Málmfríður fæddist á Arnarvatni í Mývatnssveit 30. mars 1927. Hún lést þann 28. desember 2015 á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.
Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson, f. 25. ágúst 1878, d. 24. febrúar 1949, kennari, skáld og bóndi Arnarvatni, og Sólveig Hólmfríður Pétursdóttir, f. 17. desember 1889, d. 1. febrúar 1974, húsfreyja og kvenréttindakona. Alsystkini: Þóra Sigurðardóttir, f. 1920, d. 2001, húsfreyja Arnarvatni. Arnheiður Sigurðardóttir, f. 1921, d. 2001, íslenskufræðingur í Reykjavík. Jón Sigurðsson, f. 1923, d. 2014, verkstjóri á Húsavík. Eysteinn Arnar Sigurðsson, f. 1931, d. 2004, bóndi Arnarvatni. Hálfsystkini samfeðra: Freydís Sigurðardóttir, f. 1903, d. 1990, húsfreyja Álftagerði í Mývatnssveit. Ragna Sigurðardóttir, f. 1906, d. 1999, húsfreyja Egilsstöðum í Flóa. Heiður Sigurðardóttir, f. 1909, d. 1987, húsfreyja Húsavík. Arnljótur Sigurðsson, f. 1912, d. 2001, bóndi Arnarvatni. Huld Sigurðardóttir, f. 1913, d. 2002, húsfreyja Húsavík. Sverrir Sigurðsson, f. 1916, d. 1996, húsasmíðameistari Akureyri.
Málmfríður giftist hinn 24. júlí 1948 Haraldi Jónssyni frá Einarsstöðum í Reykjadal, f. 5. janúar 1912, d. 11. apríl 1976, bónda á Jaðri í Reykjadal. Börn þeirra eru:
1) Þóra, f. 1948. 2) Sigurður Örn, f. 1951, kvæntur Guðrúnu Jónu Svavarsdóttur. Börn þeirra: a) Ása Birna, b) Svavar Hafþór, c) Jón Þór, d) Málmfríður. Barnabörnin eru níu og eitt barnabarnabarn. 3) Jón Einar, f. 1953, kvæntur Sigurveigu Björnsdóttur. Börn þeirra: a) Hrefna Salvör, f. 1988, d. 1989, b) Haraldur Ölvir, c) Birna Eyvör. 4) Helgi, f. 1956, kvæntur Kristínu Óladóttur. Börn þeirra: a) Anna Dóra, b) Jón Óli, c) Helgi Garðar. Barnabörnin eru fimm. 5) Margrét, f. 1958, gift Jósep Rúnari Sigtryggssyni. Þeirra dætur eru: a) Ásta Björg, b) Rakel Fríða. 6) Hólmfríður Sólveig, f. 1962, gift Hjörleifi Gíslasyni. Börn Hólmfríðar: a) Haraldur Helgi, b) Óli Hjálmar, c) Hinrik. Hjörleifur á sjö börn. Barnabörn og barnabarnabörn þeirra eru 26. 6) Sigríður, f. 1964, gift Gunnari Skúlasyni. Börn þeirra: a) Hróbjartur, b) Guðrún Eva, c) Helga María. Barnabörn þeirra eru sex og eitt barnabarnabarn.
Fyrir átti Haraldur soninn Jón, f. 1941, sem kvæntur er Guðrúnu Ólafsdóttur. Afkomendur þeirra eru 29 talsins.
Málmfríður lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1947. Hún var húsmóðir á Jaðri í Reykjadal 1948-1992, ráðskona á sumrum hjá Vegagerð ríkisins 1968-1985, aðstoðarráðskona við Kristnesspítala á vetrum 1981-1985, í heilsársstarfi frá 1985-1987. Hún starfaði um tíma sem kennari við Barnaskóla Reykdæla og Gagnfræðaskólann á Laugum. Hún var bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri frá 1992 og þar til hún lét af störfum vegna aldurs.
Málmfríður var kjörin á Alþingi fyrir Samtök um kvennalista 1987 og sat á þingi til 1991. Kjörtímabilið á undan hafði hún sest á þing sem varaþingmaður. Hún var formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1990-1991 og sat í Vestnorræna þingmannaráðinu 1989-1991.
Útför Málmfríðar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 7. janúar 2016, kl. 10.30. Jarðsett verður í Einarsstaðakirkjugarði í Reykjadal að athöfn lokinni.

Við mér blasa æsku minnar ævintýralönd,
óravíður fjallahringur rís við sjónarrönd.
Átthaganna von og trú í brjósti bærist heit
og björtust finnst mér sólin vera hér í Mývatnssveit.
(Hákon Aðalsteinsson)

Þegar ég fyrst heyrði þessar ljóðlínur varð mér hugsað til mömmu. Æsku hennar ævintýralönd voru í Mývatnssveit þar sem hún fæddist og ólst upp á menningarheimilinu Arnarvatni. Síðar vógu myndir af Bláfjalli uppáhaldsfjalli hennar á móti söknuðinum eftir óravíðum fjallahringnum. Taugin til átthaganna var sterk og heit til hinstu stundar. Í hennar huga var sólin ávallt björtust í Mývatnssveit og var hugurinn gjarnan umvafinn ljóma minninga alls þess besta sem íslensk sveitamenning bauð upp á.

Snemma varð hún læs og upp frá því bókelsk með afbrigðum, mundi allt sem hún las og gegnum tíðina las hún allt sem hún komst yfir, hún var víðlesin. Hún hafði einnig unun af og var vel fróð um nánast alla tónlist. Hún söng í kór og hlustaði á tónlist í útvarpi og oft talaði hún um hve tilkoma útvarpsins hefði haft mikil og góð áhrif. Taldi hún það hina mestu menntastofnun og henni stóð hreint ekki á sama um afstöðu stjórnvalda í seinni tíð til þeirrar stofnunar. Hún var alla tíð upptekin af því að almenningur hefði góðan aðgang að menntun og taldi að útvarpið hefði raunverulegu hlutverki að gegna í því tilliti lengi vel. Hún naut menntunar heima á Arnarvatni þar sem faðir hennar var, eins og hún sjálf lýsti honum, fræðari af Guðs náð. Hann hafði yndi af að uppfræða og áreiðanlega drakk hún í sig alla þá fræðslu sem bauðst, einnig frá eldri systkinum sínum. Oftlega minntist hún þess hve Páll mágur hennar, sem var kennari, hefði verið henni sérlega góður og alltaf tilbúinn að svara spurningum hennar, líklega vegna þess að hann fann hve ég sótti í fróðleik og það var einkenni hennar alla tíð. Þríbýlt var á Arnarvatni og til fullorðna fólksins á hinum búunum sótti hún því þau kenndu henni kvæði, þulur og þjóðsögur. Skólaganga hennar var ekki sérlega löng; farskóli í Mývatnssveit og fullnaðarpróf, svo og tveir vetur í Kvennaskólanum í Reykjavík hvar hún við útskrift var verðlaunuð fyrir góðan námsárangur. Seinna þegar mamma eignaðist sín börn naut hún þess að fræða okkur og öll nutum við aðstoðar hennar við heimalærdóminn. Hún kunni öll ljóð og sálma og þekkti höfundana, kunni skil á allri sögu; tök hennar á íslensku máli voru slík að við gengum að þeirri kunnáttu vísri alla tíð ef á þurfti að halda. Svo vel var hún að sér víða að nánast mátti fletta upp í henni um flest. Hún las norrænu tungumálin og bjargaði sér á þeim, auk ensku og þýsku. Það var ómetanlegt að hafa aðgang að slíkri aðstoð við lærdóminn. Hún var jafnvel að matbúa eða sauma á okkur um leið og við sinntum heimalærdómi. Framan af saumaði hún flest á okkur öll á fótstignu Singer-vélina og var listakona við saumaskap. Vélin var í eldhúsinu þar sem hún eldaði, bakaði og tók á móti gestum. Á Jaðri var stjórnlaus gestagangur í búskapartíð foreldra minna og vinnudagur mömmu langur og strangur því oft gekk hún í útiverk auk húsfreyjuhlutverksins. Næturgestir voru algengir og við vöknuðum ekki endilega að morgni þar sem við höfðum sofnað kvöldið áður, það þurfti að hagræða svo að allir kæmust fyrir. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á dönsku og norsku blöðin sem henni áskotnuðust gjarnan. Hún hafði yndi af að lesa þau, ná sér í mataruppskriftir og ýmsan fróðleik. Í seinni tíð naut hún þess einkum að lesa um kóngafólkið á Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu, en ættir þess rakti hún fumlaust alla tíð.

Mamma og foreldrar okkar báðir voru af þeirri kynslóð sem snemma lærði að taka til hendinni og þurfti að hafa fyrir hlutunum. Þeim var alveg ljóst hver sá auður er sem ekki verður fenginn fyrir peninga. Þau voru ekki sérlega auðug af veraldlegum gæðum en andleg auðæfi þeirra voru því ríkulegri. Sá stjórnlausi gestagangur sem þau bjuggu við sýndi glögglega hve greiðvikin og vinmörg þau voru. Báðum var þeim eðlislægt að greiða götu hvers manns ef þau áttu þess kost. Við eldhúsborðið fóru gjarnan fram umræður sem endurspegluðu hinn andlega auð um leið og hinn félagslega. Þar var ekki talað um annað fólk nema til að ættfæra það eða fregna af högum þess, menntun, atvinnu eða slíku. Þau voru samhent og sýndu hvort öðru þá virðingu að aldrei urðum við systkinin vör við að þeim yrði sundurorða. Samskipti við fólk voru þeim auðveld og þeim lynti við flest eða allt sitt samferðafólk. Sérstaklega naut mamma samskipta við sér yngra fólk, einkum eftir því sem árin færðust yfir. Hún bjó yfir aðdáunarverðri skapstillingu, gat verið hnyttin í tilsvörum og var ágætlega hagmælt eins og hún átti kyn til. Hún var einlægur friðarsinni og náttúruverndarsinni og gat ekki með nokkru móti skilið þá afstöðu að landið væri þjóðinni meira virði eftir að búið var að umturna því og níðast á því með virkjanaæði, heldur en ósnortin náttúran. Hún lagði aldrei trúnað á að sameiginlegir sjóðir fengju raunvirði fyrir þær fórnir sem voru færðar.

Áður en ég man eftir mér hafði pabbi misst heilsuna og úr varð að þau létu frá sér kýrnar vorið sem ég var sex ára. Þá hélt mamma út á vinnumarkaðinn og gerðist matráðskona hjá Vegagerð ríkisins. Tók hún okkur tvær yngstu systurnar með sér og vorum við með henni fyrstu árin. Hún entist í ráðskonustarfinu í 17 sumur við ótrúlegan og frumstæðan aðbúnað lengi vel. Síðustu æviár pabba var hann einnig hjá Vegagerðinni en hann féll frá vorið 1976. Á vetrum kenndi hún af og til við Barnaskólann og einnig við Laugaskóla, einkum íslensku. Hún greip í ýmsa aðra vinnu yfir veturinn en þar sem ekki var um trygga fasta vinnu að ræða í Reykjadal réði hún sig seinna sem aðstoðarráðskonu á Kristnesspítala, fyrst yfir veturinn en eftir að hún hætti alfarið hjá Vegagerðinni fastréð hún sig á Kristnesi, árið 1985.

Á þeim tíma sem hún var á Kristnesspítala var hún fengin til að taka þátt í spurningaþætti Útvarpsins Veistu svarið og vakti hún mikla athygli þar vegna yfirgripsmikillar þekkingar sinnar. Þar kom berlega í ljós hve gríðarlegt minni hún hafði. Í rauninni hafði hún ljósmyndaminni, því þegar hún las skannaði hún síðurnar og mundi þannig hvar á síðunni svarið var að finna. Auk þess hlustaði hún alla tíð á Rás 1 Ríkisútvarpsins og lærði þannig að þekkja alla þá tónlist sem þar var leikin, hafi hún ekki þekkt hana fyrir. Flest annað það sem heyrðist í útvarpi hlustaði hún á og festi sér í minni. Frammistaða hennar í spurningaþáttunum varð líklega til þess að konur á Akureyri leituðu til hennar þegar þær voru að setja saman framboðslista til alþingiskosninga. Svo fjarri mömmu var að trana sér fram á nokkurn hátt að hún átti ekki auðvelt með að svara þessari bón í fyrstu og leitaði m.a. ráða hjá bróður sínum. Hann hvorki hvatti mig né latti sagði hún en eftir nokkra umhugsun þótti henni algerlega ófært að hugsa til þess að ef hún ekki tæki á listanum fyrsta sætið yrði hugsanlega ekki af þessu framboði. Henni þótti sem hún yrði að fara fram, án þess að hafa kannski til að bera það sem til þyrfti. Hún náði ekki kjöri í fyrra skiptið en var varaþingkona eitt kjörtímabil; hins vegar náði hún kjöri árið 1987. Hún tileinkaði sér aldrei þá klækjapólitík sem tíðkast, nýtti sér ekki sambönd sjálfri sér til framdráttar og vann verk sín af samviskusemi. Oft hafði hún átt langan vinnudag heima á Jaðri og í vegavinnunni en þau ár sem hún sat á Alþingi kröfðust ekki síður langs vinnudags. Líklega þótti henni erfiðast að taka því að hafa fallið út af þingi vegna þeirrar gífurlegu vinnu sem hún hafði lagt á sig. Henni fannst eftir árin fjögur hún loks búin að ná tökum og hafa lært til verka. Hún kaus að sitja í Fjárlaganefnd vegna þess að með því taldi hún sig best geta sett sig inn í stöðu mála víðs vegar um landið og þannig gæti hún lært mest. Ég veit að eitt hjartfólgnasta verkefnið sem hún fékkst við árin sem hún sat á Alþingi var tilurð og uppbygging Háskólans á Akureyri og þar lagði hún allt það lið sem henni var mögulegt.

Eftir að þingmennsku lauk var hún um tíma án atvinnu en árið 1992 gerðist hún bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri. Þar var hún á heimavelli, innan um bækur, og margir minnast samskipta við hana frá þeim árum. Af og til hin síðari ár sá hún um þætti í útvarpi og gerði þar m.a. góð skil hinni frægu Von Trapp-fjölskyldu sem Söngvaseiður byggist á. Eftir að tók að halla undan fæti fór heyrnin að daprast og það háði henni í fjölmenni. En þrátt fyrir hrörnun þess sem nær háum aldri hvarf henni aldrei mikilvægi þess að tala rétt og fagurt íslenskt mál. Sem dæmi um það vandaði hún um við starfsfólkið á Hlíð allt til hinstu stundar. Við hjúkrunarkonu þar sagði hún meðal annars á jóladag: Æ, gerðu það nú fyrir mig svona rétt fyrir andlátið að tala ekki um putta, því ég hef fingur!

Hún hefði áreiðanlega ekki viljað að ég skrifaði um sig kveðjuorð, því að henni þótti ekki ástæða til að miklast yfir verkum sínum og vildi ekki vera hampað á nokkurn hátt. Hins vegar tel ég ástæðu til að heiðra minningu hennar með því að segja frá þeirri konu sem móðir mín var. Konu sem tilheyrir þeirri kynslóð sem man kreppuárin, sem man stofnun lýðveldis á Íslandi, sem man eftir sjúkdómum sem leiddu til dauða því engin lyf voru þá komin fram, man skort, lærði að bíða eftir því sem hugurinn þráði, lærði að sætta sig við að sumt og já, líklega margt var einfaldlega ekki hægt ekki framkvæmanlegt og aðallega vegna fjárskorts. Móðir mín tilheyrir þeirri kynslóð sem barðist fyrir betra samfélagi, réttlátari kjörum og skiptingu almannaauðs. Og sú kynslóð gafst ekki upp fyrr en því kerfi var komið á sem flokka má til velferðarsamfélags þess nútíma sem við þekkjum og viljum hafa og búa við. Þessari kynslóð sem færði okkur hinum yngri á silfurfati þau gæði sem við búum við en kunnum ekki betur að meta en svo að við lítillækkum hana með því að skammta henni úr hnefa það sem okkur þykir hæfilegt til framfærslu og að búa við. Vitandi að ekki er mögulegt að lifa af því.

Síðustu árin hefur mamma mín smám saman verið að hverfa mér. Ég kynntist nýjum og áður óþekktum hliðum á henni. Í raun og veru kvaddi ég fyrir allnokkru þá mömmu sem ól mig upp og það var líklega sárara en kveðjustundin nú. Ég er þess fullviss að ferð hennar yfir á eilífðarengið er lausn fyrir hana, þar sem ég veit að tekið var á móti henni af þeim sem hún hafði svo lengi saknað; honum pabba sem fór frá okkur mjög skyndilega fyrir tæpum fjörutíu árum. Hún saknaði hans og eftir því sem árin liðu var söknuðurinn meiri. Hún hafði hins vegar ekki orð á því; hún var ekki margmál um eigin hagi og kvartaði sjaldan eða aldrei. Lífið var henni gott og gæfuríkt á ýmsan máta en einnig fékk hún flóknari verkefni í fangið eins og gengur. Hún mætti þeim af hinu mesta æðruleysi, vann sín verk af samviskusemi og gerði það besta sem hún gat úr hverri stöðu sem upp kom. Ég er stolt af því að hafa átt þessa atorkusömu, hæfileikaríku, fluggreindu og góðviljuðu konu að móður.

Hólmfríður S. Haraldsdóttir