Elín Guðrún Þorsteinsdóttir fæddist 16. febrúar 1940. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann 9. ágúst 2015.Faðir hennar var Þorsteinn Pálsson, f. 4.6. 1916, d. 10.6. 1989 og móðir hennar var Steinunn Ingibjörg Torfhildur, f. 6.10. 1917, d. 3.4. 2009. Elín var elst fjögurra systkina. Systkini hennar eru Páll Níels, f. 1949, Guðlaugur Þór, f. 1950 og Þóra Dal, f. 1955.

Elín giftist Ingólfi Arnari Jónssyni, f. 9.4. 1931, d. 17.8. 1990. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: 1) Jón Þorsteinn, f. 6.5. 1960, d. 4.7. 1966. 2) Þorsteinn Guðlaugur, f. 16.4. 1961, d. 30.6. 1981. 3) Haraldur Birgir, f. 31.5. 1962. 4) Ingibjörg, andvana fædd 1963. 5) Kristín Pálína, f. 27.9. 1964, maki Sigurður Guðnason, f. 1956. Börn Kristínar eru Kristinn, f. 1988, Þorsteinn, f. 1989, sonur Þorsteins er Nikulás, f. 2012, Sigurður, f. 1991, Elín Guðrún, f. 1994, og Kristín Helga, f. 2001. 6) Inga Björk, f. 26.12. 1965 maki Jón Þór Helgason, f. 1964, hennar börn: Steinunn Guðlaug Skúladóttir, f. 27.10. 1981, sonur Þorsteinn Bjarki, f. 2002, Bára Ósk Jónsdóttir, f. 1987, börn: Helgi Þór, f. 2004, og Arndís Inga, f. 2012, og Helga Lára, f. 2001. 7) Jón Arnar, f. 26.10. 1967, börn: Andri Már, f. 1985, og Írína Fjóla, f. 2005. 8) Elín Þóra, f. 2.1. 1969, maki Bjarni Bjarnason, f. 1960, hennar börn: Sylvía Rán, f. 1988, börn: Una Lind, f. 2011, og Anton Darri, 2014, Elvar Már, f. 1993, Arnar Sær, f. 1996, og Ísak Helgi, f. 1998.

Stjúpbörn Elínar eru Jóna Rúna Kvaran, f. 13.12. 1952, og Guðmundur Helgi Guðmundsson, f. 22.2. 1954.

Elín ólst upp í Reykjavík. Gekk Laugarnesskóla og vann ýmis þjónustustörf eftir að skólagöngu lauk. Árið 1958 giftist hún Ingólfi Arnari Jónssyni. Þeim varða átta barna auðið en þrjú þeirra létust um aldur fram. Fyrir átti Ingólfur tvö börn, þau Jónu Rúnu og Guðmund Helga. Megnið af þeirra búskap bjuggu þau í Breiðholtinu. Lengst af var hún heimavinnandi húsmóðir en eftir að börnin urðu stálpuð sinnti hún ýmsum þjónustustörfum á hei lbrigðisstofnunum á meðan heilsan leyfði.

Útför Elínar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 17. ágúst 2015, kl. 15.

Elsku amma, þá ert þú farin frá okkur. Þessi stund er það sem mig hefur kviðið fyrir frá fæðingu. Að missa hana ömmu mína. Árið 1981 var mjög erfitt fyrir fjölskylduna. Steini sonur þinn lét lífið, langt fyrir aldur fram. Ekki nema tvítugur að aldri. En það birti til fjórum mánuðum seinna þegar ég, litli gleðigjafi fjölskyldunar fæðist. Mamma var mjög ung þegar ég fæddist og bjó því enn í foreldrahúsum. Ég var því lengi vel, litla prinsessan á heimilinu og fannst þér amma mjög gaman að segja mér sögur frá því þegar ég var lítil og sögur af því hvað börnin þín (móðursystkyni mín) stjönuðu við mig. Ein sagan var sú að Stína fór með mig út í búð í rándýrri kerru sem mamma hafði keypt og kom svo labbandi heim með mig í fanginu og hafði því gleymt þessari dýru flottu kerru úti við búðina. Svo þegar átti að ná í kerruna þá fannst hún hvergi, greinilega fleirum sem fannst hún flott og vildu eiga hana.
Önnur sagan er þegar Jón ,,bjargaði lífi mínu" en þá var ég orðin sex ára og hafði farið í heimsókn til pabba. Einhver miskilningur varð þegar hann skilaði mér heim en þá var enginn heima. Þá bjuggum við mamma í Safamýri en þú bjóst ásamt fleiri barna þinna í Breiðholti. Ég varð skelfingu lostin og kunni auðvitað símanúmerið þitt. Þegar ég hringi þá svarar Jón símanum og segir ,,vertu róleg Steinunn, Jón frændi kemur til bjargar" og það var eins og við manninn mælt, Jón kom og náði í mig.
Þér fannst líka gaman að segja mér frá því að þegar ég var lítil og vildi fá frið fyrir öllu knúsi og hnoðeríi þá skreið ég alltaf til Bigga og sat við fæturnar hjá honum því þar fékk ég alltaf frið fyrir þessu ,,veseni" í fólki. Þú brostir alltaf og hlóst þegar þú rifjaðir upp þessa tíma og auðvitað hló ég líka því þú sagðir svo skemmtilega frá.
Það hafa verið forréttindi að hafa verið litla prinsessan í fjölskyldunni og enn þann dag í dag heyri ég aldrei orðið ,,Nei" ef ég bið móðursystkyni mín um eitthvað. En í gegnum árin hafa litlir prinsar og prinsessur bæst í hóp barnabarnanna þinna og svo eru langömmubörnunum farið að fjölga. Þetta er orðinn ansi myndarlegur hópur af afkomendum sem þú átt.
Árið 2002 fæddist litli gleðigjafinn minn, Hann Þorsteinn Bjarki. Frá því hann fæddist hefur hann verið ásamt mér, mjög mikið hjá þér. Þetta er mjög skrítinn tími fyrir okkur bæði því við höfum verið eins og skytturnar þrjár, ég, þú og Þorsteinn minn. Núna eru við bara tvö eftir, ég og Þorsteinn. En við mamma munum leggja okkur fram við að taka við þínu hlutverki í lífi hans og ég veit að þú munt vera mikið hjá okkur og hjálpa okkur að komast í gegnum lífið.
Það hafa komið upp nokkur furðuleg atvik undanfarna daga og veit ég að þú ert að láta mig vita af þér. Þú varst til dæmis mjög hrædd við að ég skyldi eftir kveikt á sjónvarpinu þegar ég færi að sofa. En stundum finnst mér gott að heyra óminn af sjónvarpinu þegar ég fer inn í svefninn. Í fyrrinótt átti ég mjög erfitt með að sofna og leið ílla og saknaði þín. Allt í einu heyri ég ekki lengur í sjónvarpinu og fer fram og þá er búið að slökkva á því! Þetta hefur aldrei gerst nema ég slökkvi sjálf. En þarna varst þú að slökkva fyrir mig því þú þoldir þetta ekki, þar sem þú hefur alltaf verið mjög eldhrædd.
Þegar við mamma vorum að velja lög í jarðarförina þína hlustuðum við á nokkur lög í leiðinni sem þú myndir aldrei samþykkja og þegar ég fór inn í stofu voru tveir blómapottar sem lágu á hliðinni og blóminn í þeim þriðja voru að enda líf sitt. Þú hefur alla tíð verið mjög stríðin og ég veit að þetta varst þú að láta okkur vita að þú værir með í ráðum með hvaða tónlist yrði fyrir valinu.
Núna ertu hjá fólkinu okkar sem farið er og veit að það hafa orðið fallegir endurfundir. Á dánarbeðinu sátum við börn þín, barnabörn og langömmustrákurinn þinn og stutt var í tárin hjá okkur öllum yfir að kveðja þig. Á sama tíma vissi ég líka að við vorum ekki ein sem sátum hjá þér. Þarna voru líka börnin þín þrjú og foreldrar, Ingólfur afi, Sigrún, Grímur og allir þeir sem þér þótti vænt um sem farnir voru sem biðu eftir að fá að hitta þig loksins.
Elsku amma ég vona að þér líði vel núna og sért laus við alla þá verki sem líkaminn þinn var að valda þér. Þín er sárt saknað og ég vildi að við hefðum fengið að hafa þig lengur hjá okkur. Síðustu kvöld hafa verið mjög erfið því við vorum vanar að spjalla saman í síma tímunum saman á kvöldin en núna er síminn hljóður og ég er oft búin að taka hann upp og ætla að hringja í þig en man þá að það er ekki hægt lengur.
En við hittumst aftur seinna og þú passar upp á okkur Þorstein þangað til.

Steinunn Guðlaug Skúladóttir