Pálmi Anton Sigurðsson fæddist 17. október 1921 að Á í Unadal. Pálmi var yngstur 12 systkina, sem voru skírð, en foreldrar hans voru hjónin Sigurður Þorlákur Sveinsson frá Þrastastaðagerði, bóndi Mannskaðahóli á Höfðaströnd og víðar í Skagafirði, og Guðbjörg Þuríður Sigmundsdóttir frá Bjarnastöðum í Unadal. Börn þeirra er upp komust, voru: Bjarni Anton, f. 1901, d. 1935, Sveinbjörn Maron, f. 1902, d. 1992, Sigmundur, f. 1905, d. 1980, Sveinn, f. 1906, d. um 1925, Guðjón, f. 1908, d. 1986, Guðmann Jóhann, f. 1910, dó ungur, Elísabet Jóhanna, f. 1913, d. 2014, Höskuldur Skagfjörð, f. 1917, d. 2006, Guðvarður, f. 1917, d. 1994. Eiginkona Pálma var Guðrún Lovísa Snorradóttir frá Stóru-Gröf, húsmóðir, f. 27. febrúar 1925, d. 31. mars 2010. Pálmi og Guðrún giftu sig 17. maí 1953. Börn þeirra eru 1) Ólöf, f. 1948, gift Þorsteini Ingólfssyni, f. 1944. Þeirra börn eru: a) Ingólfur, giftur Annette Marie Hansen, börn þeirra eru: Kormákur Jens, Signý Brink, Sindri Brink og Rakel Brink. b) Pálmi Reyr, maki Ingibjörg Ósk Pétursdóttir, sonur þeirra er Þorsteinn Búi. 2) Guðbjörg Sigríður, f. 1952, gift Valgeiri Steini Kárasyni, f. 1951, þeirra börn eru: a) Guðrún Jóna, börn hennar og Þórðar Þórðarsonar eru Íris Lilja og Valgeir Ingi. b) Dagmar Hlín, maki Börkur Hólmgeirsson, sonur þeirra Ísak Geir, c) Árni Geir, maki Sigríður Ólöf Guðmundsdóttir, börn þeirra eru Kári og Þórdís Lilja. d) Pálmi Þór, maki Gunnhildur Jódís Ísaksdóttir. 3) Snorri Rúnar, f. 1961, giftur Anne Marie Haga, f. 1967, synir þeirra eru Einar, Jakob og Axel. Fyrir átti Pálmi dótturina Sólveigu Jónasdóttur, f. 1945, hennar börn eru: Svandís, Snorri, Guðríður og Ingveldur. Pálmi fluttist 10 ára með foreldrum sínum frá Á í Hólakot á Reykjaströnd þar sem þeir reistu bú, en fluttist svo með þeim til Sauðárkróks 1937. Var í farskóla í sveitinni og í unglingaskóla hjá sr. Helga Konráðssyni. Stundaði almenn sveitastörf og fór ungur að vinna í Bakaríinu hjá Guðjóni bróður sínum ásam því að stunda sjómennsku á smábátum. Var við bjargsig í úthaldi Marons bróður sína í Drangey. Tók námskeið í vélstjórn á Akureyri og fékk 250 hestafla réttindi sem vélgæslumaður. Var á síldarbátum og togurum, sigldi til Englands með Hugin í stríðinu. Stundaði almenna verkamannavinnu og sjómennsku þar til hann fór að vinna hjá Mjólkursamlagi Skagfirðinga 1954, þar sem hann vann út starfsævina í rúm 40 ár. Pálmi var virkur félagi og gengdi trúnaðarstörfum í verkamannafélaginu Fram. Hann hafði góða bassarödd og söng í Kirkjukór Sauðárkróks og Karlakór Sauðárkróks. Byggði sér fallegt heimili 1958 að Ægisstíg 3, þar sem fjölskyldan bjó. Eftir veikindi 2010 vistaðist hann á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki þar sem hann bjó við gott atlæti til hinstu stundar. Útför Pálma fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 11. október 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku Pálmi afi/langafi okkar.

Höfðingi annálaður,
í öndvegi hafður var.
Þar var hans stund og staður,
og stallur sem vera bar.
Einstakur öðlingsmaður,
annarra bætti hag
Hann var í gær svo glaður,
genginn er nú í dag.
/
Barnfæddur var og borinn
burinn í Unadal.
Átti þar æskuvorin,
það afburða drengjaval.
Foreldra augnayndi,
ástríkur bróðir var.
Að vonum þar lék í lyndi
lánið við drenginn þar.
/
Þá fjölskyldan yfir Fjörðinn
flutti í Hólakot.
Um balana hljóp og börðin
og bátunum ýtti á flot.
En ævin hjá afa mínum
óvænta stefnu tók;
hann flutti með foreldrum sínum
fljótlega inn á Krók.
/
Ungur hann sjóinn sótti
sjómaður góður var.
Fullur af þreki og þrótti,
þrautgóður alls staðar:
á síldinni á Siglufirði,
eða sínum á árabát,
til Englands með ómæld virði;
afi var sjaldan mát.
/
Það geisaði kröm og kreppa
svo knappt varð með launuð störf,
með hörku það varð að hreppa
sem heimtaði dagleg þörf.
Svo brast á með leikum ljótum
í logandi heimsstyrjöld.
Menn bárust á banaspjótum
og brjálæðið hafði völd.
/
Það reyndi á þor og þel og
þolgæði sérhvers manns,
að vinna þar bæði vel og
vasklega í kröppum dans.

Þá mátti á manninn stóla,
hann mátaði þrautirnar.
Og lærður í lífsins skóla
með láði hann afi var.
/
Kreppuna fékk ei flúið
en fjarri var uppgjöf hver.
Sótti hann björg í búið
og bjargaði alltaf sér.
Fjölskyldu sinni sinnti
og sæi hann einn er hnaut,
fyrr ekki látum linnti
en linuð var sérhver þraut.
/
Sínum á yngri árum
allskonar störfum tók.
Úti á Ægis bárum,
ellegar heima á Krók.
Eitt þó að ævistarfi
ungur samt gerði hann.
Í samlagi þjónninn þarfi
rúm þrjátíu árin vann.
/
Hvað sem hann vann; hann virti
verkin sín stór og smá.
Í huga og verki hirti
um heiður og orðstír þá.
Hann vissi það vel og skildi
að vegtyllur duga skammt.
Og orðstírinn vernda vildi,
það varð honum afa tamt.
/
Svo kynntist hann afi ömmu,
þau unnust og reistu bú.
Þau eignuðust mína mömmu,
máttug var stúlkan sú.
Hún fæddist á fimbulþorra
fædd var hún Ólöf þá.
Eignuðust einnig Snorra;
alsæl, með krakka þrjá.
/
Æ fyrir brjósti bar hann
barnanna sinna hag.
Þeim vakandi yfir var hann
víst fram á hinsta dag.
Hann þerraði þeirra tárin
og þar áttu öll sitt ból.
Og eins þó að liðu árin
sitt ómetanlega skjól.

/

Tifar svo tímans kvörnin,
tefjana enginn kann.
Hann eignaðist barnabörnin
þá birti í kringum hann.
Óx honum afl og kraftur,
hann elskaði þau að sjá.
Það var líkt og ungur aftur
yrði hann bara þá.
/
Langafi líka varð hann,
þá ljómaðann enn á ný.
Elskuna ekki sparðann
alltaf var tær og hlý.
Í faðmi hans feikna stórum
finna þar börnin það,
að allir í afa fórum
eiga sinn hjartastað.
/
Til tómstunda átti tíma
og tæpast til einskis fór.
Lagði sig þá í líma
að leika og syngja í kór.
Og afi var alltaf glaður
þá úti í Drangey var
sem bráðfimur brúnamaður
og betri var öllum þar.
/
Ef til vill ekki fjáður,
af öllu sem grandast kann,
en elskaður æ og dáður
af öllum sem þekktu hann.
Aldrei í augum glýja
en ástúð og gæska rík.
Og elska og hjartahlýja
hans voru engu lík.
/
Ávallt með hugann heiðan
og heilbrigðan hverja stund.
Aldrei sá afa reiðan,
einstaka hafði lund.
Með brosi hann alltaf bætti
barnanna sinna hag.
Ósátta ávallt sætti
á öllu hann hafði lag.
/
Hann var öllum velviljaður
vandaður, heill í gegn.
Fallegur fjölskyldumaður
sér fann ekki neitt um megn.

Afi um ævi sína
var einstakur fyrir mér.
Aðdáun á hann mína,
enginn í spor hans fer.
/
Hann fallega átti ævi
og einmuna gæfusól.
Eins og að góður gæfi
Guð honum lukkuhjól.
En almesta gæfan var amma,
ávallt þau stóðu keik.
Og ævina ekki skamma
áttu við störf og leik.
/
Svo lækkaði lífsins báran
það lægði um ævisjó.
Hann saknaði ömmu sáran
en samur var afi þó.
Andinn var skýr sem áður,
ekkert fékk honum spillt.
Út verður ekki máður
og ei verður skarð hans fyllt.
/
Við fengum svo fallega stundu
og friðsæla er hann dó.
Ástvinir hjá honum undu
er almættið för hans bjó.
Hann losnaði úr lífsins viðjum,
lífdaga saddur var.
Og afa í auðmýkt við biðjum
eilífrar blessunar.
/
Kenndir í brjósti bærast
það blakknar í hverri sál.
Af söknuði hjörtun hrærast,
huggun er þeirra mál.
Því afi svo kyrrlátt kvaddi
við kvalir var alveg frír.
Og alla með ástúð gladdi
uns afa reis dagur nýr.
/
Nú kveðjum við elsku afa
sem öllum var fyrirmynd.
Niðjar hans notið hafa
náðar af þeirri lind.
Ég þakka að lokum leiðar
lífsfylgdar einstaks manns.
Hann beri um brautir heiðar.
Blessuð sé minning hans.

Guðrún Jóna, Íris Lilja og Valgeir Ingi.