Þórhallur Halldórsson fæddist á Skálmarnesmúla í Barðastrandasýslu 21.10.1918. Hann lést 23. apríl sl. Þórhallur var sonur hjónanna Steinunnar G. Jónsdóttur og Halldórs Jónssonar bónda á Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp. Systkini Þórhalls eru Guðrún, Hólmfríður, Jón, Ragna, Inga Lára, Baldvin,Theódór, Erlingur og Hjördís. Þórhallur kvæntist 1949 Sigrúnu Sturludóttur f.18.4.1929. Foreldrar Sigrúnar voru Kristey Hallbjörnsdóttir og Sturla Jónsson hreppsstjóri. Þórhallur og Sigrún eignuðust fjórar dætur 1) Inga Lára f.1949, maki Elvar Bæringsson f.1948. Börn a) Sigrún Arna. Börn Elvar Ingi, Hildur Kristey, Þorgeir Logi og Þorvaldur Breki. Maki Sigrúnar er Steingrímur Þorgeirsson. b) Þóra Björk. Börn Ísabella Sól og Jökull Máni. Maki Þóru er Bjarki Þ. Jónsson. c) Hrafnhildur Ýr. Barn Svanhildur Inga. Maki Hrafnhildar er Sigurður P. Ólafsson. 2) Sóley Halla f.1953, maki Kristján Pálsson f.1944. Börn a) Hallgerður Lind. Börn Sóley Karen og Þórarinn. Maki Hallgerðar er Magnús Þórarinsson. b) Sigrún. Börn Rúnar Atli, Sigmundur Ingi og Dagur Kristján. Maki Sigrúnar er Guðmundur Arnar Sigmundsson. Börn Kristjáns og Aðalheiðar Jóhannesdóttur eru a) Arndís. Börn Bjartur Steinn og Kristján Árni. Maki Arndísar er Ingólfur Ásgeirson. b) Ólöf. Börn Bára og Una Margrét. Maki Ólafar er Dave Meadows. 3) Auður f.1958, maki Siggeir Siggeirsson f.1959. Börn a) Sigríður Rún. Börn Matthías Heiðar og Kristófer Elmar. Maki Hlynur Gylfason. b) Þórhallur. c) Vilhjálmur. 4) Steinunn f.1966, maki Einar Þór Einarsson f.1962, d.2014. Börn a) Steinar Þór. b) Fannar Þór. Barn Einars Þórs og Stellu Hafsteinsdóttur a) Ágústa Ósk. Börn Ásgeir Atli, Karen Arna og Einar Andri. Maki Ágústu er Einar H. Jónsson. Dætur Þórhalls og Ásthildar Pálsdóttur eru 1) Bryndís f.1949, maki Vilbergur Stefánsson f.1948. Börn hennar og Bergþórs Hávarðarsonar eru a) Ragnheiður Bergdís. Börn Bryndís Þóra og Jakob Jóel. Maki Ragnheiðar er Þórarinn Jakobsson b) Páll Björgvin. Unnusta Rebeca Primo. c) Kjartan Hávarður. Unnusta Svanhvít Ingibergsdóttir. 2) Björg f.1949, maki Gunnbjörn Ólafsson f.1938. Barn a) Drífa. Barn Árni Páll. Maki Drífu er Guðjón Ö. Þorsteinsson. Börn Bjargar og Gunnars Garðarssonar a) Ásgeir. Börn Kristín Heiða, unnusti Gunnlaugur J. Emilsson, Viktor og María Björg. Maki Ásgeirs er María Jensdóttir. b) Kristín Sif. Börn Styrmir Rafn, Sara Dís og Eyþór. Maki Kristínar er Ólafur P. Rafnsson. Foreldrar Þórhalls voru frá Breiðafirði og Dýrafirði. Þau bjuggu sín fyrstu ár á Skálmarnesmúla en fluttu vorið 1920 að Arngerðareyri. Þar ólst Þórhallur upp á miklu menningarheimili. Hann stundaði nám í farskóla og Reykjanesskóla. Hann kynntist eiginkonu sinni á Suðureyri og settust þau þar að. Þórhallur var m.a. sérleyfishafi, sinnti fólksflutningum á Vestfjörðum ásamt ökukennslu. Hann varð fyrsti sveitarstjóri á Suðureyri árið 1966 til 1971 en þá fluttist fjölskyldan suður. Hann starfaði lengi hjá Skrúðgörðum Rvk. sem verkstjóri. Þórhallur var félagi í Stúkunni Einingunni, Ökukennarafélaginu og Oddfellowstúkunni Þorkeli Mána. Í Reykjavík bjuggu hjónin lengst af í Hlíðargerði og Espigerði en síðustu ár í Árskógum 6. Þórhallur verður jarðsungin frá Bústaðakirkju mánudaginn 4. maí og hefst athöfnin kl 13.00.
Þórhallur Halldórsson var fæddur 21. október 1918 og lést þann 23. apríl síðastliðinn.
Þó mín fyrstu kynni af honum væru á þessum nótum og hann fengi oft að heyra þessa sögu frá mér, brosti hann bara og sagði "þetta getur ekki hafa verið ég". En Rúna tók nú ekki undir þetta "Þú gast nú verið hvass hérna áður fyrr". En Þórhallur var gull af manni og einstaklega þægilegur í umgengni, algjört góðmenni og vildi allt fyrir hvern mann gera.
Hann var allt verklaginn sama hvað hann tók sér fyrir hendur. Hann starfaði við margt sína daga, hann var verkstjóri við vegagerð, átti og keyrði vörubíla, rútur og leigubíla, hann var einnig ökukennari um árabil, sveitastjóri á Suðureyri o.fl. o.fl. Ekki síst var hann smiður af guðs náð, eins og hann sagði sjálfur "mig langaði alltaf til að læra smíðar en hafði ekki efni á því, þegar ég var ungur, þá þurfti ég að vinna fyrir mér". En iðnnám var illa launað hérna áður fyrr. Hann var að hugsa um smíðanám eftir að hann flutti frá Suðureyri til Reykjavíkur, en fannst hann vera of gamall til að byrja í iðnnámi, en þá var hann bara rúmlega fimmtugur.
En hann smíðaði mikið um dagana og ber þar helst að nefna sumarbústaðinn í Selárdal við Súgandafjörð. Þar sagaði hann til að mestum hluta viðinn í bústaðnum í bílskúrnum við Hlíðargerði, efniviðurinn var svo settur í gám og fluttur vestur og sumarbústaðurinn reistur á örfáum dögum. Það var eins og búast mátti við frá honum, allt smellpassaði. Hann kom einnig vestur á Ísafjörð til að hjálpa okkur Ingu við að standsetja hús sem við höfðum keypt okkur. Dætrum okkar bar hann einstaka umhyggju fyrir, og ef þær voru að ferðast milli Ísafjarðar og Reykjavíkur varð hann að fá að vita þegar þær voru komnar á leiðarenda, fyrr var hann ekki í rónni.
Þórhallur var mikill bílamaður og átti fjölda bíla um ævina, og átti ég minn þátt í nokkrum bílaviðskiptum hans þegar ég rak bílasölu í Reykjavík. Ef einhver leitaði eftir ákveðnum bíl og hann var ekki til á skrá hjá okkur átti ég það til að hringja í Þórhall ef hann átti svona bíl og segja við hann, "hér er maður að leita að bíl eins og þú átt viltu ekki selja hann". Hann var nú fyrst ekki alveg til í þetta en ég breytti öllum mínum hæfileikum til að sannfæra hann um að hann gæti alltaf keypt sér seinna svona bíl. Svo fór hann að hafa gaman af því að vera á Mazda bíl í dag svo Datsun næsta mánuð þar á eftir og svo kannski á Subaru. En frúin var ekki eins hrifin af þessu, "maður veit aldrei á hvernig bíl þú ert á, ég vil bara hafa sama bílinn", svo þetta tók enda. Hann lét sér nægja sama bílinn í nokkur ár eftir þetta.
2009 þegar Þórhallur var 91 árs buðum við Inga Lára honum í heimsókn á æskuslóðirnar við Ísafjarðardjúp. Honum fannst þetta alltof mikil fyrirhöfn, en hvað um það. Ég skutlaðist til Reykjavíkur sótti höfðingjann og svo lá leið vestur á firði. Uppi á heiðinni stoppuðu við og fengum okkur kaffi, þá benti hann og sagði: Þarna var farið yfir með bátinn þegar við fluttum frá Skálmarnesmúla og þeir hefðu átt að hafa veginn yfir Þorskafjarðarheiði ef þeir hefðu viljað hafa hann snjóléttari, en þeir hlustuðu ekki á heimamenn. Þegar við komum að afleggjaranum þar sem gamli þjóðvegurinn liggur niður í Langadal, beygði ég inn á afleggjarann sem var merktur lokaður og þá spurði hann "hvað ertu að fara?" Ég sagði að hann hefði unnið þarna við vegagerð og við skyldum skoða gamla veginn aðeins, ég þyrfti að fá að vita meira um þessa vegagerð. Þá fór hann á flug,"það var hérna sem lögðum bílunum á nóttunni, hérna voru tjaldbúðinar seinast en fyrst voru þær hérna neðar, hérna festist jarðýtan" o.fl. Þetta var samfelld sögustund alla leið í Reykjanes, en við komumst alla leið niður eftir gamla veginum.
Það var ekki minnisleysi hjá þessum unglingi, hann var með allt á hreinu. Þegar við komum í Reykjanes voru Inga Lára, börnin okkar og barnabörn komin á staðinn. Við vorum helgina í Reykjanesi og fórum um sveitina hans og fræddi hann okkur um heimaslóðirnar og gömlu dagana, þetta var virkilega skemmtileg ferð. Á sunnudeginum var keyrt til Ísafjarðar yfir nýju brúna í Mjóafirði sem ég hafði meðal annars gefið sem ástæðuna til að hann yrði að fara þessa ferð. Þú verður að sjá nýju brúna. Hann hafði virkilega gaman af þessu ekki síður en við hin.
Árið 2011 komu Alli og Rúna í heimsókn til okkar í Voss í Noregi. Það var virkilega gaman að keyra með þau um þrönga vegi, milli hárra fjalla og trjáa, fjölda jarðganga, og ferja, alltaf eitthvað nýtt. Hann hafði haft á orði að Noregur hefði stolið fjölskyldu sinni,en sagði þegar leið á ferðina "ég skil ykkur vel að hafa flutt hingað hérna er virkilega fallegt". Einn dag þegar ég var á heimleið úr vinnunni og kom með ferju til Kvanndal i Hardangerfirði var Inga Lára kominn á bryggjuna og sat Þórhallur í flutningabílnum hjá mér síðustu 45 mínúturnar til Voss. Ég hafði sagt honum að hann yrði, sem fyrrum vörubílstjóri að að sitja í flutningabíl þessa þröngu vegi sem hanga utan í fjöllunum og ekki hægt að mæta bíl á löngum köflum. Gamla vörubílstjóranum þá 93 ára fannst þetta virkilega gaman. En margt er það sem fer um hugann þegar maður kveður Þórhall í hinsta sinn eftir nær 45 ára kynni sem tengdasonur hans. En ég veit að núna er hann í Djúpinu hjá sínum nánustu sem farnir eru á undan honum.
Ég votta Rúnu og öllum dætrunum mína dýpstu samúð.
Elvar Bæringsson