Björn Jónatan Emilsson fæddist á Eskifirði 28. maí 1934. Hann lést á Landspítalanum 13. nóvember 2014.Foreldrar Björns voru hjónin Niels Peter Emil Weywadt Björnsson, f. 28. ágúst 1892, d. 7. júlí 1972 og Laufey Sigríður Jónatansdóttir, f. 27. júlí 1905, d. 17. júlí 1964.
Systkini Björns eru Ingvar, f. 1926, búsettur í Mexíkó, Bryndís, f. 1928, d. 2002 og Hulda, f. 1930, búsett í Kaliforníu. Björn kvæntist Þórunni Jónsdóttur, f. 13. október 1934, dáin 1990. Björn og Þórunn skildu 1974. Þau eignuðust fimm börn, sem eru: Emil, f. 1957, Birgir Örn, f. 1959, Katrín, f. 1961, Björn Þór, f. 1965, látinn 2009 og Einar, f. 1966. Fyrir hjónaband eignaðist Björn dóttur, Andreu Dögg, f. 1956. Björn á ellefu barnabörn og eitt barnabarnabarn.
Björn ólst upp á Eskifirði til ársins 1940, en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Björn lauk hefðbundnu skyldunámi og fór síðan í Verslunarskóla Íslands, þar sem hann lauk stúdentsprófi árið 1954. Sama ár réð hann sig til ÍAV, sem byggði upp radarstöð á Heiðarfjalli á Langanesi. Þar starfaði hann til ársins 1956, en í árslok það sama ár hélt hann til náms í Darmstadt í Þýskalandi, þar sem hann lagði stund á arkitektúr og byggingatæknifræði. Að námi loknu, árið 1962, flutti Björn ásamt fjölskyldu sinni til Íslands. Björn stofnaði teiknistofu að Laugavegi 96, ásamt félögum sínum. Árið 1965 stofnaði hann ásamt félögum sínum Byggingatækni sf. og byggðu þeir átta hæða fjölbýlishús ofarlega við Kleppsveg, þar sem byggt var með gömlu trémótauppsláttaraðferðinni. Þegar Framkvæmdanefnd byggingaáætlunar áformaði að byggja upp í Breiðholti, stofnuðu þeir félagar Breiðholt hf. og áttu þeir lægsta tilboð í fjölbýlishús sem byggð voru í Neðra-Breiðholti. Það krafðist tækni og fluttu þeir inn þýsk stálmót og rafmagnskrana sem fóru eftir teinum meðfram byggingunum. Einnig keyptu þeir steypuverksmiðju, því dýrt var að aka með vatnsblandaða steypu frá neðri svæðum borgarinnar. Vegna lágs byggingarkostnaðar var Menningarmiðstöðin í Gerðubergi gefin Reykjavíkurborg af Framkvæmdanefndinni. Kranarnir og stálmótin voru síðast notuð í Mosfellsbæ fyrir hrunið 2008. Björn hætti hjá Breiðholti hf. árið 1973 og hóf ásamt öðrum sem höfðu umboð fyrir Butler-stálgrindargús að byggja Coca-Cola-verksmiðjur í Nígeríu ásamt íbúðarhúsnæði. Björn var viðloðandi störf í Nígeríu þar til um 1980. Eftir það hóf hann aftur störf á Teiknistofunni á Laugavegi 96 og eftir það var hann sjálfstætt starfandi.
Björn hafði yndi af söng og söng með Karlakórnum Fóstbræðrum frá 1954, með hléum er hann dvaldi erlendis vegna náms og starfa. Með kórnum söng hann til ársins 2011 og með Eldri Fóstbræðrum þar til hann lést.
Útför Björns verður gerð frá Langholtskirkju í dag, miðvikudaginn 10. desember, og hefst athöfnin kl. 11.00.

Þú ert búinn að eignast lítinn bróður sagði Emilía föðursystir okkar við mig á vordögum árið 1934. Við áttum heima á Eskifirði en hún frænka okkar og hennar fólk á Reyðarfirði, og þangað var ég sendur þegar svona stóð á  fyrir fjölskyldu okkar.
Þessi  nýi bróðir dafnað vel og var með afbrigðum hraustur. Móðir  okkar, Laufey, kallað hann Ghandi, því að hann var holdgrannur mjög og að þessu leiti líkur frelsishetju Indlands, sem á þessum árum barðist fyrir að koma landi sínu undan oki Breska Heimsveldisins.
Árin liðu við Grjótána á Eskifirði, en aðal leikvöllur okkar krakkanna voru bryggjurnar, nokkuð sem olli foreldrum okkar talsverðum áhyggjum og ekki að ástæðulausu, því að einn góðan sumardag var komið heim með Björn Jónatan holdvotan og slæptan. Hann hafði verið að leika bílstjóra og bakkað niður um gat á Framkaupstaðarbryggjunni. Þar  höfðu sjómenn verið að gera að fiski en gleymt að loka slorgatinu. Enginn fullorðinn var nálægur þessa stundina en leikfélagarnir æptu á hjálp, hann Bjössi datt niðrum gatið! og eftir nokkurn tíma kom maður að og honum tókst að draga Bjössa upp um gatið. Þá segir drengur ég var heppinn að missa ekki stýrið mitt. En þessi verðmæta eign var hjól af gömlum barnavagni. Allir lofuðu nú Guð fyrir, að þetta leikfang hefði ekki dregið þennan holdgranna snáða niður í djúpið undir bryggjunni.
Heimskreppan stóð sem hæst á þessum árum. Spánverjar og aðrir kaþólskir höfðu ekki efni á að kaupa saltfiskinn fyrir lönguföstuna. Eins og kunnugt er var saltfiskur ein  aðal framleiðsla fiskiþorpanna á Íslandi og við höfðum þess vegna ekki ráð á að kaupa suðræn aldin og annan innfluttan varning. Fátæktin varð geysileg og sem aldrei fyrr herjaði berklaveikin, einkum á unga fólkið. Allt þetta heyrir nú sögunni til, sem betur fer. Unga fólkið í dag tekur alla velferðina sem gefna; engin berkla- eða lömunarveiki lengur, sjálfstæði, sólarlandaferðir, gervihnettir, svo eitthvað sé nefnt. Segja má, að aldrei hafi orðið aðrar eins tækniframfarir í mannkynssögunni eins og á þessum 80 árum frá fæðingu Björns Jónatans og ekki verður séð fyrir endann á þróuninni.
Hernámsárið, 1940, fluttum við til Reykjavíkur. Þar var ömurlegt um að litast, opnir hitaveituskurðir og hermenn út um allt. Faðir okkar flutti séttuna sína að austan og hún var geymd í Selvörinni. Við veiddum rauðsprettu, þaraþyrskling og rauðmaga í víkinni milli Seltjarnarness og Akureyjar-grandans. Okkur systkinunum fannst í byrjun að við hefðum verið rifin upp með rótum. En hægt og hægt varð lífið bærilegra. Í fyllingu tímans fór  Björn í  Miðbæjarskólann, síðan í Verslunarskólann og að lokum til Darmstadt í Þýskalandi, þar sem hann lærði húsahönnun og byggingatækni.
Við heimkomuna hóf hann að byggja íbúðablokkir og steypti með aðferð áður óþekktri á Íslandi, svokölluð skriðmótatækni, sem gerði  veggina rennislétta.
Seinna varð hann einn af aðaleigendum byggingarfélagsins Breiðholt hf, sem byggði upp megin hlutann af samnefndu bæjarhverfi.
Björn og Hrafnkell  Thorlasíus arkitekt  aðstoðuðu breska arkitektastofu við að hanna verslunarmiðstöðina Kringluna og endurskipulögðu  Vestmannaeyjabæ, eftir gosið.
Hann hannaði einnig og byggði mörg hús fyrir stjórn Afríkuríkisins Nígeríu og sömleiðis fjölda ein-og fjölbýlishúsa á Höfuðborgarsvæðinu og einnig úti á landi.
Í sannleika sagt veit ég ekki mikið um störf þessa ötula og framtakssama bróður míns vegna áralangrar fjarveru minnar frá Fróni. Þá sjaldan að við hittumst á okkar fullorðinsárum sagði hann mér margt um sínar athafnir og áætlanir.
Hann var listaskrifari og teiknari; neitaði að nota teikniforrit eins og CAAD og allt var gert með höndum.
Eitt af aðal tómstundaverkum bróður míns, var að syngja í karlakórnum Fóstbræðrum og með þeim fór hann í söngferðir víða um lönd, löngu eftir að jafnaldrar hans voru horfnir úr kórnum og voru búnir að missa söngröddina.
Björn Jónatan hefur lagt fram sinn skerf til að Ísland sé orðið það sem það er í dag.
Máltækið segir, þótt smiðurinn hverfi af vettvangi, stendur verk hans um ókomin ár.
Við hér í Mexíkó sendum afkomendum hans, sem og öðrum nánum ættingjum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingvar Emilsson