Gylfi Helgason fæddist á Hlíðarenda í Reykjavík 30. október 1942. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu á Hellisbraut 2 á Reykhólum þann 6.febrúar 2015.
Foreldrar hans voru hjónin Helgi Jónsson f: 7.maí 1894, d: 7.apríl 1971 og Sigrún Ásmundsdóttir f: 4.júní 1904, d: 11. maí 1981. Systir Gylfa var María Elísabet, fædd 12.júní 1934, d: 15.ágúst 1984. Maður hennar var Haraldur Einarsson og áttu þau fjögur börn.
Eftirlifandi eiginkona Gylfa er Ósk Jóhanna Guðmundsdóttir, f. 4. mars 1946. Börn þeirra eru 1) Halla Sigrún f: 3. maí 1976, maki Björn Kristján Arnarson, börn þeirra eru Sandra Ósk f.2000 og Björn Gylfi f.2006. 2) Helgi Freyr f. 1. desember 1980 og 3) Una Ólöf, f. 20.nóvember 1984, maki Björn Ragnar Lárusson, börn þeirra eru Hrafnkell Máni f.2004 og Hafdís Birta f. 2008.
Gylfi kom til Reykhóla árið 1974 þegar Þörungavinnslan var í undirbúningi og settist þar að með fjölskyldu sinni árið 1977. Árið 1983 varð hann stýrimaður á Karlsey, skipi verksmiðjunnar, og síðan skipstjóri frá 1985 til starfsloka árið 2009 eða í nærri aldarfjórðung.
Útför Gylfa fer fram frá Reykhólakirkju laugardaginn 21. febrúar 2015, kl:14. Minningarathöfn fór fram frá Friðrikskapellu á Hlíðarenda í gær, föstudag.


Okkar fyrstu kynni urðu sumarið 1967, báðir í kaupavinnu hjá Íu á Staðarfelli. Mig bar þar að garði á mánudegi, beint af sukksömum hátíðahöldum verslunarmannahelgar í Bjarkalundi. Þuríður Ólafsdóttir bóndi var ekki heima en Ása Tryggvadóttir bauð mig velkominn og leiddi í eldhús til góðgerða. Að lítilli stundu liðinni skjálgraðist ofan af svefnlofti piltur ljós yfirlitum en æði rotinpúrulegur, stírur í augum, þjáningin skein úr svip og fasi, skakkur í keng og storkinn blóðtaumur úr munnviki niður á háls.

Mér varð eitthvað hugsað til undangenginna hátíðahalda sem ég sjálfur var að koma frá. Aumlegt heilsufar hans reyndist þó ekki kynjað þaðan, heldur var hann nýkominn frá héraðslækninum úr tanndrætti.
Næsta morgun tók alvaran við. Við urðum fljótt mestu mátar, og það entist.
Gylfi var tæplega meðalmaður á hæð, snaggaralegur strákur, kvikur í fasi, höfuðstór og úfinhára. Reykti pípu; á sunnudögum bauð Ía upp á vindil.

Fóru saman ástríður okkar og dálæti á kerskniskveðskap góðskálda og hagyrðinga. Hávaðasamur flutningur í tíma og ótíma, ýmist kveðinn eða mæltur fram. Hann sagði síðar að kýrnar hefðu gjarnan flúið til fjalla undan beljandanum. Ef til vill hef ég haft vinninginn í hávaða en í kunnáttu efnis var hann mér margfaldur ofjarl.
Verkefni þessara tveggja vikna, sem við þá störfuðum saman, var mest að hirða þurra galta af túni. Hann var á jeppanum og dró stóran vagn skjólborðalausan, gott að hlaða með ámoksturstækjum, ég á vélinni. Við urðum oftar en skyldi of hleðsluglaðir svo ofbauð jeppanum við heimdráttinn. Hlaust þá stundum eftir festur og íkippingar aukatóla að heyhlassið sat eftir á jörðinni þegar vagninum var kippt undan. Margföld fyrirhöfn kappglaðra óforsjálla ungra manna.
Næsta áratuginn var færra um samskipti þó báðir byggju í sama héraði, að heita átti.
Þegar stofnað var undirbúningsfélag vegna þörungavinnslu á Reykhólum varð Gylfi strax starfsmaður þess og síðan verksmiðjunnar. Við það verkefni vann hann síðan ævistarfið á enda eða þar til hann fór á eftirlaun. Hlýtur því að vera bæði elstur og langsætnastur í þeirri starfsemi.
Eftir nokkurra ára starf aflaði hann sér skipstjórnarréttinda og var eftir það skipstjórinn allt til starfsloka. Á þeim tíma jukust samskipti okkar. Gott var oft og hentugt að fá Karlseyna til að flytja þungavöru til okkar eyjamanna. Það gat oft passað ferðum hennar eftir þangi að taka til okkar vörubretti eða vinnuvél. Þetta var að sjálfsögðu háð velvild og lipurð skipstjóra og áhafnar. Þeirra var ekki skyldan í þessu efni.
Vel var um kunningsskapinn. Einn veturinn þegar ég þurfti að dytta að bátnum mínum fékk ég til þess aðstöðu á Reykhólum og fór þangað án þess að hafa séð mér farborða sjálfum. Svo fór að Gylfi bauð mér vist, og hjá þeim hjónum, honum og Hönnu, var ég fóstursonur í heilan mánuð. Þá voru og í þeirra húsaskjóli foreldrar hennar, sem höfðu dregið saman í búskap.
Fallinn er nú fyrir aldur fram maður sem heldur en hitt puntaði sitt samfélag. Skoðana- og stefnufastur, ófeiminn að brýna sinn busa ef til ágreinings kom og var þá fastur fyrir. Hins vegar ekkert fyrir það að koma sér í forsvar eða ábyrgðarstöður á opinberum vettvangi umfram það sem beint tilheyrði starfi hans eða stétt.
Alla sækir aldur heim. Ég varð á sínum tíma sextugur og hélt upp á það og réð Gylfa Helgason sem veislustjóra. Hins vegar varð framkvæmdin þannig, að svo málglaður varð ég og sjálfhverfur við veisluupphefðina, að ég gleymdi að kynna veislustjórann minn og hann tók aldrei til máls. Ég áttaði mig á þessum mistökum að fagnaði loknum og bað hann afsökunar. Þá fræddi hann mig á því, að í hugskoti hans hefði verið ræða til reiðu, hvar hann sagði frá upphafskynnum okkar á Staðarfelli. Hún er óflutt enn.
Fjórum árum seinna varð Gylfi sextugur sjálfur og hélt upp á það. Hann bað mig að vera til reiðu ef einhverrar stjórnunar þyrfti við. Á það reyndi ekki. Hins vegar kom hann á framfæri einhverjum brotum úr ræðunni góðu sem aldrei var flutt, hvar sagði meðal annars frá kúaflóttanum undan söngnum áðurnefndum.
Gylfi Helgason var grúskari, fróður vel og lesinn. Víða heima í sögu. Dáði góðar frásagnir, jafnt í bundnu sem óbundnu máli. Fimmtudagskvöldið 5. febrúar nýliðinn var haldin kvöldvaka á dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum, eldri borgurum safnað þar fleirum en á heimilinu búa. Flutt voru ljóð, bæði sungin og lesin. Gylfi var þátttakandi í flutningi og greip til nokkurra sinna dálætisljóða eftir kunna höfunda. Það var sannarlega ánægjustund að dagslokum.
Morguninn eftir í bítið sótti hann heim gesturinn sem við öll búumst við.
Kæra Hanna mín! Marga átti ég ánægjustundina á ykkar heimili. Það er sannarlega högg að missa förunaut sinn svo fyrirvaralaust. Guð blessi þig, börn ykkar og afkomendur um alla framtíð.

Jóhannes Geir Gíslason