Eyþór Guðmundsson var fæddur á Eyjólfsstöðum í Fossárdal í Suður-Múlasýslu 3. desember 1937. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði 28. desember 2014.
Foreldrar hans voru hjónin Margrét Guðmundsdóttir, f. 28. maí 1899 á Ánastöðum í Breiðdal, d. 4. desember 1989 og Guðmundur Magnússon, f. 5. júní 1892 á Eyjólfsstöðum, d. 17. febrúar 1970. Eyþór var yngstur 9 systkina. Þau voru Gunnar 1922 – 2006, Valborg 1923 – 2010, Hallur 1926 – 1995, Guðrún 1928, Rósa 1929, Guðmundur 1931 – 1935, Hermann 1932 og Guðný 1935.
Eyþór kvæntist 5. september 1964 Öldu Jónsdóttur frá Djúpavogi. Foreldrar hennar voru Halla Jónsdóttir og Jón Vilhelm Ákason. Börn Eyþórs og Öldu eru 1) Halla Eyþórsdóttir, f. 27. febrúar 1965, gift Brynjólfi Gunnari Brynjólfssyni, f. 26. febrúar 1956. Dóttir þeirra er Alda Kristín, f. 12. júlí 2000. Í fyrra sambandi átti hún Eyþór Bjarna, f. 25. júní 1983 og Kristófer Nökkva, f. 5. september 1989. Faðir þeirra er Sigurður Hlíðar Jakobsson. Dóttir Eyþórs Bjarna er Myrra Kristín f. 10. janúar 2013. 2) Guðný Gréta Eyþórsdóttir, f. 26. febrúar 1969, gift Hafliða Sævarssyni, f. 30. maí 1966. Þeirra börn eru Bjartmar Þorri, f. 12. júní 1987, Jóhann Atli, f. 31. mars 1992, og Bergsveinn Ás, f. 22. mars 2000. 3) Jón Magnús Eyþórsson, f. 27. júlí 1979, kvæntur Kötlu Björk Hauksdóttur, f. 30. september 1980. Þeirra börn eru Anton Elís, f. 5. september 2009, og Eyþór Örn f. 25. september 2011. 4) Hrafnhildur Eyþórsdóttir, f. 24. júlí 1980. Börn hennar eru Þórir Freyr, f. 20. maí 2006, og Máney Þura, f. 12. júlí 2009. Faðir þeirra er Kristján Björnsson.
Eyþór ólst upp á Eyjólfsstöðum í Fossárdal en flutti með foreldrum sínum til Hornafjarðar vorið 1960. Þar hóf hann nám í húsasmíði og var orðinn meistari í þeirri iðn þegar hann tók við búi af bróður sínum á Eyjólfsstöðum árið 1973. Í Fossárdal byggði hann fljótlega stórt og vandað íbúðarhús ögn innar í dalnum en gamli Eyjólfsstaðabærinn er, og nefndi býlið Fossárdal. Nafnið Eyjólfsstaðir kom ekki fram fyrr en á 19. öld eftir að býli urðu fleiri en eitt í Fossárdal. Gamli bærinn fékk nýtt hlutverk eftir að flutt var í nýja húsið því að þar hafa þau hjón rekið ferðaþjónustu allar götur síðan. Eftir u.þ.b. 10 ára búskap var byggt annað íbúðarhús skammt frá því fyrra fyrir Guðnýju Grétu og Hafliða mann hennar og hefur búreksturinn stig af stigi flust á þeirra hendur. Einnig hafa þau annast póstdreifingu við Berufjörð og Álftafjörð. Eyþór var annálaður dugnaðar- og eljumaður, en varð loks að láta undan, eftir hetjulega baráttu hálfa ævina við Parkinsonsjúkdóm.
Útför Eyþórs fer fram frá Djúpavogskirkju í dag, 3. janúar 2015, og hefst athöfnin kl.14.
Eyþór var mikið náttúrubarn og afburða veiðimaður af lífi og sál. Ungur fór hann upp á Dalinn og veiddi rjúpu á hinum fagurlega sveigðu ásum, sem liggja sitt hvoru megin árinnar, sem Dalurinn ber nafn af. Einkum þykir mörgum veiðilegt austan megin ár. Gekk veiðimaðurinn fram af miklu harðfylgi og lagði m.a. grunninn að því að ungu hjónin á Eyjólfsstöðum áttu snemma í sig og á.
Hreindýrin hafa löngum þótt búbót á Fossárdal og ekki lét hinn ötuli veiðimaður sitt eftir liggja, þegar svo bar undir. Kunni hann vel til verka og þegar að saman fór útrásin fyrir veiðiþörfina og sókn í eina af matarkistum Dalsins, má segja að Eyþór hafi á slíkum stundum verið í essinu sínu.
Þau hjón, Eyþór og Alda stunduðu hefðbundinn búskap á jörð sinni, en einkum er hún vel fallin til sauðfjárræktunar. Í nokkur ár var einnig sáð fyrir gulrófum og framleiddir bílfarmar af þessari hollu afurð.
Eyþór var valinn til trúnaðarstarfa fyrir sveitarfélag sitt, sem þá bar nafnið Beruneshreppur. Hann var tillögugóður, en ígrundaði mál sitt ætíð vel og ef hann flíkaði skoðunum sínum var ástæða til að taka grannt eftir.
Fyrst bjuggu Eyþór og Alda á Höfn í Hornafirði og síðar á Egilsstöðum. Á Höfn lærði og stundaði Eyþór iðngrein sína, smíðar af kappi. Einnig vann hann við smíðar í heimabyggð og má segja að ótrúlega mikið liggi eftir hann miðað við hina tiltölulega skömmu starfsæfi, er stafaði af veikindum hans til áratuga.
Síðar tóku þau hjón við búskap á Fossárdal, eftir að hafa keypt jörðina af bróður Eyþórs.
Fjótlega upp úr því fór að bera á veikindum Eyþórs, sem hann barðist við í tæplega 40 ár. Það var ekki fyrr en hann var orðinn verulega þjáður af veikindum sínum að kynni okkar og samband við hjónin á Eyjólfsstöðum hófst, enda þótt við hefðum vissulega bæði heyrt talað um fólkið, sem bjó á Dalnum.
Eyþór tókst á við veikindi sín af miklum hetjuskap. Að eigin frumkvæði og með aðstoð Öldu tókst honum að ná umtalsverðum bata eftir að hafa undirgengizt aðgerðir í því skyni að sporna við framgangi hinnar illræmdu veiki, sem kennd er við Parkinson. Var með eindæmum, hversu lengi honum tókst að hafa fótaferð og hrósa sigri í mörgum keppnislotum við hinn illvíga andstæðing, sem þessi sjúkdómur er. T.d. er í minni, þegar Eyþór, þá orðinn verulega sjúkur, hvatti til veiðiferðar í Nykurhyl í því skyni að leggja net fyrir sjóbleikju. Samferðarmanni hans stóð ekki á sama, þegar hann með einn staf í hönd stikaði yfir stórgrýti í átt að hylnum. Veiðihugurinn bar hann greinilega ríflega hálfa leið og var aðdáunarvert að skynja kapp hans og vilja til að verða enn og aftur virkur þátttakandi í veiðiferð, sem skila myndi málsverði á borð bænda á Eyjólfsstöðum og annarra, er þiggja vildu.
Eyþór dvaldi síðustu ár ævi sinnar á Uppsölum á Fáskrúðsfirði og naut þar góðrar umönnunar. Fékk hann þar m.a. útrás fyrir áhuga sinn að spila vist og eignaðist hann þar góða spilafélaga, sem nú sakna vinar í stað.
Hann fylgdist ætíð með því sem var að gerast á Dalnum, ekki sízt við smalamennskur. Meðan hann gat, sat hann við gluggann með talstöðina stillta inn á rás smalanna og fylgdist þar og í kíkinum grannt með framgangi verksins. Þegar veiðitími rjúpna var upp runninn var og gott til hans að leita um ráðgjöf vegna áforma um veiðar á jólasteikinni.
Hugur Eyþórs var ævinlega bundinn æskuslóðum hans og nú, þegar hann er allur, þakkar fjölskylda hans og vinir fyrir að lokaferð hans skyldi hefjast á Dalnum, sem honum var svo kær.
Meðan sauðfé gengur um grösugar hlíðar Fossárdals og veiðibráð ber fyrir augu á ásunum hans kæru, sem hann vissi nöfn á og þekkti betur en flestir aðrir, mun minningu Eyþórs Guðmundssonar bera við loft eins og Fossárfellið. Og landið mun óvíða skarta meiri fegurð, en uppi á Víðidalshæðum, hvar hann byggði afdrep fyrir þá, sem kynnu að lenda í vanda í misjöfnum veðrum.
Við hjónin sendum Öldu og fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur og þakkir fyrir vináttu, sem aldrei hefur borið skugga á.
Hlíf og Björn Hafþór.
Hlíf Herbjörnsdóttir og Björn Hafþór Guðmundsson