Ásgeir Markús Jónsson fæddist í Rafstöðinni við Elliðaár 15.  apríl 1943.  Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut að morgni 4. janúar 2015.

Foreldrar hans voru hjónin Gunnþórunn Markúsdóttir húsfrú f. 30.  október 1915 d. 27.  ágúst 2001  og Jón Ásgeirsson stöðvarstjóri f.  26.  október 1908 d. 20.  febrúar 1978.   Ásgeir átti tvær yngri systur, Sigríði f. 8. febrúar 1946 d. 8.  október 1993 og Guðrúnu f. 21.   mars 1950.  Eftirlifandi eiginmaður Sigríðar er Pétur Sigurðsson en eiginmaður Guðrúnar er Guðmundur M. Guðmundsson.

Á uppvaxtarárum sínum bjó hann með fjölskyldu sinni í Rafstöðinni við Elliðaár þar sem faðir hans starfaði.   Ásgeir var gagnfræðingur og lauk einum vetri í Kennarskóla Íslands við Laufásveg.

Árið 1963 giftist hann fyrri konu sinni Gerði Ólafsdóttur f. 30. mars 1943 en hún lést 24.janúar 1986.  Þau eignuðust tvö börn sem eru 1)Ólafur Jón f. 3.  júní 1965 en börn hans eru Axel Markús og Kristrún María og 2) Gerður Rós Ásgeirsdóttir gift Sigurði Heiðari Wiium.  Börn þeirra eru Sigurður Jóel, Sandra Rós, Karin Rós og Gerður Eva.  Árið 1987 giftist Ásgeir seinni konu sinni Maríu Mörtu Sigurðardóttur f. 3. október 1964.  Þeirra börn eru Davíð, Rakel og Samúel.  Unnusti Rakelar er Einar Gunnarsson og unnusta Samúels er Lovísa Snorradóttir.

Ásgeir fór á vegum Loftleiða til flugvirkjanáms í Tulsa, Oklahoma og lauk þar námi 1964.   Eftir námið hóf hann störf sem flugvirki og síðar sem flugvélstjóri hjá  Loftleiðum /Flugleiðum.  Þá starfaði hann sem flugvélstjóri hjá Cargolux í Lúxembourg til margra ára. Hann var einn af stofnendum Bláfugls, sat í fyrstu stjórn þess og var tæknistjóri þess félags til ársins 2009 þar til heilsa hans brast.

Mörg kristileg félög nutu krafta hans.  Hann var virkur félagi í KFUM og sat í stjórn þess félags um árabil.  Formaður sumarbúðanna í Kaldárseli var hann í 10 ár og kom ýmsu góðu til leiðar þar ásamt félögum sínum.  Sem ungur maður gerðist hann félagi í Gideon og fór í fjölmargar skólaheimsóknir með Nýja testamenti til 10 ára barna.   Hann var kórfélagi í Karlakór KFUM og naut þess ásamt því að starfa sem sjálfboðaliði á útvarpsstöðinni Lindinni.

Útför Ásgeirs Markúsar fer fram frá Hallgrímskirkju miðvikudaginn 14.  janúar 2015 og hefst athöfnin kl. 13.00







Brosandi, glaður og  gefandi kom heiðursmaðurinn einstaki Ásgeir Markús inní líf mitt og minnar fjölskyldu.   Gæfan að fá að tengjast honum og hans yndislegu fjölskyldu, traustum og eilífum vinaböndum hefur haft mótandi áhrif til góðs, á líf okkar allra.

Áður en við kynntumst Ásgeiri hafði hið góða orðspor hans ferðast á undan honum.  Það var með eftirvæntingu og tilhlökkun sem við tókum á móti honum á heimili okkar í Lúxemborg, fyrir um 20 árum síðan. Ávallt munum við verða þakklát sameiginlegum vini, Sr. Jón Dalbú fyrir að tengja okkur, með þeim orðum að hann væri viss um að við yrðum góðir vinir. Sannara hefði ekki verið hægt að orða það, því frá fyrstu stundu var það ljóst að Ásgeir hafði alla þá mannkosti sem lífsins bestu vinir hafa.
Síðan þá hefur fjársjóðurinn með verðmætu vináttunni, minningunum, lærdómnum og fyrirmyndinni vaxið og dafnað með hverju árinu. Með sinni hlýju, hógværu framkomu, einlægni, heiðarleika og öðrum mannkostum kenndi Ásgeir mér og mörgum öðrum svo margt sem gott líf grundvallast á.
Það er af svo mörgu að taka þegar litið er til baka. Góðviljinn, hjálpsemin, ræktarsemin, húmorinn og svo margir margir aðrir kostir voru ávallt til staðar. Þá einstöku hæfni hafði hann Ásgeir að í hvert og eitt einasta sinn sem hann birtist, fylltist allt af hlýju og kærleik. Það var  eins og sálin í manni fengi kærleiks-áfyllingu. Kærleik sem hann kenndi okkur að deila með öðrum.
Í lífinu krossast leiðir okkar við margar virkilega góðar persónur, Ásgeir var ein þeirra. Í mínum huga var Ásgeir jarðengill, sem Almættið sendi okkur til leiðsagnar, halds og trausts.
Eins og hjá öðrum sem upplifa að góðum vini berst kallið, þá, streyma fram í hugann brot úr fjársjóði minninganna. Af mörgu er að taka. Ein er ævintýraferð sem fjölskyldurnar fóru til leytar á brjáluðu beljunni sem baulaði svo undarlega að Samúel var ekki alveg viss um hvort hann ætti að fara með. Önnur er þegar við hjónin vorum að velta fyrir okkur sérstökum gereftum, sem kosta áttu nánast heilt bílverð í Lúx. Með hjálp vina og snillinga á Íslandi varð niðurstaðan að einfaldasta að besta lausnin væri bara að redda málinu með sérsmíði og lökkun þar. Það var bara eitt, nokkuð stórt vandamál, en það var að koma þessu öllu til Lúx. Þungt, langt, lakkað og viðkvæmt. Eins og svo oft áður þá kom Ásgeir til bjargar og áður en við vissum allt um mögulega lausn, þá bara birtist hann hjá okkur með allt saman.
Ja hérna, nú er ég alveg hissa. Hvernig fórstu að þessu vinur spurði ég og Ásgeir svaraði  Ég bara kom með þetta .. í handfarangri !! og svo brosti hann sínu hlýja brosi.
Mig grunar að hann hafi nú þurft að útskýra málið fyrir mörgum og þeir blessunarlega viljað aðstoða Ásgeir við þetta góðverk.
Úr fjarska fylgdumst við með öllu því frábæra, óeigingjarna starfi og þrekvirki sem Ásgeir vann tengdu Kaldárseli. Þá kemur nú skemmtilega Gröfusaga Ásgeirs og Davíðs upp í hugann. Annað dæmi um öll góðverkin sem Ásgeir gerði fyrir svo marga og áhrifamátt bjúgfleygs-blessana (Boomerang Blessings).
Ásgeir var mikil fyrirmynd dugnaðar, ósérhlífni og þolinmæði.  Allt frá því að veikindi hans komu fyrst í ljós, fyrir nær 7 árum, var það alveg einstakt að sama hverjar aðstæður voru var það ávallt hann sem færði okkur öllum jákvæðni, styrk og orku.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem)


Elsku María, Davíð, Rakel, Einar, Samúel, Lovísa, Gerður Rós, Sigurður og Óli Jón, með tár í augum og sorg í hjarta sendum við ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi algóður Guð gefa ykkur styrk og huggun.
Blessuð sé minning kærleiksgjafans og jarðengilsins Ásgeir Markúsar Jónssonar.
Ykkar vinir,

Diðrik, Viktoría og fjölskylda.