Eiður Hermundsson fæddist á Strönd í Vestur-Landeyjum 25. mars 1920. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 2. október 2014.
Foreldrar hans voru hjónin Hermundur Einarsson, f. 1880, bóndi á Strönd og Guðrún Jónsdóttir, f. 1890. Systkini Eiðs, sem öll eru látin, voru Halldór, Ingigerður, Kristín og Jón.
Eiður var innan við tvítugt á vertíð við Vestmannaeyjar. 18 ára flutti hann til Hveragerðis þar sem hann hóf nám í trésmíði hjá Stefáni Guðmundssyni. Hjá honum bjó Eiður sín fyrstu ár í Hveragerði. Þar kynntist hann Bergljótu Eiríksdóttur vefnaðarkennara, f. 1917, d. 1992, en þau giftust árið 1952.
Börn Eiðs og Bergljótar eru Guðrún, f. 1952, gift Páli Reynissyni. Þeirra börn eru Reynir, Elín, Hlín og Hlynur og barnabörnin sex. Gunnlaugur, f. 1954, giftur Eddu Jónasdóttur. Börn hans eru Glúmur og Sunna frá fyrra hjónabandi með Hilke Hubert. Hermundur, f. 1957, giftur Isabel Blank. Börn þeirra eru Ásta, Jóhannes, Mauri (Mári) og Valentín. Fyrir átti Bergljót Valgerði Frid, f. 1944, gift Sævari Sigurðssyni. Þeirra börn eru Bergljót, Sigurður, Eiður sem lést af slysförum 1977 og Eyja Líf. Barnabörnin eru 12 og barnabarnabörnin þrjú. Ljótur Magnússon, f. 1949, giftur Þórunni Jóhannesdóttur. Þeirra synir eru Illugi og Brjánn og eitt barnabarn.
Eiður og Bergljót byggðu sér hús í Laufskógum 35 sem þau nefndu Skeggstaði og bjuggu þar allan sinn búskap. Eftir að Bergljót lést 1992 bjó Eiður þar einn til 2003.
Eiður vann sem trésmiður fyrst á Trésmíðaverkstæði Hveragerðis og síðast á Trésmiðju Dvalarheimilisins Áss en þar hætti hann 1994. Hann undi sér vel í Hveragerði og heima átti hann stóran garð þar sem hann dundaði við ræktun trjáa og blóma. Í bílskúrnum hafði hann smíðaverkstæði og þaðan komu margir ótrúlega fallegir smíðagripir. Eiður las ljóð og sögur og kunni á þeim skil svo alltaf var unum á að hlýða.
Frá Skeggstöðum flutti Eiður í febrúar 2003 á Dvalarheimilið Ás og síðustu sjö árin dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu þar sem hann naut frábærrar umönnunar starfsfólksins þar og færir fjölskyldan þeim bestu þakkir.
Eiður var jarðsunginn frá Áskirkju og jarðsettur í Gufuneskirkjugarði í kyrrþey 17. október 2014.
Nei þetta er ekki lýsing tekin úr Íslendingasögunum. Þetta er svipmynd af pabba og það er létt að gera sér í hugarlund að hann hefur fengið eitt og annað ungmeyjarbrjóstið til að bifast þegar hann flutti til Hveragerðis til að hefja nám í trésmíði.
Það var hjá Stefáni Guðmundssyni trésmíðameistara sem pabbi hóf nám sitt þann 17. maí 1938. Kennslutíminn var til fjögurra ára og lauk því 17. maí 1942. Í námsamningum má meðal annars lesa eftirfarandi: í kaup skuli nemandi fá húsnæði, fæði og þjónustu öll árin og eitthvað umfram það seinni árin. En óákveðið eftir atvinnu þá.
Og svo hófst nýr kafli í lífi unga mannsins. Hann tók meðal annars þátt í að byggja nýja barna- og unglingaskólann.
Það var slegið upp eitt borð dag hvern og svo var steypt í mótið. Mölin var handmokuð á vörubílinn og í steypuhrærivélina. Þetta var þrælavinna og þætti varla boðleg í dag.
Eftir að náminu lauk fór pabbi í Bretavinnuna eins svo svo margir aðrir trésmiðir. Hann var ekki sleipur í ensku, en það bjargaðist auðvitað, enda ekki ráðinn til að halda ræður. Hann sneri svo aftur til Hveragerðis og fór að vinna hjá Sigurði Elíassyni.
Hveragerði var töluvert sérstakur bær á þessum tíma; fjölskrúðugt menningarlíf og pabbi, ungur og laglegur, var vinsæll félagskapur. Þetta varð til þess að hann eignaðist góða vini sem margir fylgdu honum gegnum lífið. En þeirra saga verður ekki sögð hér. Með einni undantekningu þó:
Góður vinskapur Bergljótar kennara við kvennaskólann, ný komin frá veflistarnámi í Svíþjóð, leiddi til ástar og ævilangs hjónbands. Þau hófu búskap í þessu litla þorpi þar sem mörg skáld og listamenn höfðu sest að. Vafalaust hefði þetta umhverfi gert pabba að atvinnulistamanni ef lífið hefði geta boðið honum upp á þann möguleika. Því það vita allir sem til hans þekktu að hann var góður hönnuður og dverghagur smiður. Sveinsstykkið hans er útskorin rúmfjöl með höfðaletri Ríkharðs Jónssonar, völundarsmíði líkt og margt annað, sem hann lét næma fingur leika um.
Uppáhalds viður pabba var eik. Eikin er best til smíða þegar hún er fullvaxin, ca 300 ára gömul. Þá er hún hörð, en ekki stökk, seig með djúpum gljáa. Hér mætast möguleikar viðs og smiðs, samtvinnaðir eiginleikar af því besta.
Foreldrar okkar voru á margan hátt andstæður hvors annars. Mamma var tilfinninganæm og ör, pabbi hæglátur og þolinmóður. En þau voru samstillt og það var aflið í sköpunargleði þeirra.
Þegar mamma varð of veik til að geta séð um heimilið tók pabbi við. Hann hélt því áfram eftir að mamma dó 1992 og þar til hann seldi húsið og flutti á elliheimili.
Æskuheimili okkar, Skeggstaðir, var nafið í fjölskyldunni sem allt snerist um. Og þungamiðja alls þessa var pabbi; hann var kletturinn, bergið. Hann var fámæltur en þó gat það borið til að það hummaði í honum. En ef maður lítur í bakspegilinn og minnist þeirra tíma þegar langir vinnudagar og illa borguð fagvinna átti að framfleyta sjö manna fjölskyldu er auðvelt að skilja að kröfur hversdagsleikans voru ekki alltaf létt byrði að bera.
Pabbi var gæddur góðri kímnigáfu og gat verið mjög hnittinn í tilsvörum ef svo bar undir. Hann bjó yfir hafsjó af vísum og ljóðum, og kunni vel að segja frá. Sitjandi á sænska stólnum við rúmstokkinn upp í baðstofu las hann með djúpri en mjúkri rödd úr þjóðsögum Jóns Árnasonar, eða vel valda kafla úr Íslendingasögunum og hreif okkur með sér inn í dulheima ævintýra og goðsagna fyrri tíma.
Hann hafði gaman af góðum félagskap, og ekki spillti fyrir ef hann hafði dreitil af góðu whisky í glasi og London Docks vindil að totta. Við svona tækifæri kom það fyrir að hann brá fyrir sig sænsku og tók lagið. Þá urðu fyrir valinu lög við ljóð eftir ljóðskáldið Dan Andersson, en það gat eins verið Evert Taube, Tómas Guðmundsson, Þorsteinn Erlingsson eða góðvinur mömmu og hans, Jóhannes úr Kötlum.
Pabbi var sjálfstæðismaður, ekki bara í pólitík heldur líka í eðli sínu. Hann kom frá venjulegu bændabýli, sem líkt og flest önnur á þeim tíma rétt náði að fæða og klæða fólkið sem þar bjó. Hann upplifði uppgang landsins og sá fyrir sér að ekki myndi vel fara þegar óhófið gekk úr böndum. Nei, Íslendingar eiga að sjá fyrir sér og sínum, og vera ekki upp á aðra komnir. Það var hann heldur ekki svo lengi sem hann gat séð um sig og sína.
Síðustu árin þurfti pabbi á hjálp annarra að halda og öll sú alúð og umhönnun sem hann naut frá starfsfólkinu á Ási er lykillinn að farsælum endi á langri og viðburðaríkri ævi.
Eiður Hermundsson var á margan hátt mjög sérstakur maður, það held ég að flestir sem þekktu hann séu mér sammála um.
Ég vil með þessum orðum þakka þér fyrir að ég hafi orðið þess aðnjótandi að þú ólst mig upp sem þinn eigin son. Flest sem ég set mat á í dag er hluti af því veganesti sem þú útbjóst fyrir okkur, börnin þín.
Ljótur.