Sigríður Jónsdóttir fæddist á Ökrum í Hraunhreppi á Mýrum 18. janúar 1932. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 24. nóvember 2014.
Foreldrar hennar voru Ingigerður Þorsteinsdóttir, fædd 22. maí 1898 í Háholti í Gnúpverjahreppi, dáin 3. mars 1991, og Jón Guðjónsson, fæddur í Hjörsey á Mýrum 30. mars 1875, dáinn 27. júlí 1961. Systkini Sigríðar eru Jón Sigurðs Jónsson, f. 23. nóvember 1926, látinn, Ingibjörg Jónsdóttir, f. 23. september 1928, Sigríður Guðný Jónsdóttir, f. 31. júlí 1935, og Sesselja Ásta Jónsdóttir, f. 28. apríl 1938. Sigríður giftist 21. september 1952 Skúla M. Öfjörð, fæddum í Skógsnesi í Gaulverjabæjarhreppi 9. maí 1928, látnum 20. mars 2007. Foreldrar hans voru Þórdís Ragnheiður Þorkelsdóttir, fædd í Reykjavík 10. mars 1892, látin 15. apríl 1950, húsfreyja í Skógsnesi, Gaulverjabæjarsókn og Magnús Þórarinsson Öfjörð, fæddur í Austurhlíð, Gnúpverjahreppi, 21. júlí 1888, látinn 25. apríl 1958, bóndi í Skógsnesi, Gaulverjabæjarsókn. Sigríður og Skúli slitu samvistum. Börn þeirra eru 1) Jón Ingi, kvæntur Gerði Helgadóttur, 2) Þórdís Kristín, gift Ingólfi Einarssyni, 3) Sveinn, kvæntur Helgu Hjartardóttur, 4) Þóra, í sambúð með Ríkharði Jónssyni, 5) Ingigerður, gift Hrafni Sigurðssyni og 6) Magnús Þórarinn, kvæntur Þórunni R. Sigurðardóttur. Barnabörn Sigríðar eru 18 og langömmubörnin eru orðin 27.
Sigríður ólst upp í foreldrahúsum í Fíflholtum á Mýrum ásamt fjórum systkinum sínum. Haustið 1944, þegar hún var tólf ára gömul var hún send til föðursystur sinnar, Guðnýjar, í Reykjavík og gekk í Miðbæjarskólann tvo vetur. Veturinn 1949-1950 stundaði hún nám í húsmæðraskólanum að Varmalandi í Borgarfirði. Sigríður og Skúli hófu búskap sinn á Selfossi haustið 1951 og síðar fluttust þau að Gaulverjabæ í Flóa. Þau fluttu síðan í Vesturbæ Reykjavíkur í janúar 1954 að Sólvallagötu 68 B. Fjölskyldan byggði sér hús í Hlaðbrekku 3 í Kópavogi á árunum 1959-1962. Bjuggu þar til ársins 1978 er þau hjónin slitu samvistum. Þaðan flutti Sigríður í Hlégerði 12 í Kópavogi. Vorið 1979 flutti Sigríður vestur á Stað í Súgandafirði og var þar í sambúð með Þórði Ágústi Ólafsyni. Átti hún þar 4 góð ár með Þórði Ágústi en hann lést í desember 1983. Sigríður bjó áfram í nokkur ár þar fyrir vestan. Síðar þegar heilsunni fór að hraka þá fluttist hún suður í íbúð sína í Hlégerði 12 í Kópavogi og var þar yfir vetrartímann, en fór næstu ár á eftir vestur í sauðburðinn á vorin og var oft sumarlangt. Í janúar 1997 flutti Sigríður ásamt syni sínum Magnúsi og tengdadóttur sinni Þórunni á Digranesheiði 23 í Kópavogi
Sigríður vann á saumastofu Kaupfélags Árnesinga meðan hún bjó á Selfossi. Síðar á búskaparárum í Hlaðbrekku starfaði hún við skúringar og gangavörslu í Digranesskóla meðfram barnauppeldi. Meðfram bústörfum fyrir vestan, á Stað, vann hún við fiskvinnslu á Suðureyri. Sigríður var mikil handavinnukona prjónaði og heklaði og hún saumaði föt á börnin sín þegar þau voru lítil og síðar á barnabörnin.
Útför Sigríðar Jónsdóttur fer fram frá Digraneskirkju í dag, 8. desember 2014, klukkan 11.

Hún ólst upp í fögrum fjallahring í Fíflholtum á Mýrum, hjá foreldrum sínum og Þóru móðursystur, með systrum sínum og bróður.

Sigga var bóndadóttir, en mamma var bóndinn eins og Sigga sagði og Þóra hugsaði um börnin og heimilið. Umhverfið var víðsýni náttúrinnar og dýrin. Sigga tengdist dýrunum, sérstaklega kindunum og hún þekkti margar jurtir og sumar borðaði hún. Hún var send í sendiferð með rafhlöuna úr útvarpinu á annan bæ á hesti til að hleðslu. Það var erfitt að halda rafhlöðunni á hestinum.

Hún lærði að lesa og las alltaf mikið, söng og kunni mörg lög og texta og gat sett saman vísur. Ungmennafélag var í sveitinni og tók Sigga þátt í því og þar lék hún á móti Ásmundi á Ökrum.

Sigga var send í skóla til Reykjavíkur til föðursystur sinnar Guðnýar. Skólinn var við Stýrimannastíg og var Sigga lægst í bekknum um haustið þegar hún kom, en hæst um vorið. Hún fór ung í Húsmæðraskólann á Varmalandi og margt þaðan tileinkaði hún sér alla ævi.

Lífið hélt áfram og hún giftist og eignaðist sex börn og bjó lengst af í Kópavogi. Maðurinn hennar tók hana með sér á fund hjá Nýállssinnum og þar kemur í ljós að hún hefur miðilshæfileika og fær þjálfun þar.

Fundum okkar lá saman hjá Félgi áhugamanna um stjörnulíffræði fyrir nærri 30 árum.

Sigga var góðurr miðill og alltaf komu læknar í sambandið til að hjálpa fólki heilsufarslega. Margt fók hafði samband við Siggu og bað fyrir nöfn sem nefd voru svo á næsta miðilsfuni og fóru einnig í bænabókina hennar sem lá á altarinu úr kirkjunni í Hjörsey .

Hjónabandinu við eiginmanninum lauk og Sigga flutti að Stað í Súgandafirði til að búa með bóndanum þar Þórði Ágúst Ólafssyni. Hann var ástin í lífi hennar. Henni líkaði líka vel að vera komin aftur í sveitina og ekki spillti berjalandið með aðalbláberjum, sem eru einu berin að mati vestfirðinga og strandamanna. Gústi var eldri en hún og var spurður hvort hann væri ekki hræddur um hana fyrir yngri mönnum nei sagði Gústi en ég reyni ekki að keppa við rollurnar.  Sambandi entist ekki lengi eða Gústi lést eftir nokkra ára sambúð. Þá var Siggu brugðið en var áfram þann vetur og hugsaði um rollurnar. Hún fór í mörg ár á eftir að Stað til Þorvaldar og Rósu til að vera í sauðburðinum á vorin og við slátunina á haustin og tína ber í leiðinni.

Hún flutti aftur í Kópavoginn að Hlégerði og seinna að Digranesheiði þar sem hún keypti hús með syni sínum og tengdadóttur.

Það er stór ættbogi kominn út af Siggu og síðan bættust við afkomendur Gústa.

Tengslin þar virðust ekki minni en hjá hennar eigin fjölskyldu, svo það var marg fólk í kringum Siggu fyrir utan alla sem höfðu samband við hana vegna andlegu málanna.

Kærleikur og hlýja barna hennar, tengdabarna og barnabarna var sterkur og umvefjandi þegar hún lá banaleguna, þess fékk ég að njóta, þökk fyrir það.

Hún fékk mikið af jólakortum og sendi mikið af jólakortum, þar til henni fannst komið nóg og sendi jólakveðju í útvarpinu.

Sigga var ekki bara góður miðill hendur líka góð vinkona.Hún var ljúf og trygg, skemmtileg og fróð. Undanfarin ár höfum við farið í mörg ferðalög innanlands og hún vissi mikið um landið staðhætti, nöfn á fjöllum og þekki jafnvel til bæja. Það var alltaf gaman að ferðast með henni hvort sem var um suðurland og gist í Hörgslandi austan við Kirkjubæjarklaustur, Snæfellsnes eða suð-vestur hornið.  Ekki ná gleyma strandaferðunum að tína ber í nágenni Hólmavíkur og gist í sumarbústað og seinna á Kirkjubóli, alltaf í bændagistingu þar sem við tókum með sængurnar okkar og elduðum eða ég eldaði og Sigga sagði, láttu mig vita, ef ég get gert eitthvað. Hún talaði og meingaði loftið reglulega. Hún kenndi mér að tína bláber með tínu án þess að skemma lyngið, nátturan er heilög.

Vinátta kvenna felur ekki í sér spennuna sem er á milli karls og konu. Vinátta Siggu var alltaf jöfn, áreiðanleg og það fylgdi henni öryggistilfinning. Okkur varð aldrei sundurorða. Góð vinátta er gulls ígyldi.

Nú förum við ekki í fleiri ferðir, hvorki í ber, eða aðrar ferðir, né að fá okkur að borða, á kaffihús eða íslenkar kvikmyndir. Hún kemur ekki með mér í skötu hjá Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi og hún kallar ekki upp til Þórunnar við Elsabet erum að fara á flakk.Það var enginn fundur bókaður í bókinni hennar aðeins jólahlaðborð i Reykholti í Borgarfirði með Elsabetu.Sú ferð verður ekki farin, en eitthvað annað kemur í staðinn. Enginn er ómissandi og allt hefur sinn tíma, við hittumst aftur.

Röddin er hljóðunuð en minningin er sterk um góða vinkonu sem á sér ekki marga líka.

Ég votta öllum aðstendendum Sigríðar Jónsdóttur samúð mína.

Elísabet Jónsdóttir