Guðný Gestsdóttir fæddist 9. september 1922. Hún lést 24. febrúar 2015.
Foreldrar hennar voru Sigríður Júlíusdóttir, f. í Skrapatungu í Vindhælishreppi 19.8. 1894, d. 28.3. 1976, og Guðmundur Gestur Pálsson, f. á Brennistöðum í Borgarhreppi 24.2 1877, d. 7.1. 1963. Guðný var í miðið í fimm systkina hópi, elst var Inga Sigríður, f. 1918, d. 2009, Rósa, f. 1920, d. 2001, Róbert Freeland, f. 1924, d. 2009, og Júlíus, f. 1928.
Guðný var Reykvíkingur, fædd í Brautarholti á Bráðræðisholti, og sleit barnsskónum á Bergstaðastíg, Lindargötu og 1932 flutti fjölskyldan á Ásvallagötu 63, í nýreista verkamannabústaðina, eftir það var fjölskyldan ekki háð ótryggum leigumarkaði. Sigríður hafði numið klæðskeraiðn og vann ávallt sem saumakona og var mjög flink í iðn sinni. Gestur var sjómaður og verkamaður. Hann var sjómaður á togurum í Bretlandi 1902-1916. Hann var mjög vel mæltur á enska tungu, vel að sér í enskum bókmenntum og hafði unun af Byron. Þótt hjónin hefðu ekki getað stutt börn sín til langskólanáms þá var hvatningin frá foreldrunum lifandi og skýr; að nýta hæfileika sína til náms og láta einskis ófreistað til að bæta við sig þekkingu.
Guðný lauk barnaprófi frá Miðbæjarskólanum, eftir fermingu fór hún að vinna eins og þá tíðkaðist. Hún vann m.a. í Útvarpstíðindum sem Jón úr Vör stýrði þá. Á þeim árum kynntist Guðný ýmsum skáldum og skáldskap þeirra. Guðný eða Lilla eins og hún var kölluð var skarpgreind og námfús og vel að sér í tungumálum. Hún var alla tíð að bæta við kunnáttu sína og sótti námskeið hér heima, í Frakklandi og á Spáni. Hún kláraði öldungadeild MH 69 ára og tók svo spænskukúrsa í HÍ sér til gamans.
Guðný giftist 11.12. 1948 Bjarna Gíslasyni, f. 3.8. 1923, d. 4.6. 1981. Foreldrar hans voru María Níelsdóttir og Gísli Bjarnason. Þau Guðný höfðu þekkst lengi, voru fermingarsystkini. Fyrstu árin bjuggu þau í Blönduhlíð en fluttu í Loftskeytastöðina í Gufunesi þegar Bjarni tók við stöðu stöðvarstjóra árið 1950. Lilla vann í Loftskeytastöðinni ásamt því að sinna opinberum skyldum sem fylgdu starfi stöðvarstjóra. 1963 fékk Bjarni tveggja ára leyfi frá störfum sínum og fluttu þau til Bangkok, þar kenndi Bjarni fjarskipti á vegum SÞ. Á þeim tíma skrifaði hún pistla í dagblaðið Vísi þar sem hún sagði frá lífi og menningu á þessum fjarlægu slóðum. Seinna fylgdi hún manni sínum til starfa í Líbýu. Eftir að þau fluttu úr Gufunesi 1967 hóf Guðný störf hjá Ritsímanum, var einkaritari ritsímastjóra og síðar fulltrúi umdæmisstjóra þar til hún fór á eftirlaun. Þau Bjarni bjuggu síðustu árin á Ásvallagötu 37. Þeim varð ekki barna auðið, en systkinabörn þeirra og fjölskyldan öll nutu elsku þeirra og umhyggju.
Árið 1988 flutti Hannes Sigfússon skáld, f. 2.3. 1922, sem búið hafði lengi í Noregi, aftur heim til Íslands, þá ekkjumaður, og tókst fljótlega með þeim Guðnýju samband sem varaði uns Hannes lést 13.8. 1997. Lilla fluttist í Sóltún árið 2004.
Útför Guðnýjar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 6. mars 2015, kl. 16.

Guðný Gestsdóttir -  hún Lilla föðursystir mín sofnaði falleg og friðsæl út af södd lífdaga, nú í febrúarlok. Háöldruð kona. Fædd og alin upp hér í Reykjavík. Fjölskyldan bjó víða fyrstu árin, flutti úr einu leiguhúsnæði í annað. Þegar Lilla var tíu ára keyptu foreldrar hennar íbúð í verkamannabústöðum Héðins Valdimarssonar á Ásvallagötu 63. Þar leið þeim vel. Þótt þau hefðu lítið milli handanna voru þau örugg og ekki lengur á hrakhólum.
Foreldrar hennar gáfu fátæktinni aldrei tækifæri til að buga andann, gáfu sig aldrei hinni andlegu fátækt á vald. Hvert tækifæri skyldi nýtt til mennta.
Lilla var, eins og systkini hennar öll, námfús og átti gott með að læra. Hvatninguna úr foreldrahúsum hafði hún að leiðarljósi og hún fór á alls konar námskeið. Lærði hraðritun, vélritun, ensku, dönsku.
Þau fermdust saman Lilla og Berti bróðir hennar þótt tvö ár væru á milli þeirra. Þau voru fallega klædd enda var móðir þeirra skreðari og kunni að gera mikið úr litlu. Eitt af fermingarbörnunum var hann Bjarni Gíslason og hann sá ekki bara fegurð hinnar ungu stúlku heldur hreifst hann líka af gáfum hennar. Eins og fleiri. Og Bjarni var sá sem heillaði hana upp úr skónum. Hann var eins og kvikmyndastjarna í útliti. Minnti á föður hennar, sem klæddist eins og breskur aðalsmaður um leið og hann komst úr verkamannagallanum.
Bjarni var nákvæmnismaður. Hornréttur mætti segja og fiðrildið Lilla var mótvægið sem heillaði. Þau bundust tryggðaböndum unglingar og gengu í hjónaband árið 1948.
En það var ekki bara Bjarni sem hreifst af Lillu. Hannes Sigfússon sem hafði séð hana fyrst í Miðbæjarskólanum og haft samskipti við hana þegar hún vann hjá Útvarpstíðindum undir stjórn Jóns úr Vör var ástfanginn af henni en hún var trúlofuð. Hann gaf út ljóðabókina Dymbilvöku og tileinkaði hana G.G. (L.) og skrifaði undir þessar hendingar:

Með gullinni skyttu
og glitrandi þræði
óf sumarið nafn þitt
í söknuð minn.

Þegar Bjarni varð stöðvarstjóri í Loftskeytastöðinni í Gufunesi fluttu þau þangað upp eftir. Ég fékk oft að koma í heimsókn. Stundum var ég þar ein en oftast voru þar fleiri krakkar; Sigga, Lotta, Systa, Helga, Óli, Ásta og fleiri sem ég man ekki að nefna. Þarna var töfraheimur. Langt í burtu frá Reykjavík, óralangt. Dúfnakofi, tjörn og melar. Íbúðin falleg, nammibúð í kjallaranum þar sem hægt var að kaupa Hershey´s súkkulaði og fleira útlenskt nammi og þegar hljóðeinangraða hurðin á skrifstofunni var opnuð inn í vinnusalinn heyrðust alls konar undarleg hljóð, píp og tíst, frá morse-tækjunum.
Eitt sinn, þegar ég var uppi í Gufunesi, spurði Lilla mig hvort hún mætti ekki bjóða mér upp á apakúk í hádegismat. Ég var vel upp alin og svaraði kurteislega:. Jú, takk fyrir. Ég áttaði mig ekki á sprellinu en treysti því að hún gæti gert góðan mat úr apakúk, allt sem Lilla matreiddi var gott á bragðið. Svo sauð hún kokteilpulsur og við stungum í þær prjóni, böðuðum pulsurnar í tómatsósu og sinnepi og átum apakúk þar til við stóðum á blístri.
Bjarni þurfti oft að fara til útlanda starfs síns vegna. Lilla fór með og á meðan Bjarni sat fundi og ráðstefnur fór Lilla á námskeið og lærði mál innfæddra: ensku, dönsku, frönsku. Og hún keypti falleg föt og hælaháa skó númer 35, þeir fengust ekki í Reykjavík. Þá skó sem hún var hætt að nota gaf hún frá sér. Það var ekki amalegt að fara í mömmuleik á pinnahælum sem pössuðu á mann.
Ég man eftir Lillu og Rósu systur hennar þar sem þær voru að spjalla saman heima hjá ömmu á Ásvallagötunni. Umræðuefninu er ég búin að gleyma en þrjú orð sitja eftir í minni mínu: Lekker, elegant, fix.
Lilla var, eins og Halldór Laxness sagði um eina kvenpersónu sína: bomba, þó ekki bomba sem var ætluð til sprengs, heldur kynbomba. Hún var einstaklega falleg, handsmá og hýreyg, hlý og mjúk og góð og skemmtileg.
Lilla var slík að hún lét engan ósnortinn sem kynntist henni .Hún var bara þannig. Næm á tilfinningar annarra og lét sér annt um sína nánustu, reiðubúin að hlaupa undir bagga og hún sá alltaf hið góða í hverjum manni.
Þegar Bjarni lét af störfum í Gufunesi fluttu þau Lilla til Reykjavíkur. Hún fór að vinna hjá ritsímastjóra og nutu margir tengsla hennar þar. Hún útvegaði mörgum sumarvinnu hjá Símanum. Á þessum árum ágerðust veikindi Bjarna drykkjan. Lilla átti oft erfitt á þessum tíma en hún bar sorgir sínar ekki á torg. Eftir að Bjarni dó árið 1981 hófst nýtt tímabil hjá Lillu. Hún fór í öldungadeildina í Hamrahlíð og tók stúdentspróf. Hún fór til Spánar á námskeið í spænsku. Einlægt var hún að, stöðugt að bæta við menntun sína.
Svo var það árið 1988 að Hannes Sigfússon flutti heim til Íslands frá Noregi. Leiðir þeirra Lillu lágu saman fyrir tilviljun á Mokka og það varð upphafið að rómantísku ævintýri. Hjörtu þeirra Lillu slógu í takt og líf þeirra var innihaldsríkt og gjöfult. Þau voru jafnaldrar, 66 ára, þau voru jafningjar, þau virtu hvort annað, elskuðu og dáðu. Þau áttu saman níu góð ár og hin gullna skytta með sinn glitrandi þráð óf fegurð og gleði í lífsvef þeirra. Eftir að Hannes féll frá árið 1997 fór Lillu smám saman aftur. Hún saknaði hans mjög. Og Elli kerling sótti að. Fyrir henni gefast allir upp einhvern tíma. Lilla streittist lengi á móti, en að því kom að hún flutti í Sóltún. Hún var ekki ánægð með þá breytingu fyrr en henni datt það í hug að hún væri nú bara á ferðalagi, stödd á ansi þokkalegu hóteli með fullt af þjónustuliði.
Þegar Lilla dó var hún södd lífdaga og þótt ég finni fyrir sárum söknuði er mér þó ofar í huga gleðin yfir því að hafa átt hana að og þakklæti fyrir allt hið góða sem hún gerði mér og mínum. Þessi fíngerða, fótnetta kona markaði djúp spor í sálu mina. Hafi hún þökk fyrir allt og allt.

Ingveldur Róbertsdóttir