Sigtryggur Sigurðsson fæddist í Reykjavík 1. mars 1946. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. desember 2014.
Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir húsmóðir, f. 14. maí 1913, d. 28. mars 2004, og Sigurður Sigtryggsson, f. 25. október 1913, d. 5. júní 1987. Sigtryggur ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík og bjó þar alla tíð. Sigtryggur lærði málaraiðn og starfaði sem málarameistari með eigið fyrirtæki. Hann stundaði íþróttir sem ungur maður, einkum glímu, og var sigursæll í þeirri grein.
Vann hann oftar en einu sinni Grettisbeltið, einnig sjö sinnum Skjaldarglímu Ármanns og varð glímukóngur Íslands.
Skákin var honum hugleikin og stundaði hann hana alla tíð. Hann var mikill bridsspilari og tók þátt í mörgum keppnum og var í landsliðinu í brids. Sigtryggur var ókvæntur og barnlaus.
Útför Sigtryggs fer fram í Neskirkju í dag, 15. desember 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Kveðja frá Smámeistaraklúbbnum

Sigtryggur Sigurðsson var einn af stofnendum Smámeistaraklúbbsins haustið 1963 ásamt undirrituðum, Jóhannesi Birni, Gunnari Inga, Jóni Guðmari og Snorra Þorvalds. Sigtryggur var fremstur meðal jafningja og rúllaði okkur hinum upp enda geysilega sókndjarfur og lét vaða á súðum eins og Bragi Kristjáns.  Hann réðst á kónginn af álíka hörku og Skagamenn á markið í gamla daga nema hvað Sigtryggur var auðvitað innvígður KR-ingur!  Æfingar fóru fram á Barónsstíg 49/51 hjá undirrituðum, Hverfisgötu 32 hjá Jóhannesi, Laugalæk 1 hjá Guðjóni Magg og síðast en ekki síst á Melhaga 9, æskuheimili Sigtryggs.  Keppnisharka Sigtryggs var með ólíkindum og þegar móðir hans kom með ljúffengt bakkelsi inn í skáksalinn handa soltnum smámeisturum varð hún að vera snögg til þess að trufla ekki einbeitingu sonarins!

Hann sagði líka frá ýmsum viðureignum sínum á fjálglegan hátt t.d. þegar hann mátaði Geirlaug kyrfilega í horninu!  Ógleymanlegt er einnig þegar þeir Sigtryggur og Helgi Hauksson guðuðu á gluggann á Barónsstíg 51 um miðnæturskeið haustið ´65, nýkomnir af skákæfingu hjá Taflfélaginu.  Þeir tjáðu undirrituðum þau stórtíðindi að Sigtryggur hefði lagt alla andstæðinga sína að velli í tvígang m.a. Sigga Jóns og sjálfan Inga R!  Þegar þeir Siggi og Ingi R. voru að fara yfir skák sína og Sigtryggur kom með fyrirspurn um betri leik í stöðunni  svaraði Ingi R stráklingnum:  Varstu að tala við mig! Vert er að geta þess að Helgi Hauks var á þessum tíma áhaldavörður hjá Taflfélaginu sem kom sér oft vel ef vantaði töfl og klukkur á smámeistaramótum!

Með tíð og tíma bættust fleiri í hópinn og smámeistarar náðu góðum árangri á skákmótum; a.m.k. þrír félagar okkar tefldu í Landsliðsflokki Jón G. Briem, Bragi Halldórsson sem varð meira að segja Norðurlandameistari í hraðskák ´71 og Harvey Georgsson, hinn mikli meistari, sem einnig tefldi í Alþjóðlega Reykjavíkurmótinu 1972 og náði þá jafntefli við stórmeistarann Raymond Keene.  Jón Múli sagði í hádegisfréttum daginn eftir:  Jafntefli gerðu Englendingarnir Harvey og Keene!  Þá tefldi Jóhannes Björn á Evrópumóti unglinga 1969 í Hollandi og var jafnan nefndur Hollandsfarinn  eftir það og Sigtryggur gaf honum nafnið Johnny Ludvigs! Jóhannes tefldi um sæti í Landsliðsflokki við öðlinginn Stefán Þormar en tapaði naumlega. Gunnar Birgisson Kópavogsjarl var grjótharður hraðskákmaður og settur í sérstakar æfingabúðir hjá smámeisturum til þess að berja á þeim hörðustu og gerði það!

Sigtryggur sagði að mestu skilið við taflið þegar fram liðu stundir og sneri sér að brids og varð einn besti bridspilari landsins og margfaldur Íslandsmeistari með sveit sinni.  Þá varð hann snemma glíminn og ákaflega sigursæll.  Sigtryggur var ekki að tvínóna við hlutina heldur hlóð hann andstæðingum sínum jafnan á mettíma enda heyrðist um árabil Stigið Sigtryggur vann á öldum ljósvakans þegar glímumótum var lýst.  Stefið varð seinna frægt í einu sönglagi Þursaflokksins.

Margar skemmtilegar minningar koma upp í hugann við leiðarlok.  Þegar smámeistarar fengu sér pylsu og kók í Hagavagninum og voru að ljúka við eina með öllu var Sigtryggur búinn að sporðrenna 3-4 enda mikill á velli og þurfti staðgóða næringu. Sigtryggur vann til verðlauna á Skákþingi Íslands 1964.  Hann hringdi í mig og bað mig að taka við verðlaunum í hans stað þar sem hann ætti ekki heimangengt.  Það var auðvelt að verða við þeirri bón en fyrsti maður sem mætti í Breiðfirðingabúð var auðvitað Sigtryggur enda 1. apríl!  1966 héldu nokkrir smámeistarar í Þórsmerkurferð um verslunarmannahelgi á Willis ´53 Ísraelsjeppa.  Í ferðinni vorum við Sigtryggur, Steini Steingríms, smámeistari og ef mig misminnir ekki Snorri Þorvalds.  Við lögðum af stað vel nestaðir í mat og drykk og ókum Þrengslin austur vegna þess að löggan beið á Kambabrún til að góma ungmenni sem voru á leið á útihátíð og gerði áfengi upptækt. Komumst síðan klakklaust yfir Krossá inn í Langadal og gæddum okkur á skrínukosti mæðra vorra.  Við minni spámenn drukkum límonaði með kæfubrauðinu en glímukappinn renndi hangiketsflatkökum niður með óblönduðum sjeníver!  Það þótti okkur hraustlega gert.  Engin taflmennska var iðkuð á svæðinu nema ef vera skyldi að einhverjir hróksleikir hafi verið leiknir í kjarrinu!

Sigtryggur Sigurðsson var stórbrotinn karakter, stundum hrjúfur og snöggur upp á lagið en fyrir innan skrápinn sló hjarta úr skíra gulli.  Hann var skarpgreindur, vel lesinn og ágætlega að sér í fornsögunum enda sjálfur fornmaður í besta skilningi þess orðs.  Sigtryggur var sjálfkjörinn formaður hátíðarnefndar á 50 ára afmæli Smámeistaraklúbbsins haustið 2013 þar sem blásið var til skákmóts með þátttöku smámeistara auk tveggja gesta af eldri kynslóð meistara; þeirra Jóns Kristinssonar og Jónasar Þorvaldssonar sem tefldu í ólympíuliði Íslands í Varna í Búlgaríu 1962. Sigtryggur var skákstjóri þar sem hann var búinn að leggja taflmennina á hilluna.  Af meðfæddum höfðingsskap bauð hann til herlegrar matarveislu að móti loknu. Í veislunni rifjuðu menn upp skemmtileg atvik yfir taflborðinu og hermdu sögur af kostulegum kynjakvistum meðal skákmanna í gegnum tíðina.

Smámeistarar kveðja góðan félaga og þakka Sigtryggi Sigurðssyni ljúfa samfylgd og trausta vináttu.

Gunnar Finnsson.