Sigurður Þröstur Hjaltason fæddist 26. júlí 1960. Hann lést 13. júní 2005 og var útför hans gerð 18. júní 2005.

Minningagrein - Sigurður Þröstur Hjaltason f: 26.07.1960 - D: 13.06.2005

Ég á erfitt með að meðtaka þá staðreynd að liðin séu tíu ár síðan ég kvaddi ástkæran föður minn. Mér finnst eins og það hafi gerst í gær að hann var í örmum mínum, móður og systkina er andi hans sleit sig lausan frá efnislíkamanum og sveif upp til himna. Á þessum tíu árum hefur ekki liðið sá dagur sem ég hugsa ekki til hans með söknuði og þakklæti fyrir allt sem hann gaf mér og gerði fyrir mig.

Ég skrifaði ekki minningargrein til birtingar eftir að hann dó. Ég var gersamlega bugaður enda búið að vera ólýsanlega erfiður tími, að fylgja honum í gegnum slík veikindi. Pabbi sýndi þó ótrúlegt æðruleysi og styrk sem ég tel hafa verið handan þessa heims og hann stóð eins og klettur eins lengi og hann gat og huggaði okkur fjölskylduna. Elsku mamma á einnig hrós og heiður skilið fyrir vera bjargið og límið sem öllu hélt saman. Studdi vel við sinn mann í gegnum öll veikindin og passaðu upp á okkur systkinin. Ég er henni ævinlega þakklátur fyrir þá ást og hlýju sem hún sýndi okkur á erfiðum tímum sem og endranær.

Pabbi var yndislegur maður, vildi öllum vel og var hvers manns hugljúfi. Hann var yndislegur faðir og við systkinin og mamma erum í góðu sambandi og hittumst reglulega og alltaf deilum við minningum um hann, eigum saman góðar stundir og hlæjum af ýmsum uppátækjum en pabbi var meinstríðinn og húmoristi mikill.

Ég tók saman smá útdrátt úr minningarorðum sem flutt voru í jarðaförinni fyrir 10 árum en Séra Baldur Kristjánsson tók þau saman eftir að hafa rætt við okkur fjölskylduna, ættingja, vini og vandamenn pabba:

Sigurður Þröstur Hjaltason fæddist í Hólmahjáleigu í Austur Landeyjum þann 26. júlí 1960 og var burt kallaður úr þessum heimi á Líknardeild Landsspítalans þann 13. júní (2005), tæplega 45 ára að aldri.

Þröstur elst upp í Hólmahjáleigu og gekk í sína skóla. Ungur sleit hann barnsskónum, fluttist að heiman um 15 ára aldur til Arnbjargar systur sinnar og hóf að vinna fyrir sér. Hann var aðeins 16 ára þegar hann ræðst til sjós á Bjarnarey frá Vestmannaeyjum og sigldi þá m.a. með aflann til Bretlands og Þýskalands. Slíkt var mikið ævintýri fyrir ungan mann. Hann var maður sem bragð var að þá eins og alltaf. Hann er svipfríður og myndarlegur ungur maður með mikið dökkt hár og 18 ára gamall sást hann oft á Hellu á rauðum Dodge fallegum bíl sem vel var hugsað um og viti menn 1979, nánar tiltekið 4. júní er hann kominn á fast með Önnu Steinþórsdóttur, eftirlifandi eiginkonu sinni og þau hefja búskap strax þá um haustið. Þau eignast þrjú börn; Víði Þór, Höllu Guðrúni og Örvar Snæ.

Þröstur vinnur fram af ævi mikið við pípulagnir og hann er einnig mikið á sjónum. En þau hugðu á breytingar. Fjölskyldan flytur til Vestmannaeyja 1983 og starfaði Þröstur hjá Hraðfrystistöðinni í Vestamannaeyjum á lyftara og sem móttökustjóri næstu fimm árin. Eins og áður vann Þröstur mikið og má segja að á þessum árum hafi þau hjón komið undir sig fótunum eins og sagt er. Þau flytja svo til Þorlákshafnar, árið 1988 og fer Þröstur að vinna hjá Vélasmiðju Þorlákshafnar og er einnig til sjós. Hann menntar sig sem vélavörð árið 1991 og kemur á daginn að hann er góður námsmaður og fékk hann viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.

1994 snýr Þröstur sér alfarið að því sem hann er best þekktur fyrir, að pípulögnum. Það kom á daginn og hafði reyndar sýnt sig áður, að það lá vel fyrir honum. Þau stofna eigin fyrirtæki og hann hefur störf sem sjálfstæður atvinnurekandi og starfaði sem slíkur til æviloka. Hann finnur sig afar vel í starfinu, er handlaginn og útsjónasamur, hann á velgengni að fagna, verður eftirsóttur verktaki. Þröstur þótti afar sanngjarn og skilaði góðu verki. Hann átti traust manna.

Sem faðir var hann kletturinn, hann var stoðin, hann var styttan. Hann var óþreytandi við að búa í haginn fyrir fjölskyldu sína og var stoltur af börnum sínum. Sem manneskja var hann ljúfmenni, góður vinur vina sinna og vildi hvers manns vanda leysa. Hann var fram úr hófi ósérhlífinn og greiðvikinn. Sem pípulagningameistari, því að sannkallaður meistari var hann þó hann hefði ekki stimpilinn, var hann eftirsóttur enda skilaði hann góðu verki og hann var sanngjarn það er orðað vel í einni minningargrein: gekk frekar á sinn hlut en annarra. Hann vann alla tíð mikið. Má segja að hann hafi unnið baki brotnu. Að baki því bjó þráin eftir að geta búið börnum sínum og fjölskyldu öruggt og gott skjól.

Þröstur veikist í desember 2002 og þá kemur í ljós að hann er með krabbamein. Hann gekkst undir uppskurð í janúar 2003 og fór í lyfjameðferð og fær bata að því er virtist, en veikindin taka sig upp aftur á síðari hluta árs 2004.

Það er ekki laust við að þeir sem fylgdust með Þresti heyja sitt stríð hafi fengið nýja sýn á lífið. Þung og sár hljóta spor hvers manns að vera sem sér líf sitt fjara út en hvílíkur hetjuskapur og hvílíkt æðruleysi sem drengurinn sýndi og hvílík reisn var yfir honum þó honum væri fullljóst hvert stefndi. Í þessu stríði kom vel í ljós úr hverju maðurinn var gerður. Og æðrulaus, með fulla hugsun en litla meðvitund hvarf hann, umvafinn ást og hlýju fjölskyldu sinnar, inn í ljósið sem bíður okkar allra.

Þetta eru sannarlega falleg orð um stórkostlegan mann. Það er einu sinni svo að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Mér fannst það alltaf eðlilegt og sjálfsagt að eiga föður sem vildi allt fyrir mig gera en áttaði mig á því að það er ekkert sjálfgefið og sakna ég hans ólýsanlega og er honum ævinlega þakklátur fyrir hlýjuna, vináttuna, uppeldið, kærleikann og föðurástina.

Hann er dáinn...

en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)



Minning þín er ljós í lífi okkar elsku pabbi.

Ég elska þig og sakna allt til enda veraldar.

Víðir Þór Þrastarson.