Guðrún Jónasdóttir (Dúnna) var fædd 25. desember 1921, hún lést 18. mars 2015 á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík.Foreldrar hennar voru Jónas Jónasson, bóndi og smiður í Múla í Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu, f. 24. maí 1881, d. 16. jan. 1956, og kona hans, Guðrún Jónsdóttir, f. 1. sept. 1887, d. 30. ágúst 1954. Þau hjónin bjuggu í Múla frá 1914 til æviloka. Guðrún var yngst fjögurra systkina sem upp komust og eru þau nú öll látin. Þau voru Guðmundur fjallabílstjóri, f. 11. júní 1909, d. 5. mars 1985, Fanney, f. 14. feb. 1912, d. 19. ágúst 1991, Jón Húnfjörð, f. 21. jan. 1914, d. 3. nóv. 1995.
Guðrún ólst upp í Múla og vandist snemma öllum algengum sveitastörfum á þeirri tíð. Hún stundaði nám við húsmæðraskólann á Blönduósi og hóf rúmlega tvítug sambúð með Hrólfi Jónssyni frá Harastöðum í Vesturhópi. Þau gengu í hjónaband 28. apríl 1946. Hrólfur var fæddur að Stóru-Borg í Víðidal 3. apríl 1919 og lést í Reykjavík 11. okt. 1992. Þau hjónin settust að á Akranesi 1947 og bjuggu þar að Skólabraut 20. Eignuðust þau átta börn sem eru: 1) Gunnar Ingvi, f. 9. des. 1944, kona hans er Bjarnveig Hjörleifsdóttir og eiga þau börnin Guðrúnu Ósk, Grétar Þór og Gyðu Rós. 2) Þórarinn Hjalti, f. 5. jan. 1946, d. 14. des. 2014, hann átti dótturina Sunnu Björk með Steinunni Jónsdóttur. Ekkja Hjalta er Helen Hrólfsson og ættleiddi Hjalti dóttur hennar, Aislyn Þóru. 3) Sigrún, f. 24. mars 1947, hún á soninn Eyþór með Örlygi Eyþórssyni. Sambýlismaður Sigrúnar er Gísli Kristinn Björnsson og dóttir þeirra er Brynja. 4) Guðrún, f. 21. ágúst 1949, maður hennar er Guðmundur Rúnar Kristjánsson og börn þeirra eru Kristján Gunnar, Hjörtur Jónas og Guðrún Ásta. 5) Steinunn, f. 12. jan. 1951, hún eignaðist soninn Hrólf Má með Helga Laxdal. Sambýlismaður hennar var Sigurvin Kristjánsson, bóndi á Fáskrúðarbakka, en hann lést 22. júní 2007, synir þeirra eru Sigursteinn og Kristján Þór. 6) Jónas, f. 20. mars 1952, ókvæntur og barnlaus. 7) Sigurður Marz, f. 6. apríl 1954, d. 5. febr. 2004. Sigurður eignaðist dótturina Hrafnhildi Ósk með Helgu Margréti Björnsdóttur og dótturina Sigurbjörgu Lindu með Helgu Björgu Sigurðardóttur. Hann var kvæntur Bryndísi Olgeirsdóttur og börn þeirra eru Inga Fanney og Andri Már. 8) Valdís, f. 20. sept. 1956. Maður hennar er Páll Guðmundsson, börn þeirra eru Helgi og Katrín.
Guðrún var húsmóðir á Akranesi til 1979 og húsmóðir í Kríuhólum 2 í Reykjavík til 1992. Síðan var hún búsett í Furugerði 1 í Reykjavík fram undir árslok 2014, er hún fór á sjúkrahús og síðan á hjúkrunarheimilið Skógarbæ þar sem hún lést.
Útför Guðrúnar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 30. mars 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Stundum er sagt að tengdamæður séu svona og svona og sumar jafnvel óþolandi, en mín tengdamóðir var mér að skapi og því meir sem ég kynntist henni betur. Hún var alltaf svo rösk og drífandi að hverju sem hún gekk og það var aldrei nein lognmolla í kringum hana. Hún hafði ekki vanist því hjá sínum foreldrum að láta verkin bíða. Það var drift í henni Dúnnu eins og hún var oftast kölluð. Það fór ekki framhjá neinum. Líklega hefur hún býsna oft vaðið í verk sem voru ekki á þeirri tíð talin til kvenmannsverka og þá kannski stundum fengið að heyra eitthvað viðlíka og eftirfarandi:  Vert þú ekki að þessu, karlmennirnir gera þetta! Og ég get ímyndað mér að Dúnna hafi svarað slíkum aðfinnslum heldur snögg upp á lagið: Ég get þetta alveg eins og þeir og ekki síður! Og auðvitað sýndi hún svo að það voru ekki orðin tóm.
Strax á unga aldri var hún hreint ekki ánægð með að vera sett í einhverjar þær skorður sem þröngsýn ráðsmennsku sjónarmið tíðarandans kröfðust. Hún var hispurslaus og hreinskilin og gjörn á að segja sína meiningu við hvern sem var. Hún vildi fá að vera frjáls og fara sinna eigin ferða. Það gat leitt af sér fjas í sumum, en henni var áreiðanlega slétt sama um það. Hún greip bara hest þegar frelsislöngunin í brjósti hennar kallaði og reið upp í fjall og var þar ein á ferð oft og tíðum. Þá var það hugur náttúrubarnsins sem réði för og hló og söng innra með henni. Líklega hefur hún stundum fengið einhverjar ákúrur frá föður sínum fyrir þennan flæking, en mamma skildi stúlkuna sína og strauk henni um vangann og þá var allt gott.

Foreldrar hennar, Jónas Jónasson og Guðrún Jónsdóttir kona hans bjuggu lengstum í Múla í Línakradal í Vestur Húnavatnssýslu og voru kunn að góðum mannkostum. Jónas var mikilvirkur húsasmiður og eftirsóttur til smíða. Hann gerði jafnan miklar kröfur bæði til sjálfs sín og annarra. Þegar hann setti lokapunktinn við búskaparsögu sína vorið 1955 lét sá mæti maður Eðvald Halldórsson frá Stöpum þau orð frá sér fara í fréttapistli, að bændahöfðinginn og þjóðhagasmiðurinn Jónas Jónasson í Múla væri hættur búskap!  Slík orð frá þeim manni sem Eðvald var, hljóta að teljast mikilsverð og gildisrík sem vitnisburður um virtan samtíðarmann. Guðrún í Múla þótti sérstök gæðakona og  kom alls staðar fram til góðs. Þar réði manngæskan og tillitssemin gagnvart öðrum öllu í daglegri breytni. Þegar hún lést 1954 fannst Dúnnu hún hafa misst svo mikið að ég þykist vita að hún hafi tregað mömmu sína alla sína ævi. Og þann söknuð varð hún að bera í meira en 60 jarðvistarár.
En hún eignaðist góðan mann í Hrólfi Jónssyni og þó lífsbaráttan væri oft erfið, stóðu þau hjónin saman í blíðu og stríðu af elju og dug og leystu með nægjusemi og ráðdeild úr hverjum vanda í stækkandi fjölskyldu. Hrólfur var hæglátur iðjumaður og góðmenni til innstu æðar, trúmaður mikill sem lagði jafnan allt sitt í Guðs hendur. Alls urðu börnin átta. Fjórir synir og fjórar dætur litu dagsins ljós og uxu upp til starfs og dáða. Heimasætan frá Múla varð húsfreyja í Lykkju á Akranesi í rúma þrjá áratugi og síðan á annan áratug í Kríuhólum 2 í Reykjavík. Gestrisnin var henni í blóð borin og hún Dúnna kunni sannarlega að gleðjast með heilbrigðum hætti og hún naut þess alla tíð að vera innan um fólk. Það fylgdi henni frískur blær og henni var lagið að slá á létta strengi og henni þótti gott að hlægja.
Þannig liðu árin við annríki lífsbaráttunnar uns að því kom að börnin hurfu að heiman og mörkuðu sér sína eigin lífsbraut.  Að heilsast og kveðjast er lífsins saga, en þó að vinir og vandamenn hverfi frá okkur er okkur boðið að halda áfram ferð okkar meðan dagljóst er. Og það gerðu Dúnna og Hrólfur meðan kostur var á samleið, en haustið 1992 lést Hrólfur, skömmu eftir að þau hjónin höfðu flust búferlum í Furugerði 1 og Dúnna var þar með orðin ekkja. Hún sýndi þá sem endranær hvaða styrkur bjó í henni og hélt áfram lífsgöngunni í fullri trú á forsjá Guðs. Það var eins og lífsstef hennar og einkunnarorð væru alltaf meðan ég lifi ætla ég að vera lifandi! Og hún var svo sannarlega áfram lifandi. Hún var komin vel yfir áttrætt þegar hún skaust norður á Skagaströnd til mín til að hjálpa mér við að taka upp kartöflur. Það var hugur í henni við það verk og eftir því tekið. Haft var á orði í Selvíkinni að ég hefði fengið sannkallaða kartöflu-upptökuvél að sunnan í garðverkin.
Dúnna var ein af hetjum hversdagslífsins og það var yndislegt að fá að kynnast henni og eiga vináttu hennar og njóta þess kærleika sem hún bjó yfir. Ég verð henni ævinlega þakklátur fyrir að hleypa mér að hjarta sínu og ég fann að tryggðin þar var alltaf heil og sönn. Við útför hennar varð til í huga mínum einföld vísa, þar sem ég stóð innan um ástvini hennar og afkomendur, og læt ég vísu þá mynda niðurlagsorð þessa minningamáls um tengdamóður mína, sem vissulega var mikil manneskja og íslensk kjarnakona:

Dúnna er farin frá okkur,
freyjan gæskuríka.
En alla tíð hún á okkur
og við hana líka!

Rúnar Kristjánsson.