Friðný Guðný Friðriksdóttir fæddist í Sveinungsvík í Þistilfirði 18. október 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri 4. nóvember 2015.Foreldrar Friðnýjar voru Þorbjörg Björnsdóttir, f. 18. nóvember 1900, d. 21. október 1983, húsmóðir í Sveinungsvík og Friðrik Guðnason, f. 17. október 1889, d. 23. júlí 1932, bóndi í Sveinungsvík. Seinni eiginmaður Þorbjargar var Einar Sigmundur Einarsson, f. 23. mars 1901, d. 16. apríl 1961.

Alsystkini Friðnýjar voru Björn, f. 1918, d. 2001, Guðni, f. 1900, d. 2011, Jóhann, f. 1924, d. 1956.

Hálfsystkini Friðnýjar eru Guðmundur, f. 1934, Friðrik Þór, f. 1936, Signý, f. 1940, og Björg Guðrún, f. 1943.

Eiginmaður Friðnýjar var Trausti G. Hallgrímsson, f. 2. febrúar 1930, d. 26. september 1981.

Einkadóttir Friðnýjar og Trausta er Þorbjörg Gréta, f. 11. júlí 1950 og maki hennar er Haraldur S. Árnason, f. 12. janúar 1949.

Börn þeirra eru: 1) Trausti Heiðar, f. 7. nóvember 1972, maki Karen Björk Óskarsdóttir, f. 29. september 1974. Dóttir þeirra er Helena Ósk, f. 2012, en dóttir Karenar er Andrea Ósk f. 2000.

2) Eva Björk, f. 13. mars 1978. Börn hennar eru Guðrún Tinna, f. 2002, Haraldur Máni, f. 2004, Friðrik Máni, f. 2009, og Sigurjón, f. 2011.

3) Friðný, Rut f. 8. júlí 1979. Börn hennar eru Þorbjörg Ósk, f. 2002, Fannar Trausti, f. 2005, Róbert Orri, f. 2011, Eva Kristín, f. 2012 og Hjördís Helga f. 2012.

Friðný var í barnaskóla á Raufarhöfn en um fermingu fór hún til Reykjavíkur þar sem hún vann næstu fjögur sumur við saumaskap. Þegar Friðný var 18 ára fór hún til Akureyrar og bjó hjá Guðna bróður sínum og Önnu konu hans.

Sama ár kynntist hún Trausta eiginmanni sínum en þau giftu sig 2. febrúar 1951 og bjuggu fyrstu tvö árin í Helgamagrastræti 11 en síðan á Hamarstíg 30. Síðustu rúm tvö árin var Friðný á Lögmannshlíð.

Friðný starfaði á saumastofunni Heklu í mörg ár en síðustu 20 árin starfaði hún á Dvalarheimilinu Hlíð þar til hún hætti fyrir aldurs sakir.



Friðný Guðný verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag, 20. nóvember 2015, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Friðný og mamma mín voru jafnaldra systradætur.
Afi þeirra og amma, Björn og Málfríður Anna, byrjuðu að búa í Sveinungsvík í kringum 1890 og eignuðust sjö börn. Þrjú barna þeirra bjuggu síðan með sínum mökum og fjölskyldum í Sveinungsvík. Þar var þríbýli og mannmargt.  Það var örugglega oft gaman í Sveinungsvík, enda eru Sveinungar margir léttlyndir, söngvinir, spaugsamir, góðar eftirhermur og tónlistarmenn. Jörðin var kostajörð á þeirra tíma mælikvarða og var búið að raflýsa með heimarafstöð löngu áður en mamma og Friðný fæddust. Systkinabörnin á staðnum voru alin upp saman og önnur systkinabörn sem ekki bjuggu þarna voru meira og minna hjá frændfólki sínu í sveitinni.  Á sumrin voru börnin í Sveinungsvík og á veturna í skólanum hjá afa mínum á Raufarhöfn þar sem afi og amma bjuggu á veturna með sínum börnum og þeim börnum úr Sveinungsvík sem voru komin á skólaaldur. Inn í þetta umhverfi fæðast Friðný og mamma mín með nokkurra vikna millibili.
Ég veit ekki hvað systkinabörnin urðu mörg.  Í mínum huga voru tvö holl af Sveinungsvíkurbörnunum eldra hollið fætt á tímabilinu um og fyrir 1920 og fram yfir 1930 og svo yngra hollið fætt í kringum 1940.  Þær frænkur tilheyrðu eldra hollinu.  Því kynntist ég því fólki betur í gegnum sögur sem mamma og Björn bróðir hennar sögðu frá lífinu í Sveinungsvík.  Margar sögur heyrði ég oft og þykist kunna, en það þarf ekki að vera að þær séu kórréttar og vona ég að enginn taki því illa ef sögur hafa eitthvað breyst í minni frásögn.
Þær frænkur voru nánar og brölluðu víst ýmislegt þegar þær voru litlar stelpur. Ekki nenntu þær alltaf að hafa yngri krakkana með sér. Oft sagði mamma mér frá því þegar þær Friðný stungu Björgu (Boddu) yngri frænku þeirra af og stálust vestur í Ormarslón.  Þegar þær komu heim voru þær skammaðar fyrir að stinga Boddu litlu af. Þá var þar staddur gamall frændi þeirra sem gerði um leið vísu um þær:

Ormarslónstrunturnar tvær
trítluðu vestur í gær.

Svona er nú sagan um þær
samt víst hann Olli þær fær.

Olli var gamall karl með mikið og úfið skegg og voru þær frænkur smeykar við hann.  Afi minn svaraði vísunni og sagði:

Ein var þó eftir hér mær
einhverjum verður hún kær.
Björg litla biðlana fær
þótt biði hún heima í gær.

Mamma og Friðný þurftu að sinna yngri börnunum og létta undir með fullorðna fólkinu við allskonar verk. Þær áttu eitt sinn að passa litlu systur Friðnýjar og voru tvær með litlu stelpuna þar sem kallað var vestur í húsi. Þær stálust í þurrkuð epli uppi í búrkistu og borðuðu vel af þeim. Um nóttina veiktust mamma og Friðný þegar þær fengu hastarlega í magann og þá komst upp að þær hefðu stolist í eplin.

Heimilisstörfin voru líf og yndi ömmu minnar, dyggðin bjó í borðtuskunni og húsverkunum. Amma var alltaf að verka. Mamma hafði alla tíð mun meiri áhuga á að lesa og læra, Friðný hins vegar mikið fyrir að hafa allt flott og fínt hjá sér.  Þær komu sér upp góðri verkaskiptingu sem fólst í því að mamma vann skólaverkefnin fyrir Friðnýju og Friðný fór í húsverkin sem mömmu var falið að gera. Mamma, Friðný og amma voru allar ánægðar með þetta verklag.  Þær urðu því spældar þegar afi minn komst að þessu og kom í veg fyrir að framhald yrði á. Þegar amma mín var orðin gömul kona heyrði ég hana segja frá þessu atviki og dásama Friðnýju fyrir það að hafa alltaf verið dugleg og viljug að vinna húsverkin og hafa gert það betur en mamma. Ömmu fannst alveg óþarfi að afi hefði gert veður út af þessu og breytti þessu líka ágæta fyrirkomulagi.
Ormarslónstrunturnar tvær voru langt frá því að vera truntur, og ég veit að Björg litla getur borið þeim vel söguna eftir að þær hættu að líta á hana sem smábarn, þó að sagan af umræddu atviki hafi verið fest rækilega á spjöld fjölskyldusögunnar. Friðný og mamma voru góðar konur, báðar glaðlyndar, þóttu vænt um uppruna sinn, ættingja og afkomendur og vildu öllum vel. Að mörgu öðru leyti voru þær frænkur mjög ólíkar. Friðný alltaf tískuklædd, á háhæluðum skóm, vel til höfð og hafði mikinn áhuga á dægurflugum og kóngafólki. Mamma bætti oft við þegar hún var að segja sögur af þeim frá því að þær voru litlar þetta var nú þegar við Friðný vorum jafngamlar enda Friðný ung í anda og í útliti. Á tímabili rugluðu eldri synir mínum öllum frænkum og mágkonum á mömmu aldri saman nema Friðnýju, í útliti og fasi féll hún ekki inn í þann hóp. Díana prinsessa var í miklu uppáhaldi hjá Friðnýju.  Sama má segja um Pál Óskar enda Páll Óskar og Friðný bæði svo flott, glamúrgúmmelaði og gordjöss.  Líttu upp í ljós lýsir vel þeirri Friðnýju sem ég þekkti. Hún vildi alltaf tala við mig bara um það góða, fallega og bjarta.
Friðný bjó með fjölskyldu sinni nokkur ár í Reykjavík þegar ég var lítil. Hún vann á saumastofu hjá Elísubúðinni í Skipholtinu og bjó smá tíma í Bólstaðarhlíð. Á þessum tíma var eðlilega mikill samgangur milli okkar og hún kom oft í Barmahlíðina.  Mér fannst líka gott að hlaupa yfir Klambratúnið og kíkja inn í vinnuna hjá Friðnýju, sem hvatti mig alltaf til að koma fljótt aftur.
Ég leit líka við hjá Friðnýju þegar ég kom til Akureyrar og þegar ég var unglingur fékk ég að gista á Hamarstígnum hjá Friðnýju og Trausta.  Alltaf var tekið vel á móti mér. Heimilið alveg í anda Friðnýjar, hvítt sófasett, bleikar gardínur og mikið af skrautmunum. Hún hafði gaman af að sýna mér samkvæmiskjóla í glanstímaritum og eins ef hún hafði nýlega keypt sér fallega flík.
Friðný dvaldi oft hjá mömmu þegar hún kom suður og þá voru oftar en ekki sagðar sögur og rifjuð upp atvik frá því þegar þær voru litlar, enda bernskuminningar þeirra úr Sveinungsvík ljúfar og ljóslifandi.

Þær frænkur, mamma mín og Friðný, fæddust báðar árið 1929 og kvöddu báðar á þessu ári eftir langa og farsæla ævi.  Þær lifðu mjög ólíku lífi, höfðu ólík áhugamál, hittust ekki reglulega eftir að þær urðu unglingar og fullorðnar. Stundum gátu jafnvel liðið nokkur ár á milli þess að þær hittust, en þær voru alltaf nánar og töluðu reglulega saman í síma. Grunnurinn að því hvað þær voru nánar er að líf þeirra var svo samtvinnað frá fæðingu og fram að fermingu.
Fyrir nokkrum árum fór að halla undir fæti hjá Friðnýju. Elli kerling var orðin nokkuð aðgangshörð og setti sín mörk á hana. Ég var döpur þegar ég kom síðustu tvö, þrjú skiptin á Hamarstíginn að heimsækja Friðnýju, glansinn að dofna og hún ekki sjálfri sér lík. En svo fluttist Friðný í Lögmannshlíð, hafði stórt, fallegt herbergi þar sem útgengt var á verönd og viti menn, Friðný blómstraði. Þarna fékk hún góða þjónustu, félagsskap og fasta rútínu. Elli kerlingin steig sem betur fer nokkur skref til baka og fór sér hægar. Þegar ég heimsótti  Friðnýju í Lögmannshlíð þá fór ég þaðan glöð í hjarta. Hún var aftur svo flott og glæsileg, eins og drottning, hafði það gott og leið vel. Mér fannst gott að vita af Friðnýju í Lögmannshlíð.  Hún var þó alltaf með hugann á Hamarstígnum og ætlaði sér sannarlega þangað aftur, þegar búið væri að taka húsið í gegn.
Nokkrum vikum fyrir andlát Friðnýjar hringdi hún í mig og var hress og kát. Það var gaman að heyra í henni og ekki óraði mig fyrir því að kveðjustundin kæmi svona fljótt. Á jólum fékk ég oft handskrifaða hlýja jólakveðju þar sem hún skrifaði alltaf undir: Friðný frænka. Þær kveðjur verða ekki fleiri.

Ég kveð þessa glæsilegu frænku mína með þakklæti fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Þær eru orðnar að dýrmætum minningum.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Þorbjargar og fjölskyldu.

Sigurbjörg.