Guðjón Breiðfjörð Ólafsson fæddist á Patreksfirði 29. apríl 1952. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 1. ágúst 2014. Foreldrar Guðjóns voru Jóhanna Björg Thoroddsen Ingimundardóttir fædd í Gerði, V-Barð, 10. janúar 1921, látin 27. júlí 2006, og Ólafur Breiðfjörð Þórarinsson, fæddur í Reykjavík 11. október 1916, látinn 26. janúar 1974. Guðjón átti fjögur systkini, var hann næst yngstur. Þau eru: Þóra Friðrika, fædd 29. apríl 1947, eiginmaður Sigvaldi Sigurjónsson, Kristbjörg, fædd 25. september 1948, eiginmaður Halldór Kristján Gíslason, fæddur 12. desember 1945, Þórarinn Kristján, fæddur 2. desember 1950, eiginkona Arnhildur Ásdís Kolbeins, fædd 1. febrúar 1962. Guðmundína Sigurrós, fædd 6. janúar 1954, eiginmaður Guðmundur Bjarnason, fæddur 22. júní 1953. Guðjón kvæntist 21. apríl 1973 eftirlifandi eiginkonu sinni Finnbjörgu Skaftadóttur, þroskaþjálfa, deildarstjóra Dagþjálfunar á Hrafnistu. Finnbjörg er fædd 24. ágúst 1952 í Sandgerði, dóttir Ernu Ragnheiðar Hvanndal Hannesdóttur, fædd 30. ágúst 1933 og Skafta Jóhannssyni, fæddur 22. júlí 1931, látinn 25. desember 2006. Guðjón og Finnbjörg áttu heimili lengst af í Holtsbúð í Garðabæ en síðan í Brekkubyggð 31 í Garðabæ. Dætur þeirra eru: a) Erna Rós, leikskólastjóri, fædd 25. desember 1969, fósturdóttir Guðjóns, faðir hennar er Ingvar Kristinsson, f. 1952. Eiginmaður Ernu Rósar er Hörður Óskarsson, vélfræðingur og framhaldsskólakennari, fæddur 18. maí 1964, börn þeirra eru: Arnór Orri, fæddur 1986, sonur Harðar frá fyrra hjónabandi. Arnór á þrjú börn og sambýliskonu, tvíburabræðurnir Dagur og Magni, fæddir 1995, og Arnheiður Björk, fædd 2001. Þau eru búsett á Akureyri. b) Ólöf Aldís Breiðfjörð, fædd 6. maí 1973, látin 12. ágúst 2004, sonur hennar Víkingur Glói, fæddur 2002. Barnsfaðir Grétar Páll Bjarnason, prentari, þeir feðgar eru búsettir í Noregi. c) Guðrún Karólína, hjúkrunarfræðinemi, fædd 13. desember 1977. Eiginmaður Birgir Már Guðmundsson, stjórnmála- og hagfræðingur, fæddur 25. júní 1976. Börn þeirra eru: Birta, dóttir Birgis af fyrra sambandi, fædd 1997, Guðjón Einar, fæddur 1997, sonur Guðrúnar Karólínu, faðir Leon Einar Pétursson, Jóhann Örn, fæddur 1998, sonur Guðrúnar Karólínu, faðir Magnús Örn Jóhannsson. Saman eiga þau hjónin þrjú börn, Brimi Snæ, fæddur 2003, Finnbjörgu Auði, fædd 2005, og Aldísi Unu, fædd 2011. Þau eru búsett í Garðabæ. d) Tinna Breiðfjörð, kennslufræðingur og mastersnemi, fædd 12. júní 1982, eiginmaður Gunnar Þór Bergsson, bifvélavirki, fæddur 30. maí 1982. Þau eru búsett í Danmörku. Guðjón gekk í barnaskóla á Patreksfirði. Hann flutti ásamt fjölskyldu sinni í Kópavog árið 1963. Hann hóf nám í Iðnskólanum í Reykjavík og lauk sveins- og meistaraprófsnámi í bifvélavirkjun og starfaði við þá iðn allan sinn starfsferil. Hann rak sitt eigið bifreiðarverkstæði í nokkur ár en hóf störf sem þjónustufulltrúi hjá VÍS árið1990. Útför Guðjóns fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 13. ágúst, kl. 13.
Jóhann Örn sótti mikið yfir til afa síns og þegar hann smíðaði eitthvað eða keypti sér fór hann með það yfir til afa, en hann pabbi minn gladdist alltaf manna mest og þótti okkur öllum gaman að upplifa spenninginn og gleðina með honum. Aldís Una vafði afa sinn um fingur sér og hann lék með henni á gólfinu og fór út með henni þegar engin nennti að fara með hana út á róló, hann gaf henni ís fyrir allan peninginn og hljóp á eftir henni með þvottapoka til að þvo litla fingur og andlit.
Þegar ég átti Guðjón Einar þá bjó ég heima í Holtsbúð og var það hans fyrsta heimili. Pabbi sótti mig og Guðjón Einar á fæðingadeildina, hann klæddi hann vandlega í litlu fötin sem Guðjón Einar átti að fara heim í og svo festi hann Guðjón Einar vandlega í bílstólinn sem pabbi gaf honum, já og svo tók það pabba örugglega hálftíma að festa stólinn vel og vandlega í bílinn, heim ókum við svo vel undir hámarkshraða. Fyrstu næturnar í Holtsbúðinni var pabbi mér og Guðjón Einari til halds og trausts því mamma var erlendis og ég og Leon algerir nýliðar í þessu hlutverki. Pabbi vildi að ég hvíldist enda ekki með fulla heilsu eftir bráðakeisara, hann svaf með Guðjón sinn uppi og kom svo með hann niður til mín svo ég gæti gefið honum. Mér er minnistætt hvað pabbi var duglegur að sortera út hvað ég mætti borða, hvað færi út í mjólkina til Guðjón Einars, pepperoníið tók hann t.d. af minni sneið. Pabbi var svo stoltur af nafna sínum og talaði svo fallega til hans þegar hann var að ráðleggja honum. Pabbi hringdi til mín um daginn og spurði mig hvort ég hafi rætt um það við Guðjón Einar hvað það væri óhollt að láta braka svona í höndunum á sér og svo líka hvort hann væri að borða nógu hollt, þetta var pabbi minn alveg í hnotskurn, hann elskaði okkur af öllu hjarta og hann var með risastórt hjarta.
Ég og pabbi kvöddumst alltaf með kossum á kinn og þeir voru alltaf tveir, eittvað sem pabbi hafði frá mömmu sinni, svona tveir alveg þéttir í röð. Þegar ég var barn og unglingur vakti hann mig af mikilli varkárni og strauk mér létt á kinnina eða bakið, ég setti á mig gleraugun og þóttist vera að hugsa aðeins en steinsofnaði yfirleitt aftur. Þegar hann svæfði mig sem barn þá fór hann með litla bæn sem hann kenndi okkur systrum og svo beið ég í tvær mínútur þangað til hann steinsofnaði og náði mér svo í leikfang og lá þarna við hliðiná honum og lék mér enda svo gott að vita af pabba þarna hjá mér.
Pabbi þú gafst mér svo margt og ég lærði svo margt af þér, þú varst mín stoð í lífinu og ljósberi. Ég þarf að læra að lifa án þín og það verður það erfiðasta sem ég hef þurft að takast á í lífinu.
Ég elska þig Pabbi minn og ég sakna þín.
Þín elskandi dóttir,
Guðrún Karólína Guðjónsdóttir.