Einar Þorsteinn Ásgeirsson, arkitekt, listamaður og heimspekingur, fæddist í Ási í Reykjavík 17. júní 1942. Hann yfirgaf þessa jarðartilvist í Reykjavík 28. apríl 2015. Foreldrar hans voru Ásgeir Ólafsson Einarsson, f. 21.11. 1906, d. 4.4. 1998, héraðsdýralæknir í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og Kirstín ath. heitir KirstínLára Sigurbjörnsdóttir, f. 28.3. 1913, d. 29.5. 2005, handavinnukennari í Reykjavík. Systur Einars eru Guðrún Lára, f. 14.11. 1940, fv. skólasafnskennari, Sigrún Valgerður, f. 19.10. 1944, fv. deildarstjóri, Þórdís, f. 16.11. 1948, kennari og djákni, og Áslaug Kirstín f. 13.2. 1952, kennari og Davis-leiðbeinandi.
Einar kvæntist árið 1965 Auði Sigurðardóttur, f. 8.8. 1945, bókasafnsfræðingi (þau skildu). Börn þeirra eru: Sif, f. 21.11. 1970, löggiltur endurskoðandi, og Ríkharður, f. 4.7. 1976, verkfræðingur. Tengdasonurinn er Ragnar Sverrisson, f. 8.11. 1970, verkfræðingur, og
barnabörnin eru: Auður, f. 15.7. 1998, Geir, f. 12.10. 2001, og Lára
Kristín, f. 26.9. 2007, Ragnarsbörn. Einar kvæntist árið 1985 Fjólu Bender, f. 29.10. 1950, d. 13.10. 2000, (þau skildu). Hann kvæntist árið 2000 Manuelu Gudrunu Loeschmann, f. 7.2. 1960, skartgripahönnuði og listakonu (þau slitu samvistum).
Einar lauk stúdentsprófi frá MR árið 1962, lauk Dipl.-Ing.-prófi í arkitektúr frá Tækniskóla Hannover í V-Þýskalandi 1969 og stundaði framhaldsnám og störf á teiknistofunni Warmbronn hjá Frei Otto á ár
unum 1969 og 1970. Hann kynntist hugmyndum Richards Buckminster Fuller árið 1964 og var hann mikill áhrifavaldur í störfum Einars. Einar stofnaði og rak Tilraunastofu Burðarforma frá 1973 einkum við hönnun á hvolf- og tjaldbyggingum hér á landi og erlendis. Hann var lengi í samstarfi við Seglagerðina Ægi, m.a. við hönnun á þjóðhátíðartjaldi 50
ára lýðveldis Íslendinga á Þingvöllum 1994 og fleiri stórum
tjaldbyggingum. Einar var frumkvöðull í vistvænni húsagerð frá 1986 og hannaði m.a. hús í Torup-vistþorpinu á Sjálandi í Danmörku. Hann var
einnig deildarstjóri hjá RÚV 1978-79, og stofnaði og rak Handmenntaskóla Íslands á 8.-9. áratugnum, fyrsta íslenska bréfaskólann í myndlist, ásamt frændum sínum. Einar skrifaði fjölda greina um arkitektúr, skipulag, vistvæna byggingu, húsasótt, rafsegulmengun, læknisfræði og eðlisfræði í bækur, dagblöð og fagrit heima og erlendis. Eftir hann liggja nokkrar bækur, Innsýn í mann
lega tilveru (1996), Lífsspursmál, líf eftir fæðingu (1997) o.fl.
Hann starfaði með fjölda listamanna erlendis, m.a. Ólafi Elíassyni í Berlín um margra ára skeið, en Ólafur notaði form Einars Þorsteins, sem hann
nefndi Gullinfang, við hönnun á glerhjúp Hörpu tónlistarhúss í Reykjavík. Árið 2006 setti Einar Þorsteinn á fót stofnunina „I am: Stofnun til eflingar hugans“ en hann hafði mikinn áhuga á heimspeki og andans málum. Einnig hafði hann áhuga á geimferðaáætlunum og var í samvinnu við geimferðahönnuði í Boston um hönnun á „Scorpion Rover“, færanlegri rannsóknarmiðstöð í geimnum.
Útför Einars Þorsteins fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 8. maí 2015, kl. 15.
--------------- -1 ---------------



Góður vinur til margra ára er fallinn í valinn.

Einar Þorsteinn Ásgeirsson kom í fyrsta sinn á heimili mitt í fylgd með góðri vinkonu, - óvenjulega hár maður, klæddur svörtum kjólfötum, hvítri skyrtu með grænt stórt epli í lófanum.  Ein af þessum myndum sem festast í minninu. Samverustundirnar áttu eftir að verða margar og gjöfular næstu tvo áratugina. Reyndar hafði ég þegar á unglingsárum haft af þessum sérstæða manni nokkrar spurnir, hann var þeirrar gerðar að af honum spunnust sögur.

Einar Þorsteinn var langt á undan sinni samtíð, einstaklega frumlegur.. Hönnuðurinn Einar Þorsteinn  var fyrstur manna hér á landi til að gera mönnum ljósa umhverfisvá  sem stafaði af líferni manna strax á sjöunda áratugnum, en kúlulaga húsin og útfærsla formsins í ýmsum myndum byggð á ströngum stærðfræðireglum urðu einkennandi á hönnun hans á húsum og mannvirkjum er fram liðu stundir.  Hann var ekki einhamur raunvísindamaður. Ýmis önnur svið  fönguðu huga hans eins og líf á öðrum hnöttum og óhefðbundnar lækningar og um slík efni var hann í sambandi við leik- og fræðimenn um allan heim. Einar Þorsteinn hafði gott skopskyn og tók sjálfan sig ekki allt of hátíðlega. Ég minnist þess er við vorum bæði með innlegg á ráðstefnu Samtaka iðnaðarins og Arkitektafélagsins um mannvirkjagerð framtíðar, ég fyrir hönd stjórnmálaflokks  en hann sem frumkvöðull og framtíðarmaður. Ekki man ég vel hvað Einar Þorsteinn talaði um, en sú mynd er greypt í huga mér er hann stóð þarna í púlti, glæsilegur, hár og myndarlegur flytjandi erindi sitt blaðalaust. Hann lagði áherslu á mál sitt með stórum handahreyfingum og vitnaði fimlega í hvern fræðimanninn á fætur öðrum. Enginn tók eftir því að nöfnin vantaði því hann bætti við með sínum sérstæða látbragði ..sem ég man ekki hvað heitir en það kemur seinna og hélt svo áfram eins og ekkert hefði í skorist.  Við áttum oft eftir að skemmta okkur yfir þessu.

Ríkulegar samverustundir um fimmtán ára skeið; partý, heitar umræður þar sem tekist var á um lífið og listina og óvæntir skandalar lífguðu uppá hvunndaginn. Allt var þetta ein samfelld veisla. með skemmtilegum veislugestum eins og  Helga Haralds, Kibbu, Hosa, Önnu Geirs, Jóni Ársæli, Steinunni og fleirum.  - Þegar Einar Þorsteinn kynntist Manuelu eiginkonu sinni og stofnaði með henni heimili í Berlín fækkaði samverustundum með vinum á Íslandi,  en ég átti þess kost í tvígang að heimsækja hann á vinnustofuna í húsi Ólafs Elíassonar, myndlistarmanns sem Einar starfaði með ummargra ára skeið, samstarf sem ég hygg að hafi einkennst af gagnkvæmum hagsmunum á ólíkum sviðum .

Einar eins og margir aðrir frumkvöðlar naut hann ekki sjálfur þeirra elda sem hann kveikti eða eins og ágætur kollegi hans sagði einhverju sinni: Það er með Einar Þorstein eins og Freud, hans mun verða minnst framar öðru fyrir verk þeirra sem á eftir honum koma. Þessa orða minntist ég við heimsókn á áhugaverða sýningu Ólafs Elíassonar á Lousiana safninu í Danmörku í fyrra. Í einum sýningarhluta var að finna hugverk sem veita áttu innsýn í uppsprettulind sköpunar listamannsins og tilraunastarfsemi. Áhrif vinar míns Einars Þorsteins voru greinileg. Þarna voru geometrisku formin hans, kúlulaga líkönin, ferningar, kristalar og aðrar formúlur og mót sem fylltu vinnustofuna í Álafosskvosinni strax í upphafi níunda áratugarins. Brýnt er að tekið verði saman ævistarf þessa merka manns og það gert aðgengilegt almenningi og fræðimönnum t.d. með vefsíðu.   Mér hefur jafnan fundist óþægilegt að heyra menn segja að sköpunarverk Einars Þorsteins séu undir áhrifum manna sem voru ekki fæddir þegar þau voru gerð.

En fyrst og síðast þakka ég Einari Þorsteini fyrir innihaldsríka og gefandi vináttu um langa tíð. Einar var heilsteyptur persónuleiki, sjálfum sér samkvæmur þótt á móti blési, heiðarlegur og gegnheill vinur sem verður sárt saknað. Ég votta aðstandendum samúð.





Katrín Theodórsdóttir