Magnús Jónatansson fæddist á Akureyri 4. mars 1943. Hann lést l. janúar 2016.
Foreldrar hans voru Bergþóra Lárusdóttir frá Heiði á Langanesi og Jónatan Magnússon vélstjóri, f. á Ólafsfirði, búsett á Akureyri. Magnús var næstelstur fimm systkina, eftirlifandi eru Jóna Þrúður og Sævar, en látin eru Alda og Björgvin Smári.
Sambýliskona Magnúsar var Sigríður Jósteinsdóttir, en þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Alda Sif og Jónatan Þór. Fyrir átti Magnús börnin Jónínu Kristínu og Magnús Þór. Sambýlismaður Öldu er Vilhelm Adolfsson og eiga þau börnin Sunnevu Maríu og Axel Óla, en dóttir Vilhelms er Amelia Rún. Eiginkona Jónatans er Sigurborg Bjarnadóttir og eiga þau börnin Magnús Dag, Júlíu Karen og Rakel Söru. Eiginmaður Jónínu er Jóhann Hólm Ríkarðsson og eiga þau börnin Bergþóru, Sigurð Loft og Helgu Dóru. Magnús Þór er kvæntur Katrínu Snædal Húnsdóttur og eiga þau börnin Baldvin Þór og Heiðrúnu. Fyrir átti Sigríður börnin Hrönn, Hjört Þór og Arnar Unnarsbörn. Börn Hrannar eru Andri Már, Örvar, Viktor og Sara. Börn Hjartar eru Unnur Sif, Atli Hrafn og Vigdís Arna. Börn Arnars eru Daníel Örn, Sigríður Ása og Ísabella Lív.
Magnús lærði skipasmíðar hjá Skipasmíðastöð KEA. Lengi starfaði hann við smíðar en síðar sem húsvörður við Síðuskóla á Akureyri. Magnús var afreksmaður í íþróttum og var alla tíð félagi í Íþróttafélaginu Þór Akureyri. Hann lék knattspyrnu með Þór og ÍBA, körfubolta með Þór, auk þess spilaði hann sex A-landsliðsleiki í knattspyrnu. Eftir að íþróttaferlinum lauk starfaði Magnús sem knattspyrnudómari og -þjálfari til fjölda ára. Hann hlaut fjölmargar viðurkenningar, þar á meðal gull- og silfurmerki Þórs, heiðursviðurkenningu ÍBA og silfurmerki KSÍ.
Útför Magnúsar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 7. janúar 2016, kl. 13.30.

Elsku pabbi. Þrátt fyrir að ég hafi reynt að undirbúa mig fyrir það að sitja hér og skrifa um þig minningarorð, vitandi að á þínum veikindum væri bara einn endir, þá er það samt sem áður afar erfitt. Fyrir næstum því  sex árum fluttum við Bogga til Noregs. Ég vissi að þú varst ekkert hrifinn af þeirri ákvörðun okkar, vildir eflaust hafa okkur nær þér og sjá meira af okkur og börnunum okkar sem þú elskaðir takmarkalaust. En þú sagðir það þó ekki, vitandi að þetta var það sem við vildum. Það að búa erlendis hefur sína kosti og galla eins og allir þekkja sem það hafa prófað. En við Bogga ræddum það okkar á milli að vonandi héldu foreldrar okkar heilsu þessi ár, vitandi að það er meira en að segja það að flytja aftur heim. En svo skömmu eftir að við fluttum út greinist þú með þennan hræðilega sjúkdóm, alzheimer.

Það var hræðilega erfitt að horfa á hvernig sjúkdómurinn fór með þig, vitandi að ekkert væri hægt að gera annað en vera til staðar, knúsa þig og reyna að gera dagana bærilega. Það gátum við að vísu ekki, búsett erlendis. Ég er ótrúlega þakklátur öllum þeim sem komu að umönnun þinni, ekki síst starfsfólkinu á Hlíð og Lögmannshlíð. Alda systir, með Villa mág minn sér við hlið,  hefur verið kletturinn þinn, og orð fá ekki lýst hve vel þau hafa staðið sig í þessari vonlausu baráttu.

Íþróttir hafa átt hug minn allan frá því ég var smábarn, það hef ég að sjálfsögðu frá þér. Ég hef reglulega heyrt sögur um þig bæði frá vinum þínum, systkinum og jafnvel fólki sem ég þekki ekki neitt. Allir töluðu um hversu mikill og sterkur þú varst. Fyrirliði er orðið sem allir notuðu, sannur fyrirliði.

Eina góða sögu heyrði ég um pabba. Eitt sinn var breskur þjálfari að þjálfa liðið hans og pabbi sem fyrirliði þurfti að þýða ræður þjálfarans. Það var svo fyrir einn mikilvægan leik að þjálfarinn blaðraði þessi ósköp og snéri sér svo að pabba og gaf honum orðið. Pabbi varð smá hugsi og sagði svo: Strákar við verðum að berjast. Meira var ekki sagt og þetta lýsir pabba mjög vel. Hann var ekki maður orða heldur lét verkin tala. Hann var baráttuhundur, fór sínar eigin leiðir og kvartaði ekki. Aldrei hef ég heyrt pabba kvarta. Hann talaði aldrei mikið um eigin tilfinningar og lét ekki tilfinningar sínar mikið í ljós. En hann var ótrúlegur.

Ég hef æft íþróttir frá því að ég var fimm ára og það með miklum stuðningi frá honum. Ég byrjaði hjá Þór, enda ekki annað í myndinni hjá gamla sem var annálaður Þórsari. Ég man að það var erfitt fyrir mig sem sex ára fyrsta bekking að mæta í Þórsgalla á fyrsta skóladeginum í KA-hverfinu, en ég var mjög stoltur að vera Þórsari eins og pabbi. En seinna ákvað ég þó að skipta yfir í KA. Ég man ég að ég var með hnút í maganum að ræða þetta við pabba en ég hefði svo sem getað vitað það að hann tæki því vel. Pabbi studdi mig í einu og öllu, var stærsti stuðningsmaður minn allan minn íþróttaferil og missti líklega ekki af einum einasta leik sem ég spilaði sem barn. Ég man að margir foreldrar voru þá ansi líflegir á hliðarlínunni, hrópuðu og kölluðu. En ekki pabbi. Hann bara klappaði þegar mark var skorað og var hinn rólegasti. Ég man að ég sóttist mjög svo eftir því að heyra álit hans á frammistöðu minni, sérstaklega þegar vel gekk, líka eftir að ég varð eldri. En pabbi sagði aldrei mikið. Nefndi gjarnan nokkur atriði sem ég mætti laga en hann hrósaði aldrei mikið. Það fór stundum í taugarnar á mér að fá ekki mikið jákvætt frá honum en síðar varð mér ljóst að þó hann segði ekki mikið við mig þá átti hann það til að monta sig af mér við vinnufélaga og aðra þegar mér gekk vel og  ég veit að hann var bara nokkuð stoltur af stráknum sínum.

Og mikið var ég stoltur af honum. Ég minnist þess að þegar ég fékk að fara með pabba í skemmuna gömlu. Þá var pabbi að fara í fótbolta, löngu hættur að spila alvöru keppnisleiki en ég fylgdist með honum aðdáunaraugum. Ég taldi mörkin hans og gaf honum svo einkunn í bílnum eftir skemmutímann.  Hápunkturinn var svo þegar að við stoppuðum í sjoppu á eftir og fengum okkur Coke og Prins, já eða pylsu með öllu, en það gerðist ósjaldan, sérstaklega ef  mamma hafði eldað eitthvað sem við feðgar vorum ekki hrifnir af.

Pabbi var lengi húsvörður í Síðuskóla. Þar var hann mjög vinsæll, ekki síst hjá krökkunum sem þar voru. Ég hef hitt marga sem hafa sagt mér sögur frá því þegar þeir voru í skóla hjá pabba, hversu vel hann hafði reynst þeim og sérstaklega passaði hann upp á þá sem þurftu mest á því að halda en voru ekki endilega bestir á bókina.

Ég mun alla tíð minnast þín, pabbi, fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, þú varst minn klettur, sem nú er farinn, búinn að fá hvíldina þína langþráðu. Búinn að spila þinn síðasta leik og maður lifandi hvað þú barðist, elsku pabbi minn. Ég mun halda áfram að segja börnunum mínum sögur af þér, hetjusögur, þó allar sannar. Magnús Dagur, nafni þinn, biður mig stundum að segja sér sögur frá því þegar þú varst í landsliðinu. Hann segist ætla að verða eins og þú.

Elsku pabbi, hvíl í friði.

Þinn sonur,

Jónatan (Jonni).