Kaj Erik Nielsen fæddist í Nakskov á Lálandi í Danmörku 9. október 1926. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 7. maí 2015.
Foreldrar hans voru Hans Peter Holger Nielsen, f. 2.2. 1898 í Næstved, Sjálandi, Danmörku, d. 1975, og Agnes Margrethe Nielsen, f. 31.1. 1900 í Nakskov, Lálandi, Danmörku, d. 1981. Kaj átt einn bróður, Knud Edmund Nielsen, f. 11.2. 1921, d. 30.4. 1986, og eina systur sem lést strax sem kornabarn.
Kaj giftist Edel Nielsen árið 1946. Þau skildu 1957. Börn: 1) Jan Tang Nielsen, f. 1947. Lést árið 2011. Lætur eftir sig einn son. 2) Maj Britt Tang Nielsen, f. 1950.
Kaj flutti til Íslands árið 1959 og kvæntist 23. desember sama ár Pálínu Sigþrúði Einarsdóttur Höjgaard, f. 29.1. 1936. Pálína var áður gift Þorsteini Gunnarssyni, f. 1.11. 1932, d. 24.5. 1958. Börn Pálínu og Þorsteins: 1) Sigurlaugur, f. 15.4. 1953. Maki Þorgerður Valdimarsdóttir, f. 5.1. 1956. Skilin. Börn: a) Gyða, f. 1972, og b) Þorsteinn, f. 1975. Seinni maki Ruth Þorsteinsson, f. 1.1. 1946. Barn þeirra: Kristína Pálína, f. 1980. 2) Unnur, f. 7.2. 1956. Maki Ásmundur Eiríksson, f. 6.9. 1950. Börn þeirra eru: a) Eiríkur, f. 1973, og b) Lena Dögg, f. 1984. Börn Kajs og Pálínu eru: 1) Halldór, f. 29.1. 1961. Maki Guðrún Finnbogadóttir, f. 7.3. 1961. Skilin. Börn: a) Finnbogi, f. 1980, og b) Þórey, 1982. Seinni maki Sjöfn Sigfúsdóttir, f. 26.3. 1960. Barn þeirra: Nökkvi Nielsen, f. 1998. Skilin. Er í sambúð með Önnu Jónu Þórðardóttur. 2) Elísa, f. 15.12. 1961. Maki Björn Ágúst Björnsson, f. 23.1. 1963. Börn: a) Halldór Atli, f. 1979, b) Hákon Davíð, f. 1982, c) Karen Ósk, f. 1989, d) Ágúst Kaj, f. 1991, og e) Jóel Dan, f. 1994. 3) Agnes Margrét, f. 23.10. 1964. Maki Vilhjálmur Jónsson, f. 30.12. 1963. Börn: a) Ólafur Örn, f. 1983, b) Jódís Dagný, f. 1991, og c) Sara Björk, f. 1999. 4) Nanna Herdís, f. 23.10. 1964. Maki Gunnar Snorri Gunnarsson, f. 28.5. 1964. Börn: a) Snorri, f. 1995, og b) Irma, f. 1998. 5) Ólöf Stefanía, f. 23.10. 1964. Maki Kristján Gunnarsson, f. 16.8. 1964. Börn: a) Anna Pálína, f. 1991, b) Rakel, f. 1991, d. 1991, og c) Gunnar Freyr, f. 1993. 6) Eiríkur, f. 7.8. 1968.
Kaj fæddist í Nakskov á Lálandi. Hann fluttist árið 1941 til Kaupmannahafnar og fór á samning í bakaraiðn hjá hjá bakarameistaranum Hegner í Hellerup. Hann lauk sveinsprófi við bakaraiðn árið 1945 í Kaupmannahöfn. Var sjóliði hjá konunglega danska sjóhernum 1946-1947. Fluttist árið 1959 til Íslands. Starfaði hjá Sauðárkróksbakaríi 1959 og hjá Bakaríi Vestmannaeyja síðar sama ár. Fluttist í Kópavog árið 1963 og hóf störf í Bernhöftsbakaríi og vann þar til ársins 1970 er hann hóf störf hjá Bakaríinu Austurveri og vann þar uns hann lét af störfum árið 1994.
Kaj verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 15. maí 2015, og hefst athöfnin kl. 13.
Í gegnum tíðina höfum við átt margar góðar stundir við spjall um lífið og tilveruna. Vegna áhuga míns á sögum frá fyrri tímum og þá sérstaklega sögum beint frá viðkomandi, hef ég náð að byggja upp nokkuð skýra sýn á uppvaxtarárin hans Kaj og hér á eftir fer ég yfir það sem okkur hefur farið á milli og vona að minni mitt svíki ekki mikið.
Kaj var fæddur í Naskov, Lálandi í Danmörku 9. október 1926. Faðir hans vann ýmsa vinnu fyrir bæinn og þá helst í vegagerð, en eins og tíðkaðist sá móðir hans um heimilið og fylgdi þar ýmsum reglum sem hljóma nokkuð á skjön við það sem tíðkast í dag. Til dæmis var ætíð sú regla að skammtað var á diskana í réttri röð. Faðirinn fyrst, næstur var Knut eldri bróðir Kaj, þá Kaj og síðast fékk móðirin á diskinn. Kaj átti systir sem fædd var á milli Knuts og Kaj en hún lést heimafyrir sem kornabarn.
Hann minntist pabba síns sem ströngum og oft á tíðum ósanngjörnum manni og þá erum við ekki að tala um það sem ungu fólki finnst ósanngjarnt í dag. Eflaust hefur Kaj oft verið hissa á framgangi (yfirgangi) margra ungmenna í þeim samanburði. Kaj talaði alltaf vel um móðir sína og eflaust hefur samband þeirra verið meira í líkingu við það sem við þekkjum í dag. Í raun má segja að Kaj hafi alist upp eins og samfélag þess tíma bauð uppá; hreint karla- og feðraveldi. Ein af hans ungdómsminningum var til dæmis sú að þegar pabbi hans kom í hádegismat, var Kaj sendur með staup í hendi til kaupmannsins og þaðan aftur heim með snaps handa vinnandi manni, en þarna var hann rétt fimm ára gamall. Sæi þetta ganga eftir í dag.
Þegar hann var fermdur var allt hófstilltara en í dag og til dæmis fékk hann hatt og vindil frá pabba sínum. Hatturinn táknaði að hann væri orðinn fullorðinn og vindillinn þýddi að hann mætti byrja reykja heima hjá sér. En eins og alþekkt var byrjaði hann að reykja vel fyrir fermingu.
Um sama leyti, eða 9. apríl 1940 hertóku Þjóðverjar Danmörku og allt breyttist hjá þjóðinni. Ungur og fullur af orku og framtakssemi tókst Kaj um haustið, ásamt tveimur eldri vinum að komast upp í flutningslest Þjóðverja sem var á leið með matvæli frá Danmörku til Þýskalands og úr varð atburðarás sem breytti öllu hjá Kaj. Þeir þrír hófust handa við að kasta sekkjum með sykurrófum út úr lestinni á ferð, sem tilstóð að sækja síðar, en sykurrófuræktun var mjög stórtæk í Lálandi og snérist verknaðurinn um að fá aftur það sem Dönum bar og áttu. Upp um þetta komst og hernaðarveldið þýska brást við af hörku og reikna má með að litið hafi verið á þetta sem skæruhernað andspyrnuliða af þeirra hálfu. Vinir hans voru sendir til Þýskalands og Kaj vissi aldrei meira af þeim, en eflaust hafa beðið þeirra miklar hörmungar. Dönsk lögregluyfirvöld unnu mikið með nasistum og því bar svo við að Kaj var sóttur á heimili sitt og fluttur í einskonar refsivist á upptökuheimili og foreldrar hans höfðu enga möguleika til að hafa nokkur áhrif á þá framvindu. Eftir um eins og hálfs árs vist var honum útvegað lærlingspláss í bakstri í Kaupmannahöfn og var það mest að tilstuðlan matráðskonu heimilisins, en Kaj sýndi þá þegar mikla færni í eldhúsi.
Þarna er komið fram í lok desember 1941, Kaj þá 15 ára gamall og undi vel við sig í skarkala stórborgarinnar. Launin samanstóðu af mat og húsnæði en alltaf var hægt að njóta lífsins. Svo tekið sé dæmi eignaðist hann mótorhjól sem hann þvældist mikið um á. Til að fá smá aukaráð náði hann sér í aukavinnu við skreytingar á ístertum í ísgerð.
Eflaust lýsir stórmerkilegur leikur hans og félaga í Kaupmannahöfn honum nokkuð vel, uppátektarsamur og hrellinn. Þeir semsagt lágu upp í risi yfir bakaríinu með teygjubyssur og beygðu nagla og kepptust um að skjóta í stálhjálma þýskra hermanna í varðgöngu og sá sem náði hæsta hljóðinu vann. Sem betur fer urðu engir eftirmálar af þessari skemmtun.
Um þetta leyti kynntist Kaj verðandi eiginkonu sinni, en hún vann í ísgerðinni. Þau eignuðust tvö börn, þau Jan og Maj-britt. Jan er látinn fyrir nokkrum árum en hann lætur eftir sig einn son. Maj-britt er á lífi, býr í Kaupmannahöfn og er barnlaus. Ekki var mikið um tal hjá Kaj um þennan part ævinnar. Þegar þau eru nýlega gift var hann kallaður inn í danska sjóherinn og var hann þar í eitt og hálft ár. Á ýmsu gekk hjá þeim hjónum og að endingu skildu þau og einhverra hluta vegna teygðist samband Kaj við börnin og oft hefur hann minnst á þau með eftirsjá.
Nokkru eftir skilnaðinn tók Kaj sig til og fór til Íslands, að hluta til af hreinni ævintýraþrá. Hann fluttist beint norður á Sauðárkrók og vann þar í bakaríi einu. Svo vildi til að ung ekkja úr Vestmannaeyjum vann einnig í bakaríinu, en þar var hún komin hún Pálína. Þau fluttust til Vestmannaeyja og hófu búskap í nýbyggðu húsi Pálu og hennar fyrri manns, að Bústaðarbraut 1. Pálu fylgdi tvö ung börn, Laugi og Unnur. Þau giftu sig á Þorláksmessu 1959 og eins og síðar sannaðist urðu barneignir þeim talsvert eiginlegir. Í lok janúar 1961 fæddist Holli og í desember sama ár fæddist hún Lísa mín.
Þegar börnin voru lítil fluttust þau í litla risíbúð að Álfhólsvegi 66 í Kópavogi. Haustið 1964 fæddust svo þríburarnir Agga, Nanna og Óla. Kaj vann þá í Bernhöftsbakaríinu og hann hló mikið að því seinna að hann hafi fengið tvo og hálfan tíma í frí til að koma hópnum af sjúkrahúsinu og heim. Vinnan gekk jú fyrir og fjölgun barna kom bara vinnuveitanda ekkert við. Árið 1968 kom Eiríkur í heiminn og þröngt var orðið í risíbúðinni enda Kaj og Pála með átta börn. Þá fluttust þau í Melgerði 1 og allt leit betur út fyrir fjölskylduna.
Um þetta leyti keyptu þau hlut í gömlu eyðibýli á Bakkafirði, Dalhús, ásamt systkinum Pálu og þar hefur stórfjölskyldan átt margar og góðar stundir. Kaj leið hvergi betur en á árbakkanum að ná í lax og ég sá hann alltaf ljómandi þar og þeirra stunda mun ég ætíð minnast með miklum hlýhug og eftirsjá.
Hvíl í friði.
Björn Ágúst Björnsson.
Kaj ólst upp við strangan föðuraga á heimili sínu í Nakskov. Aðeins 15 ára gamall er hann farinn að heiman og flytur til Kaupmannahafnar og fer á samning í bakaraiðn og útskrifast sem bakari árið 1945. Í Kaupmannahöfn bjó hann með fyrrverandi eiginkonu sinni til ársins 1959 er þau skildu. Þau áttu tvö börn saman.
Kaj flytur til Íslands árið 1959 á erfiðum tímamótum í hans lífi í kjölfar skilnaðar. Að hans sögn ætlaði hann sér ekkert sérstaklega að flytja til Íslands. Vildi bara fara nógu langt í burtu frá þeim stað í tilverunni sem hann var staddur á á þeim tíma. Ísland var mjög langt í burtu. Af hverju ekki að prófa það, og þangað fór hann.
Kaj fékk vinnu sem bakari á Sauðárkróki en þar kynntist hann eiginkonu sinni Pálínu Höjgaard árið 1959 en þá var hún aðeins 23 ára gömul, ekkja með tvö börn sem hafði nýlega flutt frá Vestmannaeyjum. Hörkudugleg kona sem hafði kynnst ýmsum þrautum lífsins á unga aldri. Þau stofnuðu fyrst heimili í Vestmannaeyjum en fluttust svo í Kópavog þar sem þau bjuggu síðan. Mestan hluta ævinnar vann Kaj sem bakari hjá bakaríinu Austurveri. Reyndar var öll fjölskyldan meira og minna á kafi í störfum tengdum bakaríum á þeim tíma er ég kynntist eiginkonu minni árið 1983. Ekki skortur á brauði á því heimili, þó annars væri upplifun á skorti og ýmsum erfiðleikum afar sterk í gegnum árin hjá þessari stóru fjölskyldu. Lífið hefur sannarlega ekki verið dans á rósum hjá Kaj og Pálínu í gegnum árin.
Hjá mér stendur upp úr hvað Kaj var hlýr og notalegur karakter. Hann var óendanlega stoltur af sinni stóru fjölskyldu en einnig afar háður henni, kannski meira en ella sökum tungumálsins. Kaj hafði mikinn áhuga á garðyrkju en einnig laxveiði á eyðijörðinni Dalhús á Bakkafirði sem þau hjónin áttu hlut í. Þangað var keyrt með alla fjölskylduna á hverju einasta ári og stundum 2-3 ferðir á ári þó langt væri að fara á rykugum og holóttum malavegum með 6 börn í aftursætinu auk farangurs.
Kaj var mikill grallari og húmoristi alveg fram á síðasta dag. Ég hef oft haft á orði við eiginkonu mína að Kaj væri aldrei gamall í anda. Alltaf stutt í stráksskapinn og hinn skemmtilega danska humør. Hann einfaldlega kunni ekki að vera gamall maður. Við tengdasynirnir áttum oft góðar stundir með honum og fengum hann oft til að segja okkur sögur frá því í gamla daga er hann var unglingur í Kaupmannahöfn sem var undir hernámi þjóðverja. Þetta voru ekki hetju- eða montsögur heldur fyndnar sögur þar sem hann gerði óspart grín að sjálfum sér og félögum fyrir ýmis prakkarastrik og hegðun sem á þeim árum þótti ekki til fyrirmyndar. Það mátti um hann segja að hann tók sjálfan sig ekki of alvarlega. Það er kostur sem oft er vanmetinn.
Í gegnum tíðina hefur Kaj þurft að glíma við mikil veikindi og verið ótrúlega oft við dauðans dyr. En alltaf náði hann sér strik og hresstist. Í þessari glímu hefur reynt mikið á hans frábæru eiginkonu og tengdamóður mína, hana Pálínu, sem alltaf hefur verið hans stoð og stytta. Dag og nótt sl. 2 ár hefur hún þurft að annast hann fárveikan. Eins og kötturinn með sín níu líf, þá hefur Kaj í gegnum árin alltaf náð sér aftur á strik. Ég hélt það sama gerðist núna en því miður náði maðurinn með ljáinn yfirhöndinni. Kaj lést þann 7. maí sl. eftir erfið veikindi. En um góðan mann lifa góðar minningar. Kaj, takk fyrir samfylgdina. Vi ses.
Kristján Gunnarsson.