Davíð Halldór Kristjánsson fæddist í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði 20. mars 1930. Hann lést á Dvalarheimilinu Tjörn á Þingeyri 12. júlí 2014. Hann var elsta barn hjónanna Kristjáns Þórarins Davíðssonar bónda, f. 9.4. 1889, d. 21.10. 1970 og Magðalenu Össurardóttur húsfreyju, f. 14.12. 1893, d. 27.5. 1988. Systkini Davíðs eru andvana fæddur drengur sem var tvíburi hans, Valgerður, f. 1931, Kristín, f. 1932 og Guðmundur Bjarni, f. 1934. Davíð kvæntist 25.12. 1959 Katrínu Gunnarsdóttur, f. 25.1. 1941, frá Hofi í Dýrafirði. Hún er dóttir hjónanna Gunnars Guðmundssonar, f. 30.5. 1898, d. 23.10. 1987 og Guðmundu Jónu Jónsdóttur, f. 19.10. 1905, d. 21.10. 1991. Börn Davíðs og Katrínar eru 1. Davíð, f. 14.5. 1959, sambýliskona Joy Angkhana Sribang, f. 14.11. 1960. Dætur Joy eru a) Anna Anchali, f. 1993 og b) Vilborg Díana Jónsdóttir, f. 2004. 2. Kristján Þórarinn, f. 16.11. 1960, maki Elín Hrefna Garðarsdóttir, f. 14.11. 1958. Börn þeirra eru a) Davíð Halldór, f. 1984, maki Margrét Jakobsdóttir, f. 1984. Börn þeirra eru Kristján Þórarinn, f. 2008 og Jakob Freyr, f. 2013. b) Gunnar Ingi, f. 1988 og c) Margrét Auður, f. 1993. 3. Gunnar, f. 13.8. 1962, maki Marit Husmo, f. 8.9. 1960. Börn: a) Lilja Marie, f. 1996 og b) Björn Viljar, f. 2001. 4. Björn, f. 17.11. 1963, maki Beverly Louise Stephenson, f. 17.5. 1960. Börn: a) Stephen Albert, f. 1992 og b) Rakel Sylvía, f. 1994. 5. Vilborg, f. 3.9. 1965, maki Björgvin Ingimarsson, f. 16.11. 1965, d. 9.2. 2013. Börn hennar: a) Katrín Vilborgardóttir Gunnarsdóttir, f. 1987, maki Aðalsteinn Már Ólafsson, f. 1984. b) Matthías Már Valdimarsson, f. 1994 og c) Sigrún Ugla Björgvinsdóttir, f. 2004. 6. Auður Lilja, f. 14.7. 1978, maki Ragnar Þór Jónsson, f. 2.5. 1969. Börn hennar: a) Sunna Dögg Jónsdóttir, f. 1997, b) Embla Marie Ragnarsdóttir (stjúpdóttir), f. 2004, c) Tómas Davíð Thomasson, f. 2005 og d) Bjarmi Þór Ragnarsson, f. 2012. Davíð fór ungur til sjós, öðlaðist bæði skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi og starfaði lengst af sem sjómaður á fiskibátum og -skipum sem gerðu út frá Þingeyri, ýmist sem stýrimaður, skipstjóri eða vélstjóri, samtals í um aldarfjórðung. Frystihússtjóri var hann einnig í nokkur ár. Árið 1977 lét hann af sjómennsku og hóf störf sem flugvallarvörður á Þingeyri og umboðsmaður Flugfélags Íslands. Þeim störfum gegndi hann allt til ársins 1990 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Útför Davíðs fer fram frá Þingeyrarkirkju í dag, 19. júlí 2014, kl. 14.

Pabbi elskulegur er farinn inn í ljósið. Mamma, sem hlúði að honum heima fyrir í veikindum hans nær til loka, var hjá honum og andlátið var friðsælt og fallegt. Hann vandaði sig við allt sem hann tók sér fyrir hendur í lífinu og hann vandaði sig líka við að deyja. Hann vissi hvert stefndi í fyrravor þegar í ljós kom að hann var með útbreitt lungnakrabbamein. Frá og með þeim tíma hóf hann að undirbúa sig og okkur hin, leysti alla út með bókagjöfum sem til hans komu að kveðja og valdi allt sem velja þarf fyrir útförina: sálmana, kistuna, kransinn og grafstæðið og réð meira að segja söngmenn í erfidrykkjuna, sem að hans eigin ósk á ekki að vera sorgar- heldur skemmtisamkoma. Hann talaði opinskátt um dauðann og minnti okkur á að þannig væri nú eðlilegur gangur lífsins, sagði að við ættum ekki að syrgja hann sem hefði átt langa og góða ævi og aldrei verið með nema góðu fólki. Ég efa ekki að pabbi hefur mætt alls kyns fólki um dagana eins og við öll en þessi orð og æðruleysið lýsa hans innra manni betur en margt annað.

Nær allir pabbar í sjávarplássinu Þingeyri við Dýrafjörð voru sjómenn þegar ég var lítil og nær allar mömmur fóru til vinnu í frystihúsinu strax og börnin voru komin í skóla. Þannig var það líka hjá okkur. Pabbi var á sjó þar til ég og eldri bræður mínir fjórir vorum komin á unglingsaldur; yngri systir okkar fædd árið eftir að hann kom í land og byrjaði að vinna á flugvellinum. Fyrstu minningarnar um hann eru hlý faðmlög og skeggbroddakossar á vanga áður en hann fór á sjóinn og aftur þegar hann kom heim í stutta landleguna; vangi minn við vélstjóraístruna hans og smurolíulykt í bláu sjóarapeysunni.
Í fyrrasumar áttum við samtal um árin hans á fiskibátum og skipum, bæði fyrir austan land á sjöunda áratugnum þegar við eldri systkinin fimm komum í heiminn hvert af öðru, og síðan fyrir vestan eftir að síldin hvarf. Þá spurði ég hvort hann hefði einhvern tímann verið hræddur á sjónum en hann kvað nei við því. Ég sagði honum þá frá því að ég vissi hvenær mamma hefði verið áhyggjufull um hann; það var þegar veður var vont og ég heyrði seint á kvöldin að hún var að leita að bátabylgjunni á útvarpinu til að fá fréttir utan af sjó.

Foreldrar okkar ólu okkur systkinin upp í mikilli ást á bókmenntum. Pabbi las óhemjumikið og hafði með sér stafla af bókum í hvert sinn sem hann fór á sjóinn, var ástríðufullur bókakaupandi alla ævi og batt sjálfur inn hálft annað þúsund bóka á efri árum. Ferðirnar í litlu bókabúðina á Þingeyri voru tíðar með barnahópinn; þar voru afmælis- og jólagjafirnar keyptar, líka sumargjafirnar og svo fengum við öll að velja okkur bækur eftir miðsvetrar-og vorpróf. Einhverju sinni varð mér að orði í samtali við hann, þá fullorðinni, að ég hefði hætt við að kaupa bók sem mér þótti of dýr. Honum var brugðið og sagði með áherslu: ,,Ef þú átt ekki peninga fyrir bók sem þig langar að eignast þá áttu heldur ekki peninga fyrir mat og þá skaltu tala við mig! En þótt mikið sé lesið þá er ekki hægt að komast yfir nema takmarkaðan fjölda á einni ævi og því kenndi hann mér þá reglu að ef bók gripi mig ekki á fyrstu fimmtíu síðunum skyldi ég leggja hana til hliðar og velja aðra. ,,Það borgar sig ekki að eyða tíma í leiðinlegar bækur, það er nóg til af þeim góðu, sagði hann og hló.

Pabbi var mikill barnakarl og var hvert barnabarn sem bættist í hópinn mikið gleðiefni. Fannst reyndar að við systkinin mættum vera duglegri í þessum efnum, lágmark væri að eiga fjögur börn en helst fleiri. Hann var léttur í lundu, nema reyndar þegar hann ræddi um pólitík, þá gat honum hitnað vel í hamsi enda með sterka réttlætiskennd og mikill vinstri maður. Örlátur var hann með afbrigðum; ekki aðeins við systkinin nutum góðs af reglulegum sendingum að vestan á fiski og fugli, kartöflum, rófum og bláberjum heldur fjöldi annarra. Hann mátti aldrei vamm sitt vita, heiðarleikinn og vandvirknin honum í blóð borin. ,,Það sem þú gerir, skaltu gera vel, sagði hann og lifði svo sannarlega eftir þeim orðum sjálfur. Aðdáunarvert æðruleysið og kímnigáfuna varðveitti hann allt til enda og varð að ósk sinni um að þurfa ekki að liggja lengi bjargarlaus. Í dag berum við systkinin hann til grafar og þökkum fyrir að hafa átt að föður góðan mann sem kvaddi sáttur við Guð og menn og þurfti ekki að sjá eftir neinu.

Vilborg Davíðsdóttir