Margret Erna Hallgrímsson fæddist í Reykjavík 13. október 1953. Hún lést 6. febrúar 2015 .Foreldrar hennar voru Ólafur Hallgrímsson, stórkaupmaður og ræðismaður Írlands á Íslandi, f. 24.8. 1921 á Siglufirði, d. 21.5. 1968, og Þórunn Guðmundsdóttir, húsfreyja í Reykjavík, f. 29.9. 1922 í Reykjavík, d. 18.8. 2003.

Margret Erna var yngst af þremur systkinum: Bróðir hennar er Guðmundur Hallgrímsson verslunarmaður, f. 16.6. 1946, eiginkona hans er Inga Sigríður Guðbergsdóttir. Systir hennar var Sigríður Þórunn Hallgrímsson, fædd 24.6. 1948, hún lést af slysförum 17.9. 1967.
Eftirlifandi eiginmaður Margretar er Friðgeir Bjarni Skarphéðinsson viðskiptafræðingur, f. 24.7. 1960. Sonur þeirra er Ríkharður Friðgeirsson, f. 24.2. 1992, unnusta hans er Eva Rós Sverrisdóttir, f. 4.9. 1991. Friðgeir á af fyrra sambandi Höllu Rán Friðgeirsdóttur, f. 18.6. 1980, eiginmaður hennar er Hallfreður Ragnar Björgvinsson. Þau eiga Anítu Mjöll, f. 2006, og Loga Snæ, f. 2006.

Útför Margretar fór fram í gær, 20. febrúar 2015.

Árið er 1953 í miðjum október. Mæður okkar  liggja á yfirfullri fæðingadeild Landspítalans , þar sem sumar kvennanna þurfa að láta sér lynda að liggja úti á gangi. Þér lá meira á út í ljós heimsins en mér sem kom deginum síðar. Kannski tengdumst við strax þá  þeim sterku böndum sem aldrei hafa slitnað. Svo líða 7 ár og mál að byrja í skóla. Það þóttu mér hin verstu örlög. Ég þekkti engan og var hrædd við bæði krakkana og kennarann. Ég man óljóst eftir öllu  en ein mynd stendur mér skýr fyrir hugskotssjónum: Fyrir framan mig stendur þú höfðinu hærri en ég, með síða snjóhvíta hárið greitt í hátt langt tagl með fallegu grænu augun og þau flottustu augnahár sem ég hafði séð og spyrð hvort ég vilji vera vinkona. Ég svaraði já og svo urðum við vinkonur. Þú varst engum lík.  Þér tókst að leiða mig út úr bubblunni sem ég bjó í, og þú sýndir mér heiminn handan Túngötu. Alltaf var ég velkomin heim til þín.  Þú kynntir mig fyrir fjölskyldu þinni, pabba, mömmu og  systkinunum Gumma og Sirrý sem þú varst svo stolt af. Þú sýndir mér bestu garðana, allt Grjótaþorpið og bestu klifurtrén, sem ég smám saman þorði að klifra í. Þú gast hlaupið eftir háum steinveggjum og klifrað miklu hærra en ég. Svo varstu málkunnug öllum verslunarhöfum í hverfinu, óhrædd og veraldarvön að mér fannst og ég kepptist við að hafa í við þessa nýju vinkonu, sem alltaf var á hlaupum. Þú áttir heldur ekkert í vandræðum með að renna þér á skautum yfir alla tjörnina gera pirúettur og snarstoppa. Mér fannst þú æðisleg, ég missandi jafnvægið og þótti gott að geta rennt mér áfram tvisvar til þrisvar áður en ég datt á rassinn. Ef hægt var að líkja þér við einhverja persónu dettur mér helst í hug Lína Langsokkur, sterk en samtímis viðkvæm og skilningsrík.
Ég minnist bíóferðanna í bíóið hans afa þíns sem við fórum í óteljandi sunnudaga í röð. Þar gátum við séð fínustu perlur kvikmyndanna. Chaplin, Gög og Gokke og Buster Keaton sem mér fannst alltaf svo sorgmæddur. Þetta var sannkallaður skóli fyrir okkur að sjá þessar kvikmyndagersemar aftur og aftur. Og svo vandist ég smám saman látunum í krökkunum sem stöppuðu og görguðu og blésu í miðana sína þegar myndin byrjaði. Flest komu þau án foreldra eða eldri systkina. Þarna var líka mikil verslun í gangi, skipt á hasarblöðum og 16 ára miðasætur kallaðar kerlingar þegar þær reyndu að siða ólátabelgina. Skólinn hélt áfram að vera mér raun, en því áhugaverðara í skóla lífsins hjá þér. Þú geislaðir af orku. og vildir alltaf  láta eitthvað gerast. Stundum þótti mér prógrammið aðeins of skipulagt en það var allt í lagi því það var líka hægt að bara vera og þegja saman.
Ballett var á tímabili stór hluti af lífi þínu. Ég man eftir þér sem lítilli mús á sviði Þjóðleikhússins í Dýrunum í Hálsaskógi, sem hljóp ein þvert yfir sviðið, stoppaðir fyrir miðju leist um öxl og hljópst svo út af sviðinu áður en tjaldið féll fyrir hlé.
Ég minnist þess sársauka sem þú varðst fyrir að missa þína heittelskuðu systur af slysförum og rúmu hálfu ári síðar bæði föður og afa.  Þennan þunga þurftir þú að bera á þínum viðkvæmu unglingsárum og í hljóði lífið út.
Þegar ég lít um öxl á vináttu okkar fæ ég svo notalega tilfinningu þótt stundum gátu liðið ár á milli samskiptanna. Ég hefði viljað geta upplifað gleði þína með litla Rikka, þennan efnilega hnoðra.
Þú bættir mér það upp seinna með mörgum heimsóknum til Svíþjóðar stundum með bæði Badda og Rikka og stundum bara þú ein. Við minnumst þeirra öllsömul með mikilli gleði. Og margs er að minnast gegnum öll árin, notalegrar nærveru með góðri tónlist, smekkvísi þinnar sem var ótvíræð. Þú þoldir enga smekkleysu, elsku fagurkeri. Næmni þinnar fyrir formi og litum, þíns höfðingsskapar og gestrisni þinnar og gjafmildi, glæsileika og ást þinni á bókmenntum og ljóðlist og sjálf varstu hagmælt. Mér fannst að núna bráðum gætum við farið að umgangast meir og njóta alls hins fína sem lífið hefur uppá að bjóða. Enginn átti von á þessari harmafrétt.
Ég sakna þín, elsku fallega vinkonan mín, og þakka þér fyrir allt sem þú hefur verið mér og minni fjölskyldu. Ég bið Guð að styrkja og hugga alla þá sem sakna Gretu.

Sigríður Helga Karlsdóttir.