Bjarni Valtýr Guðjónsson fæddist á Svignaskarði í Borgarfirði 17. febrúar 1929. Hann lést á Landspítalanum 28. júní 2015.
Hann var sonur hjónanna Málfríðar Þorbjargar Þorbergsdóttur húsfreyju, f. 13. janúar 1896, d. 6. júní 1990, og Guðjóns Guðmundssonar, bónda á Svarfhóli, f. 31. ágúst 1893, d. 5. janúar 1976.
Bjarni Valtýr flutti eins árs gamall með foreldrum sínum að Svarfhóli í Hraunhreppi, Mýrasýslu, og ólst þar upp og bjó þar til ársins 1977 að hann fluttist með móður sinni til Borgarness. Hóf þá störf í byggingavörudeild Kaupfélags Borgfirðinga og starfaði þar til sjötugs. Bjarni Valtýr var organisti í kirkjunum á Staðarhrauni, Ökrum, Álftártungu, Álftanesi og að Borg til dauðadags, alls í 72 ár frá því hann fyrst lék við sína eigin fermingu á Staðarhrauni árið 1943.
Bjarni Valtýr lauk stúdentsprófi árið 1952 frá MR, nam við söngskóla Þjóðkirkjunnar 1953, stundaði nám í heimspeki, uppeldisfræðum, ensku og dönsku við Háskóla Íslands á árunum 1955 – 1960 og lauk áfangaprófum. Bjarni Valtýr sat í stjórnum og starfaði að framgangi fjölda félaga og félagasamtaka, s.s. Ungmennafélagsins Björns Hítdælakappa, Félagsheimilisins Lyngbrekku, Örnefnanefndar UMSB, Sögufélags Borgarfjarðar, Gróðurverndarnefndar Mýrasýslu, Náttúruverndarnefndar Mýrasýslu, áfengisverndarnefndar Hraunhrepps, Framsóknarfélags Mýrasýslu, Héraðsbókasafns Mýrasýslu, Kvæðamannafélagsins Iðunnar og Kattavinafélagsins. Hann var sæmdur gullmerki UMSB árið 1972 og Starfsmerki UMFÍ árið 1975. Bjarni Valtýr gaf út fjórar ljóðabækur, tvær frumsamdar sögur og nokkrar þýðingar á erlendum skáldsögum.
Bjarni Valtýr var ókvæntur og barnlaus en var mjög náinn frændsystkinum sínum og afkomendum þeirra.
Útför Bjarna Valtýs fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 11. júlí 2015, kl. 14. Jarðsett verður á Ökrum kl. 17.30.

Það voru okkur fjölskyldunni mikil viðbrigði að heyra af andláti okkar kæra vinar, Bjarna Valtýs. Mér hefur oft verið hugsað til þess á undanförnum árum hvílík forréttindi það voru að fá að kynnast svo sérstökum karakter og slíkum snillingi og fjöllistamanni sem Bjarni var. Til að byrja með var hann klárlega ofviti með stálminni betra en flestum er gefið, sem hélst óbrigðult allt til síðustu stundar.
Bjarni vissi öll met og kunni allar tölur yfir hin ýmsu frjálsíþróttamót. Hann kunni öll vöru- og reikningsnúmer í Kaupfélagi Borgfirðinga, sem hann starfaði hjá til margra ára, og þau mundi hann enn löngu eftir að hann lét af störfum í KB. Bjarni var sannarlega talnaglöggur og eldsnöggur að finna eitthvað merkilegt við tölur sem hann sá eða heyrði. Eitt sinn þegar foreldrar mínir sögðu Bjarna frá kaupum sínum á nýjum jeppa með bílnúmeri sem þeim fannst ekkert sérstakt, var Bjarni fljótur að svara: Þversumman er 17 (sem var bæði í uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni og honum sjálfum). Sérgáfur Bjarna hafa greinilega komið snemma fram. Þegar hann var aðeins 6 ára tók hann upp á því upp á sitt einsdæmi að hætta að segja s og þar af leiðandi öll orð sem innihéldu bókstafinn. Þá bjó hann til ný orð í stað s-orðanna.
Bjarni var einnig flinkur píanóleikari og organisti og samdi fjöldann allan af fallegum ljóðum og lögum. Bjarni hafði alveg sérlega næmt tóneyra. Í sumum heimsóknunum til okkar á Böðvarsgötu 17 gat hann tekið heilu umræðurnar um feilnótu sem einhver hafði slegið í einhverju lagi í messu eða um það hvernig einhver gömul lög væru nú orðið alltaf sungin með vitlausum áherslum eða bætt inn orðum sem ekki ættu að vera.
Það er öruggt að greindarvísitala Bjarna hefði mælst vel yfir meðallagi. Eins og við höfum oft sagt heima fyrir voru mistök að senda Bjarna aldrei í Útsvar fyrir hönd Borgarbyggðar.
En Bjarni var ekki aðeins vitur, hann var líka góður vinur og rausnarlegur í gjöfum og gestrisni. Þegar ég var skírð gaf Bjarni mér alveg sérstaklega fallega skírnargjöf sem ég met mikils; hann samdi ljóð og lag um mig sem hann fékk einsöngvara til að syngja inn á spólu við eigin undirleik. Þá var Bjarni alltaf boðinn og búinn að spila í veislum innan fjölskyldunnar, til dæmis spilaði hann í stúdentaveislu minni og brúðkaupi systur minnar.
Sérstaklega eru mér minnisstæð mömmuafmælin og söngvökurnar sem Bjarni hélt. Á þeim tyllidögum var alltaf kátt á hjalla, Bjarni spilaði á píanó, gestir sungu upp úr sérsamsettu söngheftunum Uglunni og Kálfinum, fóru með stemmur og alltaf var huggulegt kvöldkaffi á boðstólum. Í mömmuafmælunum fékk maður alltaf frammúrskarandi súkkulaði með rjóma, smákökur og kleinur. Þá var ekki almennilegt Eurovision-partý heima nema Bjarni væri á staðnum og gæfi lögunum einkunnir, sem byggðu að auki á fríðleika söngkvennanna og kjólum þeirra.
Allt sem Bjarni gerði, gerði hann vel og af nákvæmni. Hann lagði sérstaka alúð og heilhug í allt sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var mikilvirkur, lífsglaður og athafnasamur. Hann hafði alltaf nóg fyrir stafni og síst minna nú síðustu ár þegar hann var kominn á sem flestir myndu telja gamalsaldur (þó honum sjálfum hafi alls ekki fundist hann vera gamall). Síðustu árin dvaldi Bjarni mest í Reykjavík hjá vini sínum Helga og kettinum Kela sem hann hélt einkar mikið upp á. Enda var Bjarni mikill kattavinur. Þegar hann kom í heimsókn heim á Böðvarsgötuna voru kettirnir okkar fljótir að stökkva upp í fang til Bjarna, enda alltaf von á klappi þar. Svo gleymi ég ekki þegar við fórum í 10 ára stórafmæli kattarins Þorkels Ágústs Högnasonar eða Kela I á Njálsgötunni þar sem Bjarni var gestgjafi ásamt Helga vini sínum það var bókstaflega eins og fínasta fermingarveisla með bakarístertum og til að kóróna allt gaf Bjarni gestum Kelabók sem hann hafði útbúið og var uppfullt hefti af kvæðum sem hann hafði ort um köttinn (sum við þekkt sönglög sem Bjarni lék í afmælinu), auk þess sem bókin innihélt æviágrip og eignaskrá Kela. Þá samdi Bjarni ljóð um Bröndu kisuna okkar fjölskyldunnar í tilefni 10 ára afmæli hennar. Einnig má nefna að Bjarni var dyggur stuðningsaðili Kattholts.
Í Reykjavík hafði Bjarni í nógu að snúast; mætti alltaf á kaffihúsið Tíu dropa í góðra vina hópi á virkum morgnum, var virkur meðlimur í kvæðamannafélaginu Iðunni, einnig var hann í Rótarý og var að sjálfsögðu með 100% mætingu þar, auk þess sem hann var í fleiri félögum. Á síðustu árum gaf hann um það bil árlega út nýja bók; ýmist ljóðabók, skáldsögu eða bók sem hann hafði þýtt yfir á íslensku. Allt til síðustu stundar hafði hann því nóg fyrir stafni og alltaf var eitthvað spennandi framundan á dagskránni hjá honum. Hann talaði oft af áfergju um hin og þessi áform sem hann hafði.
Svo kom hann í Borgarnes með strætó ef mikið lá við, svo sem ef hann ætlaði að halda söngvöku í Félagsbæ eða ef hann þurfti að sinna orgelleik í sveitakirkjunum sem hann var organisti í á Mýrum. Þá kom hann sem betur fer stundum í heimsókn til okkar eins og hann gerði meira af áður þegar hann bjó í Borgarnesi og ég var yngri, þá var alltaf fróðlegt og sérlega áhugavert að hlýða á frásögn Bjarna af því sem á daga hans hafði drifið; til að mynda frá gangi mála á Tíu dropum, athæfi kattarins Kela, eða ferðasögum frá ferðum hans frá Ólympíuleikunum (sem hann fór tvisvar á í seinni tíð) þar sem hann íslenskaði allt; staðarheiti og nöfn á fólki. Enda mikill Íslendingur í sér og áhugamaður um allt það sem þjóðlegt var. Þess til stuðnings má nefna að nú á fjölmenningarhátíðinni í maí mætti Bjarni Valtýr að sjálfsögðu með íslenska þjóðfánann á hátíðarhöldin ásamt Helga.
Ég tala fyrir hönd stórfjölskyldu minnar þegar ég segi að við söknum Bjarna og sjáum mjög eftir honum. Það veitir okkur þó huggun að hann þurfti ekki að kljást lengi við veikindi og hann kvaddi með reisn; var í fullu fjöri og við góða heilsu allt þar til í blálokin.
Takk, Bjarni, fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem munu aldrei líða mér úr minni.

Sesselja Hreggviðsdóttir.