Margrét Unnur Jóhannsdóttir fæddist 5. mars 1926 í húsi foreldra sinna á Þórsgötu 21a í Reykjavík. Hún lést 31. mars 2015 á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.
Foreldrar hennar voru Jóhann Stefánsson skipstjóri á togaranum Geir RE, f. á Illugastöðum í Fljótum í Skagafirði 14. nóvember 1889, d. 10. september 1986, og k. h. Stefanía Þorbjörg Ingimundardóttir húsfreyja, f. í Krossadal í Tálknafirði 7. mars 1891, d. 19. febrúar 1960. Bróðir Margrétar var Jón Kristján Jóhannsson læknir, f. 30. apríl 1927, d. 11. mars 2003.
Margrét giftist hinn 5. mars 1960 Þorsteini Guðmundssyni bókbindara og starfsmanni Olíufélagsins hf., f. í Reykjavík. 20. ágúst 1922, d. 22. október 2010. Hann var sonur Guðmundar Þorsteinssonar, bifreiðastjóra í Rvk., f. 24. febrúar 1891, d. 4. janúar 1966, og k. h. Guðrúnar Jónsdóttur húsfreyju, f. 17. október 1887, d. 21. desember 1946.
Dætur Margrétar og Þorsteins eru: 1) Stefanía Björg, hjúkrunarfræðingur, f. 28. maí 1960. Börn hennar og Sveinbjörns Jakobssonar, fyrrv. maka: Daði Þorsteinn, eðlisfræðingur Ph.D., f. 1985, í sambúð með Guðrúnu Áslaugu Óskarsdóttur, og Inga Margrét, f. 1991. 2) Guðrún, arkitekt, f. 5. ágúst 1962, sonur hennar og Patricks Michaels Franks, fyrrv. maka: Jóhann Michael, f. 1992, í sambúð með Brynju Rán Egilsdóttur. Maki: Kristján Andri Kristjánsson, sonur þeirra: Kristján Sindri, f. 2006.
Margrét ólst upp á Þórsgötunni, í húsinu sem faðir hennar lét byggja, og bjó þar fyrstu 35 ár ævi sinnar. Þar bjuggu, auk bróður hennar og foreldra, Steinunn móðursystir hennar og Björg móðuramma. Á Þórsgötunni hófu sömuleiðis bæði systkinin sinn búskap með sín elstu börn. Þá fluttist Margrét með unga fjölskyldu sína í Blönduhlíð 18 og átti þar heima næstu 50 árin. Jóhann, faðir Margrétar, bjó hjá þeim Þorsteini í 16 ár og voru miklir kærleikar með þeim feðginum. Síðustu árin bjó Margrét á heimili yngri dóttur sinnar og tengdasonar, en fluttist á hjúkrunarheimilið Sóltún fyrir stuttu.
Margrét gekk í Barnaskóla Austurbæjar, lauk gagnfræðaprófi frá Ingimarsskóla við Lindargötu og fór síðan í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Hún var önnur tveggja kvenna sem fyrstar luku prófi í flugumferðarstjórn hér á landi um miðbik síðustu aldar, en starf við það var ekki í boði á þeim tíma fyrir konur. Margrét starfaði ung á skrifstofu Hampiðjunnar og síðan við skrifstofustörf hjá Flugmálastjórn í 23 ár. Starfsævinni lauk hún við gjaldkerastörf í Landsbanka Íslands við Austurstræti.
Margrét var vinmörg og trygglynd. Hún var bókhneigð, víðlesin og fjölfróð. Hún las jafnt Íslendingasögur sem erlenda reyfara og kunni skil á flestum íslenskum skáldverkum sem út komu seinustu áratugi. Ættfræði og hvers kyns fróðleikur af sagnfræðilegum toga voru helsta ástríða hennar.
Útför Margrétar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 10. apríl 2015, og hefst athöfnin kl. 15.

Hvað er dýrmætara en að eiga góða móður?
Full þakklætis minnist ég mömmu minnar, sem var ávallt til taks; boðin og búin. Ofaní ást og umhyggju, voru ósérhlífni og samviskusemi hennar helsti drifkraftur. Mamma var einstök manneskja, sem lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Sárlasin tókst hún á hendur utanferð á síðasta ári að hlýða á doktorsvörn systursonar míns og samgleðjast þeim mæðginum á hátíðarstund. Hún var móðir, amma og fjölskyldukona fram í fingurgóma - og á hana mátti alltaf treysta.
Að mömmu stóðu sterkir stofnar. Í henni komu saman Vestfirsk gen úr móðurætt og Skagfirsk úr föðurætt og úr þeirri blöndu var hún full af þrautseigju og óbilandi dugnaði. Í senn raunsæ og jarðtengd; dreymin og íhugul. Og saman við greind mömmu og næmi, fór glaðlyndi og góð kímnigáfa, þar sem alltaf var stutt í innilegan hláturinn. Mamma var djúp og hlý manneskja. Hún var örlát og umhyggjusöm við allt og alla - og elskuð heitt af sínu fólki, mest af pabba, sem gerði henni flest til hæfis.
Mamma og Jón Kristján (Diddi), bróðir hennar, síðar læknir, uxu úr grasi við góð efni í fjölskylduhúsinu á Þórsgötu 21a, er Jóhann afi minn, sem lengi var skipstjóri á togaranum Geir, lét byggja. Afi var akkerið; traustur og skynsamur maður, sem mamma leit alltaf upp til. Stefanía amma mín var örlynd og hrifnæm, ljóðelsk og tónelsk. Á efri hæðinni áttu systkinin móðursystur, Steinunni Ingimundardóttur, sem mömmu þótti afar vænt um; greind og elskurík kona. Þá bjó móðuramma þeirra, Björg Ólína Júlíana Jónsdóttir, einnig í húsinu sín síðustu ár; fædd 1850 á Barðaströnd. Stórfjölskylda mömmu var fjölmenn í báðar ættir og gestakomur tíðar á heimilið, sem stóð opið ættingjum og venslafólki, ekki síst á þeim árum sem flestir höfðu úr litlu að moða; margir komu og gistu, bæði erlendis frá og utan af landi. Góðvilji og rausnarskapur foreldra hennar, voru mömmu í blóð borin - og þegar mamma leit um öxl með sögum fullum af gleði og skemmtilegu fólki, lifnaði fjörlegt æskuheimili hennar oft við í uppvexti mínum.
Mamma var skarpgreind kona og um hana var sagt að hún hefði erft það besta frá báðum foreldrum sínum. Hún var góður námsmaður og var höfð ári á undan í bekk alla sína skólagöngu. Vegna þessa og góðra aðstæðna mömmu, hefði framhaldsnám mátt blasa við. En tíðarandinn var annar og þrátt fyrir boð um skólavist við Verslunarskóla Íslands, fór mamma í Húsmæðraskólann í Reykjavík, eins og margar stúlkur af hennar kynslóð. Þessu sá mamma eftir, þegar frá leið, enda jafnvíg á sviði hug- og raunvísinda; stærðfræði og tungumál - allt lá jafn vel fyrir henni. Mamma hafði engan brennandi áhuga á matargerð og hannyrðum, en tíminn í grautarskólanum eins og mamma gantaðist með, reyndist henni skemmtilegur í hópi glaðværra stúlkna. Þar skvísaðist mamma upp og kynntist fjölda góðra kvenna, sem ræktuðu samband við hana ævilangt.
Mamma ferðaðist talsvert um ævina, bæði til Evrópu og Bandaríkjanna, ekki síst á sínum yngri árum - og náði að skoða sig um í heiminum áður en hún giftist og eignaðist fjölskyldu, þá komin vel yfir þrítugt. Síðar gerðu foreldrar mínir sér einnig ótal ferðir innanlands og utan - og ævintýraleg ferðalög okkar fjölskyldunnar saman skilja eftir fjársjóð minninga.
Í byrjun bjuggu mamma og pabbi á Þórsgötunni en fluttu þaðan í Blönduhlíð, þar sem þau áttu heimili í hálfa öld. Afi Jóhann, bjó hjá okkur fram á mín unglingsár, heilsuhraustur og ern og um hann annaðist mamma, eins og okkur öll, af vandvirkni og heilum hug. Það átti við um allt sem mamma tókst á hendur. Hún lagði mikla alúð í allt sem hún gerði. Hún dekraði á allan hátt við okkur dæturnar og naut þess að dressa okkur upp eftir nýjustu tísku - í dúkkulegar kápur og kjóla, sem stundum þurfti að sækja til útlanda. Þegar hún og pabbi voru uppá sitt besta, voru þau glæsileg hjón ég man þau svo oft, allt frá barnæsku, uppábúin við margvísleg tilefni. Mamma hafði fágaðan smekk, var ekki glysgjörn en hafði auga fyrir fögrum hlutum og ég áttaði mig á því, fullorðin, að aldrei sá ég fallegra heimili í uppvextinum, en það sem hún bjó okkur fjölskyldunni. Þar var mamma með alla þræði í hendi; hjarta heimilisins og þyngdarpunktur.
Mamma vann alla tíð utan heimilis og var til fjölda ára vel liðinn og samviskusamur starfskraftur, drífandi og klár. Ung að árum hóf hún störf á skrifstofu Hampiðjunnar. Því næst hjá Flugmálastjórn á Reykjavíkurflugvelli. Starfsferill hennar þar stóð í meira en tvo áratugi, en lengst af sá hún um ýmis mál hjá loftferðaeftirliti. Á þessum tíma, um miðja síðustu öld, varð hún önnur tveggja kvenna til að ljúka fyrst prófi í flugumferðarstjórn hér á landi og dúxaði. Eins og venja var, bauðst öllum starf að prófi loknu - nema ungu konunum. Ekki þótti tilhlýðilegt að treysta kvenfólki fyrir svo vandasömu starfi. Seinna fór mamma til starfa hjá Landsbanka Íslands, var þar í mörg ár og lauk þar sinni starfsævi.
Í gegnum árin áttu foreldrar mínir vináttu margra og héldu tryggð við gamla vini og skyldfólk, nær og fjær, sem venja var að taka vel á móti. Eins fengu vinir mínir athygli og voru alltaf velkomnir. Ein af sérgáfum mömmu var jákvæður áhugi hennar á öllum, sem hún kynntist. Bæði mamma og pabbi höfðu hlýja og einlæga nærveru og lögðu öllum gott til. Öfund var ekki til í þeirra fari og fals og tilgerð víðsfjarri. Mamma bar með sér mikla persónu og þurfti aldrei að látast annað en hún var; hún bjó yfir þessum innbyggða "klassa", sem maður sér í vönduðu fólki. Mamma var næm á líðan annarra, víðsýn og umburðarlynd. Allskonar fólk sótti í félagskap hennar, sem fann að henni mátti trúa fyrir góðu jafnt og slæmu. Frændfólk og æskuvinkonur voru reglulegir gestir í eldhúsinu - og fjölmargar góðar minningar mínar tengjast mannmörgum veislum, sem mamma reiddi fram af glæsileik. Mér fannst merkilegt að hún og pabbi voru ennþá að kynnast nýju fólki, komin á efri ár. En þótt mamma væri félagslynd að upplagi, bar hún ekki tilfinningar sínar á torg,  var dul á það sem henni var dýrmætast.
Mamma var víðlesin kona, fróðleiksfús og bókhneigð eins og amma mín og afi. Bókasafnið hennar var fjölbreytilegt, en mamma las jöfnum höndum Íslendingasögur og erlenda krimma, ævisögur og fræðirit, reyfara og heimsbókmenntir. Rjómanum af íslenskum skáldverkum, sem út komu á seinustu áratugum, kunni mamma skil á og stundum hafði hún skemmtun af bókum um dulræn efni; gat verið berdreymin sjálf. Í mörg ár sökkti hún sér í hvers kyns verk af sagnfræðilegum toga og eftir því sem aldurinn færðist yfir, jókst áhugi hennar á ættfræði í sama hlutfalli. Hún kynnti sér vel bæði sínar ættir og pabba og gat oft rakið skyldleika okkar við mann og annan. Þessi prjónaskapur mömmu fór oft fyrir ofan garð og neðan hjá mér og endaði gjarnan í sameiginlegu hláturskasti. En gaman var að því, þegar mamma gaukaði að okkur dætrunum skemmtilegum sögum eða lesefni af forfeðrum okkar, stundum langt aftur í ættir, sem hún hafði fundið í bókum.
Mamma vildi vita hvaðan hún var sprottin og finna rætur sínar. Til mömmu liggja mínar og slitna aldrei.

Sofðu rótt, elsku mamma mín.
Þín,

Guðrún.