Anna María Guðmundsdóttir (Ana Pancorbo Gomez) fæddist í Madríd 26. janúar 1921. Hún lést á Droplaugarstöðum 10. ágúst 2014. Foreldrar hennar voru Antonía Gomez saumakona og Antonio Pancorbo húsgagnasmiður. Anna var elst sex systkina en þau voru, Manola, f. 25.12. 1924, d. 17.11. 2008, Francisco, f. 8.11. 1925, d. 8.11. 1986, Isabel, f. 12.1. 1928, Josefina, f. 14.11. 1929, og Angelines, f. 20.5. 1931. Fyrri eiginmaður Önnu Maríu var Jose Carrasco og áttu þau eina dóttur, Marie Jo Etchebar, fv. verslunarmaður, f. 26.5. 1939, maki Jean Etchebar, f. 27.1. 1933. Börn þeirra eru a) Annie Etchebar, f. 1960, dóttir hennar er Kattalin de Gugliemi, f. 1980, sambýlismaður Ilan Coste Charayre og börn þeirra eru: Elia og Sarah. b) Jean Francois Etchebar, f. 1962, d. 25.5. 2012. c) Valerie Etchebar, f. 1963, maki Fabrice Baude og dætur þeirra eru Camille og Justine. Seinni eiginmaður Önnu Maríu var Guðmundur Jóhann Guðmundsson, kennari og skólastjóri, f. 26.6. 1934, d. 26.1. 2011. Börn þeirra eru 1) Rósa María Guðmundsdóttir geðhjúkrunarfræðingur, f. 25.7. 1959, maki Guðmundur Ómar Óskarsson, f. 10.2. 1952. Börn þeirra eru a) Anna Lilja, f. 1983, sonur hennar er Daniel Ómar, b) Sunna Ósk, f. 1987, maki Sighvatur Halldórsson, sonur þeirra er Halldór Elí. c) Hugrún Una, andvana fædd 1995. d) Hlynur Freyr, f. 1996. 2) Hannes Ingi lögfræðingur, f. 30.9. 1963, maki Ingibjörg Elísabet Jóhannsdóttir, f. 21.9. 1972. Börn þeirra eru Jóhann Snær, f. 1996, Héðinn Már, f. 2003, og Telma Sif, f. 2007. Með fyrri sambýliskonu sinni, Hjördísi Kjartansdóttur, f. 13.12. 1965, á Hannes Andreu Björk, f. 1988. Anna María ólst upp í Madrid. Hún missti ung foreldra sína og fór snemma að vinna fyrir sér. Hún vann m.a.við hjúkrun bæði í spænsku borgarastyrjöldinni og eftir stríðslok. Árið 1957 flutti hún til Íslands og giftist Guðmundi Jóhanni ári síðar. Þau bjuggu alla tíð á Íslandi og lengst af á Urðarstíg 7a. Hér á landi vann hún við ýmiss konar störf og seinustu árin í býtibúri á meðgöngudeild LSH. Anna María fléttaði skemmtilega saman íslenskan og spænskan menningarheim. Hún tók virkan þátt í íslensku samfélagi og fylgdist með þjóðmálum. Einnig var hún í góðum tengslum við fjölskyldu sína og vini á Spáni og reyndi að heimsækja þau eins oft og hægt var. Hún hafði mikla ánægju af ferðalögum, bæði innanlands sem utan. Útför Önnu Maríu fer fram frá Lágfellskirkju í dag, 22. ágúst 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Amma var litríkur karakter, svo vægt sé til orða tekið. Nokkur orð sem lýsa vel hvernig hún var eru: ofvirk, lífsglöð, húmoristi, hreinskilin, pjöttuð og skemmtileg. En þar sem amma var margslungin manneskja er ekki nóg að nota nokkur orð til að segja frá okkar minningum um hana.
Amma var spænsk að uppruna og flutti til Íslands árið 1957. Hún fluttist þá á Urðarstíginn þar sem þau afi ólu upp börnin sín tvö, Rósu og Hannes. Ein af fyrstu minningum okkar um ömmu var þegar hún dansaði með okkur í stofunni niðri á Urðarstíg. La Lambada hljómaði í plötuspilaranum og pönnukökuilmurinn angaði um húsið. Amma gerði nefnilega bestu pönnukökur í heimi og ef þið hefðuð smakkað þær myndi ykkur ekki detta í hug að mótmæla. En það voru ekki bara pönnukökurnar sem voru svona góðar hjá henni. Hún notaði eiginlega aldrei ofninn, allt var steikt upp úr ólívuolíu og bragðaðist maturinn yfirnáttúrulega vel og þá sérstaklega heimatilbúnu frönskurnar hennar. Hún hafði sjálf mjög sterkar skoðanir varðandi mat og vildi lengi vel ekki fara á elliheimili vegna þess að henni fannst maturinn þar ekki nógu spennandi. Hún talaði mikið um hvað maturinn á Spáni væri góður, keypti helst bara nýbakað franskbrauð úr bakaríi og ferskan fisk úr fiskbúðinni í hverfinu. Hún vildi bara egg og flatkökur úr Kolaportinu og eru einmitt Kolaportsferðirnar ásamt heimsóknum í Sundhöll Reykjavíkur einar af fyrstu minningum okkar frá helgunum sem við gistum á Urðarstígnum.
Þegar amma hætti að geta eldað daglega urðu þau afi fastagestir á Asíu og Pítunni. Amma hélt þessum hefðum áfram eftir að afi dó og fékk hún sér alltaf það sama á þessum stöðum. Á Pítunni pantaði hún alltaf tvær kótelettur og grænmetispítu, þó að það væri ekki á matseðlinum, og á Asíu fékk hún alltaf djúpsteikta ýsu og lítið bjórglas og borgaði 500 kr fyrir, enda drottningin, og fékk jafnvel son eigandans til að skutla sér heim eftir máltíðina.
Amma var svolítil pjattrófa og elskaði að láta dekra við sig. Hún vildi alltaf líta vel út og fékk yngri konurnar í fjölskyldunni til að klippa sig og lita, plokka sig, naglalakka og setja í sig rúllur. Hún lagði okkur lífsreglurnar strax á unga aldri, hvernig við ættum að klæða okkur og hegða sem fínar ungar dömur. Henni fannst gaman að vera fínt dressuð og fara í Kringluna að skoða föt en í þeim ferðum átti hún oft til að hverfa. Amma var nefnilega mjög óþolinmóð og lá henni svo mikið á að labba áfram á meðan maður var sjálfur að skoða eitthvað að einu sinni þurfti meira að segja að hafa samband við öryggisvörðinn í Kringlunni til að finna hana. Hún tímdi þó sjaldnast að kaupa eitthvað í þessum búðarferðum, enda passaði hún upp á hverja einustu krónu allt sitt líf. Síðustu ár ævi hennar vildi hún helst ekki kaupa sér neitt nýtt því hún vildi alltaf meina að hún væri alveg að fara að deyja, en ef hún keypti sér eitthvað vildi hún fyrst fullvissa sig um að einhverri okkar fyndist flíkin falleg svo hún myndi örugglega nýtast eftir hennar dag. Við systurnar ætlum einmitt að vera í kjólum af ömmu í jarðaförinni hennar, en henni hefði án efa þótt vænt um það. Amma átti það einnig til að segja fjölskyldumeðlimum að þau mættu eiga eitthvað eftir að hún dæi og var hún jafnvel búin að gefa suma hlutina nokkrum aðilum.
Eins og við nefndum áður var amma óþolinmóð og hefði eflaust greinst ofvirk ef hún væri barn í dag. Hún gat ekki beðið eftir að við opnuðum pakkana á jólunum og var oftast spenntari en börnin. Við höfum eytt flestum jólum á okkar lífsleið með ömmu og verður það mjög skrítið að hafa hana ekki með okkur á næstu jólum til að ýta á eftir borðhaldinu og að pakkarnir verði opnaðir. Amma gat oft heldur ekki beðið eftir að maður svaraði henni, heldur var hún búin að svara sjálf sínum eigin spurningum áður en maður náði að svara. Þetta gæti þó skýrst með áhrifum móðurmáls hennar á íslenskuna, en í spænsku er orðið nei (no) oft notað á eftir spurningu, sem myndi þá vera túlkað sem ekki satt? á íslensku. Amma notaði þetta hins vegar á þann veg að hún spurði mann spurningar og sagði síðan mjög ákveðið neeeeeiiii og gaf manni þannig ekki mikla valmöguleika á svari.
Ömmu tókst á mjög skemmtilegan hátt að búa til sitt eigið tungumál, sem oft var blanda af spænsku og íslensku, en þó stundum bara eitthvað bull. Dæmi um skemmtileg orð, sem við munum eflaust nota sjálfar í framtíðinni og hlæja að minningunum sem tengjast þeim, voru Félas (Húsmæðrafélagið), resoða (ryksuga), orní (ofn) og þú verðere busta þér til tannar (þú verður að bursta í þér tennurnar).
Amma talaði mikið og var hún ekki hrædd við að tala við ókunnugt fólk. Ef aðeins ein manneskja sat í strætó sem hún fór um borð í, þá settist hún við hliðina á þeirri manneskju og fór að spjalla. Fólk elskaði að tala við hana og fannst hún rosalega fyndin, þó að það skildi kannski ekki helminginn af því sem hún sagði. Við lentum jafnvel í því að fólk kannaðist við hana af förnum vegi ef við lýstum henni fyrir einhverjum sem við þekktum ekki mikið. Sumir vinir okkar og jafnvel fjölskyldumeðlimir töluðu oft um að þau væru búin að læra á samskiptatæknina í samræðum við hana. Best var að brosa bara, hlæja og segja já við öllu sem hún sagði, því hún var yfirleitt skellihlæjandi í samræðunum og augljóslega að segja frá einhverju stórskemmtilegu.
Við gistum oftast bara ein í einu á Urðarstígnum og þá fengum við að sofa uppí hjá ömmu. Amma talaði svo mikið þegar við vorum að fara að sofa að oft liðu klukkutímar frá því að við fórum upp í rúm og þangað til við sofnuðum. Hún skammaðist yfir því að NÚ þyrftum við að fara að sofa en þegar við heyrðum hana síðan draga djúpt andann þá vissum við að nú kæmi önnur bunan af sögum og svefn væri ekki á næsta leiti. Hún amma sagði líka svo skemmtilega frá og oftar en ekki voru sögur af henni sjálfri ýktar, t.d. heyrðum við nokkrar útgáfur af því hvernig hún og afi kynntust.
Þegar við Anna Lilja og Sunna vorum krakkar bjuggum við í eitt ár í Danmörku. Amma okkar kom í heimsókn til okkar fjölskyldunnar í dágóðan tíma og gisti í herberginu með okkur systrunum. Okkur er mjög minnisstætt að þar hafði hún ekki bara þörf fyrir að tala þegar hún var vakandi, heldur talaði hún einnig uppúr svefni og jafnvel hló, sem gerði það að verkum að við þurftum sjálfar að rembast við að halda í okkur hlátrinum til að vekja ekki foreldra okkar og hana sjálfa.
Amma var ekki hrædd við að segja það sem henni fannst, hvort sem það var við fjölskylduna eða ókunnuga og var það oft á tíðum eitthvað sem flestir myndu ekki þora að benda öðrum á, t.d. ef einhver var búinn að fitna of mikið að hennar mati. Hún var einnig með mjög svartan húmor og þegar við vorum orðnar eldri átti hún það t.d. til að þykjast reyna við kærasta okkar og segja við þá að þeir ættu bara að koma til sín ef við værum ómögulegar, enda var hún alltaf  bara 29 ára.
Ég, Anna Lilja, flutti inn til ömmu í maí 2013 til að hjálpa henni. Daniel, sonur minn, varð þá sjötti ættliðurinn sem bjó í fjölskylduhúsinu á Urðarstíg. Daniel og amma áttu mjög sérstakt samband. Þau héldu mikið upp á hvort annað en gátu stundum rifist eins og hundur og köttur. Skömmu síðar voru þau yfirleitt farin að knúsa hvort annað. Amma var þarna orðin það lúin að yfirleitt var hún uppi í sófa með sæng þegar við komum heim úr vinnunni og leikskólanum og skreið þá Daniel oft upp í til hennar og hún klóraði á honum bakið, eins og hún gerði við okkur þegar við vorum litlar. Þegar Daniel var tveggja ára fór hann að kalla ömmu Ömmu Sí af því að hún sagði svo mikið sí sem er spænska fyrir já. Þetta viðurnefni festist við hana og voru allir í fjölskyldunni farnir að kalla hana þetta og einnig hún sjálf.
Það er ótrúlega skrítið að Amma Sí, sem er búin að vera svo stór hluti af lífi okkar og okkur fannst vera eilíf, sé farin og það á eflaust eftir að taka langan tíma að venjast því. Hún var svo skemmtileg og við elskuðum hana eins og hún var. Afi okkar, sem var andlega sinnaður, var þess fullviss að við förum á betri stað eftir veru okkar hér á jörðinni og því trúum við.
Elsku amma, við eigum eftir að sakna þín svo mikið. Hvíldu í friði.
Þínar dótturdætur,

Anna Lilja Ómarsdóttir og Sunna Ósk Ómarsdóttir