúsum en lengi framan af náði hann þó að eiga stundir með fjölskyldunni heima á Veturliðastöðum.
Útför Kristjáns fer fram í dag, 19. júlí, að Hálsi í Fnjóskadal og hefst athöfnin kl. 10.30.
þegar afi kemur heim, þá förum við og keyrum hratt í vatnið á afabíl
tilkynnti yngsta barnabarnið hans pabba okkur hinum núna í júní. Við
foreldrarnir samþykktum það brosandi og ákváðum að vona það besta eins og
sá litli en þá var afi hans eins og svo oft áður hjá læknunum í Reykjavík
og litli að bíða eftir að afi kæmi heim. Þá ætlaði hann sem sagt með afa
sínum inn á afrétt á Patrol og keyra hratt í Belgsána. Þar sem pabbi lést
4. Júlí sl. verður víst ekkert af því að þeir fari aftur saman í svona ferð
en afastrákurinn á minninguna. Ég sjálf og við öll sem eftir erum leitum
huggunar í góðum minningum um góðan mann. Pabbi var alger öðlingur,
einstaklega þolinmóður og natinn. Hann var kletturinn okkar allra, við
krakkarnir og síðan tengdabörnin og barnabörnin gátum alltaf leitað til
hans og þau mamma voru dugleg að styðja við bakið á okkur í því sem við
tókum okkur fyrir hendur. Pabbi var mjög árrisull, alltaf komin eldsnemma á
fætur og búin að brasa í allskonar verkefnum heima í sveitinni þegar við
hin komum fram, ef rólegt var þá var hann amk. búin að leggja nokkra sjö
stokka kapla í eldhúsinu eða klára nokkrar krossagátur, hann var alltaf að
gera eitthvað og tók daginn snemma. Hann var líka mjög kvöldsvæfur og
sofnaði oft yfir sjónvarpsfréttunum og brostum við oft yfir því þegar pabbi
sat steinsofandi inn í stofu og fylgdist með fréttunum. Þegar ég hugsa
til baka þá koma upp í hugann allskonar minningar um lífið okkar hér í
sveitinni. Við áttum hund sem okkur þótti öllum mjög vænt um, ég man hvað
okkur fannst fyndið þegar pabbi var út á hlaði að gera við einhvern bílinn
og hundurinn var alltaf að stela af honum verkfærunum, ég held að pabba
hafi ekki alltaf fundist það jafn fyndið og okkur. Ég man líka vel eftir
vörubílnum hans pabba og hvað það var gaman að fá að fara með honum í
vörubílinn inn á Svalbarðseyri, þá hafði maður líka von um að fá smá nammi
í leiðinni. Pabbi var rólegur og yfirvegaður að eðlisfari og ekkert mikið
að æsa sig yfir hlutunum yfirleitt, allavega ekki svo ég muni til, ef við
fengum skammir þá höfðum við örugglega unnið fyrir þeim og hann þurfti
ekkert að æsa sig mikið til að stoppa okkur af. Pabbi kenndi mér margt,
t.d. að keyra traktor. Einu sinni þegar ég var unglingur fékk ég það
verkefni að slóðadraga túnið neðan við veg á Massey Ferguson. Það fannst
mér alls ekki skemmtilegt verkefni og þar sem ég var ekkert sérstaklega
þolinmóður unglingur þá ákvað ég bara að drífa þetta af, setti Massey
Ferguson í þriðja gír og þrumaði fram og aftur yfir túnið þangað til ég
taldi mig hafa klárað verkið. Pabbi kom og tók við vélinni, hann skammaði
mig ekkert fyrir að fara of hratt en sagði mér að það væri nú betra að
slóðin næði að vera á jörðinni ef hann ætti að gera eitthvað gagn, hann
kláraði svo verkið fyrir mig og ég passaði mig á því næst að keyra ekki
alveg svona hratt. Pabbi vann mikið að heiman. Hann átti vörubíla og var
oft í burtu þegar hann var að vinna á þeim, hann var einnig lögreglumaður
og sinnti því starfi aðallega yfir sumarið en ég man líka sérstaklega eftir
því hvað mér fannst alltaf leiðinlegt að hann skyldi þurfa að vera á vakt á
gamlárskvöld, hann var yfirleitt alltaf farin áður en áramótin skullu á en
svona var það bara. Það hefur örugglega oft verið erfitt fyrir mömmu að
hugsa um búið og okkur krakkana þegar hann var í burtu að vinna en hún
gerði það með sóma og ég vona að við höfum eitthvað hjálpað henni. Síðustu
árin var pabbi mikill sjúklingur. Hann sinnti þó sínu alveg ótrúlega lengi
og fór ekki verulega að draga af honum í bústörfunum fyrr upp úr áramótunum
2012-2013. Þá var hann búin að vera að notast við kviðskilju vegna
langvinnar nýrnabilunar í nokkurn tíma en í byrjun sumars ´13 þurfti hann
að fara í blóðskilunarmeðferð sem einungis var þá í boði í Reykjavík. Pabbi
þurfti einnig að fara í stóra hjartaaðgerð síðasta sumar sem var mjög erfið
fyrir hann og um tíma var mjög tvísýnt hvernig það færi. Hann komst upp úr
því og síðasta árið sem hann lifði var hann meira og minna í Reykjavík til
þess að hann gæti fengið sína blóðskilunarmeðferð sem var honum
lífsnauðsynleg vegna nýrnabilunarinnar. Í þá meðferð þurfti hann að fara
3-4 sinnum í viku, stundum oftar, sem þýddi það að hann dvaldi mikið á
sjúkrahótelinu í Reykjavík á milli þess sem hann fór í meðferðina sína,
þegar hann treysti sér til kom hann norður í frí. Það var ekki auðvelt
fyrir hann, bóndann úr sveitinni að sitja inn á hótelherbergi og bíða eftir
að komast í næstu meðferð en hann sýndi ótrúlegt æðruleysi og þolinmæði,
æsti sig ekki yfir hlutunum og hefur það örugglega skipt miklu máli
varðandi það hversu lengi hann náði þó að vera hér hjá okkur. Við og pabbi
eigum sem betur fer góða að og voru vinir hans og ættingjar duglegir að
heimsækja hann á sjúkrahótelið og upp á Landspítala, ástarþakkir fyrir það,
það var okkur mikils virði þar sem við systkinin og mamma erum ekki búsett
á höfuðborgarsvæðinu. Það kom þó að því að hann var orðin of veikur til að
þola þessa erfiðu meðferð og þessi maður sem áður hafði verið svo
sterkur gat ekki meir. Við fylgdum pabba í hans síðustu
blóðskilunarmeðferð fimmtudaginn 3. Júlí, sl. strax eftir hana fékk hann að
fara norður í sjúkraflugi þar sem tekið var vel á mótið honum á
Sjúkrahúsinu á Akureyri og hann lést þar snemma morguns 4. Júlí, sáttur við
að hafa komist heim. Ég er innilega þakklát fyrir þá frábæru ummönin sem
pabbi fékk á hjartadeild Landspítalans og á blóðskilunardeildinni, á báðum
þessum deildum kom starfsfólkið og kvaddi hann fyrir hans síðustu ferð
norður, vitandi það að hann kæmi ekki aftur, það var greinilega ekki
auðvelt fyrir þetta góða fólk að kveðja pabba. Elsku pabbi minn þín verður
sárt saknað af okkur öllum, við krakkarnir munum hugsa vel um mömmu og
hjálpa henni hér í sveitinni. Huggun okkar felst í því að þínu langa stríði
er lokið og þú getur nú loksins hvílt þig. Takk fyrir allt elsku pabbi
minn.
Hulda Björg Kristjánsdóttir