Ragnheiður G. Rasmussen fæddist 28. ágúst í Reykjavík 1932. Hún lést á heimili fyrir aldraða í Helsingör í Danmörku 20. nóvember 2015.
Ragnheiður eignaðist þrjú börn með fyrri manni sínum og eru það þau Guðrún Kaldan, Tryggvi Kaldan og Kristín Kaldan. Þau eru öll búsett í Helsingör, Danmörk. Seinni eiginmaður Ragnheiðar var Skjold Rasmussen píanóleikari.
Útförin fer fram í Gurrekirkjugarði Helsingör í dag, 28. nóvember 2015.

Látin er frænka mín og móðursystir Ragnheiður G. Rasmussen. Aggý eins og við kölluðum hana var í minni minningu ávalt lífsglöð kona enda einhvertíman þegar ég spurði hana hvað henni fannst hún vera gömul þá sagði hún mér að henni liði eins og hún væri ekki eldri en 25 ára og var hún þá kominn á áttræðisaldur. Ég á góðar minningar um Aggý frænku, bæði þegar hún kom og heimsótti okkur á mitt æskuheimili í Dvergholtinu og síðar þegar ég fór í nám til Danmerkur, þá heimsótti hún okkur til Horsens og við heimsóttum hana til Helsingör. Það var mjög notalegt að eiga fjölskyldu í Helsingör þegar við vorum í námi í Danmörku og um stórhátíðir þá gátum við farið til Helsingör og átt þar góðar stundir heima hjá  Aggý með öllu hennar fólki sem er orðin töluverður fjöldi. Einnig kallaði hún alltaf alla saman ef maður rak inn nefið og hélt fjölskylduboð þar sem oft var glatt á hjalla. Ég reyndi ávalt að heimsækja Aggý þegar ég gat, bæði þegar ég og fjölskyldan mín fórum í frí til Danmerkur og þegar ég var á ferðinni vegna vinnu. Áttum við einmitt góðar stundir fyrir tveim árum síðan þegar ég ákvað að koma við hjá Aggý og bað hana að segja mér sína sögu sem ég tók upp á hljóðupptökutæki og er ómetanlegur fróðleikur sem þar er að finna og eftir henni haft.
Þar segir Aggý mér frá ástæðu þess að hún fluttist búferlum til Danmerkur og settist að í Helsingör en Aggý fluttist ung til Danmerkur og giftist dönsk-íslenskum manni Ulf Kaldan að nafni sem var sendur til íslands á sumrin til skyldmenna og féllu þau hugi saman þar og fluttust þau til Helsingör og áttu þar saman þrjú börn. Aggý átti þá fyrir ættingja í Helsingör sem var Sigtryggur Kaldan læknir og sagði hún mér fyrir tveim árum söguna af því hvernig það æxlaðist að hann Sigtryggur sem var bróðir Guðrúnar Eiríksdóttir ömmu Aggýar í föðurætt og er frá Melshúsum í Reykjavík kom til Helsingör og er að mörgu leiti upphaf  þessara miklu tengingu okkar fjölskyldu við Helsingör en móðir mín Lára Sveinsdóttir fylgdi ung í kjölfar Aggýar og fluttist einnig til Helsingör á sínum tíma og giftist þar dönskum manni og áttu þau saman tvö börn.
Aggý frænka var mikill listunandi enda lærður píanóleikari og starfaði hún sem píanókennari alla sína tíð og unni því starfi mjög vel. Hún giftist á miðjum aldri konsertmeistaranum og píanóleikaranum  Skjold Rasmussen og talaði hún mikið um hversu farsælt það hjónaband hafi verið þó það hafi staðið stutt, en hann dó fyrir aldur fram og varð það henni mikill harmur. Aggý var mikill Íslendingur í sér og minnist ég stundum þegar hún talaði um Ísland að sérstakur glampi var í augunum á henni og stundum mátti votta fyrir tár á hvarmi. Ég veit að það eru margir sem komu við hjá Aggý frænku af skyldmennum sem voru bæði í fríi og í námi í Danmörku og eiga góðar minningar af þessari gestrisnu lífsglöðu konu sem þrátt fyrir áföll í sínu lífi lét það ekki hafa áhrif á lífsgleði sína. Sjálfur á ég góðar minningar þegar hún  sat við píanóið heima í Dvergholti um jól og áramót og spilaði ættjarðar- og jólalög og við fjölskyldan sungum með, eða þegar við áttum notalegar samræður heima í hlýlegu stofunni hennar í Helsingör og hún sagði mér sögur af fólkinu okkar Reykjavíkurættinni Hólakoturum eins og hún vildi kalla okkur. En við erum afkomendur Guðmundar í Hólakoti sem var bær sem stóð norðan við Hólavallakirkjugarð í Reykjavík. Aggý bar alltaf hlýjan hug til þeirra stóru fjölskyldu af Hólakoturum sem voru tólf systkini ömmu minnar Kristínu Guðmundsdóttur móður Aggýar.
Hér á eftir fylgir ljóð sem amma mín Kristín Guðmundsdóttir samdi til Aggýar en hún saknaði alltaf dóttur sinnar sem bjó í Danmörku.
Kæra frænka, minning þín lifir og hvíl þú í friði.
Til dóttur minnar.
Geisli í sál mína skín
er opna ég bréfin þín
laug í hjartanu lifnar
tár í augum glitrar
/
Elskulega dóttir mín
ástarþakkir fyrir
bréfin þín
þau lesin eru æði oft
til að sálartetrið fái
næringarvott.
(Kristín Guðmundsdóttir)

Guðmundur Hreinsson, Hólakotari, Jóna María Kristjónsdóttir og börn.