Nadezda Sigurðsson fæddist i Ceske Budejovice í Bæheimi 13. september 1918. Hún andaðist á heimili sínu í sama bæ 18. október 2015.
Foreldrar hennar voru Libuse Zatkova, f. 13. apríl 1889, d. 27. nóvember 1961, og dr. Bohumil Ruzicka, f. 1885, d. 13. apríl 1944.
Eiginmaður hennar var Magnús Z. Sigurðsson, f. 3. janúar 1918, d. 19. október 2007, sonur Sigurðar Á. Sigurðssonar frá Veðramóti, og Sigurbjargar Guðmundsdóttur frá Heiði.
Hún lætur eftir sig dóttur, Kristinu, og son, Patrick, barnabörnin Alexandre og Constantin Czetwertynski, Lauru og Axel Sigurðsson og barnabarnabörnin Cassiu og Rose Czetwertynski.
Hún var jarðsungin 24. október 2015 í Tékklandi.

Þegar fjölskyldan á Íslandi frétti um fráfall mömmu, bárust okkur yndisleg ummæli um hana. Hún var elskuð af mörgum heima og var sú síðasta af mjög glæsilegum hóp af hennar kynslóð, börnum Sigurðar Á. Björnssonar frá Veðramótum og eiginkonu hans, Sigurbjargar Guðmundsdóttur frá Heiði, og mökum þeirra.
Mamma mín fæddist í bænum Ceské Budejovice i Suður-Bæheimi, í austurrísk-ungverska keisaradæminu. Ekkert benti til þess að hún yrði nátengd Íslandi.
Mamma hennar, Libuse Zátková, var komin af vel þekktri ætt iðnaðarmanna, sem hafði barist fyrir sjálfstæði Tékka frá keisaradæminu. Faðir hennar var skurðlæknir og sá fyrsti að nota röntgengeisla á spítalanum sínum. Nadezda átti tvo eldri bræður. Þau lifðu hamingjusömu lífi i bænum og á sveitasetri þeirra. En mörg áföll biðu hennar.
Skilnaður foreldranna þegar hún var á barnsaldri var mikið áfall og var hún aðskilin frá bræðrum sínum og var hjá foreldrum sínum til skiptis. Síðan fórust bræðurnir fyrir augum hennar í snjóflóði í Ölpunum. Hún missti pabba sinn á stríðsárunum, hann fékk krabbamein i hendurnar af röntgengeislunum.
Fjölskyldan missti eigur sínar, sem leið undir nasistum. Hún fór í leiklist í Prag og lék m.a. í tveimur kvikmyndum. Gaman er að horfa á þær.
Amma Libuse hafði - kannski fyrst tékkneskra kvenna - farið í ferðalag til Íslands árið 1926 ásamt seinni eiginmanni sínum, dr. Zdenek Picha. Þau komu með tjöld og allan búnað að heiman, leigðu sér hesta og í fylgd leiðsögumanns gengu þau upp á Langjökul. Hún sagði börnunum sínum frá ferðalaginu með miklum kærleik. Þannig vissi mamma um Ísland þegar glæsilegur Íslendingur, dr. Magnús Z. Sigurðsson, gekk inn á skrifstofu þar sem hún var vann árið 1946. Hann bauð henni strax í ball og þau giftust árið 1947. Mamma flutti til Íslands. Þar var henni tekið opnum örmum af allri Veðramóts-fjölskyldunni. Hún var falleg og glæsileg kona. Ungu hjónin geisluðu af hamingju. Þau fluttust svo til Prag, þar sem Magnús varð fulltrúi SH og ræðismaður Íslands. Þannig gat mamma haldið áfram að hitta fjölskyldu sína og hjálpað þeim undir oki kommúnismans, sem hafði tekið yfir völd í landinu. Þar eignuðust þau hjónin dóttur, Kristínu, mig. Eftir fimm ár var Magnús sendur af SH til Hamborgar, og tókst honum að fá ömmu Libuse og mann hennar til þeirra, þó að kommúnistayfirvöld í Ceské Budejovice hefðu lýst því yfir að enginn meðlimur Zátka-fjölskyldunnar fengi nokkurn tíma leyfi til að fara úr landi.
Nadezda og Magnús voru ánægð í Hamborg. Þau áttu fallegt hús við ána Alster og margir landar komu þar við. Þar fæddist líka sonur, Patrick, öllum til mikillar gleði. En pabbi var of duglegur, honum gekk of vel í starfinu og sumir heima fóru að óttast um stöðu sína. Honum var sagt upp af SH. Hann byggði strax upp sitt eigið fyrirtæki og fjölskyldan, ásamt ömmu og Zdenek, fluttist heim. Þar bjó mamma fjölskyndunni fallegt heimili á Fjölnisvegi 11. Hún lærði og talaði ágæta íslensku til æviloka. Amma Libuse lést árið 1961 og hvílir í Fossvogskirkjugarði. Árin á Íslandi voru ánægjuleg. Mamma var mjög vinnusöm á mörgum félagslegum sviðum. Hún skildi eftir sig fallegar minningar á Íslandi. Hún gekk á fjöll og fór mikið á skíði. Hún tók okkur í frí til útlanda á sumrin. En pabbi vildi opna útflutningsmarkaðinn, leyfa frystihúsunum að selja afurðir sínar á betra verði, og það passaði ekki einokun SH og SÍS. Allt var gert til að skaða fyrirtækinu hans og loks tapaði hann öllu, bankarnir tóku húsið og við fluttum úr landi. Þetta voru erfiðir tímar fyrir mömmu, en hún var hugrökk og stóðst allt eins og hetja. Við fluttum til Brussel, þar sem pabbi byggði upp annað fiskmarkaðsfyrirtæki. Mamma byggði upp nýtt fallegt heimili.
Þegar ég giftist Michel Czetwertynski fursta, sem var belgískur sendiráðsfulltrúi, bjó ég úti um allan heim, kom mamma oft í heimsókn, og fannst henni gott að vera hjá okkur og með sonum okkar. Hún kenndi þeim margt, um landið sitt, alþjóðasögu og um lífið og tilveruna.
Hún tók drengina á skíði, út að sjó og upp í fjöll. Alexandre og Tinko minnast hennar með mikilli ást og aðdáun.
Mamma var mikill þjóðernissinni og talaði alltaf með söknuði um landið sitt. Hún kenndi okkur börnunum tékknesku og talaði alltaf við okkur á því máli, nema ef pabbi var viðstaddur. Hana dreymdi um að geta aftur búið þar. Fall kommúnismans gerði það mögulegt, og mamma barðist af öllum kröftum til að endurheimta eignir sem höfðu verið teknar frá fjölskyldunni af kommúnistunum. Henni tókst að eignast aftur hús afa síns og ömmu í Skuherského-götu. Hún útbjó þar fallegt heimili. Þangað fluttist hún hamingjusöm fyrir síðustu aldamót. Hún sat oft úti í stóra garðinum undir gömlum trjám sem amma hennar, Ruzena Zátkova, gróðursetti. Pabbi okkar flutti líka. Mamma gaf út bók um mömmu sína Libuse árið 1997. Sú bók hefur verið þýdd á íslensku og frönsku og heitir Leiðin leiddi til Íslands. Ísland var örlagaríkt land fyrir þær mæðgurnar.
Við börnin og barnabörnin komum oft að heimsækja mömmu og pabba. Það voru haldnir fögnuðir um jól og á afmæli mömmu, og allir minnast þessara stunda með söknuði.
Pabbi lést árið 2007 og hvílir í fjölskyldugrafreit mömmu í Sant Otylia kirkjugarðinum við Ceské Budejovice, ásamt bræðrum mömmu og föður.
Nú var mamma lögð við hans hlið. Það munaði einum degi í að átta ár væru liðin frá láti pabba.





Kristín Sigurðsson.