Benjamín Vilhelmsson fæddist í Vestmannaeyjum 21. október 1960. Hann lést 18. mars 2015.
Foreldrar hans voru Guðbjörg Benjamínsdóttir, f. 18. maí 1935 á Hellissandi, og Vilhelm Þór Júlíusson, f. 30. maí 1932 í Vestmannaeyjum, d. 16. júlí 2013. Benjamín var þriðji í röð fimm systkina. Þau eru Sigríður, f. 21. janúar 1958, d. 3. september 1960, Ragna, f. 21. janúar 1958, d. 28. apríl 2008, Agnes, f. 3. apríl 1964, og Kolbrún, f. 3. febrúar 1970.
Benjamín fluttist með fjölskyldu sinni frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þegar hann var sex ára gamall, ólst upp í Breiðholtinu og lærði síðar rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík. Hann giftist Mörthu Ólínu Jensdóttur, f. 25. febrúar 1948, en hún átti fyrir synina Jóhannes Albert Kristbjörnsson og Jens Kristbjörnsson. Þau skildu síðar. Eignuðust þau eina dóttur, Guðbjörgu Benjamínsdóttur, f. 14. apríl 1984. Þau bjuggu sér heimili á Marbakkabraut í Kópavogi. Maki Guðbjargar er Guðmundur Magni Helgason, f. 6. nóvember 1981, og saman eiga þau tvö börn, Heklu Bjarkeyju, f. 12. maí 2012, og Kristófer Breka, f. 30. júlí 2014. Benjamín flutti sig ofar á Kársnesið og bjó lengst af á Borgarholtsbraut 14. Hann starfaði sem sölustjóri hjá Ólafi Gíslasyni & co hf. í rúman aldarfjórðung en undanfarin þrjú ár starfaði hann og bjó í Hong Kong þar sem hann lést.
Útför Benjamíns fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 10. apríl 2015, kl. 15.
Nú er sárt að horfa til vesturs.
Þó svo að Sólon Íslandus þar sem margir Íslendingar hafa setið á dekki og
spjallað við Benna snúist á baujunni eftir því hvernig viðrar í flóanum,
horfum við oftast í átt til sólar í lok dags.
Í sjónlínunni er Thule, báturinn sem Benni eyddi undanförnum árum í Hong
Kong og undi sér vel. Ef hann kom ekki við í vínglas eða kaffi í lok dags
sáum við móta fyrir honum á sínum bát og stundum þurfti ég að hringja í
hann um nætur til þess að fá hann til að skutlast eftir mér í land ef
svoleiðis stóð á jullumálum í okkar fjölskyldu. Það var alltaf
auðsótt.
Það eru nokkur ár síðan Benni labbaði inn á ræðisskrifstofuna okkar í Hong
Kong og kynnti sig. Honum þótti viðeigandi að hann þekkti til okkar og við
til hans og hann varð fljótlega vinur allra sem hann hitti í hópi
Íslendinganna. Hann var enda afar greiðvikinn og geðgóður, rólegur,
yfirvegaður og blandaði fallega saman einveru og samveru við okkur hin,
þannig að út kom hið besta jafnvægi. Það var alveg sama hvað einhvern
vantaði, hann var tilbúinn að aðstoða og af einhverjum ástæðum virtist hann
vera hálfgerður Forest Gump hluta; já ég á einmitt svoleiðis, á ég ekki að
lána þér það? Gilti einu hvort um ræddi sérhannað höfuðljós (sem ég hafði
nýlega lýst áhuga mínum á að eignast) eða slökkvitæki, bíl á Íslandi,
mótorhjól í Evrópu, snjóvél og svona ýmislegt annað sem engum dettur í hug
að annar maður eigi.
Við fjölskyldan eignuðumst arfaljótan hund sem snýtir sér og geltir allan
liðlangan daginn. Benni hafði áður lýst því yfir að hann hefði jú eitt
sinn átt hund þó honum væri heldur illa við þau dýr en sá hundur hefði þó í
það minnsta verið almennilegur, í eðlilegri stærð. Fussaði hann yfir
hundskrípinu okkar fyrst um sinn. Fljótlega varð þó ljóst að hann var
mjúkur að innan og ekki leið á löngu þegar hundurinn litli þurfti pössun,
dögum saman, að Benni var farinn að biðja um hann. Var gjarnan vísað til
þess að Mús (hundurinn) væri fyrst skutlað til dagmömmunnar (Benna) áður en
við hin héldum til vinnu. Síðustu skilaboð Benna til mín á símanum voru
einmitt Er ekki Mús farin að sakna mín?.
Mýkt hans var augljós á öðrum og miklu mikilvægari sviðum en eitt sinn
tilkynnti hann að hann ætti von á dóttur sinni Guðbjörgu og hennar
fjölskyldu til Hong Kong. Hann var stoltur og spenntur og gerði margt til
að gera dvöl þeirra sem notalegasta áður en þau komu, meðal annars að finna
barnabílstól, sérstakt ungbarnavesti í bátinn og viðeigandi dót fyrir litlu
afadóttur sína, nokkuð sem margir hefðu e.t.v. ekki athugað með. Hann var
í marga daga að kaupa inn og sparaði ekkert til svo grillveislurnar,
morgunverðurinn og allt annað væri fyrsta flokks.
Þegar blásið var til veislu í Gamla Bíó síðastliðinn nýársdag var hann
ómögulegur því hann átti ekki tök á að koma til Íslands og vera þar, meðal
annars vegna þess að hann vildi gjarnan vera þar við hlið Guðbjargar og
Magna og njóta með þeim að fara fínt út að borða. Veit ég ekki betur en
hann hafi haft einhverja milligöngu með, alla leið frá Hong Kong, að útvega
þeim pössun þetta kvöld en það var honum afar mikilvægt að þau hjúin ættu
þarna fallega kvöldstund.
Þetta var mjög lýsandi fyrir Benna og ég man vel þegar ég spurði hann út í
barneignir hans, hvort hann ætti bara eina dóttur og hann svaraði mjög
blátt áfram:
Já, við eignuðumst bara eina dóttur en við þurftum ekki meira því hún var
sérstaklega vel heppnuð.
Það vill svo til að Benni dó hamingjusamur og sáttur. Friðurinn sem
einkenndi hann í lífinu, fylgir honum áfram. Það er gott að hafa kynnst
þessum góða manni sem stundum mótar enn fyrir í sólarlaginu þegar rýnt er
djúpt. Hér Í Pak Sha Wan flóa sitja eftir margir vinir og kunningjar sem
skilja ekki hvers vegna Benni þurfti að kveðja svo snemma. Hugur okkar er
hjá Guðjörgu og Magna, móður og systrum Benna og fjölskyldunni allri.
Nú er sárt að horfa til vesturs.
Elsku Benni hvíldu í friði.
Hulda Þórey, Steindór, Starri, Freyja, Saga og Vaka, Hong Kong.
Sem betur fer á ég hafsjó af ljúfum minningum um hann pabba minn. Ég held reyndar að það hefði ekki verið mögulegt að eiga betri mann fyrir pabba. Pabbi var traustur, ljúfur og vildi bókstaflega allt fyrir mig gera. Ég var eina barn pabba og ólst upp á mjög ástríku heimili foreldra minna. Fyrstu 18 ár ævinnar bjó ég með foreldrum mínum á Marbakkabraut í Kópavogi. Það var alltaf líf og fjör í kringum heimilið okkar, enda pabbi mjög vinamargur maður. Það var alltaf tíður gestagangur á heimilinu, bæði frá fjölskyldu og vinum. Hjá fjölskyldunni okkar sköpuðust ýmsir skemmtilegir siðir, t.d. í kringum jólin þegar við földum jólagjafir hvers annars og útbjuggum ratleik til að finna þær. Mikill metnaður var lagður í þessa ratleiki og eitt sinn var ég orðin úrkula vonar um að fá nokkra jólagjöf frá foreldrum mínum, hafði ráfað milli felustaða langa lengi uns ég gekk inn í stofu á ný og þá mætti mér glænýtt bleikt reiðhjól sem vakti auðvitað mikla lukku. Þetta er bara eitt dæmið um stríðnina og húmorinn hjá pabba, enda gat hann verið býsna stríðinn. Það var alltaf mikil stemning og fjör á áramótunum hjá okkur á Marbakkabrautinni, enda týndi pabbi aldrei barninu í sér. Það fannst mér mjög dýrmætt í barnæskunni. Sem dæmi um það höfðu pabbi og Einar Vilhjálmsson heitinn, góðvinur hans og granni, það sameiginlega áhugamál að sprengja flugelda. Þeir höfðu reyndar alveg jafn gaman að því og við Villi sonur hans. Við virtumst öll vera á sama aldri á gamlárskvöld og allir hlógu jafnmikið að því þegar froskum var stungið í bréfalúgur og kveikt í.
Pabbi var ótrúlega rausnarlegur og örlátur maður og elskaði að dekra við fjölskylduna sína, einkum mig og barnabörnin sín. Það var líka magnað hvað hann var alltaf með á hreinu hvað mann langaði í, stundum var hreinlega eins og hann læsi hugsanir. Þegar ég var unglingur kom pabbi alltaf með gjafir til mín úr vinnuferðum erlendis, oftar en ekki föt og geisladiska. Ég minnist þess að vinkonur mínar voru oft hissa á hvað pabbi var lunkinn að finna einmitt það sem mig hafði langað í og passaði mér fullkomlega án þess að ég hefði beðið um nokkuð.
Pabbi var yndislegur afi og elskaði og dáði barnabörnin sín. Þegar Hekla Bjarkey kom í heiminn var hann svo stoltur af litlu prinsessunni sinni og dekraði hana eins og best hann gat. M.a. gaf hann henni forláta Armani úlpu og að sjálfsögðu nokkur skópör. Pabbi hafði endalaust gaman af því að spjalla við Heklu Bjarkey og dunda með henni, enda var hún litla ljósið hans. Hann hafði auðvitað líka mjög gaman af því að fylgjast með Kristófer Breka þroskast og vaxa fyrstu mánuðina, þótt það hafi aðeins verið í gegnum Skype. Ég er þakklát fyrir að pabbi náði að hitta litla snáðann nýfæddan síðasta sumar. Þótt pabbi hafi dvalið í fjarlægri heimsálfu síðustu árin voru tengsl okkar alltaf sterk og mikið samband okkar á milli í gegnum Skype. Pabbi var viðstaddur ýmsa viðburði, án þess að vera þar í eigin persónu, t.d. var hann skírnarvottur þegar Kristófer Breki var skírður og var bara uppáklæddur í skyrtu og bindi í tölvunni og fylgdist þannig með athöfninni. Það var dálítið skondið þegar skírnarvottarnir stóðu hlið við hlið, tengdapabbi í eigin persónu og pabbi á tölvuskjánum.
Pabbi var einhvern veginn þannig maður að hann eignaðist vini hvar sem hann fór og allir bera honum vel söguna. Hann eignaðist gríðarlegan fjölda vina í gegnum vinnuna, bæði á Íslandi og í Noregi. Svo átti hann auðvitað mjög góða vini í Hong Kong. Pabbi hafði óskaplega þægilega nærveru og börn og dýr hændust að honum. Alltaf var hann til í að hjálpa þeim sem þess þurftu og var mjög ósérhlífinn í því. Hann lánaði t.d. húsið sitt að Borgarholtsbraut til nágranna sinna og vina þegar þörf var á og hann var erlendis. Pabbi hefur alltaf stutt mig eins og klettur í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur og hvatt mig áfram, hvort sem það var nám, vinna eða bara eitthvað allt annað, eins og t.d. húsbygging í Kvíslartungunni.
Ferðalög hafa alltaf verið stór partur af lífi pabba. Þegar ég var að alast upp fórum við í óteljandi útilegur, sumarbústaðaferðir og jeppaferðir með frábærum og þéttum vinahópi. Í þessum ferðum voru fjörið og hressileikinn allsráðandi og það var tekið upp á ýmsu, t.d. er eftirminnilegt þegar pabbi og Einar Vilhjálmsson heitinn mættu uppáklæddir í smóking í fjallaskála í Þórsmörk um hávetur og gerðu flís- og lopaklædda ferðafélaga sína orðlausa. Eða þegar tekið var upp á því í árlegri páskaferð jeppahópsins að taka lagið með skögultennur og risaeyru úr pappadiskum. Sérstaklega man ég eftir útilegu sem ferðahópurinn fór í á Laugavelli rétt hjá Kárahnúkum fyrir austan. Á þeim tíma vissi varla nokkur maður af þessum afskekkta paradísarstað sem við vorum svo glöð að hafa fundið. Þess vegna voru það mikil vonbrigði þegar við sáum fólksbíla læðast niður brekkuna í átt að tjaldstæðinu. Þegar leið á kvöldið og nóttina varð ferðahópnum okkar og Austfirðingunum óvelkomnu hins vegar vel til vina, og það var sungið, spilað á flöskur og glös og trallað fram undir morgun. Þessi vinskapur entist í fjölda ára og síðar fékk pabbi hina tónelsku Austfirðinga til að koma óvænt í afmæli mömmu við mikinn fögnuð gesta. Pabbi hafði gríðarlegan áhuga á jeppamennsku og ferðalögum um landið, enda held ég að það sé varla sá blettur á landinu sem við höfum ekki heimsótt á ferðalögum okkar. Því til vitnis er nú til landakort af Íslandi þar sem merktar eru inn allar leiðir sem farnar voru á þessum árum og þar eru fáar leiðir ómerktar.
Við pabbi áttum einnig góðar stundir í útlöndum þegar ég var yngri, m.a. fórum við fjölskyldan í mjög skemmtilega ferð með Norrænu til Færeyja, Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Mér er minnisstætt þegar við fórum fjölskylduferð til Spánar er ég var 14 ára. Við fórum í skoðunarferð til Granada í 40 stiga hita og sól. Við vorum með bílaleigubíl og þegar við vorum að ganga upp brekkuna í átt að bílastæðinu vorum við gjörsamlega á síðustu dropunum og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að koma í loftkældan bílinn. Loksins þegar við stauluðumst að bílnum urðu vonir okkar að engu, enda bíllinn með svörtum leðursætum og loftið inni í honum eins og í gróðurhúsi. Pabbi varð því að teygja sig inn til að setja bílinn í gang og kveikja á loftkælingunni og svo stóðum við í steikjandi hitanum fyrir utan á meðan bíllinn kólnaði. Þegar ég var 15 ára fór ég í tungumálaskóla til Þýskalands. Pabbi fór með mér út því hann var að fara á vinnusýningu í Þýskalandi. Hann tók BMW á leigu og við keyrðum eftir hraðbrautunum áleiðis að þorpinu þar sem ég ætlaði að dvelja. Þá voru gps tæki ekki jafn útbreidd og nú er, og því var ég með kortið og sagði pabba til vegar, sem var áskorun, enda ekkert sérstaklega auðvelt að rata í ókunnugum þýskum sveitum og þorpum. Þegar við komumst loks á áfangastað vorum við sammála um að við værum ágætis teymi í að aka um Þýskaland.
Pabbi hafði unun af ferðalögum á Íslandi, en á síðari árum jókst flakkið umtalsvert, einkum í tengslum við vinnuna hjá Ólafi Gíslasyni hf., en pabbi hafði mikinn áhuga á vinnunni sinni og sinnti henni af miklum áhuga og dugnaði. T.a.m. var hans annað heimili á Austfjörðum á meðan á framkvæmdum við Kárahnúka stóð. Það stóð aldrei í pabba að aka landshornanna á milli ef þess var þörf og vinnan krafðist þess oft að hann væri á faraldsfæti um allt land. Svo teygðust ferðalögin til Noregs, einkum á síðari árum og var hann þar langdvölum. Árið 2012 urðu ákveðin þáttaskil hjá pabba, en þá bauðst honum spennandi atvinnutækifæri í Hong Kong og flutti hann þangað. Við pabbi grínuðumst oft með það að aldrei hefðum við getað séð fyrir að pabbi ætti eftir að búa og starfa í Hong Kong af öllum stöðum. Þrátt fyrir fjarlægðina héldum við pabbi alltaf góðu sambandi með aðstoð Skype og svo sterk var tengingin á milli okkar að oft var ég að fara að ýta á takkann til að hringja þegar pabbi varð fyrri til. Dvöl pabba í Hong Kong var oft ævintýri líkust. Hann kynntist mjög áhugaverðu fólki, hann ferðaðist um, hann bjó á bát eins og hann hafði ætíð dreymt um og hann keypti snjóvél og leigði hana út, svo eitthvað sé nefnt. En eitt var mjög áberandi við þessa dvöl hans í Hong Kong. Eftir að hann settist að á bátnum Thule í Hebe Haven var eins og hann væri kominn á rétta hillu. Það færðist yfir hann einhver ró og þar var hann sáttur og hamingjusamur. Honum leið sérstaklega vel að sitja í skutnum í blankalogni og blíðu með rauðvínsglas við hönd. Við fjölskyldan áttum yndislegar stundir með pabba í Hong Kong í þau þrjú skipti sem hann bauð okkur til sín, páska og jól 2013 og páskana 2014. Við þvældumst um og skoðuðum flest sem hægt var að skoða, fórum í eftirminnilega siglingu um páskana 2014 og nutum lífsins með pabba. Það var gaman að fá nasaþef af ævintýrum pabba og ferðalögin til hans eru ómetanlegar minningar. Pabbi var mjög iðinn og harðduglegur maður þótt hann kynni líka listina að slaka á. Síðustu árin er hann dvaldi í Hong Kong var hann með mörg járn í eldinum og aldrei lognmolla í kringum hann. Hann var að gera upp bátinn og koma á viðskiptasamböndum af ýmsum toga við Kína, svo eitthvað sé nefnt. Hann átti draum um að klára að gera upp bátinn og sigla honum svo inn í Miðjarðarhaf og þvælast þar um. Við ræddum líka um það upp á síðkastið hvað við vorum farin að hlakka til að hittast í sumar þegar hann ætlaði að koma til okkar og njóta tímans með barnabörnunum. Það er svo óendanlega sár og undarleg tilhugsun að af því muni aldrei verða. En minning pabba mun lifa áfram með okkur og barnabörnunum hans.
Guðbjörg Benjamínsdóttir.