Friðgeir Gunnarsson fæddist á Akureyri 25. júní 1929. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 26. febrúar 2015.
Foreldrar hans voru Gunnar Sigurgeirsson píanókennari og organisti frá Stóruvöllum í Bárðardal, f. 17. október 1901, d. 9. júlí 1970, og Hanna Martina Jacobsen, síðar Sigurgeirsson, frá Sandavági í Færeyjum, f. 27. júlí 1903, d. 15. desember 2004. Eftirlifandi systir Friðgeirs er Erla, f. 16. september 1930.
Friðgeir kvæntist 16. október 1954 eftirlifandi eiginkonu sinni Sólveigu Helgu Stefánsdóttur, f. 15. apríl 1933. Foreldrar Helgu voru Stefán V. Guðmundsson sjómaður, f. 03.02. 1912, d. 25.01. 1993, og Jóna Erlingsdóttir, f. 21.10. 1914, d. 20.06. 1997.
Börn Friðgeirs og Helgu eru: 1) Stefán, f. 20.01. 1955, 2) Gunnar, f. 29.06. 1956. Börn hans eru Sólveig Helga, f. 18.06. 1980, Þóra Halldóra f. 07.01. 1985, og Alex Már, f. 30.11. 1997. Börn Sólveigar Helgu eru Magnús Sigurður, f. 12.09. 2003, og Gunnar Friðgeir f. 15.08. 2005, 3) Steinar Jens, f. 28.11. 1957, og 4) Hanna Martina, f. 01.03. 1959. Börn hennar eru Stephen James, f. 28.11. 1989, og Kristina Clare, f. 13.01. 1994. Barnabörnin eru því fimm og barnabarnabörnin tvö.
Friðgeir bjó fyrstu ár sín á Akureyri en fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur 1936 og bjó þar til æviloka. Eftir að Friðgeir og Helga gengu í hjónaband og eignuðust börn sín bjuggu þau lengst af í Drápuhlíð 26 eða í 38 ár. Hann gekk í Miðbæjarskólann og Austurbæjarskólann, síðar í Ingimarsskólann og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950. Friðgeir var alla tíð mikill tungumálamaður, bæði í fornmálum og nýmálum, einkum grísku, latínu, ensku og norsku. Hann starfaði stærstan hluta ævinnar hjá Vatnsveitu Reykjavíkur en hóf upphaflega störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Tónlistin skipaði ávallt stóran sess í lífi hans enda af tónlistarfólki kominn í föðurætt en faðir hans var píanókennari, kórstjóri og organisti við Háteigskirkju, og föðurafi, Sigurgeir Jónsson, var söngstjóri og organisti við Akureyrarkirkju. Friðgeir lærði á fiðlu á unga aldri og spilaði á lágfiðlu með Sinfóníuhljómsveit Íslands á byrjunarárum sveitarinnar og síðar með Nemendahljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík. Hann spilaði m.a. undir leiðsögn Björns Ólafssonar konsertmeistara og Olav Kjelland. Auk klassískrar tónlistar hafði hann dálæti á gömlum djass- og dægurlögum frá sínum yngri árum. Íþróttir skipuðu stóran sess í lífi Friðgeirs og var skíðaíþróttin og sund þar efst á blaði. Friðgeir hafði unun af ferðalögum með eiginkonu sinni og fóru þau í ferðalög helst á hverju ári.
Útför Friðgeirs fór fram í kyrrþey 13. mars 2015.

Elsku pabbi minn, ég er búinn að ganga alltof lengi með þessa minningagrein í huga mér og skrifa hana nú í tilefni allra sálna messu, þegar þeirra er minnst sem látnir eru og eru okkur kærastir. Það var erfitt að horfa á eftir þér fara svona snöggt þó að manni sé það ljóst að kallið geti komið hvenær sem er þegar aldur færist yfir. Söknuðurinn er mikill hjá allri fjölskyldunni en hvað sárastur er hann hjá mömmu. Nokkrum dögum áður en þú lést lékst þú við hvern þinn fingur á öskudagsskemmtun á Grund. Sem betur fer hafði ég tækifæri á að njóta þeirrar stundar með ykkur. Þú ljómaðir allur og hafðir gætur á henni, eins og þú gerðir alltaf. Gagnkvæm umhyggja ykkar var aðdáunarverð, svo eftir var tekið, enda annað óhugsandi eftir 60 ára hjónaband.

Þú varst einfari í eðli þínu  og naust þín best lesandi bækur og hlustandi á tónlist. Efnið sem þú last var yfirleitt fræðandi, allt frá fornmálum upp í stjörnur himingeimsins, og á ýmsum tungumálum, jafnvel grísku og latínu. Tónlistin, sem þú hlustaðir á var yfirleitt klassísk tónlist en stundum eldri jass og gömul dægurlög. Áhugi þinn skilaði sér til afkomenda þinna og þú varst á margan hátt miklu fróðari en margur gerði sér grein fyrir. Hugur þinn staðnaði aldrei og var sífellt opinn og leitandi. Lífsfyllingin og ánægjan sem hugðarefni þín gáfu þér var til staðar allt til hinstu stundar. Vegna tungumálakunnáttu þinnar áttir þú auðvelt með að fylgjast með áhugamálum þínum og umheiminum, útvíkka þekkingu þína, ferðast og tjá þig við barnabörn þín í Bretlandi.

Þú varst lítillátur og vildir ekki sjálfur hól en varst ákaflega stoltur af afkomendum þínum og hrósaðir þeim óspart þegar svo bar undir. Betri stuðningsmann var vart hægt að hugsa sér. Orðin ljúfur, kurteis, skarpur, nákvæmur og stundvís lýsa þér best. Þú lagðir einnig mikið upp úr snyrtimennsku og klæddir þig upp þegar þér fannst það eiga við. Þú kvartaðir aldrei undan því  ef þig  vanhagaði um eitthvað, nýtnin var alltaf í fyrirrúmi, en gleðin og þakklætið leyndi sér ekki þegar þér voru færðar gjafir, hversu litlar sem þær voru. Þú hafðir auga fyrir litlum hlutum sem þér fannst gefa þér vissan stíl. Þú varst mikill smekkmaður og klæðaburðurinn alltaf sígildur.

Íþróttir skipuðu stóran sess í lífi þínu alla tíð og voru skíðaíþróttin og sund þar efst á blaði eftir að hafa æft þessar íþróttir í barnæsku á Akureyri og Barónsstígnum. Skíðafærni þín og hreyfigeta á yngri árum hjálpaði þér mikið síðustu æviárin. Fimin, skýr hugsun og skarpskyggnin var alltaf til staðar. Þú fylgdist líka vel með skíðaíþróttinni í gegnum norrænar sjónvarpsstöðvar og var vaknað snemma morguns allar vetrarhelgar árum saman til að fylgjast með beinum útsendingum frá skíðamótum, alveg fram á síðustu ár á Grund. Áhugi þinn á öðrum íþróttagreinum, eins og Formúlu1 kappakstri og Usain Bolt í spretthlaupum, ásamt stjörnufræðiáhuganum sýndi að þó gamall væri í árum talið varstu ennþá  ungur í anda og fróðleiksfús.

Þú varst ávallt mikill dýravinur og löðuðust hundar og kettir að þér og þú að þeim. Það var sérstaklega eftirtektarvert hvað þú hafðir mikið lag á þeim og gaman af. Sveitadvöl þín í Syðri-Neslöndum í Mývatnssveit í barnæsku hefur mótað þig að þessu leyti.

Það ríkti alltaf tilhlökkun hjá þér að komast í ferðalög. Eftir stúdentspróf dvaldir þú sumarlangt við vinnu á draumaslóðum skíðamannsins í Osló, m.a. á Holmenkollen. Síðar um ævina voru ófáar ferðir sem þú fórst með mömmu til Spánar og einnig  Bretlands þar sem þið dvölduð hjá  dóttur ykkar og barnabörnum í góðu yfirlæti. Síðari árin ferðaðist ég með ykkur mömmu og þá oftast til Suður-Evrópu. Lentum við í eftirminnilegum ævintýrum á þessum ferðalögum. Eftir að þið mamma fluttuð á Grund nutuð þið þess að fara í sumarbústað  við Álftavatn í Grímsnesinu og var alltaf tilhlökkun hjá þér allan veturinn að komast aftur næsta sumar, jafnvel þinn síðasta vetur í þessu lífi.

Hjá Vatnsveitu Reykjavíkur starfaðir þú  lengst af ævinnar og minnisstæður er Guðmundur Ásgeirsson verkstjóri sem tók sérstaklega vel á móti þér í upphafi við Bústaðaveginn. Hann kom oftar en einu sinni í heimsókn á heimili okkar til þess að ræða við þig um tónlistina og fá þig til að spila fyrir sig. Er fjölskyldan honum, sem og Orkuveitunni, innilega þakklát  fyrir hlýhug í garð fjölskyldunnar og pabba síðustu árin.

Þú tókst lífinu með æðruleysi, og með  mömmu þér við hlið stóðuð þið ávallt þétt saman sama hvað kom í fang ykkar, og fannst hæfileikum þínum farveg. Fjölskyldan var þér allt og það færðist alltaf sérstök glaðværð yfir andlit þitt þegar barnabörnin og barnabarnabörnin komu í heimsókn. Þeim var ávallt fagnað með hlýju faðmlagi. Fjölskyldan er sérstaklega þakklát þeim góða og fámenna hópi sem sýndi þér ástúð og umhyggju í lifanda lífi. Ber þar hæst að nefna mömmu, barnabörnin, barnabarnabörnin, Gunnar afa, Hönnu ömmu og Erlu systir þína, að öðrum ónefndum.

Pabbi minn nú hefur þú tekist á hendur ferðalag á æðri stað þar sem við munum hittast á ný og verða það fagnaðafundir. Þær samverustundir sem ég hef átt með ykkur mömmu öll æviárin hafa verið mér ómetanlegar og umfram allt gleðilegar. Stundir sem ég hefði aldrei viljað fara á mis við. Kveðjustund okkar á hverju kvöldi lauk alltaf með ljúfum tónum Bachs, Beethovens eða Mozarts svo undurfögur kyrrð færðist yfir allt og alla. Nú hefur hin eilífa kyrrð og ljós færst yfir návist þína en andi þinn varir að eilífu í hugum og hjörtum þeirra sem eftir lifa. Guð veiti mömmu styrk í sorginni. Hafðu þökk fyrir allt, pabbi minn. Megi stjörnurnar þínar vísa okkur veginn. Þinn sonur, Steinar Jens.



Steinar Jens Friðgeirsson