Kristrún Stefánsdóttir fæddist í Reykjavík 4. janúar 1955. Hún lést á líknardeildinni í Kópavogi þann 20. október 2014. Foreldrar hennar voru Kristrún Ásbjörg Ingólfsdóttir, húsmóðir, sem lifir dóttur sína, og Stefán Sigurðsson, atvinnubílstjóri, er lést 59 ára að aldri árið 1985. Kristrún á fjóra bræður; Guðmund, f. 10.4.1952, Sigurþór, f. 4.1.1955, Ingólf, f. 20.7.1960 og Stefán, f. 8.3.1962. Hinn 9. desember 1973 kvæntist Kristrún Garðari Árnasyni, rafvélavirkja, frá Keflavík, f. 9.7.1954. Foreldrar hans voru Árni Guðmundur Vilhjálmur Sigurðsson, f. 9.4.1918, d. 19.3.2001, og Vilborg Strange, f. 22.2.1923, d. 27.09.2014. Kristrún og Garðar eiga tvær dætur: 1) Kristrún Lísa Garðarsdóttir, viðskiptalögfræðingur, f. 21.5.1975, sambýlismaður hennar er Nils Johan Torp, f. 10.12.1975. Dóttir Lísu er Selma Rún Sigurðardóttir, f.17.9.2005. Börn Lísu og Nils eru Knut Aleksander Torp, f. 8.1.2013, og Sara Marlen Torp, f. 5.9.2014. 2) Vilborg Anna Garðarsdóttir, viðskiptafræðingur, f. 8.4.1983, eiginmaður hennar er Þorgrímur Hallsteinsson, f. 19.2.1974, og eiga þau einn son, Garðar Helga Þorgrímsson, f. 20.6.2012. Kristrún ólst upp í Reykjavík og lauk barnaskólaprófi frá Breiðagerðisskóla og síðar gagnfræðiskólaprófi frá Réttarholtsskóla. Ung að aldri fór Kristrún til Innri - Njarðvíkur að vinna, þar sem hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, Garðari. Stuttu síðar hófu þau búskap á Klapparstíg 8 í Keflavík þar sem Kristrún starfaði hjá Sýslumanninum í Keflavík og Garðar við verslunarstörf. Þau flytja til Reykjavíkur 1976 þar sem Garðar hóf nám í rafvélavirkjun og Kristrún hóf störf hjá Lárusi Blöndal, bóksala. Síðar lá leið hennar í Sjúkraliðaskóla Íslands, í nám sem hún kláraði í Noregi eftir að hún og Garðar fluttu þangað árið 1980. Eftir það vann Kristrún mikið við umönnunarstörf tengd sinni starfsgrein, meðal annars á Landakoti og Elliheimilinu Grund. Kristrún sat líka í stjórn Sjúkraliðafélags Íslands um tíma. Árið 1983 flytja Kristrún og Garðar aftur heim til Íslands, með dætur sínar tvær, og í framhaldi af því hefur hún nám í Lyfjatækniskólanum. Kristrún starfaði alla tíð í heilbrigðisgeiranum og unni sér best á þeim vettvangi. Kristrún hafði ávallt mikið dálæti á hvers kyns útiveru, gönguferðum, ferðum í sumarbústaðinn sem hún og Garðar eiga og að sinna og njóta tíma með barnabörnunum sem hún átti og elskaði svo heitt. Útför hennar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 30. október 2014 kl 15:00.
Þú ert hetjan mín. Hversu oft ég sagði þessi orð við hana mágkonu mína og meinti þau svo innilega. Því hún Krissa barðist hetjulega og af miklu æðruleysi við hinn illvíga sjúkdóm sem herjaði á hana. Í hvert sinn sem sjúkdómurinn tók sig upp aftur var alltaf sama svarið þetta er bara verkefni sem ég þarf að takst á við og ég ætla mér að klára það! En því miður er það ekki alltaf svo að maður fari með sigur af hólmi þó svo að viljann og kraftinn vanti ekki.
Ég er búin að eiga samleið með Krissu í nær hálfa öld. Hún var vinkona mín, systir sem ég hafði aldrei átt og mágkona. Hún giftist Garðari bróður mínum 9. desember 1973 aðeins 18 ára gömul og eiginmaðurinn litlu eldri. Þó þau væru ung vissu þau nákvæmlega hvað þau vildu, sem var að eyða lífinu saman. Og það fengu þau í rúm 40 ára þar sem þau hafa gengið samsíða og saman tekist á við lífið í gleði og sorg. Hann bróðir minn hefur staðið sem klettur við hlið konu sinnar í veikindum hennar og ég veit hversu þakklát og stolt hún var að eiga hann. Gleðigjafar þeirra eru dætur þeirra tvær, Kristrún Lísa og Vilborg Anna, svo og barnabörnin þeirra fjögur sem Krissa kallaði ávallt litlu gullmolana og djásnin sín. Krissa var yndisleg mamma og amma sem var alltaf vakandi og sofandi yfir velferð barna og barnabarna sinna. Ef einhver átti slæman dag var Krissa mætt á staðinn með góð ráð undir rifi hverju og linnti ekki látum fyrr en sá hinn sami var farin að brosa á ný. Það eru svo margar dásamlegar stundir sem við höfum átt saman sem eru svo dýrmætar sér í lagi núna á þessum köldu vetrardögum. Krissa var skemmtileg kona, alltaf líf og fjör í kring um hana, alltaf til að gera eitthvað skemmtilegt og hugmyndaflug hennar var mikið. Vinamörg var hún og ávallt hrókur alls fagnaðar þar sem hún kom. Ráðagóð kona sem alltaf var boðin og búnin að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda. Yfirleitt var það þannig að hlutirnir urðu að ganga hratt fyrir sig og setningar eins og koma svo.. og drífa sig.. óma í kollinum á mér en það var einfaldlega ekki hennar stíll að draga lappirnar og gera hluti á morgun ef það var hægt að gera þá í dag.
Vilborg Anna yngri dóttir Krissu og Garðars er fædd á sama ári og Hulda Karen mín svo samgangurinn varð ennþá meiri fyrir vikið - og þá var gott að leita í reynslubrunn Krissu hún var jú búin að ganga í geng um þetta áður. Og alltaf var pláss hjá þeim hjónum fyrir litla frænku í lengri eða skemmri tíma ef við foreldrarnir brugðu okkur frá. Krissa sagði þá gjarnan því fleiri því skemmtilegra! Vá hvað þetta voru dásamlegir tímar. Það eru ófáar stundirnar sem við hjónin höfum átt með Krissu og Garðari bæði í tjaldferðum, sumarhúsum eða í svokallaðri systkinaeflingu á Flúðum sem frú Kristún stóð fyrir. Þar var mikið hlegið keppt í mis skynsamlegum þrautum og sungið fram á rauða nótt. Undanfarin ár höfum við systkini Garðars makar börn og barnabörn farið saman í Veiðivötn og dvalið þar í nokkra daga í senn. Flestir farið að veiða en ég og Krissu kusum að sitja heima í kofanum með prjónana okkar og spjalla saman og nutum þess svo innilega. Þá eru ógleymanlegar ferðir okkar í sólin á Mallorca eða Benidorm. Oftar en ekki var dvalið í sömu íbúðinni og þó að plássið hafi ekki verið mikið þá var ekki leiðinlegt í þeirri íbúð ! Hún kenndi mér að borða ólífur í sólinni á Benidorm tók smá tíma en frú Kristrún gafst ekki upp og taldi mér trú um að þetta væri afar hollt og gott og auðvita trúði ég því og hef lært að elska ólífur og í hvert sinn sem ólífukrukka er opnuð er mér hugsað til hennar mágkonu minnar og verður það svo um ókomna tíð.
Elsku Krissa mín ég vona svo innilega að herskari engla umvefji þig hlýjum örmum á meðan við hin lofum að vera dugleg að umvefja Garðar þinn, stelpurnar þínar og alla litlu gullmolana þína sem voru þér svo dýrmætir. Ég þakka þér fyrir öll árin sem við höfum átt saman og geymi dýrmætan sjóð minninga í hjarta mínu.
Elsku Garðar minn, Vilborg Anna, Lísa, bræður hennar, móðir svo og aðrir
aðstandendur guð gefi ykkur styrk á erfiðum tímum. Verið dugleg að
halda utan um hvert annað og leyfið minningunum að flæða og tárunum að
streyma það er svo vel við hæfi því hún Krissa var okkur öllum svo mikils
virði. Hvíl þú í frið elsku Krissa mín.
Sigríður Victoría Árnadóttir (Sirrý ).