Karólína Benný Þórðardóttir fæddist 21. nóvember 1946 á Hvammstanga. Hún lést 6. janúar 2016 í Las Palmas á Kanaríeyjum.
Foreldrar Bennýjar voru Birna Benediktsdóttir húsmóðir, f. 3.1. 1922, d. 20.6. 2015, og Þórður Leví Björnsson leigubifreiðarstjóri, f. 28.11. 1922, d. 15.3. 2003. Fósturfaðir Bennýjar var Kristinn Jónsson, eftirlitsmaður hjá Landleiðum, f. 12.10. 1925, d. 20.9. 2006. Systir Bennýjar sammæðra er Hjördís Kristinsdóttir, f. 21.8. 1960.
Benný giftist 30.12.1966 Páli Sigurðssyni, f. 9.11. 1946. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Grétar Pálsson, f. 2.6. 1965. Börn hans og fyrrverandi maka, Unnar Sigurjónsdóttur, f. 12.5. 1965, eru Þórir, f. 28.2. 1982, Páll, f. 16.3. 1987, og Arnar, f. 15.11. 1991.
2) Björn Ingi, f. 15.1. 1968. 3)Kristinn Páll, f. 1.6. 1969, maki Halla Grétarsdóttir, f. 22.3. 1969. Börn þeirra eru Gissur, f. 15.7. 1986, Halla Kristín, f. 22.11. 1992, og Hjördís Gréta, f. 19.6. 1994.
Benný ólst upp á Barkarstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu hjá móðurforeldrum sínum, þeim Benedikt Björnssyni og Jennýju Sigfúsdóttur, til 10 ára aldurs. Fluttist hún þá til Hafnarfjarðar og lauk þar námi við Flensborg 1961 og Húsmæðraskóla á Löngumýri Skagafirði 1961-62. Bjó hún í Hafnarfirði til 1979, í Garði Gerðahreppi og í Reykjanesbæ til ársins 2000. Benný og Páll fluttu síðan austur fyrir fjall og bjuggu lengst af á Bjargi í Rangárþingi ytra.
Fyrir utan húsmóðurstörf stundaði Benný sveitastörf, fiskvinnslustörf og aðhlynningu við aldraða og fatlaða. Þá stundaði hún sjómennsku með Páli á tímabili en einnig verslunarstörf, hannyrðir og hundaræktun.
Bálför Bennýjar var gerð frá Las Palmas 11. janúar 2016.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag,

við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

(Tómas Guðmundsson)

Elsku systir, þú varst á  ferðalagi og gistir á hóteli á yndislegu eyjunni þinni, þar sem  hlýjan frá sólinni átti svo vel við þig og þér leið svo vel með elsku Palla þínum.

Það hvarflaði ekki að mér  þegar við töluðum saman 20 desember síðastliðinn að það yrði okkar síðasta samtal. Þú varst svo glöð og ánægð að segja mér að þið ætluðu að eyða jólum og áramótum á Kanaríeyjum. Ég samgladdist þér innilega og þú kvaddir mig með þínum yndislegu orðum gleðileg jó,l elskan mín, og Guð geymi þig.
Elsku Lalla, eins og ég kallaði þig alltaf, nú ertu komin í Draumalandið til elsku mömmu sem kvaddi okkur síðastliðið sumar. Ég heyri alveg hlátrarsköllin í ykkur mæðgum og spjallið, þið áttuð svo vel saman og þú reyndist elsku mömmu okkar svo vel.
Það eru forréttindi að eiga umhyggjusama systur, sem var alltaf til staðar og ákaflega hjálpleg í alla staði. Minningar hrannast upp á svona stundum og man ég alltaf svo vel þegar þið Palli giftuð ykkur. Ég sat á eldhúsgólfinu í gammósíum og hvítri gollu með úfið hár og rauðar bollukinnar. Þú varst að máta brúðarkjólinn þinn, sem var ljósblár pallíettukjóll, með kórónu og brúðarslöri. Ég hafði aldrei á ævi minni séð svona fallega konu og fallegan kjól. Þetta var systir mín sem skartaði sínu fegursta. Þessi sýn er greypt í huga mér og fylgir henni hlýja, stolt og kærleikur.
Tíminn leið, gammósíurnar og gollan voru orðin of lítil. Ég var orðin unglingur og þú varst orðin þriggja barna móðir. Þessir tímar eru kærir í minningunni þar sem  þið Palli bjugguð á Sléttahrauninu í Hafnarfirði,  hann á sjó og þú reyndir eftir bestu getu að vinna úti ásamt því að ala upp drengina og hugsa um heimilið. Ég elskaði að koma til ykkar í nýju íbúðina, hún var svo falleg og smekkleg enda varstu mikill fagurkeri og handavinnukona. Ég passaði oft strákana á þessum tímum, Grétar var elstur, síðan kom Bjössi  og yngstur var Palli sem alltaf var með bómull í eyrunum í minningunni, eflaust verið með eyrnabólgu eða vökva í eyrum.
Á þessum tímum áttu Palli og Lalla gulan Mustang sem var með svörtum sportröndum á hliðunum. Ákaflega fallegur bíll sem tekið var eftir á götum borgarinnar. Ég fékk það oft í verðlaun frá henni eftir að hafa passað strákana að fara á rúntinn, kaupa ís og setja spóluna í tækið með Neil Sedaka, síðan var hækkað og sungið Oh! Carol I am but a fool. Þessi spóla var eingöngu spiluð í bílnum og svo oft að ég kunni alla texta með Sedaka sem unglingur.
Kærleiksrík tengsl okkar systra eru verðmæt fyrir mig og afar dýrmætt að eiga góðar minningar. Öll ferðalögin sem við fórum saman, einkenndust af skemmtilegum uppákomum og hlátri. Eftir að ég giftist og eignaðist börn þróuðust samskipti okkar í mikla vináttu. Þú varst ekki bara stóra systir mín, þú varst besta vinkona mín og sálufélagi. Ég er þér endalaust þakklát fyrir hvað þú varst góð við okkur öll, bæði dýr og menn.
Síðasta sumar áttum við margar góðar samverustundir á Bjargi, þar sem þið Palli voruð búin að koma ykkur fyrir í faðmi fjalla. Þar spurðum við okkur: Hvað er það sem skiptir okkur máli? Erum við að eyða of miklum tíma í eitthvað sem skiptir okkur ekki máli? Við vorum sammála um að leggja rækt við fjölskylduna og sameinast á hverju ári eins og við gerðum þetta sumar. Þetta var dýrmætur tími að fá að hittast og gleðjast saman eina helgi. Ég lofa þér, elsku Lalla, að þetta verður endurtekið.
Það er komið  að kveðjustund og tárin mín streyma niður á tölvuborðið. Það verður skrýtið að hafa þig ekki lengur hjá okkur.
Ég  sakna þess að geta ekki hringt í þig og heyrt rödd þína lengur. Ég var heppin að eiga þig fyrir systur og er þakklát fyrir allar samverustundirnar með þér, nærveru þína  og hlýju.

Elsku Palli mágur og þið öll, megi minning elsku Löllu systur verða okkur öllum að leiðarljósi.

Djúp og varanleg vinátta
er dýrmætari
en veraldlegar viðurkenningar,
og allt heimsins gull og silfur.

Henni þarf ekki endilega alltaf
að fylgja svo mörg orð
heldur gagnkvæmt traust
og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,
sem ekki yfirgefur.
(Sigurbjörn Þorkelsson)

Guð geymi þig, elsku Lalla.


Hjördís Kristinsdóttir.