Berglind Eiðsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 16. nóvember 1974. Hún andaðist 6. desember 2014.
Foreldrar hennar eru Eiður Marínósson, f. 1939, d. 2000, og Sigurborg Engilbertsdóttir, f. 1944, sem býr í Vestmannaeyjum. Systkini Berglindar eru Marín Eiðsdóttir, f. 1962, Engilbert Eiðsson, f. 1964, d. 1984, og Matthildur Eiðsdóttir, f. 1961, d. 2010. Synir Berglindar eru: Alexander Freyr Brynjarsson, f. 1993, og Engilbert Egill Stefánsson, f. 1997.
Útför Berglindar fer fram frá Landakirkju í dag, 20. desember 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Ég sit hér dofinn vegna andláts þíns og sorgin er alveg óbærileg. Ég gæti skrifað heilu bækurnar um öll samtölin okkar, um lífið og veginn og allt það sem við höfum upplifað og gert saman. Ég gat ávalt leitað til þín og þú til mín, það fór aldrei lengra hvað á milli okkar fór og þú varst mér tryggur vinur og félagi.
Við kynntumst 1988 á svokölluðu Oz-árum, þegar sameiginlegur vinur okkar lést. Þótt að það hafi verið þrjú ár á milli okkar þá hófst vinskapur okkar strax sem varð sterkari og traustari með hverju árinu sem leið.
Eitt af því sem þér þótti svo vænt um var að ég kallaði þig aldrei Beggu einsog þú varst kölluð, heldur kallaði ég þig ávalt fyrir Berglindi, enda þýðir nafnið þitt bergvatnslind eða uppspretta.
Þú varst uppspretta, uppspretta af kærleika, gleði, trausti og trúnaði. Þú varst með afskaplega hlýtt hjarta, barngóð og með frábæran aulahúmor eins og ég. Fimm-aurarnir okkar voru frábærir að okkar mati allavega.
Við áttum svo margt sameiginlegt og eitt af því var tónlistin. Um tónlistina gátum við alltaf talað saman, hvort sem hún tengdist gleði eða sorg. Það hefur engin önnur manneskja haft jafnmikil áhrif á mig sem tónlistarmaður einsog þú hefur haft. Þú vildir alltaf heyra það sem ég var að gera og semja og vildir fá það nýjasta úr tónlistarsmiðjunni og þú hvattir mig óspart að halda áfram.
AFREK er hljómsveit sem þú áttir stórann þátt í að byggja. Þú spurðir mig hvort ég gæti samið lag um Helliseyjarslysið þar sem bróðir þinn fórst. Þessi bón þín sat lengi í mér en svo kom lagið sem ég nefndi Guðlaugssund og þú stakkst uppá því að ég fengi Sævar Helga Geirsson til að syngja lagið, því að bróðir hans hafði einnig farist í sama slysi. Upp frá því spratt óendanleg vinátta milli míns og Sævars og til varð Hljómsveitin AFREK sem starfar enn í dag og þökk sé þér. Þú vildir alltaf heyra það sem við vorum að bralla og ég á til upptökur þar sem varst þú á staðnum þegar við Sævar vorum að setja eitt lag saman og þar má heyra þig syngja með.
Þegar við gáfum út lagið Þúsund bitar sagðir þú mér að þetta væri lagið þitt og gætir bara ekki hætt að hlusta á það vegna þess að textinn snerti þig, enda fjallar hann um vináttuna og trúna. Þegar ég hlusta á þetta lag í dag þá græt ég og minnist orða þinna. Þú sagðir oft að tónlist væri þér allt og hún hjálpaðir þér þegar þér leið illa. Tónlistin var þér allt.
Þjóðhátíðin var þinn tími. Þú elskaðir þjóðhátíðarlögin og þjóðhátíðarstemmninguna. Þú varst alltaf svo stolt af tjaldinu ykkar og komst alltaf yfir í tjaldið okkar til syngja með okkur. Stundum fékkstu okkur Sævar lánaða yfir í þitt tjald til að taka nokkur lög þar. Núna þegar ég skoða allar þessar þjóðhátíðarmyndir af okkur gegnum árin, þá lýsa þær þér svo vel, bleikklædd og brosandi þínu breiðasta, reyndar ekki bara þjóðhátíðarmyndirnar heldur allar myndirnar sem ég á af þér og okkur saman í gegnum tíðina. Alltaf brosandi þínu breiðasta fallega brosi.
Þig dreymdi alltaf um að fara Færeyja. Allt við Færeyjar heillaði þig og þá sérstaklega tungumálið. Þú spurðir mig oft hvernig ætti að segja þetta og hitt á færeysku eða hvað færeyskt orð þýddi. Þér þótti sum orðin á færeysku svo fyndin og við hlógum oft að þessu. Við vorum búin að ákveða það fyrir löngu að fara saman til Færeyja en aldrei varð úr því. Næst þegar ég fer heim til Færeyja mun ég taka þig með mér í hjarta mínu.
Lífið var þér ekki alltaf auðvelt og oft tjáðir þú mér sorgir þínar og raunir og hvað þú þráðir að fá frið í hjartanu. Þú talaðir oft um bróðir þinn Edda sem var þér svo kær. Trúin var þér einnig fylgjandi förunautur þó þú hafir ekki sýnt það öðrum en það veit ég því við töluðum oft um trúnna.
Eftir að ég snérist sjálfur til trúar og frelsaðist þá komstu leitandi til mín og einnig til Stínu minnar og þú varst svo glöð að sjá þessar breytingar í lífi okkar. Ég óskaði þess að þú fylgdir okkar alla leið í trúnni því þér leið alltaf svo vel þegar trúin snerti þig og hjarta þitt.
Þú sendir mér stundum trúarlög sem væri gaman að útsetja á íslensku og síðast var það My life is in your hand með Kirk Franklin og þú sagðir að boðskapur textans talaði til þín og þú vildir syngja með í hópsöngnum ef við myndum gefa það út.
Þú sagðist alltaf vera pæla og spekúlera eitthvað en oftast væri það bara einhver vitleysa hjá þér sem engin skildi en ég skildi þig svo sannarlega því ég er akkúrat alveg eins. Þess vegna náðum við svo vel að tengjast hvort öðru.
Bleikur var liturinn þinn. í þínum huga átti allt að vera bleikt. Bleikur bíll, bleikt hús, bleikur fatnaður, bleikt hár og svona má lengi telja. Allur heimurinn átti vera bleikur. Sólarhring eftir að ég fékk símtalið að þú værir látin þá var mikið sjónarspil á himni og norðurljósin léku um stjörnubjarta himinninn. Þá er mér litið til austurs milli Eldfells og Helgafells og þar á festingunni glitraði ein Bleik Stjarna. Stjarnan þín.
Ég gæti haldið svona lengi áfram en læt þessar örfáu línur nægja. Ég kveð þig elsku vinkona með sorg í hjarta og söknuði. Ég mun sakna þín mikið. Ég mun ávalt geyma vinskap okkar sem gull í hjarta mér og er ég þakklátur að hafa átt þig sem vin. Ég þakka þér fyrir allt og að hafa ávalt verið dætrum mínum góð.
Heimurinn er svo sannarlega fátækri án þín en himnaríkið er ríkara núna að eiga engill eins og þig. Við hittumst svo aftur hinumegin elskan en þangað til verð ég njóta minninganna.
Ég vil votta Bossý, Edda, Alexander, Marín, Bryndís og öðrum aðstandendum alla mína samúð og megi guð styrkja ykkur í sorginni.
Ég elska þig vinkona. Þinn vinur & félagi,

Helgi Tórs.