Stefán Egill Jónsson fæddist á Hrollaugsstöðum í Eiðaþinghá 10. október 1927. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 23. apríl 2015. Foreldrar hans voru Guðný Þórólfsdóttir, f. 26.7. 1889, d. 3.4. 1979, og Jón Ísleifsson, f. 7.7. 1893, d. 23.11. 1964, ábúendur í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá. Hálfbróðir: Þórólfur Stefánsson, f. 1914, d. 2004. Alsystkini: Guðgeir, f. 1923, d. 2009, Lukka, f. 1925, d. 2004, Snorri, f. 1926, d. 2012, Kristmann, f. 1929, og Sæbjörg, f. 1932. Þann 26.1. 1957 giftist Egill Þórdísi Vilborgu Þórólfsdóttur frá Stóru-Tungu í Bárðardal, f. 4.3. 1932, d. 24.8. 1984. Börn þeirra eru: 1) Jón Þór, f. 10.7. 1957, d. 1.12. 1979, dóttir hans er Ingibjörg Helga, f. 28.10. 1976, maki Halldór H. Ingvason, f. 1975, börn: Axel Þór, Daníel Ingi, Brynjar Már, Helga María og Ingunn Eva. 2) Sveinn, f. 17.8. 1958, maki Guðrún Andrésdóttir, f. 1960. Synir þeirra: Egill Andrés, Jónas Þór og Sigmar Örn. Barnabörnin eru fjögur. 3) Leifur, f. 17.8. 1959, börn: Guðrún Vala, Stefán Vilberg, Sandra Dís og Díana Ósk. Barnabörnin eru þrjú. 4) Þórólfur, f. 4.11. 1960, maki Sigrún Kristbjörnsdóttir, f. 1964. Dætur þeirra: Þórdís Eva og Alma Sigríður. Þau eiga eitt barnabarn. 5) Þorgeir, f. 1.2. 1962, maki Helena Sigurbergsdóttir, f. 1969, börn: Guðrún María, Daði Freyr, Hlynur Freyr, Jóna María og Jón Ingi. Barnabörnin eru fimm. 6) Anna Guðný, f. 24.4. 1963, maki Oliver Karlsson, f. 1962. Börn: Jón Albert, Agla Rún, Davíð Geir og Anna Elísabet. Þau eiga eitt barnabarn. 7) Ómar, f. 6.4. 1965, maki Oddfríður Breiðfjörð, f. 1965, börn: Bjarki og Elsa Dóra. 8) Gunnar, f. 14.12. 1966, maki Jóna S. Friðriksdóttir, f. 1969, börn: Helga Margrét, Leó, Ómar Berg og Kristrún. Þau eiga eitt barnabarn. Egill ólst upp í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá og tók virkan þátt í bústörfum með foreldrum sínum frá unga aldri. Hann byrjaði níu ára í vegavinnu og var það hans sumarvinna til margra ára, á veturna vann hann við það sem til féll, t.d. sem vinnumaður á bæjum í sveitinni og sem póstur. Síðar fór hann til Reykjavíkur og vann þar við ýmis störf, t.d. múrverk og pípulagnir. Í Reykjavík kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, Þórdísi, og var fyrsta búskaparár þeirra þar, síðan voru þau eitt ár á æskuslóðum hennar í Bárðardal. Vorið 1958 keyptu þau jörðina Syðri-Varðgjá og bjuggu þar öll sín búskaparár. Heimilið var fjölmennt, börnin átta fæddust á 10 árum og einnig ólu þau upp Ingibjörgu Helgu, dóttur Jóns Þórs. Það var því nóg að gera á stóru heimili. Tónlistin skipaði alla tíð stóran sess í lífi Egils og spilaði hann á harmonikku og var félagi í Harmonikkufélagi Eyjafjarðar. Einnig spilaði hann með Afabandinu í mörg ár og var einn af stofnendum þess. Eftir að hann eignaðist húsbíl gerðist hann félagi í Félagi húsbílaeigenda og ferðaðist mikið um landið og hafði gaman af. Árið 2006 eignaðist hann góða vinkonu og sambýliskonu til nokkurra ára, Sigurveigu Einarsdóttur, þau ferðuðust mikið saman og nutu lífsins á meðan heilsa hans leyfði.
Útför Egils verður gerð frá Kaupangskirkju í dag, 4. maí 2015,
og hefst athöfnin kl. 13.30.
Síðustu daga hafa minningarnar hrannast upp í huga mér frá því ég var lítil stúlka og því hugsaði ég með mér að það yrði nú leikur einn að setja þær á blað með því að skrifa fallega minningargrein, en raunin varð önnur. Ég mun aldrei geta komið því nægilega vel til skila hversu mikilvægur þú hefur verið mér allt mitt líf. Þú varst ekki bara afi minn, ég er lítið barn þegar þú gengur mér í föðurstað eftir fráfall pabba míns og verð ég þér ævinlega þakklát fyrir að þú gekkst í þann stað.
Fyrsta minningin sem kemur upp í huga mér ert þú með mig á háhesti og marrið í grasinu undan gúmmískónum þínum í sól og sumaryl en það voru nokkrir göngutúrarnir suður á tún sem ég fór með þér hvort sem það var tengt heyskap, sauðburði eða einhverju öðru og endaði þá oft á hestbaki í bakaleiðinni. Já minningarnar eru margar tengdar búskapnum þar sem ég
skottaðist með þér og í kringum þig á meðan þú sinntir þínum störfum. Ég man vel eftir fyrstu kindinni sem þið amma gáfuð mér sem bar svo nafnið Gjöf, stundirnar sem ég hjálpaði þér að marka lömbin sem og að hjálpa þeim í heiminn. Það var nú heldur ekki leiðinlegt að fá að
vera með þér við að vaka yfir kindunum í sauðburði og hvað þá að fá að hafa stórt fat af poppi út í fjárhúsum en það kom amma með handa okkur eitt sinn. Það verður þó að viðurkennast að áhugi minn á búskapnum fór dvínandi eftir því sem ég varð eldri, nema á hestunum, þeir voru ávalt í uppáhaldi. Mér þótti það alltaf aðdáunarvert þegar þú járnaðir hestana og fylgdist ég oft vel með. Þegar ég nefni hesta kemur annað upp í huga mér og það er þolinmæði. Þolinmæðin sem þú sýndir mér svo oft, eins og þegar ég tók mig til og klippti hana Perlu. Ég hafði oft fylgst með þér snyrta á henni toppinn þar sem þér var illa við að hún hefði hann niður í augum og ætlaði nú bara að hjálpa aðeins til. Ég sótti mér, að mig minnir, gamlar
rúningsklippur og tók mig til við að snyrta á henni toppinn, svo þótti mér taglið líka full sítt svo ég snyrti það aðeins til líka en tók kannski full mikið af öllu og Perla greyið leit nú ekki jafn vel út og áður. Ég gleymi aldrei svipnum á þér þegar þú komst inn og sást hvað ég hafði gert, þú varst ekki glaður með verk mitt en þú varðst ekki heldur reiður en spurðir mig hvað í ósköpunum ég hefði verið að gera? Þetta var eitt, ég man sjaldan eftir þér reiðast við mig yfir mínum uppátækjum, þú talaðir frekar við mig.
En það eru einnig svo margar aðrar stundir sem eru mér svo dýrmætar. Til dæmis harmonikkuleikurinn sem var þér svo kær, öll kvöldin sem ég hlustaði á þig spila á harmonikkuna og dundaði mér við að teikna, lita og spila á meðan. Nú svo spilaðir þú undir á æfingum hjá mér og nokkrum vinkonum þegar við æfðum sönglög fyrir skemmtanir í skólanum. Eins man ég þegar þú spilaðir með hljómsveit fyrir dansi á hverjum sunnudegi í
Húsi aldraðra þar sem ég og Vigdís æskuvinkona mín dönsuðum kátar gömlu dansana með fólkinu og höfðum gaman að.
Þrátt fyrir mikið annríki við búskapinn gafst þú þér nánast alltaf tíma til að lesa fyrir mig á kvöldin. Fram að tólf ára aldri sofnaði ég við hliðina á þér og þá oft á öxlinni á meðan þú last fyrir mig. Þrátt fyrir að bækurnar hafi verið margar eru mér tvær minnisstæðastar, Heiða og Sögur og sígild ævintýri. Sagan af Heiðu þótti mér alltaf skemmtileg og fannst ég eiga ansi margt sameiginlegt með þessari litlu stúlku sem bjó ein upp í fjalli með afa sínum. Við vorum bara með kindur en ekki geitur eins og þau. Það er ekki langt síðan þú rifjaðir upp þennan tíma með mér og allar sögustundirnar ásamt því sem þú sagðir mér að fólk furðaði sig nú á því hversu langt fram eftir aldri ég hefði fengið að sofna hjá þér á kvöldin. Þú talaðir um að
þér fyndist ég hafa þurft á því að halda og því hafi það verið sjálfsagt. Ég held nefnilega afi minn að vegna þess hve erfiðar raunir og missi fjölskyldan þurfti að ganga í gegnum á þessum tíma að þá höfum við verið að hlúa að hvort öðru.
Ég mun aldrei gleyma klippingunni minni þegar ég var lítil en hana sást þú um, drengjakollinn minn. Ég man ekki hvað ég var orðin gömul þegar þú sættist á að leyfa mér að safna hári en mig dreymdi um sítt hár. Þú lést það eftir mér fyrir rest en fram að því sást þú um að klippa á mér hárið og ég man vel eftir boxinu sem þú geymdir þín klippiskæri í, þegar ég var lítil, og sá það nú síðast fyrir nokkrum dögum síðan. Það er gott dæmi um hversu vel þú fórst með hlutina og allt var á sínum stað og er þar enn. Eins man ég vel eftir því þegar þú kenndir mér að opna umslög, það
gerðir þú ávalt með hníf svo sárið yrði beint og fínt en ekki rifið og tætt. Það fór mikið í taugarnar á þér þegar póstur var rifinn upp og því hugsa ég alltaf þegar ég opna póstinn minn, þetta hefði afa ekki líkað.
Svo voru það blessaðar dúkkurnar mínar sem þú fléttaðir ótt og títt fyrir mig þar til þér fannst nú tími til kominn að ég gerði það sjálf. Þá man ég svo vel að þú bast band með þremur endum á handfangið á einni skúffunni í eldhúsinu og þar skyldi ég æfa mig sem og ég gerði og var fljótt farin að flétta dúkkurnar mínar. Nú og spilastundirnar, öll spilin sem þú kenndir mér og kaplarnir en þú gast setið lengi við að leggja kapal og ráða krossgátur. Krossgátunum varð ég þó aldrei jafn góð í og þú.
Það er eftirminnilegt hversu ánægður þú varst með mig þegar ég ákvað að sækja um leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri, það var stund sem að ég held að hvorugt okkar hafi átt von á að kæmi upp á sínum tíma. En þetta fór ég í gegnum og útskrifaðist ég með prýði. Þú varst svo ákafur í að styðja mig í þessu og hvattir mig mikið til að taka þátt í félagslífinu í skólanum á sama tíma og eftir að fyrstu annarprófin mín voru búin man ég að við sátum tvö saman í eldhúsinu þar sem ég bjó á þeim tíma og skáluðum í rauðvíni ásamt því sem ég skrifaði jólakortin fyrir okkur bæði þetta árið.
Já afi minn þær eru margar minningarnar sem ég á með þér og síðan þú fórst hef ég heyrt í þér raulandi í kollinum á mér á meðan þú nærð þér í sykurinn út í kaffið, mjólkina, já eða horfir út um eldhús eða stofugluggann heima á SyðriVarðgjá. Svo lifandi ertu í huga mér enn og verður ávallt. Þú varst mín stoð og stytta, sá sem ég gat ávalt treyst á. Ég kveð þig hér með söknuði og trega en jafnframt góðum minningum sem fylla hjarta mitt af kærleika, öryggi, stolti og hlýju. Hvíldu í friði elsku afi minn.
Kærleiks kveðja þín sonardóttir
Ingibjörg Helga Jónsdóttir
Ingibjörg Helga Jónsdóttir